Mér finnst alltaf jafn merkilegt þegar ég átta mig á því að viðhorf mín ráða úrslitum um hvort mér líður vel og hvort verkefni sem ég tekst á við gangi vel. Ekki verkefnið sjálft eða alvarleiki þess. Ég get valið að finnast aðstæður mínar ömurlegar og hafa ekki trú á að ég geti nokkuð gert og því upplifað litla von á jákvæðri útkomu eða ég get valið að skoða alla möguleika með jákvæðu hugarfari, gert allt sem í valdi mínu stendur til að gera aðstæður mínar betri og jafnvel litið á erfiðar aðstæður mínar sem tækifæri.
Jákvæðara hugarfar og viðhorf eykur ekki aðeins líkur á að eitthvað gott geti komið út úr krefjandi og erfiðum aðstæðum og hjálpar okkur að nýta reynslu okkar okkur í vil heldur auðveldar það líka dagleg líf. Að leggja áherslu á það jákvæða í stöðunni og einblína á möguleikana léttir á huganum sem stundum leggur á okkur mikla byrði og hjálpar okkur frekar að sjá lausnir, þar sem jákvæðni eflir skapandi hugsun, þar sem hún opnar fyrir tengingar í heilanum.
Fyrst og síðast þurfum við að muna að viðhorf eru okkar eigin hugarsmíð. Margt getur haft áhrif á viðhorf okkar en það er okkar sjálfra að nýta þau okkur til góðs með meðvituðum hætti. Þó reynsla tveggja einstaklinga geti verið svipuð geta þeir sýnt mjög ólík viðbrögð við sama atburðinum. Þar liggja viðhorfin til grundvallar. Öll göngum við einhvern tímann í gegnum erfiða tíma og krefjandi verkefni en þeir sem velja sér viðhorf sér í vil, viðhorf sem efla og hvetja, eru margfalt líklegri til að nýta sér reynslu sína til góðra verka frekar en að hafa hana á bakinu og rifja hana upp sem neikvæðan atburð. Þó sumir virðist hreinlega hafa fæðst með slíkt jákvætt hugarfar, að sjá alltaf eitthvað gott við aðstæður sínar, þá er það ekki raunin. Hugarfar okkar er áskapað og það eru góðar fréttir. Segir okkur að við getum öll tileinkað okkur hugarfar okkur í vil, svo framarlega sem við vitum hvernig.
Innan jákvæðrar sálfræði, sem er nýleg nálgun innan sálfræðinnar, hefur áhrif hugarfars á andlega og líkamlega heilsu og líðan mikið verið rannsökuð. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt hvaða þætti mikilvægt er að tileinka sér til að bæta hugarfar og viðhorf til að það vinni með manni en ekki á móti, það er að segja bæti líðan og auki hamingju.
Ég tók því saman nokkra þætti sem niðurstöður rannsókna í jákvæðri sálfræði hafa sýnt að geti hjálpað okkur til að skapa jákvæðara hugarfar og viðhorf. Allt eru þetta einfaldir þættir sem þó þarfnast ástundunar og æfingar. Enda vitum við að það sem við höfum fyrir í lífinu er mikilvægara og verðmætara en það sem við fáum upp í hendurnar án fyrirhafnar, ekki satt? Með því að æfa okkur og auka meðvitund um áhrif viðhorfa okkar, getum við breytt þankagangi okkar sem ekki aðeins léttir okkur lífið og gerir hversdaginn skemmtilegri heldur skapar hann okkur aukna möguleika með frjórri hugsun en ella og aukna lífshamingju til lengri tíma*. Æfum okkur í þessu.
Opnaðu hugann
Reyndu að taka við skoðunum annarra og aðstæðum með opnum huga, prófaðu að dæma ekki eitthvað sem gott eða slæmt um leið og þú heyrir það eða upplifir. Leyfðu því stundum að vera það sem það er. Prófaðu líka að draga aðeins úr væntingum þínum til annarra. Við getum ekki ætlast til að aðrir geri það sem við hugsum. Með því að opna huga okkar með þessum hætti getum við fækkað neikvæðum tilfinningum okkar frá degi til dags, eins og pirring og hroka. Þá getum við aukið umburðarlyndi í garð annarra og opnað á ýmis tækifæri sem við hefðum annars ekki komið auga á. Gott er líka að taka eftir hvað börn á fyrstu æviárunum eru opin fyrir aðstæðum sínum og án fordóma.
Gerðu þakklæti að vana
Með því að taka eftir því sem er gott í lífinu, frekar en því sem aflaga fer, eflum við jákvæðar tilfinningar og drögum um leið úr þeim neikvæðu. Að fjölga jákvæðum tilfinningum á kostnað þeirra neikvæðu er talin vera ein af mikilvægustu en um leið einföldustu leiðunum til að efla lífshamingju og breyta viðhorfum sér í vil. Ef við erum dugleg að einblína á það sem við erum þakklát fyrir í lífi okkar eigum við auðveldara með að temja okkur jákvætt viðhorf til aðstæðna okkar og krefjandi verkefna sem koma til okkar. Algengt er að skrifa þakklætisdagbók, það er að skrifa niður þrjú til fimm atriði að kvöldi dags sem gengu vel þann daginn eða sem maður kann að meta. Með slíkum skrifum leggjumst við á koddann með jákvætt viðhorf til dagsins í stað þess að velta okkur upp úr því hvað allt hafi nú gengið illa eða hverju við höfum gleymt.
Að tileinka sér bjartsýni
Bjartsýni líkt og þakklæti hjálpar okkur að skapa og viðhalda jákvæðum tilfinningum eins og eftirvæntingu og gleði sem oft getur breytt stefnunni til betri vegar og komið manni lengra en ella. Vonin sem bjartsýnin eflir skapar líka þennan nauðsynlega drifkraft sem ekki er til staðar ef viðhorf okkar er undirlagt af neikvæðni og ómöguleika.
Ég veit allavega að þegar ég stend frammi fyrir stórum ákvörðunum eða krefjandi aðstæðum vel ég meðal annars að opna huga minn fyrir tækifærum sem mögulega leynast í aðstæðunum, reyni að minna mig á jákvæða þætti í stöðunni og trúi að hlutirnir muni fara vel, en með því er ég að auka líkurnar á að ég sjái lausnirnar frekar en ella. Ég mun halda áfram að æfa mig.
*Nánar er hægt að lesa um áhrif hugarfars á líkamlega heilsu og hamingju í bók minni Hamingjan eflir heilsuna sem ég gaf út árið 2014.
Athugasemdir