Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

Hæglæti er ofurkraftur í heimi sem er háður hraða

„Í heimi sem er háð­ur hraða er hæg­læti of­urkraft­ur,“ seg­ir Carl Hon­oré, sem breið­ir út boð­skap um ávinn­ing hæg­læt­is og hæg­ara sam­fé­lags. Fyrsta skref­ið í átt að hæg­ari lífstakti er að læra að segja nei. „Þeg­ar þú seg­ir nei við hlut­um sem skipta ekki máli þá ertu að segja já. Stórt já við hlut­um sem skipta í raun og veru máli.“

Hæglæti er ofurkraftur í heimi sem er háður hraða
Hæglæti er dyggð Carl Honoré, talsmaður Hæglætishreyfingarinnar (e. The Slow Movement) segir tækifærin til að hægja á svo sannarlega til staðar á Íslandi. „Þetta er lítill, fallegur staður með náttúruna alltumlykjandi og það er ekki hægt að fara hratt yfir þegar móðir náttúra nálæg. Að vera umkringd náttúrunni hægir á okkur, það er bara þannig.“ Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Þegar Carl Honoré, blaðamaður og rithöfundur, stóð sjálfan sig að því að kaupa bókina Einnar mínútu sögur fyrir svefninn til að stytta tímann sem fór í að koma börnunum í háttinn ákvað hann að líta á það sem vakningu. Vakningu til að hægja aðeins á. 

„Ég ætlaði meira að segja að panta bókina með hraðsendingu frá Amazon. Á þessum tímapunkti áttaði ég mig á að ég var búinn að tapa áttum. Ég var búinn að missa vitið, ég var fastur á hamstrahjóli. Þetta var fáránlegt, ég var að lesa það hratt fyrir börnin mín að í minni útgáfu af Mjallhvíti og dvergunum sjö voru bara þrír dvergar. Það var ekki gott. Þegar það rann upp fyrir mér að ég var pabbinn sem fannst góð hugmynd að lesa 60 sekúndur af Mjallhvíti þá er það ákveðinn endapunktur. En á sama tíma var þetta stökkpallurinn minn inn í hæglætishreyfinguna,“ segir Carl. 

Augnablikin með börnunum eru dýrmæt en flestir foreldrar kannast eflaust við að flýta sér í gegnum flestar athafnir hversdagsins. „Við vitum að þetta eru augnablikin sem verða dýrmætust eftir 20 ár en það eru ýmsar ástæður fyrir því að við reynum að hraðspóla í gegnum þau. Ég hafði alls konar ástæður fyrir því að fækka dvergunum úr sjö í þrjá í sögunni um Mjallhvíti, það var í alvöru mikið að gera. En við verðum háð hraðanum, okkur er kennt að vinna hratt og þegar við setjumst niður til að lesa sögu erum við enn í þessum hraða takti. Þetta verður ávani og viðbragð, að gera allt hratt.“

„Ég var að lesa það hratt fyrir börnin mín að í minni útgáfu af Mjallhvíti og dvergunum sjö voru bara þrír dvergar“
Carl Honoré,
talsmaður Hæglætishreyfingarinnar (e. The Slow Movement)

Vegferð Carls inn í Hæglætishreyfinguna hófst á persónulegum nótum og út frá hugmyndum hans um að njóta kvöldlestursins með börnunum hófst vegferð hans að því að verða rödd Hæglætishreyfingarinnar á heimsvísu. 

Að gera eitthvað hægt er ekki neikvætt

Carl er fæddur í Skotlandi en ólst upp í Kanada og starfaði sem blaðamaður, mestmegnis sem erlendur fréttaritari, áður en hann áttaði sig á að hann var að ferðast í gegnum lífið á ofurhraða og ákvað að hægja á og helga líf sitt Hæglætishreyfingunni. Nú eru rúm 20 ár liðin og í dag er Carl talsmaður Hæglætishreyfingarinnar (e. The Slow Movement) á heimsvísu. Fyrirlestrar hans um ávinning hæglætis og hægara samfélags hafa vakið athygli og Carl er þekktur sem „rödd hæglætis“ víða um heim. Carl hlær þegar hann er spurður hvernig maður verður rödd heillar hreyfingar? 

 „Einhvern veginn varð ég andlit þess að takast á við hraða menningu og breiða út boðskap hæglætis. Mottóið mitt er að í heimi sem er háður hraða er hæglæti ofurkraftur. Það kjarnar allt sem ég vil segja um Hæglætishreyfinguna.“ Menning nútímasamfélags einkennist af hraða og Carl bendir á að að gera eitthvað hægt er almennt talið slæmt og að orðið „hægt“ sé samnefnari yfir eitthvað neikvætt. „Til dæmis leti, að vera heimskur, leiðinlegur, óhamingjusamur, afkastarýr, eitthvað sem enginn vill vera bendlaður við. Fyrstu viðbrögð fólks þegar þú nefnir hæglæti eru efasemdir: „Úff, ég veit ekki hvort ég get gert það,““ segir Carl, sem hann vill breyta. „Að segja að hæglæti sé ofurkraftur breytir vonandi viðhorfi fólks og fær það til að sjá heiminn í nýju ljósi.“

Hæglætishreyfingin á rætur sínar að rekja til Hæglætisfæðuhreyfingarinnar (e. Slow-food movement) sem varð til á Ítalíu á níunda áratugnum þótt hæglætislíf hafi fylgt mannkyninu frá örófi alda. Carl vill yfirfæra hugmyndina um hæglæti sem ofurkraft á öll svið samfélagsins. „Það er hægt að setja hæglætisgleraugun upp hvar sem er: Hæg tíska, hægt kynlíf, hæg ferðalög. Hvernig get ég notið þess betur með því að hægja aðeins á? Þetta er hnattræn hugmyndafræði, mjög einföld en kraftmikil.“ 

Carl tók meðvitaða ákvörðun um að hægja á. Hann hætti að starfa sem erlendur fréttaritari og fór að kynna sér Hæglætishreyfinguna. „Þetta var persónuleg vegferð. Ég fór að skrifa. Ég hef alltaf verið forvitinn og haft áhuga á að spyrja spurninga, leita svara og ferðast. Áður var það hluti af vinnunni að skrifa en að skrifa um hæglæti var mjög persónulegt. Ég áttaði mig ekki á því en ég var sjálfur fastur í hraðspólun. Ég var á hraðferð í eigin lífi í stað þess að lifa því.“ 

Carl segir að svarið við því hvernig hann varð rödd Hæglætishreyfingarinnar sé líklega að finna í fyrstu bókinni hans. Carl hefur skrifað nokkrar bækur um ávinning hæglætis, en sú fyrsta kom út fyrir 21 ári: Lifum lífinu hægar (e. In Praise of Slow) og hefur Carl vakið athygli víða um heim fyrir boðskap sinn um ávinning hæglætis og hægara samfélags, hægari og betri ákvarðanatöku, gæði hægari samskipta og margt fleira. „Bókin kom út á réttum tíma. Hún fangaði fyrstu augnablikin af fólki að hraða sér í gegnum lífið. Mér finnst alveg jafngaman að tala og skrifa og ætli ég hafi ekki þannig orðið rödd Hæglætishreyfingarinnar, með því að fylgja bókinni eftir og halda fyrirlestra víða um heim.“ 

Að lifa meira og betur

Í nútímasamfélagi er stöðug pressa, meðvituð eða ómeðvituð, um að gera allt hraðar, sem hefur þau áhrif að við flýtum okkur í gegnum lífið í stað þess að lifa því í raun og veru. Skilaboð Carls eru einföld. „Ef þú gírar þig niður, stígur á bremsuna, nærðu yfirsýn og allt raðast á sinn stað. Þú tengir betur, skapar meira, einbeitir þér betur og afkastar meiru. Þú einfaldlega lifir meira og betur.“ Þetta kann að hljóma einfalt en það getur reynst flóknara að fylgja því eftir. Carl gerir sitt besta til að vísa fólki veginn í átt að hæglæti. 

„Fyrir marga er hraði ein útgáfa af afneitun, þetta er leið til að flýja sjálfan þig, leið til að hunsa erfiðar spurningar eins og: Hver er ég? Hver er tilgangurinn? Er ég að lifa rétta lífinu fyrir mig eða er ég á sjálfstýringu? Það er auðvelt að spýta í lófana og halda sér uppteknum. En við verðum að hægja á okkur til að takast á við stóru spurningarnar. Við þurfum að líta inn á við og leyfa huganum að reika til að finna svörin. Það kann að hljóma ógnvekjandi, það er auðveldara að hafa mikið að gera og halda sér uppteknum.“

Fastur í hugsunarlausri hraðferð

Þegar Carl hugsar til baka um hraðlestrarkvöldin með börnunum fyrir svefninn áttar hann sig á að það var engin raunveruleg ástæða fyrir því að lesa svona hratt. „Ég var bara fastur í hraðferð, að gera allt hratt án þess að hugsa um það. Við erum mörg föst í þessum fasa, að gera allt hratt. Þetta er ávani eða einfaldlega smitandi frá hegðun fólksins í kringum okkur.“ Carl hvetur fólk til að staldra við í andartak og spyrja: Er ég að gera þetta hraðar en ég þarf? Þessi litla pása getur breytt öllu því oftast er svarið já. „Ég þarf ekki að gera þetta svona hratt, ég gæti hægt aðeins á. Taka nokkra andardrætti og halda svo áfram. Aðeins hægar. Þetta á auðvitað ekki við allt sem við gerum í lífinu en þetta er góður upphafspunktur. Að vera meðvituð um að við getum dottið í hraðagildruna án þess að átta okkur á því.“

Bjartsýnn en raunsær„Við erum komin að þolmörkum, bæði hvað fólkið og jörðin sjálf þolir af hraða,“ segir Carl. Lausnin felst í auknu hæglæti.

Hæglætishreyfingin teygir sig inn á hin ýmsu svið og Carl nefnir nokkur dæmi þar sem takturinn hefur hægst. „Innan tæknigeirans er verið að endurhugsa hvernig tækni virkar, hæglætistíska hefur vaxið, en það stöðvar aftur á móti ekki hraðtískuna. Það sama á við um ferðamannaiðnaðinn, það er enn þá fólk sem flýgur til Barcelona í hádegismat og áhrifavaldar ferðast til staða gagngert til að taka myndir af sér og ekkert meira en á sama tíma er stór hreyfing sem ferðast hægt um heiminn og í nærumhverfinu. Það er ákveðið reipitog milli hægferðar og hraðferðar sem áður einkenndist eingöngu af hraða. Það er að myndast ákveðið jafnvægi og ég trúi því að Hæglætishreyfingin muni ná lengra.“ 

Komin að þolmörkum

Þegar Carl tók sín fyrstu skref innan Hæglætishreyfingarinnar fannst honum heimurinn vera kominn á neyðarstig þegar kom að hraða í samfélaginu. Með tilkomu samfélagsmiðla og gervigreindar hefur neyðarstigið stigmagnast. „Við erum komin að þolmörkum, bæði hvað fólkið og jörðin sjálf þolir af hraða.“

„Það sem við gerum vel er að gera eitthvað hægt, sýna samkennd, að skapa, að hlusta og tengja“

Svarið er að hægja á. „Ég held að Hæglætishreyfingin sé góð leið til að svara spurningunni um hvað það þýðir að vera mennskur á tímum hraðra breytinga með samfélagsmiðlum og gervigreind sem dæmi. Hvað komum við með að borðinu sem manneskjur? Það sem við gerum vel er að gera eitthvað hægt, sýna samkennd, að skapa, að hlusta og tengja. Allt sem við gerum vel gerum við hægt. Við getum enn gert það mennska betur en tæknin. Og ég vona að það verði þannig áfram, ég veit ekki hvað verður um okkur annars. Ef við nýtum viskuna sem við búum yfir með því að hægja á þá getum við lifað í sátt og samlyndi með gervigreindinni. En kannski er þetta útópía.“ 

Á hægferð um landiðCarl Honoré hefur notið þess að ferðast hægt um Ísland. Fljúgandi hálka, kyrrlátt vetrarkvöld og norðurljós eru á meðal þess sem hann hefur upplifað í Íslandsheimsókninni.

Carl er bjartsýnn að eðlisfari og lítur björtum augum til framtíðar. „Að gera eitthvað hægt gerir okkur að bestu útgáfunni af okkur sjálfum. Ég er bjartsýnn og vona svo sannarlega að útkoman verði góð en ég er líka raunsær og það eru hlutir til að hafa áhyggjur af.“ 

Carl ferðast víða um heim og flytur fyrirlestra um ofurkrafta hæglætis og er staddur á Íslandi þessa dagana. Kveikjan að Íslandsförinni var þó önnur. „Ég er mikill aðdáandi Sigur Rósar, það er uppáhaldshljómsveitin mín. Þegar ég sá að þeir voru að spila í Reykjavík keypti ég tvo miða og sannfærði konuna mína um að koma með.“ Þegar Carl tilkynnti um Íslandsferðina á samfélagsmiðlum leið ekki á löngu þar til Hæglætishreyfingin á Íslandi hafði samband en Carl hefur áður verið í sambandi við talsmenn hreyfingarinnar hér á landi. „Þannig við ákváðum að gera smá ferð úr þessu,“ segir Carl sem hefur ferðast um landið þessa vikuna ásamt eiginkonu sinni. „Við ætlum að dvelja í gömlu húsi í óbyggðum. Við ætlum að taka fullt af bókum með og fara í gönguferðir. Við ætlum að njóta okkar mjög hægt á Íslandi,“ segir Carl. 

Á morgun, laugardag, mun hann halda erindi í Háskóla Íslands undir yfirskriftinni: Hæglæti  hvernig er hægt að dafna í hröðum heimi? Carl hvetur áhugasama til að gefa sér tíma til að kynnast Hæglætishreyfingunni og tileinka sér hæglæti. „Við erum alltaf að sannfæra okkur um að við höfum ekki tíma fyrir eitthvað. En  stöldrum við og hugsum hvort það sem við erum að gera skipti verulegu máli eða erum við að gera hlutina til að þóknast öðrum?“ Það er stóra spurningin. 

Kjósa
21
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • JE
    Jóhann Einarsson skrifaði
    Isminn sem viđ lifum í krefst þess ađ allt gerist hratt svo ađ hjólin snúist í samfélaginu og hagnađur myndist annars fáum viđ bara ekki nóg ađ bíta og brenna, þó viđ séum nú þegar ađ brenna og gleypa jörđina okkar. Verđum ađ hefta Mammon.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár