„Ákveðin hætta á því að þetta verði bestu dagar sumarsins“

Trausti Jóns­son veð­ur­fræð­ing­ur seg­ir að síð­ast hafi ver­ið við­líka góð­viðri í maí ár­ið 1987. Hann hvet­ur fólk til að nýta sér veð­ur­blíð­una, en hugs­an­legt sé að nú fari í hönd bestu dag­ar sum­ars­ins.

Ég ráðlegg fólki að ef það koma svona góðir dagar snemma, eins og núna, að reyna að nota þá. Það er um að gera að grípa gæsina meðan hún gefst. Ef það koma svo fleiri góðir dagar í júlí og ágúst þá er það bara bónus.“

Þetta segir veðurfræðingurinn Trausti Jónsson í samtali við Heimildina. Blíðskaparveður hefur verið á landinu síðustu daga og spáð er hlýju og sólríku veðri á landinu öllu um helgina. Þegar þetta er ritað er því spáð að hitinn muni víða ná tuttugu gráðum, en hitamet var slegið fyrir maímánuð á Egilsstöðum á fimmtudag.

Svipað góðviðri í maí 1987

Spurður hvort það sé algengt að svona margir góðviðrisdagar geri vart við sig svona snemma árs svarar Trausti því neitandi. „Ég man eftir svona einu tilviki þar sem þetta var á þessum tíma. Það var 1987, þá komu svona rosalega góðir tíu dagar í maí. En allt sem er svona sex til átta dagar, það er mjög óvenjulegt. Það er ákveðin hætta á því að þetta verði bestu dagar sumarsins,“ segir hann.

Það hafi áður komið fyrir, þótt sjaldgæft sé, að hlýjustu dagar ársins séu í maí. „Því hærri sem hitinn er í maí því líklegra er að það verði hæsti hitinn,“ segir hann. 

Undanfarið hefur veðrið verið með því allra hlýjasta á þessum árstíma. Hitamet var slegið á Egilsstaðaflugvelli klukkan 13.25 á fimmtudag, þar sem hitinn náði 25,8 gráðum. Fyrra met fyrir maímánuð var 25,6 gráður og var sett á Vopnafirði árið 1992.

Alltaf spennandi að sjá hvort sumarið komi

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að sumarið verði gott í ár segir Trausti að hann hafi áttað sig á því að það verði að taka því sem gefist. „Það er eitt af því sem er spennandi við íslenskt veðurfar – að það er eiginlega ekki sumar á hverju ári, eins og er í útlöndum. Það er alltaf spurningin um það hvort við fáum sumar í ár.“

Trausti segir að til dæmis hafi sumarið í fyrra verið nokkuð dauft, en það hafi átt við um landið nær allt. „Svo í hittifyrra þá – á Suðvesturlandi – var seinni hlutinn bara býsna góður en maí og júní  voru mjög vondir. Það gerði slæmt veður seint í maí þar sem það fór svo mikið af laufi af trjám. Svo við sátum uppi með lauflítil tré mestallt sumarið. Svo það var mjög skrítið sumar.“

Hann segir að allur gangur hafi verið á vorum síðustu ára, en árið í ár hafi verið nokkuð hlýtt hingað til. „Það var nú kalt í janúar. En hlýtt alveg síðan. Það sem búið er af árinu – það er með hlýrri árum. En það er nú ekkert met samt enn þá.“ Trausti bætir því við að í fyrra og hitteðfyrra hafi verið nokkuð köld ár miðað við undanfarin ár. „En ekki miðað við það sem var fyrir 30–40 árum. Það var oftast kalt þá.“

Íslendingar kvarti mikið undan veðri

Trausti segir að Íslendingar séu heilt yfir mjög duglegir að kvarta undan veðri. Margir hafi rætt við hann um veðrið í gegnum tíðina, því þeir könnuðust við hann úr sjónvarpinu. „Það var alltaf verið að tala um veðrið við mig. Alveg stöðugt. Fólk var að kvarta undan þessu skítasumri, það var fastur liður eins og venjulega. Svo allt í einu 2003, það var mjög minnisstætt, þá var fullt af fólki að tala um hve yndislegt sumar hefði verið. Fólk sem hafði alltaf verið kvartandi undan veðri í 25 ár.“

Trausti útskýrir að fyrir um 20 til 25 árum hafi nefnilega hlýnað mikið á Íslandi miðað við það sem áður var. „Alveg risastórt stökk. Maður ætlaði eiginlega ekki að trúa því,“ segir hann.

Sumrin í fyrra og hitteðfyrra hafi því verið nokkuð köld miðað við síðustu ár, en ekki miðað við hvernig hitinn var fyrir 30–40 árum. „Þá var þetta bara venjulegt. Það var oftast kalt þá. Við sem erum komin á minn aldur erum svolítið á því að viðmið ykkar yngra fólksins sé allt annað.“

Kjósa
7
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu