„Við höfum verið að þokast vel áfram. Við erum komin mjög vel á veg málefnalega séð. Ég tek undir – eins og bæði Inga [Sæland, formaður Flokks fólksins] og Þorgerður Katrín [Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar] hafa sagt – að við erum bara komin mjög vel á veg og nálægt hver annarri hvað varðar að klára málin.“
Þetta segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, við Heimildina um stöðu stjórnarmyndunarviðræðna Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins.
Ekki aðeins horft til efnahagsmála
Nú eru að störfum vinnuhópar, sem hver er skipaður tveimur fulltrúum úr hverjum flokki, sem móta tillögur á helstu málefnasviðum.
„Við erum búin að vera með sex vinnuhópa starfandi í þessum málaflokkum. Við erum að reyna að fá breiðu línurnar fram og knýja fram ákveðnar niðurstöður í þyngri málum – eins og efnahagsmálum og stórum málaflokkum eins og heilbrigðis- og húsnæðismálum, sem dæmi,“ segir Kristrún.
„Við erum að reyna að koma grunnsviðsmyndum á hreint,“ segir formaður Samfylkingarinnar og bætir því við að formennirnir séu mjög meðvitaðir um efnahagsmálin. „Það þýðir ekki að það sé það eina sem sé verið að horfa á, alls ekki. Auðvitað er verið að ræða auðlindir, velferð, húsnæðismarkað og annað. En við vitum að ef við hreyfum okkur rangt út frá efnahagsmálunum þá grefur það undan öllu öðru.
Við viljum að þessi rammi og tilfinning allra sé sú sama. Þannig að þegar við förum síðan að skipta okkur meira af hversu mikið við ætlum að beita okkur í hverjum og einum málaflokki að við vitum að við séum innan svigrúms. Um það snýst þessi vinna í raun.“
„Við vitum að ef við hreyfum okkur rangt út frá efnahagsmálunum þá grefur það undan öllu öðru
Samstiga um margt
Hún segir aðspurð að viðræður flokkanna séu komnar mjög vel á veg í efnahagsmálunum. „Við erum allar sammála um að við viljum reiða okkur sem minnst á Seðlabankann hvað það varðar að vextir þurfi að vera hér áfram háir og að verðbólgunni sé náð fyrst og fremst niður með því.“
Kristrún segir þó að ekki sé tímabært að fara yfir hvernig áætlun í efnahagsmálum myndi líta út. „Ef þessu lýkur með stjórnarsáttmála þá fylgja því ekki fullmótuð fjárlög eða fjármálaáætlun – en þá er fólk með samstiga væntingar um hvernig vinnan fer af stað.“
Spurð hvort niðurstaða sé komin í einhverjum málum segir Kristrún að flokkarnir hafi verið fyrir fram samstiga um margt. Hún tekur þó fram að það sé heldur ekki tímabært að ræða það sérstaklega. „Fólk getur nú bara lagt tvo og tvo saman og skoðað kosningaáherslur flokkanna, til dæmis, og áttað sig kannski á því hvar línan liggur hvað það varðar. Það er ýmislegt sem þurfti ekki miklar umræður.“
Ótímabært að tjá sig um ráðherra
Í gær skrifaði almannatengillinn Andrés Jónsson færslu á Facebook þar sem hann sagði að samkvæmt hans heimildum nálægt stjórnarmyndunarviðræðunum kæmi til greina að kalla til allt að þrjá utanþingsráðherra í svokallaða Valkyrjustjórn. Nefndi hann til dæmis að Daði Már Kristófersson, fráfarandi varaþingmaður Viðreisnar, gæti orðið fjármálaráðherra.
Þegar þessi spá er borin undir Kristrúnu segist hún lítið geta tjáð sig, enda sé ekki tímabært að segja til um það hvernig ríkisstjórnin muni líta út ef hún verður mynduð. Ekkert hafi verið talað um endanlega skiptingu á ráðuneytum.
„Ég get alveg skilið að fólk hefur áhuga á því að geta í eyðurnar. Það getur verið áhugavert og skemmtilegt. Það er ekkert tímabært að fara að tjá sig um þetta þegar það er ekki einu sinni búið að klára þessa umræðu. Hún er svona rétt á fyrstu metrunum.“
Athugasemdir