„Þetta er mál sem varðar framtíð Íslands meira en nokkuð annað.“
Nei, ágætu lesendur, þetta er ekki tilvitnun í þingmann Miðflokksins í einni af þeirra fjölmörgu yfirlýsingum um þriðja orkupakkann nýverið.
Þetta sagði Hjörleifur Guttormsson í umræðum á Alþingi um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EES.
Það var á aðventunni 1992.
Hjörleifur hafði reyndar rétt fyrir sér þarna. EES-samningurinn er mikilvægasti og afdrifaríkasti milliríkjasamningur sem Ísland hefur gert, meiraðsegja mikilvægari en varnarsamningurinn við Bandaríkin.
Margt bendir til þess að EES-samningurinn verði talsvert til umræðu á næstunni. Væntanleg er skýrsla um hann frá starfshópi undir forystu Björns Bjarnasonar og einmitt Miðflokksmenn hafa meira en gefið í skyn að sitthvað þyrfti kannske að endurskoða sem hann snertir.
Þá er ekki úr vegi að rifja svolítið upp hvernig þetta kom nú allt til, sem skiptir daglegt líf okkar miklu máli, án þess að við tökum sérstaklega eftir því.
Upphafið
Þegar ég segi „allt“ er það mjög ofmælt. Hér verður stiklað á stóru og ekki einu sinni alltaf á öllu hinu mikilvæga, heldur stundum á því sem er mest upplýsandi, ekki sízt vegna umræðunnar á Íslandi á okkar dögum.
Athugasemdir