Á fimmtudaginn tilkynnir Sænska akademían hver það verður sem fær Nóbelsverðlaunin í bókmenntum í ár. Í Svíþjóð fer nú fram hin árlega umræða um hver það verður sem fær verðlaunin, líkt og alltaf er áður en þau eru veitt.
Eitt nafn sem nefnt er til sögunnar nú er úkraínsk-hvítrússneska blaðakonan Svetlana Alexievich sem skrifar texta sem kalla mætti „bókmenntalega blaðamennsku“. Hún skrifar non-fiction, fjallar um „sanna atburði“, atburði sem byggja á staðreyndum, en gerir það þannig að lestrarreynslan verður eins og lestur á bókmenntum. Alexievich hefur skrifað bækur um til dæmis upplifanir barna í stríði, kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl og sjálfsmorð fólks í fyrrum lýðveldum Sóvetríkjanna eftir að þau liðuðust í sundur.
Þetta er bókmenntaform sem kannski er ekki mjög þekkt á Íslandi þar sem frekar lítið er gefið út af non-fiction bókum sem skrifaðar eru með slíkum hætti: Skilin á milli bókmennta og frásagna úr raunveruleikanum eru yfirleitt skýrari. Frekar sjaldgæft er að á Íslandi séu gefnar út bækur um staðreyndir (non-fiction) sem eru skrifaðar eins og bókmenntaverk. Stundum, þegar menn leika sér með skilin á milli þessara forma, þá fellur það ekki endilega í góðan jarðveg. Eins og til dæmis þegar Guðjón Friðriksson sagnfræðingur bjó til ímyndaðar, stílfærðar senur í ævisögum sínum um þá Jón Sigurðsson og Jónas Jónsson frá Hriflu, jafnvel þó alveg ljóst væri að hann væri að setja á svið til að lífga upp á frásögnina.
„Ég velti því fyrir mér hvað myndi gerast ef það kæmi í ljós að „Gamli maðurinn og hafið“ er ekki skáldsaga.“
Fjallað var um blaðakonuna og möguleika hennar á því að fá Nóbelsverðlaunin í sænska blaðinu Dagens Nyheter á laugardaginn. Inntakið í þeirri grein er að ólíklegt verði að teljast að blaðakonan fái verðlaunin. Frá því verðlaunin voru fyrst veitt árið 1901 hafa skáldsagnahöfundar fengið þau langoftast auk einhverra leikritaskálda og ljóðskálda. Eitt af því sem bent er á í greininni í Dagens Nyheter er að Alfred Nobel hefði snúið sér við í gröfinni ef hann hefði vitað að blaðamaður kynni að fá verðlaunin. „Hann kallaði blaðamenn verstu plágu samfélagsins,“ er haft eftir Ingrid Carlberg sem vinnur nú að bók um ævi Alfred Nobel og þau verðlaun sem við hann eru kennd. Carlberg bendir hins vegar á að ef Nobel hefði sjálfsagt róað sig niður þegar hann hefði kynnt sér ævistarf Alexievich: „Þetta er auðvitað ekki blaðamennska heldur miklar bókmenntir,“ segir Carlberg.
Í greininni í sænska blaðinu er svo meðal annars bent á það pólski blaðamaðurinn Ryszard Kapuchinski hafi verið líklegur til að hreppa Nóbelsverðlaunin árið 2007 ef hann hefði ekki fallið frá. Þar af leiðandi sé ekki ómögulegt fyrir sænsku verðlaunanefndina að verðlauna blaðamenn að því er virðist. Haft er eftir álitsgjafanum Maciej Zaremba að það væri sannarlega til vansa ef Nóbelsnefndin myndi ákveða að horfa framhjá Alexievic og hann spyr: „Ég velti því fyrir mér hvað myndi gerast ef það kæmi í ljós að „Gamli maðurinn og hafið“ er ekki skáldsaga. Að Ernest Hemingway hafi ekki uppdiktað heldur aðeins endursagt það sem ákveðinn sjómaður sagði honum. Að sagan hafi bara verið fullmótuð; að engu hafi þurft að bæta við.“
„Stundum er sagt að Íslendingar séu bókaþjóð en ég held að það sé nærtækara að segja að Íslendingar séu skáldsagnaþjóð.“
Ég held að þessi umræða gæti allt eins átt sér stað á Íslandi eins og Svíþjóð. Maður getur varla ímyndað sér að bók með staðreyndum, skrifuð af listfengi, gæti fengið Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki bókmennta. Hún gæti hins vegar kannski fengið verðlaun í flokki fræðirita og rita almenns eðlis en þá kannski þætti hún ekki nægilega fræðileg. Af hverju geta vel skrifaðar bækur um staðreyndir ekki líka verið bókmenntir?
Stundum er sagt að Íslendingar séu bókaþjóð en ég held að það sé nærtækara að segja að Íslendingar séu skáldsagnaþjóð. Á Íslandi er skáldsagan - Njálssaga, Sjálfstætt fólk, og Englar alheimsins - æðst bókmenntaverka og er hún höfð í mestum hávegum. Jafnvel þó að non-fiction bók geti verið skrifuð af meira listfengi en skáldsaga og sagt áhrifaríkari sögu sem snertir lesandann meira þá er slík bók ekki skáldsaga og því ekki í æðsta flokknum yfir listaverk. Að skrifa og gefa út skáldsögu á Íslandi er eitthvað sem margir sjá í rómantískum hillingum á meðan skrifin á heimildabókinni, staðreyndabókinni eru ekki nándar nærri eins mystísk.
Haustið 2013 gerði breska ríkisútvarpið BBC frétt um að einn af hverjum tíu Íslendingum gæfi út bók á lífsleiðinni og að hvergi í heiminum væru gefnar út fleiri bækur per capita. BBC lék sér svo með orðalagið „að ganga með bók í maganum“. Þetta orðalag vísar ekki, samkvæmt mínum skilningi á því, til þess að ganga með heimildabók í maganum heldur skáldsögu. Non-fiction bók er bara non-fiction bók og skáldsagan er talin vera henni æðri - að minnsta kosti á Íslandi samkvæmt minni tilfinningu.
Hver er afleiðingin af þessari stöðu á Íslandi? Jú, hún er auðvitað sú að á Íslandi er á hverju ári gefið út mikið af skáldsögum miðað við höfðatölu. Þegar horft er til þess að bestu rithöfundar þjóðarinnar ná kannski að skrifa eina, tvær, þrjár virkilega góðar bækur á ferli sem spannar áratugi á meðan aðrar bækur þeirra spanna allan skalann þar fyrir neðan - frá fínum bókum og jafnvel til lélegra - er kannski ekki nema von að þetta sé raunin. Frekar sjaldgæft er að rithöfundar á Íslandi nái í gegn með fyrstu bók sinni og hann segir kannski ekki söguna sem hann hann átti að segja - sögu lífs síns - fyrr en í fimmtu tilraun. Bækurnar sem hann skrifaði fram að því kunna hins vegar eðlilega að skipta máli í vegferð hans að góða skáldverkinu því þær hafa hjálpað honum við það að ná að skrifa þá bók.
„Það er tímaskekkja finnst mér að „sannar bókmenntir“ séu álitnar minni bókmenntir og ófínni en „uppdiktaðar bókmenntir“.“
En hvert er eiginlega vandamálið? Jú, skáldsagnaskrif eru auðvitað ákveðinn iðnaður eins og hver önnur skrif þó margir sjái þau eðlilega í rómantískara ljósi þar sem góð skáldsaga getur sannarlega haft áhrif á fólk og orðið klassískur tilvísunarpunktur í samfélagsumræðunni í áratugi. Meirihluti skáldsagna er hins vegar ekki lesinn um ókomin ár og umræða um þær deyr nánast strax og þær eru gefnar út, það er að segja ef einhver umræða er um þær til að byrja með. Svipaða sögu má auðvitað segja um flestar útgefnar bækur, svo ég tali nú ekki um texta eins og flestar blaðagreinar sem gleymast nær samstundis og þær koma út.
Útgefnir skáldsagnahöfundar skilgreina sig margir sem rithöfunda skáldsagna og líta á það sem skyldu sína að skrifa sem flest og sem best skáldverk. Þeir þurfa líka að halda áfram að skrifa bækur til að geta sótt um rithöfundalaun sem kannski er þeir helsta aðal tekjulind ár frá ári. Á rithöfundinum hvílir framleiðsluskylda, bæði frá honum sjálfum persónulega og eins frá ytra umhverfi hans, líkt og á öðrum sem hafa lífsviðurværi sitt af því að skrifa. Auðvitað skrifar enginn skáldsagnahöfundur bara frábærar eða góðar skáldsögur: Slík krafa væri ósanngjörn þó þeim bestu á sviðinu takist kannski oftar betur upp en öðrum. Einu sinni átti ég samtal við rithöfund sem ég þakkaði fyrir tiltekna bók sem hann skrifaði og hældi henni mjög. Rithöfundurinn sagði hins vegar að allar bækurnar sem hann hefði skrifað væru jafngóðar. Ég sagði ekki neitt þar sem ég var innilega ósammála honum.
Í ljósi þess hversu skáldsagnaformið er erfitt - hversu örðugt verk það er að skrifa virkilega góða skáldsögu og á færi fárra - þá hef ég spurt mig að því af hverju rithöfundar horfi ekki í auknum mæli út fyrir skáldsagnaformið í leit sinni að efniviði. Þegar skáldsagnahöfundar, eða ljóðskáld, skrifar non-fiction bók verður oft úr því mikill galdur, til dæmis þegar Hannes Pétursson skrifaði endurminningabók sína Jarðlag í tímanum. Þar var meðal annars þessi lýsing Hannesar á torfbænum þar sem hann var í sveit sem barn: „Framandleiki smýgur þegar út í yztu æðar mínar, ný tegund af svala og hálfdimmu, ný tegund af veggjum, gólfi, viðum og lykt, það þýtur allt samtímis í gegnum augu mín og nasir. Ég átti heima af lífi og sál í bænum á Hömrum þau tvö sumur sem í hönd fóru, eða kannski væri réttara sagt að segja í þeim tíma sem þar var. Ég andaði að mér húsakynnunum öllum eins og lífsloftinu sjálfu, hvort heldur bjarta daga eða þegar skyggja tók undir haust. Þessi bær með grá og veðruð þil er nú horfinn.“
Sögurnar sem geta verið undir eru þeirra eigin líf, eða annarra, og ég ímynda mér að það geti verið frelsandi fyrir rithöfunda eða ljóðskáld sem alltaf eru að reyna að skapa bókmenntaverk frá grunni að geta sótt í heimildir og notað þær til að segja frá einhverju sem hefur sannarlega gerst, sem þeir hafa upplifað eða aðrir. Reynslumikill skáldsagnahöfundur getur nefnilega hugsanlega verið betur til þess fallinn en margur annar að skrifa góða non-fiction bók sem er bókmenntaverk. Ástæðan fyrir því er einföld: Reynslumikið ljóðskáld eða skáldsagnahöfundur er betri að skrifa en margir aðrir. Hefði Hannes Pétursson ekki átt að geta fengið íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þessa endurminningabók sína? Tvímælalaust - þetta er þannig bók. Þegar gildi bókmenntaverka er metið skiptir fyrst og fremst máli hvernig þau eru skrifuð en ekki hvort þau eru sönn eða ekki.
Ég vona sannarlega að Sænska akademían íhugi möguleikann á því að veita fólki sem skrifar bækur um staðreyndir Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Sjálfur hef ég ekki lesið verk úkraínsk/hvítrússnesku blaðakonunnar sem um ræðir hér að ofan og get því ekki metið þau en almennt séð finnst mér eðlilegt að hugmyndin um „bókmenntir“ sé víkkuð út og geti einnig náð yfir staðreyndabækur. Þá vona ég líka að þessi hugsun sem reifuð er í greininni í Svíþjóð nái inn í hugsun þeirra sem veita Íslensku bókmenntaverðlaunin - sjálfur hefði ég til dæmis gefið Jarðlagi í tímanum atkvæði mitt í mati á bókmenntaverkum á sínum tíma.
Það er tímaskekkja finnst mér að „sannar bókmenntir“ séu álitnar minni bókmenntir og ófínni en „uppdiktaðar bókmenntir“. Bækur geta verið bókmenntir þó þær séu ekki skáldsögur, leikrit eða ljóð.
Athugasemdir