Það var fyrir réttum fimmtán árum í dag að ég kom heim til mín rétt upp úr hádegi, ef ég man þetta rétt, eftir einhver erindi í bænum.
Það er svo langt síðan að þá rauk maður ekki strax á netið þegar maður hafði stund aflögu, til að vita hvort eitthvað væri að gerast.
Hvað þá að maður fengi öll tíðindi jafnóðum í símann sinn.
Svo ég settist bara niður við gömlu Power Macintosh-tölvuna mína og byrjaði að skrifa eitthvað; ekki man ég hvað.
Ég var einn heima og frammi í eldhúsi heyrði ég lágróma mas í útvarpsstöð, áreiðanlega Rás tvö.
Smátt og smátt fór ég að veita því athygli að í útvarpinu var mönnum nokkuð niðri fyrir.
Og svo heyrði ég að lokum að flugvél hefði flogið á World Trade Center í New York og þar loguðu eldar. Einhverjir hefðu áreiðanlega látið lífið, óvíst hve margir.
Jahérna, hugsaði ég, en kippti mér samt ekkert voðalega mikið upp við þetta, skal ég viðurkenna.
Ég heyrði ekki nákvæmlega hvað fólkið í útvarpinu var að segja en hafði ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug annað en að einhvers konar lítil Cessna hefði verið að villast eitthvað og rekist af slysni utan í annan skýjakljúfanna stóru.
Svo ég hélt áfram að vinna. Ég man ekki hvernig internet tengingu við höfðum í Skólastrætinu þá, en mér datt allavega ekki í hug að kveikja á henni.
Ég var líka eitthvað smávegis að huga að undirbúningi fyrir afmæli Veru dóttur minnar sem yrði tólf ára eftir tvo daga.
En áfram malaði útvarpið.
Og þaðan læddust næst að mér raddir um að það væri búið að setja af stað aukafréttatíma í sjónvarpinu.
Ha, hugsaði ég. Af hverju? Er það nú ekki aðeins einum of? Þótt smáflugvél rekist utan í hús í Ameríku og kannski einhverjir farist?
Annað eins gerist nú í henni veröld.
Samt gekk ég fram af rælni og kveikti á sjónvarpinu.
Og rétt í þann mund var verið að sýna myndir sem náðst höfðu af því þegar flugvélin rakst á annan World Trade Center turnanna.
Nema hvað hún rakst ekki á hann, hún flaug á hann.
Og þetta var engin smáflugvél.
Athugasemdir