Hægrimenn í Evrópuþinginu náðu að rýmka sjálfbærnireglur ESB

Hægri öfga­menn á Evr­ópu­þing­inu náðu sam­an með mið-hægri­mönn­um um að gera Evr­ópu­sam­band­ið við­skipta­vænna með því að bakka með regl­ur um sjálf­bærni.

Hægrimenn í Evrópuþinginu náðu að rýmka sjálfbærnireglur ESB
Evrópuþingið Meðlimir Evrópuþingsins á þingfundi í Brussel á miðvikudag. Aukin hægri sveifla er á þinginu eftir kosningarnar 2024. Mynd: AFP

Evrópuþingmenn greiddu í gær atkvæði með því að veikja mikilvægar umhverfis- og mannréttindareglur ESB, í tilraun til að gera sambandið viðskiptavænna og draga úr skriffinnsku. 

Stærsti mið-hægriflokkur þingsins tók höndum saman við öfgahægrimenn til að styðja breytingar á löggjöfinni um sjálfbærni fyrirtækja. Lögin voru samþykkt á síðasta ári og við fögnuð ýmissa samtaka á sviði umhverfisverndar og mannréttinda, en voru fyrirtækjum óþægur ljár í þúfu.

Niðurstaðan í gær olli mikilli óánægju meðal hefðbundinna samstarfsaðila mið-hægriflokksins EPP (European People's Party) á vinstri- og miðvængnum, sem fordæmdu það sem þeir litu á sem vanheilagt nýtt bandalag á hægri væng ESB-þingsins.

Rene Repasi úr flokki Sósíalista og demókrata (S&D) sakaði EPP um að hafa „skemmt fyrir öllum málamiðlunum“.

„Íhaldsmenn beittu rauðum penna – eyddu út öryggisnetinu og endursköpuðu sinn eigin meirihluta ásamt lýðræðisandstæðum öflum á jaðrinum,“ sagði hann.

Breytingarnar, sem miða að því að draga verulega úr gildissviði laganna, fengu stuðning 382 þingmanna, en 249 greiddu atkvæði á móti.

Öfgahægriflokkurinn Patriots fagnaði niðurstöðunni sem „verulegum árangri“ og „sigri fyrir launafólk, bændur og iðnað“.

„Í dag braut Patriots for Europe upp pattstöðu gömlu samsteypunnar og opnaði leiðina til að skipta spennitreyju Græna sáttmálans út fyrir samkeppnisdrifna stefnu,“ skrifaði flokkurinn á X og vísaði til metnaðarfullrar loftslagsstefnu ESB.

Meiri „fyrirsjáanleiki“

Textinn er einn sá fyrsti sem sprettur upp úr nýrri áherslu innan Evrópusambandsins á að efla bágstaddan iðnað Evrópu, sem á í erfiðleikum með að keppa við Bandaríkin og Kína.

Tilskipunin um áreiðanleikakönnun fyrirtækja vegna sjálfbærni (CSDDD) krefst þess að stór fyrirtæki bæti úr „neikvæðum áhrifum á mannréttindi og umhverfi“ í aðfangakeðjum sínum um allan heim.

Í því felst að fylgjast með skógareyðingu og mengun sem þau, ásamt birgjum sínum og undirverktökum, valda, auk annarra mála eins og nauðungarvinnu – og að grípa til aðgerða til að draga úr þeim.

Evrópuþingmenn studdu á fimmtudag að takmarka gildissvið hennar við stór fyrirtæki og hækka viðmiðunarmörkin úr 1.000 í 5.000 starfsmenn og meira en 1,5 milljarða evra (1,7 milljarða dala) í veltu – í samræmi við breytingar sem aðildarríkin höfðu samþykkt.

Þeir ákváðu einnig að afnema evrópska skaðabótaábyrgðarkerfið, sem átti að samræma skyldur fyrirtækja ef til brota kæmi, og vísa þess í stað til landslaga.

Nú á að hefjast lokaumferð samningaviðræðna við aðildarríkin og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem miðar að því að ganga frá breytingunum fyrir lok ársins.

Jörgen Warborn, þingmaður EPP sem lagði fram textann, sagði fyrir atkvæðagreiðsluna að breytingarnar myndu auka „fyrirsjáanleika“ og efla samkeppnishæfni fyrirtækja á sama tíma og „græn umskipti Evrópu haldist á réttri braut“.

Deilt um umfang breytinga

En þótt flestir flokkar væru sammála um þörfina fyrir breytingar hefur umfang þeirra reynst umdeilt.

Hollenski sósíaldemókratinn Lara Wolters, sem hafði barist fyrir upphaflegu lögunum, gekk út úr viðræðum.

Swann Bommier hjá umhverfissamtökunum Bloom sagði að breytingarnar myndu tæma lögin að innihaldi.

En Stephane Sejourne, framkvæmdastjóri iðnaðarmála ESB, sagði að textinn væri afrakstur víðtæks samráðs og „svar við ákveðnum og ítrekuðum kröfum aðildarríkja og nýs meirihluta á þinginu“.

Hægri- og öfgahægriflokkar, sem náðu verulegum árangri í Evrópuþingskosningunum 2024, hafa krafist þess að Brussel taki upp viðskiptavænni stefnu og hætti við hluta af grænni stefnu sinni.

Merz og Macron vildu bakka

Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, höfðu kallað eftir því að CSDDD, sem einnig hefur sætt gagnrýni frá viðskiptalöndum, yrði afnumin með öllu.

Textinn var lagður fram af framkvæmdastjórninni árið 2022 eftir þrýsting frá þinginu sem var innblásinn af hruni Rana Plaza fataverksmiðjunnar í Bangladess árið 2013, þar sem að minnsta kosti 1.134 manns létu lífið.

Samþykkt hennar árið 2024 var fagnað sem sögulegri og lofuð sem tímamótum í baráttunni fyrir verndun plánetunnar og betri starfsskilyrðum um allan heim.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég sprautaði mig í fyrsta skipti í meðferð“
5
ÚttektTýndu strákarnir

„Ég spraut­aði mig í fyrsta skipti í með­ferð“

Gabrí­el Máni Jóns­son upp­lifði sig alla tíð utangarðs. Hann féll ekki inn í hefð­bund­inn ramma skóla­kerf­is­ins og var snemma tek­inn út úr hópn­um. Djúp­stæð van­líð­an braust út í reiði og hann deyfði sára höfn­un með efn­um. Þar til hann fékk nóg og náði bata. „Ég gat ekki sætt mig við að vera gæ­inn sem ég hafði fyr­ir­lit­ið og hat­að frá barnæsku.“

Mest lesið í mánuðinum

Týndu strákarnir – sem fundu leiðina heim
3
ÚttektTýndu strákarnir

Týndu strák­arn­ir – sem fundu leið­ina heim

Á átján ára af­mæl­is­dag­inn vakn­aði Fann­ar Freyr Har­alds­son á neyð­ar­vist­un og fékk lang­þráð frelsi eft­ir að hafa þvælst í gegn­um með­ferð­ar­kerfi rík­is­ins. Hann, Gabrí­el Máni Jóns­son og Arn­ar Smári Lárus­son lýsa reynslu sinni af kerf­inu sem átti að grípa þá sem börn og ung­ling­ar. Tveir þeirra byrj­uðu að sprauta sig í með­ferð, samt sam­mæl­ast þeir um að þessi inn­grip séu lík­leg­asta ástæð­an fyr­ir því að þeir lifðu af. Ekk­ert lang­tíma­úr­ræði er fyr­ir stráka sem stend­ur.
„Eiginmaður minn hefur aldrei átt eignarhlut í Skeljungi“
6
Stjórnmál

„Eig­in­mað­ur minn hef­ur aldrei átt eign­ar­hlut í Skelj­ungi“

Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti Sjálf­stæð­is­flokks í borg­ar­stjórn, fjall­aði ít­rek­að um samn­inga sem vörð­uðu lóð­ir bens­ín­stöðva þrátt fyr­ir að eig­in­mað­ur henn­ar stýrði móð­ur­fé­lagi Skelj­ungs. Lóð­ir bens­ín­stöðva Skelj­ungs hafa síð­an ver­ið seld­ar til tengdra fé­laga fyr­ir vel á ann­an millj­arð króna. Hún seg­ir hæfi sitt aldrei hafa kom­ið til álita.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu