Alls eru 17 virkjunarkostir í nýtingarflokki í núgildandi rammaáætlun um náttúruvernd og er því fyrirsjáanlegt að töluvert landsvæði verði fyrir áhrifum af framkvæmdum í nánustu framtíð.
Samkvæmt rammaáætluninni, sem var samþykkt á Alþingi þann 14. janúar 2013 og telst til 2. áfanga áætlunarinnar, eru virkjunarkostir flokkaðir í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk. Þrír vatnsaflsvirkjunarkostir og 14 jarðvarmavirkjunarkostir eru í nýtingarflokki, en í biðflokki eru 30 virkjunarkostir, þar af 21 vatnsaflsvirkjunarkostur og níu jarðvarmavirkjunarkostir.
Í orkunýtingarflokk eru settir virkjunarkostir sem talið er að ráðast megi í. Stjórnvöldum er heimilt að leyfa orkurannsóknir og orkuvinnslu vegna þessara kosta og sömuleiðis eru orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar heimilar.
Virkjunarkostir sem ekki er hægt að taka afstöðu til vegna skorts á gögnum eru settir í biðflokk og er stjórnvöldum ekki heimilt að veita leyfi tengd orkuvinnslu vegna orkukosta sem tilheyra honum.
Svokallað náttúrukort, sem hægt er að nálgast á heimasíðu Framtíðarlandsins, veitir yfirsýn yfir þá virkjunarkosti sem hafa verið flokkaðir í orkunýtingar-, bið- eða verndarflokk, auk þess að sýna þau svæði sem þegar hafa verið virkjuð.
Fólki umhugað um náttúruvernd
Í drögum að lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar var vísað til landskönnunar sem skoðaði viðhorf fólks til þess hversu mikið eða lítið vægi tólf tilgreindir þættir ættu að þeirra mati að hafa við ákvarðanatöku um að reisa fleiri virkjanir á Íslandi.
Þar kom í ljós að mjög hátt hlutfall fólks taldi eftirfarandi þætti hafa mjög eða frekar mikið vægi: Náttúruvernd (87%), Heilsa fólks (81%), Loftslagsbreytingar (79%), Hamingja og vellíðan fólks (78%), Möguleikar til útivistar (71%) og Áhyggjur fólks af náttúruhamförum (62%).
Sitt sýndist þó hverjum og hátt hlutfall svarenda töldu eftirfarandi þætti sömuleiðis hafa mjög mikið eða frekar mikið vægi: Atvinnuuppbygging á Íslandi (74%), Atvinnuuppbygging í nærsamfélagi virkjana (66%), Hagvöxtur á Íslandi (60%), Atvinnutækifæri karla (54%), Atvinnutækifæri kvenna (54%) og Tekjur sveitarfélaga (53%).
Af þeim sem svöruðu því hver af ofangreindum þáttum ætti að hafa mest vægi í ákvörðunum um að reisa fleiri virkjanir á Íslandi tiltóku flestir Náttúruvernd (34%), þar á eftir kom Heilsa fólks (15%) og Atvinnuuppbygging á Íslandi (14%) var í þriðja sæti.
Ekki hægt að fullyrða um tengsl fjárhagslegs ávinnings og aukinna lífsgæða
Í endanlegri lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar sagði auk þess að rannsóknir hafi sýnt að sambandið milli mælikvarða sem mæla fjárhagslegan ávinning og mælikvarða sem mæla lífsgæði sé ekki sterkt og mun flóknara en svo að hægt sé að álykta að aukinn fjárhagslegur ávinningur leiði sjálfkrafa til betri lífsgæða eða vellíðunar.
Því væri ekki hægt að fullyrða að mögulegur fjárhagslegur ávinningur af virkjunum haldist í hendur við aukin lífsgæði eða vellíðan fólks.
Endanleg lokaskýrsla verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar var birt í ágúst árið 2016. Enn þann dag í dag hefur Alþingi þó ekki samþykkt þennan áfanga áætlunarinnar. Þrátt fyrir það tók verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar til starfa í apríl 2017.
Magnaðar ljósmyndir af landsvæðum sem gætu brátt horfið
Á sýningunni „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ í Norræna húsinu er að finna mikinn fjölda magnaðra ljósmynda af landsvæðum sem senn gætu heyrt sögunni til fari svo að þau verði nýtt til virkjana.
Stundin birtir hér hluta af ljósmyndunum með góðfúslegu leyfi Ólafs Sveinssonar sýningarstjóra. Ljósmyndirnar eru af virkjunarkostum sem eru samkvæmt núgildandi rammaáætlun í orkunýtingar- eða biðflokki.
„Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ er samsýning Landverndar og Ólafs Sveinssonar í samstarfi við Norræna húsið og Framtíðarlandið. Margmiðlunarsýningin fer fram í Norræna húsinu frá 27. september til 17. nóvember.
Hvalárvirkjun
Í orkunýtingarflokki
Hvalárvirkjun á Ströndum er líklega umdeildasta virkjanaframkvæmd sem ráðist hefur verið í síðan Kárahnjúkavirkjun var byggð. Í báðum tilvikum er um algerlega ósnortin víðerni að ræða sem virkja á, sem sárafáir þekktu þegar umdeildar ákvarðanir voru teknar um að byggja þar virkjanir. Fossinn á myndinni er einn af fjölmörgum fossum sem munu hverfa, verði af byggingu hennar.
Fossinn Rjúkandi í ánni Rjúkanda á Ströndum er einn fjölmargra fossa sem hverfa munu ef Hvalárvirkjun verður byggð. Tveir faghópar rammaáætlunar af fjórum töldu virkjunina ekki uppfylla gæði gagna og tveir gáfu henni slæma einkunn, bæði hvað varðar hagkvæmni og jákvæð áhrif á samfélag. Þrátt fyrir það var virkjunin sett í nýtingarflokk, sem virðist ekki samræmast lögum um rammaáætlun. Álit Skipulagsstofnunar á áhrifum virkjanaframkvæmda á svæðinu er afdráttarlaust mjög neikvæð. Áhrifin eru sögð neikvæð á fossa, stöðuvötn, jarðminjar og víðerni sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.
Hvammsvirkjun
Í orkunýtingarflokki
Gangi áætlanir Landsvirkjunar eftir verður Hvammsvirkjun sú efsta af þremur virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Allar eru í byggð. Lón Hvammsvirkjunar mun teygja sig vel inn í Þjórsárdal.
Hagavatnsvirkjun
Í biðflokki
Hagavatn hefur verið að myndast og stækka eftir því sem Hagajökull, skriðjökull úr sunnanverðum Langjökli, hefur hopað. Hugmyndir eru uppi um að virkja Farið, ána sem rennur úr Hagavatni og nýta vatnið sjálft sem uppistöðulón.
Eldvarpavirkjun
Í orkunýtingarflokki
Eldvörp er 10 kílómetra löng gígaröð sem myndaðist með sprungugosi á utanverðu Reykjanesi á 13. öld og minnir um margt á hina frægu Lakagíga. Fyrirhuguð virkjun telst mjög umdeild, sökum þess að engin sambærileg gígaröð er til í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Talið er að orkuvinnslan þar verði ósjálfbær, þar sem um sama hitageyminn gæti verið að ræða og Reykjanesvirkjun og Svartsengisvirkjun fullnýta nú.
Austurengjavirkjun
Í biðflokki
Austurengjahver er hluti af háhitasvæðinu sem oftast er kennt við Krýsuvík hjá Kleifarvatni á Reykjanesi, sem er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Hrafnabjargavirkjun
Í biðflokki
Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti er einn af þekktari fossum landsins og fastur viðkomustaður þeirra sem keyra yfir Sprengisand. Fossinn er skráður í verndarflokk í 3. áfanga rammaáætlunar, sem Alþingi hefur þó eins og áður segir ekki enn samþykkt.
Hólmsárvirkjun
Í biðflokki
Upptök Hólmsár eru í suðurhlíðum Torfajökuls og rennur hún til suðurs í austurjaðri Mýrdalsjökuls. Efsti hluti hennar er í verndarflokki rammaáætlunar en tveir aðrir virkjunarkostir neðar í ánni voru metnir í rammaáætlun og eru báðir í biðflokki. Neðsta virkjunin við Aldey myndi kaffæra 40 hektara af gömlum birkiskógi. Tæplega 10 ferkílómetra lón hennar myndi ná upp að Hólmsárfossi.
Athugasemdir