Ég man eftir fundum á Austurvelli þar sem Benedikt Jóhannsson hæddist stórkostlega að þeim orðum Bjarna Benediktssonar að þjóðaratkvæðagreiðsla um umsókn að Evrópusambandinu væri „pólitískur ómöguleiki“.
Þótt Bjarni hefði afdráttarlaust lofað slíkri atkvæðagreiðslu.
Ég man að Jón Steindór Valdimarsson var líka á þessum fundum og tók undir hæðnisorð Benedikts.
Ansi væri Bjarni aumur.
Menn ættu að standa við orð sína, hvað sem liði þessu asnalega hugtaki „pólitískum ómöguleika“.

Mikið leist mér vel á þessa félaga.
Þeir ættu sko erindi á þing! Þar myndu þeir sannarlega aldrei tíðka moðreyk og svik.
Þeim Benedikt og Jóni Steindóri og félögum var svo mikið niðri fyrir yfir þessum svikum Bjarna við loforð sín að þau gátu ekki verið í Sjálfstæðisflokknum.
Þau stofnuðu nýjan flokk - heiðarlegan flokk sem myndi aldrei svíkja skýr loforð.
Viðreisn.
En nú er sú staða uppi að Benedikt og Jón Steindór og Þorgerður og Hanna Katrín og Þorsteinn Víglundsson og Pawel og Jóna Sólveig eru öll í flokki sem hefur svikið öll sín stærstu loforð.
Einmitt af því það reyndist vera „pólitískur ómöguleiki“ að ná þeim fram.
Látum Evrópusambandið vera. Hér dugar að nefna dómaraklám Sigríðar Andersen.
Það er hið endanlega dæmi um að Viðreisn víkur frá öllum sínum „prinsipum“ í nafni „pólitísks möguleika“.
Viðreisn ætlaði nefnilega líka að taka upp heiðarlegri, faglegri stjórnsýslu.
Haha! Þetta mál var nú aldeilis fallegt dæmi um það!
En allt sem Viðreisn lofaði hefur sem sagt verið svikið.
Er þá ekki kominn tími til að Benedikt og félagar kljúfi sig út úr þeim auma svikaflokki Viðreisn og stofni nýjan flokk? Heiðarlegan flokk sem standi við loforð sín?
Þau gætu kannski nefnt hann Orðheldniflokkinn.
Og svo geta Benedikt og Jón Steindór og félagar mætt á Austurvöll og hæðst að hinum aumu svikum Viðreisnar.
Athugasemdir