Mögulegar mútur Paramount og áhrif Trumps á CBS

Fjöl­miðla­fyr­ir­tæk­ið CBS og móð­ur­fyr­ir­tæki þess Paramount hafa sætt gagn­rýni und­an­far­ið eft­ir að til­kynnt var um að fram­leiðslu spjall­þátt­ar Stephen Col­bert, Late Show, yrði hætt á næsta ári. Col­bert hef­ur ver­ið gagn­rýn­inn á rík­i­s­tjórn Don­ald Trumps. Paramount hef­ur ver­ið sak­að um mögu­leg­ar mút­ur sem hagn­ast Trump.

Mögulegar mútur Paramount og áhrif Trumps á CBS

Þáttastjórnandinn Stephen Colbert sem hefur stýrt spjallþættinum The Late Show síðastliðin fimmtán ár greindi frá því fyrir helgi að næsta sería yrði sú síðasta. Ákvörðunin var tilkynnt nokkrum dögum eftir að Colbert gagnrýndi CBS, sem sýnir Late Show, fyrir að lúta Donald Trump Bandaríkjaforseta. Trump hefur undanfarið verið ósáttur við CBS og kærði fyrirtækið síðasta haust. 

Segja ákvörðunina fjárhagslega

„Ég verð að segja ykkur svolítið sem ég fékk bara að vita í gær. Næsta ár verður síðasta serían. Sjónvarpsstöðin ætlar að hætta með Late Show í maí,“ sagði Colbert við áhorfendur sína á fimmtudaginn. Þeir voru ekki par sáttir og mátti heyra áhorfendur í sal púa. „Já, ég er sammála ykkur,“ sagði Colbert. 

Í tilkynningu frá CBS sem sýnir þættina segir að eingöngu sé um „fjárhagslega ákvörðun í krefjandi umhverfi seint á kvöldin“ að ræða. Þá sagði CBS að ákvörðunin sneri „ekki á nokkurn hátt að frammistöðu þáttarins, efni hans eða öðrum málum sem eru í gangi hjá Paramount.“

Ákvörðun CBS um að taka þáttinn af dagskrá kemur aðeins nokkrum dögum eftir að Colbert gagnrýndi Paramount, móðurfyrirtæki CBS, fyrir að ná sáttum í máli við Donald Trump Bandaríkjaforseta. Greiddi Paramount forsetanum 16 milljónir dala vegna máls sem að hann höfðaði gegn CBS News fyrir viðtal í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes við Kamölu Harris sem var þá forsetaframbjóðandi Demókrata. 

Málið höfðaði Trump í október 2024, sem einstaklingur, vegna meintrar „hlutdrægni, ólöglegra kosninga og afskipta við kjósendur.“ CBS vildi vísa málinu frá og kallaði það „móðgun við fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar“ og sagði að kærurnar ættu sér „ekki stoð í lögum eða staðreyndum.“ 

„Paramount veit að þeir hefðu getað barist gegn því,“ útskýrði Colbert í Late Show síðasta mánudag. En fyrirtækið hafði sjálft kallaði málsóknina „algjörlega tilefnislausa.“

Efast ástæður Paramount

Paramount og CBS hafa undanfarið sætt mikilli gagnrýni. En Paramount hefur sótt um samþykki frá bandarísku fjarskiptastofnuninni – FCC – fyrir 8,4 milljarða dala samruna við Skydance Media. 

Þannig þykir sumum Paramount vera að koma sér í mjúkinn hjá Trump til þess að tryggja samrunan og hafa því áhyggjur af fjölmiðlafrelsi. 

Freedom of the Press Foundation sagði um ákvörðun Paramount að semja við Trump í byrjun mánaðar: „Í dag er svartur dagur fyrir fjölmiðlafrelsi. Sú undirgefna ákvörðun Paramount að semja um tilefnislausa málsókn Trumps sem brýtur gegn stjórnarskránni er móðgun við blaðamenn 60 Minutes og gefur Trump tækifæri til að halda áfram að beina sjónum sínum að öðrum fréttamiðlum. Í hvert skipti sem fyrirtæki kippist við og verður við kröfum Trumps hvetur það hann einungis til að gera það aftur.“

Mögulegar mútur

Elizabeth Warren öldungadeildarþingmaður sagði um ákvörðun CBS að aflýsa Late Show: „CBS aflýsti þætti Colberts aðeins ÞREMUR DÖGUM eftir að Colbert gagnrýndi Paramount, móðurfélag CBS ... Bandaríkin eiga skilið að vita hvort þáttum hans var aflýst af pólitískum ástæðum.“

Warren ásamt öldungadeildarþingmönnunum Bernie Sanders og Ron Wyden opnuðu í lok maí rannsókn til að athuga hvort Paramount væri að múta Trump vegna samþykkis sem fyrirtækið þarf fyrir átta milljarða dollara risasamruna við Skydance Media. „Paramount virðist vera að reyna að halda friði við stjórnina til að tryggja samþykki sameiningarinnar,“ sögðu þau um málið. 

Warren, Sanders og Wyden skrifuðu til Shari Redstone, stjórnarformanns Paramount Global, og lýstu áhyggjum af því hvort Paramount væri að taka þátt í ólöglegri hegðun gagnvart Trump-stjórninni í skiptum fyrir samþykki fyrir risasamruna fyrirtækisins við Skydance Media.

Í yfirlýsingu vegna rannsóknar þeirra sagði um sáttir Paramount og Trump: „Nú virðist Paramount vera að draga til baka skuldbindingar sínar um að verja réttindi CBS samkvæmt fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar.“ Trump hagnast á sáttinni.

Sagði af sér vegna minna frelsis

Fleiri hafa fundið fyrir breytingum innan CBS í ljósi aðkomu ríkisins sem þarf fyrir samrunann. Bill Owens, framleiðandi 60 Minutes sem sýndur er á CBS News, tilkynnti í apríl að hann hefði sagt af sér. Taldi Owens sig ekki lengur hafa frelsi til að stýra þættinum og taka sjálfstæðar ákvarðanir. 

Í minnisblaði til starfsfélaga sinna sagði Owens: „Það varð mér ljóst að mér yrði ekki leyft að stýra þættinum eins og ég hef alltaf gert, að taka sjálfstæðar ákvarðanir út frá því sem væri rétt fyrir 60 mínútur, rétt fyrir áhorfendur.“

Owens var framleiðandi þegar Trump lögsótti CBS fyrir viðtalið við Kamölu Harris. Í frétt CNN um málið segir: „Afsögn Owens tryggði Trump annan stórsigur gegn sjónvarpsstöðinni.“

Kjósa
13
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hann var búinn að öskra á hjálp
2
Viðtal

Hann var bú­inn að öskra á hjálp

Hjalti Snær Árna­son hvarf laug­ar­dag­inn 22. mars. For­eldr­ar hans lásu fyrst um það í frétt­um að hans væri leit­að í sjón­um, fyr­ir það héldu þau að hann væri bara í göngu­túr. En hann hafði lið­ið sál­ar­kval­ir, það vissu þau. Móð­ir Hjalta, Gerð­ur Ósk Hjalta­dótt­ir, lýs­ir því hvernig ein­hverf­ur son­ur henn­ar gekk á veggi allt sitt líf, og hvernig hann veikt­ist svo mik­ið and­lega að þau voru byrj­uð að syrgja hann löngu áð­ur en hann var dá­inn.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár