Ég man þegar ég heyrði fyrst hugtakið „andleg vinna“ (e. emotional labour). Það var svo ótrúlega mikill léttir að geta sett tilfinningar mínar í orð. Að geta loksins útskýrt hvernig ég, sem kona, er ávallt undir meira álagi en karlkyns vinir mínir. Fyrir mér er andleg vinna eins og andrúmsloftið, alls staðar, ókeypis, ósýnileg og nauðsynleg fyrir daglegt líf.
Það er stundum talað um að konur komi með jólin, enda eru jólin ekkert nema lofsungin skipulagsvinna. Þrátt fyrir að jólin séu bara um það bil þrír dagar byrjar undirbúningurinn fyrir þau oft mánuðum á undan. Kona sem vann með mér sýndi mér einu sinni excel-skjal sem hún var búin að búa til fyrir jólin, pakkar, jólakort, þrifin, skreytingar, öllu pakkað í ó-jólalegasta plan sem ég hef séð. Þrátt fyrir að hafa hugsað „vá, hvað ég er fegin að vera ekki svona“ þá hef ég bæði keypt og valið jólagjafir fyrir hönd kærasta minna til foreldra þeirra. Þetta er dæmi um andlega vinnu sem gert ert ráð fyrir frá konum en virðist ekki falla í hlut karla. Tilhugsunin um að kærasti myndi stinga upp á hvað ég ætti að gefa mömmu minni í jólagjöf er í mínum huga brosleg.
Það er mikilvægt að nefna að í þessari grein fjalla ég um hlutskipti kvenna og karla út frá því sem er algengast – ekki út frá því að allar konur séu á einn veg og karlar á hinn, augljóslega.
„Útivinnandi konur koma heim úr launaðri vinnu og hefja þá nýjan vinnudag, vakt númer tvö“
Hugtakið andleg vinna kom fyrst fram á sjónarsviðið í bók Arlie Hochschild, The Second Shift, sem kom út árið 1989. Bókin fjallar aðallega um seinni vaktina sem þarf að sinna á heimilum og hvernig henni er skipt á milli kynjanna. Útivinnandi konur koma heim úr launaðri vinnu og hefja þá nýjan vinnudag, vakt númer tvö. Önnur vaktin inniheldur störf eins og heimilisþrif, barnauppeldi og fleiri störf sem hefðbundnar húsmæður sinntu í den. Í bókinni er líka talað um andlega vinnu sem konur þurfa að sinna í kjölfar þess að vinna tvær vaktir á dag. Í seinni tíð hefur þessi vinna verið kölluð þriðja vaktin. Þriðja vaktin snýst að miklu leyti um skipulag, að úthluta störfum, að vita hvar hlutir eru, að muna eftir mikilvægum dagsetningum, að sinna stórfjölskyldu, að skipuleggja félagslíf, að sjá fyrir hvað muni vanta á heimilinu og hverju muni bráðum þurfa að sinna. Þriðja vaktin á heimilinu snýst um að reka heimili eins og það sé fyrirtæki eða vél, að sjá til þess að allt gangi smurt fyrir sig. Á vinnumarkaði vinna konur auka andlega vinnu sem felst í því að gera sér upp tilfinningar, að brosa, spjalla og þurfa almennt að setja sjálfa sig á bak við grímu. Þriðja vaktin þarf ekki að vera leiðinleg en það er erfitt að sinna henni ein.
Þrátt fyrir að margir karlmenn séu byrjaðir að taka aukinn þátt í svokallaðri annarri vakt, sýndi rannsókn sem gerð var á Íslandi 2017 að aðeins 4% karla sögðust að mestu leyti sjá um heimilisstörfin á móti 39% kvenna. Þá sögðu 67% karla að þeir og maki þeirra skiptu húsverkum jafnt á milli sín á móti 51% kvenna. Þessar niðurstöður sýna að konur bera enn megin ábyrgð á húsverkum og að sýn kvenna og karla á jöfn vinnuskipti samrýmist ekki.
Mig grunar að flestar konur kannist við þetta ójafnrétti af eigin reynslu. Sjálf hef ég átt nokkra kærasta, alla yfir 23 ára gamla, og enginn þeirra kunni almennilega á þvottavél. Ýmsu venst maður með aldrinum en aldrei þessu.
„Persónulega hef ég að undanskildu eigin heimili aldrei verið í matarboði þar sem karlmaður tekur frumkvæði að því að taka af borðinu“
Auðvitað eru til þeir karlmenn sem eru vel að sér í öllu sem við kemur þrifum og heimilishaldi en virðast þó hika við að sinna þeim. Persónulega hef ég að undanskildu eigin heimili aldrei verið í matarboði þar sem karlmaður tekur frumkvæði að því að taka af borðinu. Oft hjálpa þeir við frágang og gera stundum jafn mikið og konurnar, en alltaf eru þær fljótari að standa upp og taka af skarið.
Ástæðurnar fyrir þessu eru óljósar og afsakanir hafa meðal annars verið að konur séu betri í svona hlutum, séu betur skipulagðar eða finnist allavega minna leiðinlegt að sinna þessum störfum en körlum. En afsökunin sem er lífseigust er sú að konum finnist þessir hlutir einfaldlega mikilvægari en körlum. Mennirnir sem halda þessari fullyrðingu á lofti segjast oft auðveldlega geta lifað í rykinu og drullunni og þeir myndu sælir borða morgunkorn í öll mál án þess að kvarta. Slíkar yfirlýsingar eru nær alltaf ósannaðar og ég leyfi mér að efast um sannleiksgildi þeirra. En þetta er ágæt leið fyrir þá til að setja ábyrgðina yfir á konur, gera þetta að þeirra vandamáli. Fólk talar oft um mismunandi skítaþröskuld og að staðall kvenna sé svo hár að hann sé óyfirstíganlegur fyrir meðalmann. Ég efast um að konur þjáist almennt af hreingerningarþráhyggju en hins vegar virðist annar sjúkdómur hrjá þær, það er ábyrgð á hreinlæti. Það er stundum eins og heimili endurspegli hversu hæfar konur eru í lífinu. Þegar gesti ber að garði virðast konur oft byrja strax á því að afsaka sig og skammast sín ef að það er ekki allt óeðlilega hreint og fínt. Karlar gera það ekki.
Ég veit ekki hvenær þessi ábyrgðarsjúkdómur náði tökum á mér en það hefur krafist mikillar vinnu að losa mig við hann og hætta að segja alltaf „sorrí hvað það er mikið drasl“ þegar fólk kemur í heimsókn.
Bandarísk rannsókn frá árinu 2017 sýndi fram á að foreldrar byrji að mismuna börnum sínum eftir kyni frá tveggja ára aldri. Þannig eru stelpum og strákum ekki kenndir sömu hlutir þegar þau alast upp sem eflaust stuðlar að „vandamálinu“ við skiptingu húsverka. Rannsóknir sýna einnig að þegar börn alast upp með föður sem tekur þátt í heimilisstörfum eru þau líklegri til að skipta húsverkum jafnt á milli sín og maka síns þegar þau verða eldri.
Þeir sem ekki alast upp við jafna skiptingu húsverka leysa oft vandamál heimilishalds með „to do“-listum, óendanlegum „to do“-listum. Ógrynni af félagslegum rannsóknum staðfesta það að konur búa til þessa lista og karlar velja hvað þeir vilja gera á þeim. En það gleymist oft að það felst vinna í því að búa til listann yfirhöfuð, úthluta verkefnum og sjá til þess að þeim sé framfylgt. Með því að bíða eftir því að vera beðnir um að gera eitthvað eru menn að bæta öðrum hlut á lista kvenna. Skopteiknarinn Emma tók listilega dæmi um þetta í myndasögu sinni „Þú hefðir átt að spyrja“ frá árinu 2017. Þegar konur þurfa að biðja maka sinn um hjálp við að halda heimili er eins og þeir séu að gera þeim greiða með því að sinna heimilisstörfum. Eins og þeir beri ekki jafn mikla ábyrgð á þeim.
Það sem verra er þá virðast konur alltaf vera ótrúlega þakklátar körlum fyrir að vinna sinn hlut af seinni vaktinni. Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt talað um karlmann sem svo „svakalegan feng“ vegna þess að hann kann að elda, eða er svo duglegur að ryksuga. Aldrei hef ég heyrt menn tala um hvað þeir séu þakklátir fyrir hvað konan þeirra sé dugleg að ryksuga. Þeir karlar sem sinna meira af seinni vaktinni á heimilinu í samanburði við aðra karlmenn eru séðir af samfélaginu sem óvenjulega hjálpsamir og góðir menn. Í bókinni The Second Shift, sem fjallað var um hér á undan, kemur fram að konum líði eins og þær séu elskaðar þegar karlmenn sinna heimilistörfum vegna þess að þeir séu að gera það af ást til þeirra. Karlar í bókinni mynduðu ekki þessa tengingu milli ástar og þrifa.
„Það hefur krafist mikillar vinnu að losa mig við hann og hætta að segja alltaf „sorrí hvað það er mikið drasl“ þegar fólk kemur í heimsókn“
Líklegt er að konur geri þessa tengingu milli ástúðar og húsverka vegna þess að með því að sinna heimilisþrifum þá eru karlmenn að gefa tíma sinn. Tíma sem er mun mikilvægari en tími kvenna. Konur fá minna borgað en karlar fyrir sömu störf. Svokölluð kvennastörf eru verst launuðu störfin í samfélaginu. Konur á Íslandi eyða helmingi meiri tíma í húsverk en karlar, 14 klukkustundum á viku á móti 7 klukkustundum á viku. Auk ómældrar andlegrar vinnu. Samfélaginu virðist finnast eðlilegt að konur fái bara borgað fyrir að vinna til 24. október á hverju ári og vinni auka mánuði við að sinna heimilisstörfum. En það er það ekki. Konur eiga ekki að vera þakklátar fyrir að karlmenn eyði sínum dýrmæta tíma í að sinna húsverkum án þess að fá jafn mikið þakklæti til baka.
Þrátt fyrir að vera þrautþjálfuð í andlegri vinnu í dag þá var ég það ekki alltaf. Þegar ég bjó hjá foreldrum mínum reyndi ég ómeðvitað að sinna sem allra minnst af annarri vaktinni og vildi ekki vita af þriðju vaktinni, líklega vegna þess að ég vissi að mamma mín myndi taka hana á sig. Ég beið eftir því að mamma byrgði fyrir herbergið mitt með óhreinum þvotti og drasli sem ég hafði ekki gengið frá sjálf og þá fyrst sinnti ég því með hangandi hendi og háum stunum. Ég óx úr grasi og lærði mína lexíu og ég tel að karlmenn geti gert slíkt hið sama.
Þriðja vaktin á það skilið að einhver taki eftir henni. Fólk almennt, ekki bara karlmenn, þarf að vera meðvitaðra um þessa ósýnilegu vinnu og viðurkenna mikilvægi hennar. Rannsóknir sýna líka að þegar annarri og þriðju vakt er skipt jafnt milli kynjanna er fólk hamingjusamara í sambandi sínu og stundar meira kynlíf. Karlmenn eiga ekki að þurfa að láta segja sér að þeir eigi að þrífa heima hjá sér eða að sjá um börnin sín. Þakklæti á að vera úthlutað jafnt. Konur eiga ekki að vera einar um að bera ábyrgð á því að sinna ákvarðanatöku í sambandi og hugsa fyrir öllu. Það á ekki að vera ósýnilegur framkvæmdastjóri á heimilinu.
Athugasemdir