Lífssaga mín er litrík. Margt gott, margt vont, sumt hræðilegt, sumt frábært. Þegar ég hætti að nota fíkniefni eignaðist ég líf. Í 20 ár lifði ég það sem má kalla eðlilegu fjölskyldulífi. Sumarið 2013 veikist ég illa sem hafði erfiðar og sárar afleiðingar fyrir mig, mína nánustu og mitt líf.
Sex mánuðir eru liðnir síðan ég hóf batagöngu frá mínum veikindum. Á þeim tíma hef ég séð lífshlaup mitt og sjálfan mig með nýjum augum. Augum sem sáu að ég var ekki einungis meðvirkur sem barn og í veikindunum, heldur alla daga til dagsins í dag. Í þessi 20 ár var ég orðinn svo góður í að lifa með meðvirkninni að hvorki ég né aðrir áttuðu sig. Það sem blekkti mig var að það reyndi hvorki oft né mikið á meðvirknina. Komu kaflar og atvik en ekki samfella. Þetta uppgötvaði ég síðar, í sjálfshjálparsamtökum fyrir meðvirka, við vinnu í reynslusporunum 12. Sú uppgötvun var mér töluvert sjokk en skýrði um leið ýmsa atburði í ferðalagi lífsins.
Eru ekki allir meðvirkir?
Þetta er spurning sem ég heyri oft. Nei. Að vera meðvirkur er að láta stjórnast fullkomlega af hegðun, gjörðum og orðum annarra. Þá tekur þú þarfir og skoðanir annarra fram yfir þínar. Það gerum við ekki öll. Svipað og með áfengi. Ekki allir sem nota áfengi verða alkóhólistar. Við fæðumst ekki meðvirk. Mín reynsla er sú að meðvirkni sé lærð hegðun. Mótast af því andrúmslofti og aðstæðum sem þú býrð í. Ég var í „æfingabúðum“ alla mína barnæsku í meðvirkni. Að auki fylgdi með hinn ætandi höfnunarótti. Barnungur varð ég sérfræðingur í báðu. Vissi það ekki. Langaði það ekki. Hélt að það væri eðlilegt því ég þekkti ekkert annað.
Það þarf tilfinningaleg tengsl við aðra manneskju til að verða meðvirkur. Mín skoðun er að meðvirkni hefst með umhyggju. Mér er ekki sama og vill hjálpa. Þar stoppar ferlið hjá flestum. Ég og aðrir meðvirkir einstaklingar höldum áfram þróuninni. Ást og umhyggja fer að breytast í að verða háður manneskju og fyrr en varir er hennar líðan mikilvægari en mín. Ég verð tilbúinn að þóknast viðkomandi eins mikið og þarf. Þetta er stjórnlaus meðvirkni. Að missa eigið sjálf og færa yfir á aðra manneskju. Manneskjan, sem er sjúk af til dæmis alkóhólisma, andlegum veikindum eða öðru, verður nafli alheimsins. Allt heimilislífið snýst um viðkomandi. Allir sem eru tilfinningalega tengdir verða strengjabrúður. Mismikið þó.
Hvernig varð ég meðvirkur?
Ég varð sjúklega meðvirkur sem barn. Fyrir 10 ára aldur tók ég að mér það hlutverk að sjá um alkóhólista. Þegar viðkomandi drakk breyttist persónuleikinn og ég varð alltaf hræddur. Þannig byrjaði óttinn við höfnun. Ég varð logandi hræddur að missa haldreipið og akkerið í lífinu. Það orsakaði að ég lagði mig enn meira fram í að þóknast og passa upp á viðkomandi. Það leiddi af sér að ég varð fljótt orðinn „doktor“ í kvíða og ótta.
„Fyrir 10 ára aldur tók ég að mér það hlutverk að sjá um alkóhólista. Þegar viðkomandi drakk breyttist persónuleikinn og ég varð alltaf hræddur.“
Auðvitað var þetta ekki hlutverk sem á að leggja á barn. Ég á sársaukafullar minningar þar sem ég sit sem kvíðinn og ofsahræddur drengur og bíð eftir að viðkomandi komi heim. Vaki fram eftir. Tek eftir hverju einasta bílhljóði. Spennist upp ef mér heyrist leigubíll vera að nálgast. Dett niður í vonbrigði að það skuli vera annar.
Til að gera langa sögu stutta þá varð ég það meðvirkur að á meðan viðkomandi drakk stóð ég vaktina þar til hann var farinn að sofa. Þá gat ég andað léttar. Í bili. Þessi hringrás endurtók sig aftur og aftur í nokkur ár. Ég get ekki horft framhjá því að þetta mótaði mig sem karakter ásamt öðru sem ég upplifði sem barn. Ég gekk út í lífið fullur af ranghugmyndum og taldi eðlilegt að vera kvíðinn og óttasleginn á hverjum degi.
Í dag veit ég að það setti mig enginn í þetta hluverk af ásetningi. Viðkomandi var veikur og missti dómgreind og sjálfsstjórn undir áhrifum áfengis. Á því hef ég skilning. Andleg veikindi eru fjölskyldusjúkdómur. Aðstandendur geta orðið sjúklega meðvirkir. Það er mein út af fyrir sig. Lúmskt og lævíst. Til að halda andlitinu út á við fara aðstandendur að ljúga að sjálfum sér að þeir hafi það alltaf fínt. Fara líka að ljúga að öðrum svo gríman falli ekki. Ljúga fyrir veika aðilann. Um leið myndast mjög óheilbrigt andrúmsloft á heimilinu sem smitast í alla fjölskyldumeðlimi. Þannig smitaðist ég sem barn.
Þú sleppur ekki ...
Þegar sársauki barnæskunnar byrjaði að „klóra“ í mig sumarið 2013 með ofsakvíða- og ótta varð ég fárveikur af kvíðaröskun og áfallastreitu. Um leið fór meðvirknin og höfnunaróttinn í gang. Ég fór að upplifa sömu tilfinningar og ég gerði sem barn.
Árið 2013 hafði ég frá árinu 2011, gengið í gegnum hjónaskilnað og hafið aðra sambúð. Því fylgdi mikið álag og miklar breytingar en flestar jákvæðar fannst mér. Ég er hættur að velta mér upp úr því af hverju þetta gerðist sumarið 2013 en ekki fyrr, árið 1997 sem dæmi. Það væri auðvelt að tengja það við nýja sambúð, eða sambýling. Sem getur hafa haft áhrif en var ekki meginorsökin.
Samt er það staðreynd að mest alla sambúðina var ég að þróa með mér veikindin. Um leið jókst meðvirknin og höfnunaróttinn. Ég festist ómeðvitað í að passa að sambýlingur yrði ekki ósátt við mig. Ég var kominn í nákvæmlega sama hlutverk og sem barn. Hlutverk sem ég kunni fullkomnlega. Ég upplifði nákvæmlega sömu líðan. Samt var „leiksviðið“ og „leikmyndin“ önnur sem og „persónur og leikendur“ í „leikritinu“.
Það er ómögulegt að útskýra þetta fyrir fólki sem ekki þekkir til eða hefur reynslu. Afneitunin verður algjör. Hver einasti dagur snýst um að „passa upp á eitthvað“. Þá leika tilfinningarnar kvíði og ótti lausum hala. Það er ekki eftirsóknarvert líf. Það er rúmlega mannskemmandi.
Smitberinn ég
Í dag klingir í höfðinu á mér spurningin; Fyrst ég var meðvirkur alla tíð, að hve miklu leyti bitnaði það á börnunum mínum? Þessi spurning ýfir upp sektarkennd. Ástæðan er sú að í nokkur ár hugsaði ég ekki vel um mig sem alkóhólista. Var ég smitandi á meðan?
Þó börnin mín hafi ekki séð verstu einkennin birtast hjá mér, þau sáu mig til dæmis ekki í ofsakvíða- og panikkasti, þá er komið í ljós að veikindin mín bitnuðu töluvert á þeim. Þau dvöldu aðra hverja helgi hjá mér á meðan ég þróaði veikindin. Þau hafa ekki einungis haft áhyggjur af mér heldur hefur brotist fram reiði. Ég hef fullan skilning því reiði er uppsöfnuð gremja. Þeim leið eins og þau væru útundan á öðru heimili og að pabbi þeirra hugsaði meira um þarfir annarra en þeirra á heimilinu. Þau upplifðu því höfnun. Því miður er það að vissu leyti rétt, þótt það hafi ekki verið ásetningurinn.
„Þeim leið eins og þau væru útundan á öðru heimili og að pabbi þeirra hugsaði meira um þarfir annarra en þeirra á heimilinu. Þau upplifðu því höfnun.“
Það voru engin læti eða ljót orð látin falla eða neitt í þeim dúr. Þetta eru tilfinningar án skýringa. Það voru ekki allir dagar svona en þetta situr eftir. Börnin urðu meðvirk með mér. Vildu ekki valda mér vonbrigðum og sögðu ekki að þeim liði ekki vel. Erfitt að kyngja þeirri staðreynd ... en staðreynd er það engu að síður.
Já ég var smitberi og þær áhyggjur mínar að ég hafi smitað börnin mín, fyrrverandi eiginkonu og aðra nákomna eru á rökum reistar. Blessunarlega urðu veikindin þess valdandi að ég fór að gangast við þessu meini sem ég hef borið allt mitt líf og hefur stjórnað mér á einn eða annan hátt. Nú er komið nóg. Tíminn mun vinna með okkur börnunum og þótt mér finnist þetta sárt þá lít ég á þetta sem hvatningu að vanda mig í batanum svo þau fái pabba sinn aftur. Núna er tækifærið að útrýma vírusnum, brjóta keðjuna svo ekki verði til fleiri smitberar.
Meðvirkni læknast ekki
Meðvirkni læknast ekki af sjálfu sér en það er til lausn sem gerir þér kleift að verða frjáls og halda einkennum niðri, líkt og með alkóhólisma og ýmis önnur andleg mein. Í dag er ég, eins og ég nefndi fyrr, að takast markvisst á við meðvirknina í fyrsta skiptið. Geri það í gegnum sjálfshjálparsamtök fyrir meðvirka sem byggja á reynslusporunum 12. Hef hafið batagöngu þar með því að vinna í sporunum. Þarna er í boði lausn sem getur fært mér, ekki einungis betri líðan, heldur langþráð frelsi sem manneskja. Og lágmarkað líkurnar að ég haldi áfram að vera smitberi.
Ég hef aldrei verið frjáls. Alltaf háður. Minn tími er að koma.
Athugasemdir