Í hlýlegum samkomusal hjúkrunarheimilis sitja sparibúnir eldriborgarar og bíða. Fyrir framan þá stendur jólakór sem gerir sig tilbúinn fyrir hátíðarsöng. Andlitin eru kunnugleg og mætti halda að hér væri verið að taka upp íslenska kvikmynd. Stórleikarar þjóðarinnar í bland við minna þekkt andlit draga djúpt andann og hefja söng.
Tár falla, bæði í salnum og í kórnum sjálfum, og sumir í salnum syngja með. Nokkrir syngja á innsoginu um meinvilla mannkind sem lá í myrkrunum. Lokatónninn hverfur út í skammdegið, einlægt klapp, þurrkuð tár og ótal bros.
Þó að þetta gæti verið sena í kvikmynd, er enginn sem hrópar „KÖTT“ að lagi loknu. Engar myndavélar eru á staðnum, engin upptaka gerð – aðeins stöku farsími á lofti í hrukkóttum höndum og einn ljósmyndari. Í áratug hefur þessi kór starfað í kyrrþey með eitt hlutverk: að gleðja gamla fólkið á aðventunni – og sjálfan sig í leiðinni.




























Athugasemdir