Hvað gerðist í Suður-Mjódd?

Hvernig get­ur það kom­ið kjörn­um full­trú­um Reykja­vík­ur­borg­ar á óvart að stærð­ar­inn­ar at­vinnu­hús­næði rísi næst­um inni í stofu hjá íbú­um í Breið­holti? Svar­ið ligg­ur ekki í aug­um uppi, en Dóra Björt Guð­jóns­dótt­ir, formað­ur um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs borg­ar­inn­ar, seg­ir mál­ið frem­ur frá­vik frá stefnu borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­ans um þétta bland­aða byggð frem­ur en af­leið­inga henn­ar.

Hvað gerðist í Suður-Mjódd?
Stórhýsi Suður-Mjódd er nýtt uppbyggingarsvæði í borginni. Stórhýsið sem risið hefur við Álfabakka á undanförnum vikum hefur komið kjörnum fulltrúum í opna skjöldu. Mynd: Golli

Suður-Mjódd í Reykjavík er nú eitt umtalaðasta svæði landsins, eftir að vakin var athygli á því að nýtt atvinnuhús, ógnarstórt og að flestra dómi frekar ljótt, stendur afar nærri nýlegu fjölbýlishúsi á svæðinu og blasir við út um gluggann hjá hluta íbúa. Byrgir þeim hreinlega sýn.

Flest venjulegt fólk sér myndir, ekur eða gengur þarna fram hjá og skilur ekki hvernig þetta hefur gerst. Hvernig skipulag borgarinnar, sem á endanum er á ábyrgð stjórnmálamanna sem fá leiðsögn og leiðbeiningar frá sérfræðingum í skipulagsmálum, getur leitt til svona útkomu.

Það gerir Sigurdís Jónsdóttir, íbúi í næsta húsi við nýja stórhýsið, Árskógum 7, ekki heldur. Hún býr í íbúð á vegum Búseta og var sú eina sem lýsti yfir áhyggjum af deiliskipulagsbreytingum á svæðinu þegar verið var að breyta skipulagi svæðisins við Álfabakka 2 og sameina þar fjórar lóðir í eina, árið 2022.

TeikningÞessi teikning sýnir útlit hússins við Álfabakka 2. Hún var ekki komin fram þegar kjörnir fulltrúar samþykktu deiliskipulagsbreytingar á reitnum árið 2022.

Í svörum frá embætti skipulagsfulltrúa borgarinnar til Sigurdísar var hins vegar beinlínis slegið á áhyggjur hennar og henni tjáð að nánast væri hægt að fullyrða að fimm hæða bygging risi ekki á allri lóðinni. Það er tæknilega rétt, húsið er vissulega fimm hæðir, en byggingin sem er risin er þó svipað há og fjögurra hæða fjölbýlishúsið sem þau búa í.

Í stuttu samtali við Heimildina segist Sigurdís ekki skilja hvernig svona nokkuð geti gerst. Hún og maður hennar fluttu í hús Búseta fyrir nokkrum árum, til þess að komast í húsnæði með lyftu, en áður höfðu þau búið í lyftulausu húsi í Breiðholti. Nú sitja þau uppi með það að úr íbúðinni þeirra, á efstu hæðinni við Árskóga 7, sést varla yfir nýja atvinnuhúsnæðið. 

Fjórar lóðir sem seldust ekki stakar sameinaðar á ný

Húsið við Álfabakka 2 reis hratt á síðustu vikum, eins og stálgrindarhúsa er háttur, en uppbygging atvinnustarfsemi á þessari lóð á sér langan aðdraganda. Fyrstu skipulagstillögur borgarinnar um athafna- og verslunarsvæði í Suður-Mjódd frá árinu 2009 voru á þá leið að á þessari lóð myndi rísa hús af svipaðri stærð og það sem nú er risið, en þó með töluvert meira uppbroti í hæð.

Hins vegar hafa þó nokkrar skipulagsbreytingar verið gerðar á svæðinu frá þeim tíma. Um hríð var horft til þess að lóðin yrði bútuð niður í fjórar stakar einingar, Álfabakka 2a–2d. Byggingarréttur á þessum fjórum lóðum var boðinn út árið 2019 án þess að nokkuð gilt tilboð bærist í neina þeirra. Síðan var byggingarrétturinn áfram auglýstur til sölu á vef borgarinnar eins og hver önnur hilluvara. Það var svo ekki fyrr en í upphafi árs 2021 sem fjárfestingafélagið sem nú byggir stórhýsið gerði samning um lóðirnar, sem var háður þeim fyrirvara að skipulagi yrði breytt með þeim hætti að lóðirnar fjórar yrðu sameinaðar í eina og heimild veitt til þess að byggja þar eitt stærðarinnar hús.

Þetta var verðmætur samningur fyrir Reykjavíkurborg, sem allt í allt fær hátt í milljarð króna frá félaginu sem er að byggja húsið fyrir byggingarréttinn og gatnagerðargjöld. Mikil umræða hefur verið um þetta mál undanfarna daga og Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir borgina enn vera að „reyna að botna það“ nákvæmlega hvar var farið út af sporinu varðandi uppbygginguna og það samspil íbúðabyggðar og atvinnuhúsnæðis sem birtist nú í Suður-Mjódd. 

Spurð hvort borgin hafi gefið einhvern afslátt af sínum kröfum í skipulagsferlinu, vegna þeirra hagsmuna sem borgin hafði af sölu byggingarréttarins, segist Dóra Björt, sem sjálf átti ekki sæti í umhverfis- og skipulagsráði þegar skipulagið var til umfjöllunar þar árið 2022, telja að það væri mikil einföldun að nálgast málið með þeim hætti. Hún bendir á að það hafi ekki verið ný hugmynd að þarna yrði ein stór samfelld bygging, sem myndi skerma af hávaðann frá Reykjanesbrautinni. Þvert á móti hafi það verið upprunalega nálgunin í skipulaginu.

Hins vegar telur Dóra Björt það bæði „skrítið“ og „sérstaklega ámælisvert“ að þarna sé að rísa „mjög lítið sjarmerandi bygging“ og risastór auður veggur.

„Það hefði verið hægt að forma bygginguna öðruvísi. Þegar þú ert með svona háa byggingu þá er hægt að láta hana trappast niður að byggðinni og þá verður upplifun þín af byggingunni allt önnur. Formið á þakinu hefur áhrif á það hvernig þú upplifir byggingu, ef þú ert með hallandi þak upplifir þú bygginguna lægri en hún er og þá upplifir þú ekki smæð þína jafnmikla. Það er oft talað um þennan mannlega skala og það er útfærslan, ásýndin, útlitið og sú upplifun sem þetta skapar sem er ámælisvert og er stóra málið í þessu, að mínu mati,“ segir Dóra Björt.

SkipulagDóra Björt Guðjónsdóttir er núverandi formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Hún segir að eftir að athygli var vakin á byggingu hússins við Álfabakka hafi hún farið að skoða skipulagssögu svæðisins og áttað sig á því að árið 2015 hafi fjölbýlishúsið sem byggt var á vegum Búseta verið fært eiginlega alveg að lóðarmörkunum. Sú skipulagsbreyting hafi verið að frumkvæði Búseta og alltaf hafi legið fyrir að á lóðinni við Álfabakka 2 yrði atvinnuhúsnæði.

Í samtali við blaðamann segir Dóra Björt að í borginni sé að byggjast upp blönduð byggð, með atvinnustarfsemi og íbúðarhúsnæði innan hverfa. „Það eru kostir við að hafa atvinnustarfsemi þarna. En það sem við sáum ekki fyrir var að þarna yrðu mögulega einhverjir þungaflutningar og þetta yrði vöruskemma og þá ekki einhver lifandi þjónusta sem myndi gagnast hverfinu. Þetta var eitthvað sem kom á óvart, því þegar það var talað um að þarna væri að hefjast uppbygging var okkur sagt að þarna væru að koma höfuðstöðvar Haga og mögulega annars stórfyrirtækis, við bjuggumst við að þetta yrði allt öðruvísi bygging,“ segir Dóra Björt.

Hún hefur undanfarna daga látið eftir sér hafa að uppbyggingaraðilar hafi of mikið svigrúm, setja þurfi fram stífari ramma til að vinna innan svo gæði byggðar séu tryggð. Hún hefur fundið fyrir því að það séu ekki allir sammála henni í því og sumir segi að það geti komið í veg fyrir að snjallir arkitektar og hönnuðir komi fram með góðar lausnir.

„En það þarf að tryggja ákveðin grunngæði og eins og staðan er í dag hefur verið rosalega mikill fókus á það um lengri tíma, í skipulagsmálum á Íslandi, að einfalda ferla og reglur. Það hefur verið mjög mikil umræða um það og mjög lítil umræða um af hverju reglurnar skipta máli og hvaða reglur skipta máli og hvaða kvaðir skipta máli. Það er stundum látið eins og kerfið sé alltaf bara að reyna að flækjast fyrir og sé bara alltaf til vansa,“ segir Dóra, sem telur  „ótrúlega neikvætt viðhorf gagnvart hlutverki kerfisins þegar kemur að uppbyggingu“ á meðan að hlutverk þess sé að tryggja gæðin og að hlutir séu gerðir faglega og almennilega.

Frávik frá stefnunni en ekki afleiðing hennar

Í fjölmiðlastormi undanfarinna daga hefur þroti þéttingarstefnunnar verið lýst yfir. Spurð hvort þetta mál rýri ekki trúverðugleika þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið varðandi uppbyggingu höfuðborgarinnar segist Dóra Björt ekki viss um að þetta komi stefnunni um blandaða, þétta byggð við.

„Við viljum að borgin sé þannig að fólki líði vel. Ég horfi á þetta sem frávik af stefnunni en ekki afleiðingu af stefnunni,“ segir hún og setur svo út á það sem uppbyggingaraðilar við Álfabakka hafa sagt, að þeir hafi bara farið eftir skipulagsheimildum borgarinnar í einu og öllu.

„Það var bæði svigrúm til að gera vel og gera illa
Dóra Björt Guðjónsdóttir

„Það er alveg rétt að þeir brutu í sjálfu sér ekki gegn því sem var í skipulagi, en það var bæði svigrúm til að gera vel og gera illa. Klárlega berum við ábyrgð á því þá og þurfum að endurskoða þetta svigrúm sem er gefið. Það er hægt að túlka það í mjög neikvæða átt eins og þetta er dæmi um, en það er líka hægt að túlka þetta í jákvæða átt og það er hægt að hafa gluggasetningu og jákvætt umhverfi og góða tengingu við umhverfið. Það er hægt að leysa þetta vel innan þess skipulags sem þarna liggur fyrir en það var sannarlega þannig að það var ekki gert og það er þá hægt að segja að við bæði viljum að uppbyggingaraðilar hafi einhvern metnað og að byggingarreglugerð tryggi metnaðinn,“ segir Dóra Björt.

Hún telur skrítið hve lítið hefur verið rætt um gæði byggðar og nefnir að fyrst á þessu ári hafi verið hreyfing í þá átt að koma skilyrðum um birtu í húsnæði inn í byggingarreglugerð. „Mér finnst þetta vekja okkur til stærra samtals,“ segir borgarfulltrúinn, sem kveður lobbíista í Samtökum iðnaðarins hafa staðið gegn slíkum breytingum í átt til aukinna gæðakrafna.

ÁlfabakkiDeiliskipulagsbreytingar á þessu svæði hafa verið tíðar frá því að skipulag fyrir Suður-Mjódd var fyrst sett fram árið 2009.

„Það er búið að vera að hlusta rosalega mikið á aðila sem eiga mikið undir í því að vera ekki að bæta við gæðastöðlum eða kvöðum eða þessum hlutum. Það eru bara lobbíistar sem standa með uppbyggingaraðilum.“

„Mjög vont“ svar til íbúa

Eins og nefnt var í inngangi var blásið á áhyggjur íbúa við Árskóga 7 af fyrirhugaðri uppbyggingu í skipulagsferlinu árið 2022, í svari frá verkefnastjóra hjá borginni. Spurð hvort það sé ekki bagalegt segir Dóra að segja megi að þetta hafi verið „svolítið óábyrgt svar“ því það hafi skapað hugrenningatengsl og væntingar um lægra hús á reitnum sem svo hafi ekki verið uppfylltar þegar niðurstaðan kom fram. 

Hún segir að þetta svar frá þáverandi verkefnastjóra skipulagsfulltrúa borgarinnar hafi svo einnig kannski villt um fyrir þeim fulltrúum sem tóku málið til umfjöllunar. Tæknilega megi færa rök fyrir því að svarið hafi ekki verið efnislega rangt, þar sem svarið miðaðist við að byggingarheimildirnar yrðu lagðar flatar yfir alla lóðina, en það hafi gefið allt aðrar væntingar en síðan raungerðust. Það segir Dóra Björt vera „mjög vont“. 

Hlutverk starfsmanna skipulagsfulltrúa sé nefnilega bæði að veita íbúum upplýsingar og einnig kjörnum fulltrúum, sem eigi að geta sett sig inn í mál og staðið vörð um hagsmuni íbúa án þess að krafa sé uppi um að þau séu faglega menntuð á sviði skipulagsmála.

„Það er ábyrgðarhluti að svara spurningum og vangaveltum á eins ábyrgan hátt og hægt er þannig að það sé bara gagnsætt og að leikmaður úti í bæ skilji það á réttan hátt. Lykilþáttur í þessu lýðræðisferli er að upplýsingarnar séu réttar og eins nákvæmar og hægt er. Mér finnst þetta svar mjög miður,“ segir Dóra Björt.

Vont fyrir traustið

Sara Björg Sigurðardóttir er formaður íbúaráðs Breiðholts, en þar situr hún fyrir hönd Samfylkingarinnar og er einnig varaborgarfulltrúi flokksins. Hún segir að bæði íbúaráðið og hún sjálf hafi kallað eftir skýrri framtíðarsýn um Mjóddina alla, ekki bara svæðið í Suður-Mjódd heldur líka Mið-Mjóddina og Norður-Mjódd, en á síðastnefnda svæðinu er mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis fyrirhuguð á næstu árum.

ÍbúaráðSara Björg Sigurðardóttir er varaborgarfulltrúi Samfylkingar og formaður íbúaráðs Breiðholts.

Um uppbygginguna við Álfabakka og það sem birst hefur á undanförnum vikum segir Sara að þarna hafi orðið mistök, enginn vafi sé á því. „Það þarf að tryggja að svona gerist ekki aftur. Það er jafnvægislist á milli íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis sem fer þarna forgörðum, því miður,“ segir Sara Björg. 

Eftir á að hyggja telur hún einsýnt að lóðin næst íbúabyggðinni hefði átt að vera tekin sérstaklega fyrir og þar hefðu skilmálar uppbyggingar þurft að hafa mun skýrari ramma. Þetta mál sýni mikilvægi þess að setja fram heildstæða framtíðarsýn fyrir uppbyggingarsvæðin í Mjóddinni.

„Svona bútasaumsvinna er hættuleg þegar þú ert kominn með svona mikið nábýli. Ég held að allir séu sammála um það að við viljum hafa öflugt atvinnulíf og blómlega þjónustu. Það er mikill styrkur að bjóða upp á atvinnulóðir í austurborginni, en þarna urðu dýrkeypt mistök. Þetta skapar vantraust á aðra uppbyggingu líka,“ segir Sara, sem segist strax sjá þess merki í umræðum á íbúasíðum hverfisins á netinu.

„Það þarf að tryggja að svona gerist ekki aftur. Það er jafnvægislist á milli íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis sem fer þarna forgörðum, því miður.
Sara Björg Sigurðardóttir
formaður íbúaráðs Breiðholts

„Svona mistök geta verið erfið fyrir umræðuna,“ segir Sara. Það sé miður þar sem það sé brýn húsnæðisþörf í borginni og að mál sem þetta geti skemmt fyrir góðri vinnu sem hafi átt sér stað á öðrum uppbyggingarreitum.

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár