Hvernig tókst frekar blönkum útlendingi að verða ríkasti maður Frakklands á aðeins fjórum árum, áður en auðævin gufuðu upp og hann lauk jarðvist sinni í sárustu fátækt?
Skotinn John Law var eftirlýstur morðingi í Englandi og strokufangi þegar hann komst inn á gafl hjá frönsku yfirstéttinni, sem eins og hann sjálfur hafði mikla unun af fjárhættuspili. Loðvík fjórtándi var í andaslitrunum og Frakkland gjaldþrota. John Law tókst að fullvissa yfirvöld um að efnahagsvandi landsins væri auðleysanlegur. Það eina sem þyrfti að gera væri að prenta nógu mikið af peningum og samhliða beita réttum hliðarráðstöfunum. Boðskapurinn var sem ljúft lag í eyrum aðalsins — hvað gat verið betra en að auðgast á því einu að láta einhverja prentvél ganga dag og nótt — og í maí 1716 fékk Skotinn leyfi til þess að opna banka, Banque Générale Privée.
Þessi nýi banki var nokkurs konar seðlabanki og 75% stofnfjármagnsins kom í formi gjaldfallinna ríkisskuldabréfa! John Law notfærði sér síðan þessa nýju lykilstöðu sína til þess að sameina allan fyrirtækjarekstur sem tengdist yfirráðasvæði Frakka í Mississippi. Þetta var framkvæmt undir væng Banque Générale Privée og nýja fyrirtækið fékk einkarétt á öllum viðskiptum við svæðið. Þegar Mississippi kompaníið var stofnað kostaði hvert hlutabréf 50 livre (frönsk silfurmynt þess tíma) en verðið æddi upp í 15.000 livre áður en bólan sprakk 1721. Markaðurinn í heild æddi upp sextíufalt á tveimur árum og John Law prentaði seðla allan þann tíma til að mæta þörfum bólunnar.
Frakkland hafði í raun tekið upp nútíma brotasjóðakerfi — fyrirkomulag þar sem bankar búa til peninga úr engu með bókhaldsaðferðum — en Banque Générale Privée, þungamiðja franska kerfisins, braut eina meginreglu á sama hátt og bankakerfi heimsins gerir sig sekt um í dag. Brotasjóðakerfið getur, þrátt fyrir marga galla, skrölt áfram ef það lánar gagngert til þess að mæta þörfum vaxandi hagkerfis og peningar (vextir) eru verðlagðir nokkuð rétt. En það er ALDREI hægt að stórauka peningamagn í umferð með lánum til einstaklinga, fyrirtækja og ríkisstjórna í þeirri von að það skili sér síðar í RAUNVERULEGUM hagvexti (ekki bólu). Of ódýrir peningar (gjafavextir) skila sér heldur ekki í raunverulegum hagvexti því þeir renna til spekúlanta sem sitja næst prentvélunum (til banka og brasksjóða) á meðan sparifjáreigendum er refsað.
Bóluhagkerfi Frakklands fékk fullan byr í seglin 1720 eða sama ár og útlendingurinn John Law var gerður að fjármálaráðherra Frakklands. Ný kauphöll hafði opnað í einum glæsilegustu húsakynnum Evrópu, Hotel de Soissons, og hún var troðfull af fólki í leit að skyndigróða. Íburðarmikil hús spruttu upp eins og gorkúlur og nýríkt fólk lét mála af sér myndir eða reisa af sér styttur.
Nokkrir einstaklingar gerðu sér grein fyrir stóru myndinni og skildu að það var ekki eðlileg framleiðni heldur hreinræktuð seðlaprentun sem þandi út hagkerfið. Þetta framsýna fólk byrjaði að selja hlutabréf og skipta seðlum í gull og silfur. Dýr listaverk og skartgripir voru líka flutt úr landi. Fyrstu sýnilegu merkin um að bólan væri að springa sáust þegar matarverð byrjaði að hækka, en fljótlega eftir það tók við algjör skálmöld. Verð á öllu sem hönd á festi tók að hækka á meðan fjöldinn reyndi að losa sig sem fyrst við pappíra sem hríðlækkuðu í verði. Verðstöðvunarlög voru sett, góðmálmar bannaðir í viðskiptum og kaupmenn ofsóttir. Það eina sem gerðist var að verðbólgan stigmagnaðist og loks ríkti nær algjör vöruskortur.
Hlutabréfamarkaðurinn hrundi til grunna og John Law sjálfur varð gjaldþrota. Hann forðaði sér fljótlega úr landi og lést loks öreigi í Feneyjum árið 1729.
„Gífurlegar afskriftir liggja í loftinu eða við eigum eftir að sjá óðaverðbólgu sem lækkar skuldabaggann á sinn hátt.“
Stóra myndin sem örfáir heppnir Frakkar skildu í kringum 1720 blasir víða við okkur í dag. Skuldir stærstu hagkerfa heimsins, sem komu til vegna taumlausrar seðlaprentunar, verða aldrei endurgreiddar nema að litlum hluta. Það er orðið of seint, bæði hagfræðilega og pólitískt séð, að bjarga kerfinu. Gífurlegar afskriftir liggja í loftinu eða við eigum eftir að sjá óðaverðbólgu sem lækkar skuldabaggann á sinn hátt … eða upplifa þriðju heimsstyrjöldina.
Heildarskuldir hagkerfis heimsins (útistandandi lán) voru $40 trilljónir (evrópskar billjónir) árið 1994 en voru komnar í $225 trilljónir 2014. Það er 563% hækkun. Á sama tímabili hafði árleg heimsframleiðsla farið úr $28 trilljónum í $78 trilljónir eða upp um 279%. Skuldirnar í kerfinu hafa því hækkað helmingi hraðar en framleiðslan.
Ríkisskuldir hafa hækkað mikið eins og bókhald seðlabanka heimsins endurspeglar. Árið 1995 hljóðaði efnahagsreikningur allra seðlabanka (grunnfjármagn kerfisins) upp á $2,1 trilljónir en 2015 hafði þessi tala tífaldast (!) og farið í $21 trilljón. Lítum á hvernig skuldasúpan er að drekkja einstökum ríkjum.
Bandaríkin
Síðan Nixon ákvað 1971 að afnema tengingu dollarans við gull, eins og Bretton Woods samkomulagið frá 1944 kvað á um, hafa skuldirnar stöðugt hækkað umfram hagvöxt og almennar tekjur — og aldrei eins og á seinni árum. Tölurnar í dag eru frekar skelfilegar. Auk skulda ríkisins upp á $18,2 trilljónir og 50 fylkja upp á $1,15 trilljónir þá standa aðrar skuldir svona:
• Allar fasteignaskuldir — $13,6 trilljónir.
• Námsskuldir — $1,3 trilljónir.
• Bílalán — $1,03 trilljónir ($3.219 á hvert mannsbarn).
• Greiðslukortaskuldir — $890 milljarðar ($2.781 á hvert mannsbarn).
• Aðrar neysluskuldir — $300 milljarðar.
Ofangreind bílalán verða bráðum fréttaefni vegna vanskila því 40% þeirra falla undir áhættulán (subprime) og ný lán veitt á öðrum og þriðja ársfjórðungi 2015 eru 64% í þessum ruslaflokki.
Árið 1971 voru Bandaríkjamenn 208 milljónir og skulduðu $8,5 milljarða í greiðslukortaskuldir eða $41 á hvert mannsbarn ($242 eftir að verðbólgan er tekin inn í dæmið). Samanlögð bílalán voru $40,5 milljarðar eða $195 á hvert mannsbarn ($1.150 e.v.). Raunhækkun greiðslukortaskulda (reiknað í 2015 dollurum) er því 1.149% og bílalána 280%.
Heildarskuldir Bandaríkjamanna — heimila, fyrirtækja og ríkiskassa — voru 218% miðað við þjóðarframleiðslu árið 2007, en eru í dag komnar í 239%. Seðlabanki landsins hefur rutt veginn. Hann hóf starfsemi sína 1914 og það tók 80 ár að mjaka efnahagsreikningi bankans upp í $300 milljarða, en síðan 1994 hefur þetta grunnfjármagn stokkið í $4,5 trilljónir eða ætt upp fimmtánfalt!
Japan
Hvert 12 ára barn getur reiknað út að Japan er gjaldþrota ríki. Heildarskuldir landsins eru um 450% miðað við ársframleiðslu — af því eru skuldir ríkisins um 250% — en rauðu ljósin eiga að fara að blikka þegar skuldir ríkiskassans fara yfir 100%. Japanska hagkerfið er í lægð þessa stundina, sem þýðir að hagvöxtur hefur verið neikvæður í samfellt hálft ár eða lengur, en þetta er fimmta efnahagslægðin sem landið hefur gengið í gegnum á sjö árum.
Seðlabanki Japans gæti alls eins staðsett sig í Undralandi. Bankinn er svo til eini aðilinn sem enn kaupir skuldabréf ríkisins og bókhaldið er stútfullt af furðulegustu „eignum“, til dæmis bíla- og fasteignalánum (skuldabréfum sem eru tryggð með þessum lánum) auk hlutabréfa og margs konar skuldaviðurkenninga. Seðlabankinn hefur lýst því yfir opinberlega að hann vilji koma verðbólgunni upp í 2% þótt ríkið ráði ekki við neinar vaxtahækkanir. Ef vextir á ríkisskuldabréfum fara í 2% renna allar skattatekjur ríkisins beint í vaxtakostnað.
Við allt þetta bætist að meðalaldur landsmanna hækkar ört á meðan þjóðinni fækkar, sem ekki er beint ávísun á mikinn hagvöxt. Skuldir ríkisins voru lengi fjármagnaðar að mestu með innlendu kapítali, en því tímabili er lokið. Risastórir eftirlaunasjóðir eru t.d. byrjaðir að borga miklu stærri hóp gamalmenna og þeir leita líka í vaxandi mæli út fyrir landsteinana til þess að fjárfesta.
Kína
Skuldaframleiðslan í Kína á sér ekki margar hliðstæður í sögunni og enga hliðstæðu í ríki þar sem hagkerfið hefur ekki hrunið. Árið 1994 voru heildarskuldirnar í hagkerfinu (fólk, fyrirtæki og ríki) $500 milljarðar, en þær eru $30 trilljónir í dag! Vænn hluti skuldanna situr í draugaborgum, ónotuðu atvinnuhúsnæði og samgöngum út í buskann. Til að standa straum af vaxtagreiðslum árið 2015 þurfa Kínverjar að taka lán upp á $1,15 trilljónir. Stór hluti vaxtaskulda ríkisrekinna fyrirtækja er afskrifaður.
Kínverska hagkerfið er greinilega í kröggum eins og sjá má af tölum um miklu minni innflutning á hrávöru og lækkandi heimsmarkaðsverð. Járngrýti hefur til dæmis lækkað um 80% frá 2011-2012 toppinum. Dæmigerðar lækkanir á annarri hrávöru eru á bilinu 30 - 60%. Olía hefur verið í frjálsu falli og kolaframleiðsla í Kína er í djúpri kreppu. Verð á vöruflutningum (Baltic dry) er mjög lágt.
Þrátt fyrir allt þetta er mjög varhugarvert að spá kínversku hruni því hagkerfið er tvíklofið. Kínverjar eru nefnilega að leggja í einhverjar mestu framkvæmdir allra tíma við að byggja upp vesturhluta landsins. Á næstu tíu árum á að vippa um 600 milljónum fátæklinga inn í tuttugustu og fyrstu öldina. Allt í vesturhluta landsins verður splunkunýtt — húsnæði, vegir, brýr, hafnir, flugvellir, rafkerfi, vatnsveita og ótal aðrir hlutir. Hagvöxturinn á svæðinu verður svipaður og þegar þjóðríki endurbyggja eftir stórstyrjöld.
Evruland
Upptök næsta hruns verða sennilega í Evrulandi. Ponzi-aðferðin sem hefur verið notuð til þess að halda myntsambandinu gangandi er svo hrikaleg að það er engin leið að spá fyrir um í hvaða forarpytti hrunið byrjar. Ástandið í Grikklandi er til dæmis þannig að ungar stúlkur selja sig fyrir hamborgaraverð. Landið væri ekki ónýtt í dag ef það hefði yfirgefið evruna strax 2010 og gjaldfellt eða samið um skuldasúpuna.
Öll lönd S-Evrópu verða á einhverjum punkti að taka upp sína gömlu mynt. Helst strax. Hagkerfi þeirra geta ekki keppt á jafnréttisgrundvelli við ríkin í norðri nema skilvirkt jöfnunarkerfi komi til skjalanna, en það er pólitískt séð nær útilokaður möguleiki. Mörgum hagkerfum álfunnar er haldið á floti með lánum á óraunverulega lágum vöxtum og svokallaðri „magnaukningu“ (hrárri peningaprentun) Evrópubankans.
Það er aðeins tímaspursmál hvenær kerfið sekkur. Tæknilega gjaldþrota bankar, sem haldið er gangandi með hrárri peningaframleiðslu seðlabanka, geta ekki endalaust keypt skuldabréf á niðurgreiddum vöxtum af tæknilega gjaldþrota ríkisstjórnum. Því lengur sem þessi skollaleikur fær að halda áfram, þeim mun stærra verður fallið þegar að skuldadögum kemur.
Í öllum hagkerfum ræður ákveðin hringrás og viss lögmál gilda sem ekki verða hunsuð án afleitra afleiðinga. Þegar náttúruorsökum er sleppt (til dæmis eldgosum eða aflabresti), þá byrja flestar efnahagslægðir vegna einhvers konar ofþenslu. Vandinn er venjulega leystur með því að draga úr þenslu þess sem skaðanum veldur.
Hagkerfi heimsins hrundi haustið 2008 vegna ofurskulda — kerfið gat ekki lengur dælt út nýju fjármagni til þess að hægt væri að borga vexti og afborganir af útistandandi skuldum — og eina rétta lausnin var að afskrifa gífurlega. En það hefði þýtt lokun margra banka og minni gróða í lánakerfinu, nokkuð sem elítan gat ekki sætt sig við. Þess vegna var gripið til áður óþekktra aðferða, t.d. „magnaukningar“ peninga, sem bætti við óviðráðanlegar skuldir og færði baggann yfir á herðar skattgreiðenda. Bönkum sem voru komnir á hausinn var bjargað á meðan skuldir fólksins blésu út.
Það eru vissulega sigurvegarar í þessum kapítula fjármálasögunnar: Ríkasta 0,1% heimsins. Þessi hópur hefur grætt gífurlegar upphæðir síðan 2007 á meðan meðalrauntekjur í til dæmis Bandaríkjunum hafa lækkað um 4,46% (meðalrauntekjur 90% þjóðarinnar hafa lækkað um nær 10% frá aldamótum).
• Nýleg rannsókn á vegum Institute for Policy Studies leiddi í ljós að 20 ríkustu einstaklingar Bandaríkjanna eiga jafn miklar eignir og helmingur þjóðarinnar, sem eru 152 milljónir einstaklinga.
• Sex meðlimir Walton fjölskyldunnar sem á WalMart eru metnir á $148,8 milljarða eða svipað og 40% þjóðarinnar.
• Sameiginlegur auður 400 nafna á nýjasta lista Forbes er $2,34 trilljónir, sem er meira en þjóðarframleiðsla þúsund milljóna Indverja.
Þessar tölur segja þó ekki nærri því alla söguna því ríkt fólk sérhæfir sig í að fela peninga á aflandseyjum og í sjálfseignarfélögum. Skattaparadís geymir hátt í sem svarar til 10 ára framleiðslu Þýskalands. Misskipting auðsins í mikilvægustu hagkerfum heimsins er orðin meiri en hún var fyrir hrunið 1929 — og allir bændur vita að beljurnar hætta að mjólka ef þær fá ekki gras — og skuldirnar sem ríkisstjórnir hafa meðal annars látið banka og auðmenn rétta sér eru of háar til þess að þær verði nokkurn tíma endurgreiddar.
Spurningin er ekki hvort kerfið hrynur eins og 1929 og 2008 heldur hvenær.
Athugasemdir