Í tilefni af tvöfeldni Bjarna Benedikssonar og tíma valkvæms sannleika í stjórnmálum sem hann er að verða meistari í varð til þessi tvöfeldningur:
Honum líkar lygin lítt
lætur sannleik ráða.
Vonum þjóðar ávallt ýtt
ofar vilja snáða.
Afturábak er vísan svona.
Snáða vilja ofar ýtt
ávallt þjóðar vonum.
Ráða sannleik lætur lítt
lygin líkar honum.
Kjósendur eru alvanir því að stjórnmálamenn segi eitt fyrir kosningar og annað eftir þær eins og núverandi ríkistjórn Íslands hefur nýlega sannað.
Svikin gagnvart kjósendum í síðustu kosningum á Íslandi og í Bandaríkjunum voru óvenju kræf því að ríkjandi stjórnvöld völdu hvaða opinberu upplýsingar væri hagstætt fyrir þau að sýna kjósendum fyrir kosningar.
Undanbrögðin í Bandaríkjunum
Í Bandaríkjunum lék Repúblikaninn James Comey, forstjóri FBI, þann leik að leka því 11 dögum fyrir kosningar að stofnunin væri að rannsaka nýja tölvupósta Hillary Clinton. Á sama tíma neitaði hann að staðfesta að FBI væri að rannsaka tengsl Trump-framboðsins við Rússa því það gæti haft áhrif á kosningarnar. Rétt hjá honum, því þær hefðu líklega snúið við kosningaúrslitunum í heimalandi Rússagrýlunnar. Upplýsingaskömmtunin virkaði og Trump var kosinn, með afar naumum meirihluta.
Undirferlið á Íslandi
Í aðdraganda alþingiskosninganna hér heima var líka mikill skýrslupóker í gangi. Bjarni Ben, þá fjármálaráðherra, ákvað upp á sitt einsdæmi að þjóðin hefði ekkert með að sjá tvær opinberar skýrslur sem lágu fyrir vel fyrir kosningar.
Annars vegar var opinber skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Helstu fréttirnar í henni voru að Sjálfstæðisflokkurinn greiddi árum saman götu skattsvika og flæði fjármagns til aflandseyja með því að setja ekki upp þær girðingar sem skattayfirvöld og fleiri báðu margsinnis um.
Hins vegar stakk Bjarni undir stól skýrslu um framkvæmd skuldaleiðréttingar síðustu ríkisstjórnar, en hún sýndi að leiðréttingin rann að langstærstum hluta til ríkari helmings þjóðarinnar.
Báðar skýrslurnar eru þess eðlis að þær hefðu haft mikil áhrif á kosningaumræður og mjög líklega áhrif á kosningaúrslitin á neikvæðan hátt fyrir flokk Bjarna.
Sérhagsmunir ofar þjóðarhagsmunum
Bjarni laug síðan til um tímasetningar en sá að sér, leiðrétti það og sagðist ekki hafa viljað að skýrslurnar yrðu settar í kosningasamhengi. (Þá sagði hann satt!) Á mannamáli þýðir það að við kjósendur máttum ekki sjá bestu upplýsingar um tvö stærstu mál síðasta kjörtímabils fyrir kosningar. Hvers vegna ekki?
Jú, það er augljóst að Bjarni setti sína sérhagsmuni ofar hagsmunum þjóðarinnar. Líkt og í Bandaríkjunum þá virkuðu skýrsluundanskotin, Bjarni uppskar afrakstur sviksemi sinnar og situr sem forsætisráðherra í ríkisstjórn með eins manns meirihluta. Minna getur það ekki verið og munaði sannarlega um allt við að ná síðasta manni inn.
Gullfiskalýðveldið
Í bananalýðveldi væri þetta líklega kallað valdarán en í gullfiskalýðveldi þykir þetta bara allt í lagi. Eða hvað? Upplýsingasvik eru eitur fyrir lýðræðið því það virkar ekki án þess að fólk hafi réttar upplýsingar. Við kjósendur erum varnarlaus fyrir tvöfeldninni og getum bara gert eitt til að verja okkur fyrir sviksemi sem þegar hefur farið fram: Að gleyma svikunum aldrei.
Sverrir Björnsson hönnuður
Athugasemdir