Flokkarnir tíu sem bjóða fram á landsvísu hafa undanfarnar vikur reynt eftir fremsta megni að koma skilaboðum áleiðis til kjósenda um af hverju atkvæði þeirra ætti best heima hjá þeim.
Miklu fé hefur verið varið í birtingar á auglýsingum, snörpum skilaboðum til kjósenda á samfélagsmiðlum, um nauðsyn stöðugleika eða róttækra breytinga, allt eftir því hver flokkurinn er. Heyrst hefur að þessi kosningabarátta hafi meira snúist um umbúðir en innihald, að meira púður hafi verið sett í að grínast á TikTok en að ræða um málefni og boða einhverjar ákveðnar aðgerðir, tala fyrir lausnum.
Þau sem vilja fræðast meira um innihaldið áður en þau gera upp hug sinn og greiða atkvæði eru hins vegar komin á réttan stað. Hér á þessari opnu og þeirri næstu er gerð tilraun til að draga af hlutlægni fram kjarnann í stefnu hvers og eins flokks, að segja frá því hvað það er sem flokkarnir segjast ætla að gera og hvernig þeir vilja gera það, ef þeir þá hafa sett fram hugmyndir að útfærslu.
Allir flokkarnir segjast auðvitað vilja bæta samfélagið og líf Íslendinga á flestum sviðum. Til þess er allt þetta fólk að bjóða krafta sína fram til starfa fyrir almenning. Í þessari samantekt er því reynt að sneiða hjá almennu orðagjálfri. Það liggur til dæmis í augum uppi að öllum flokkum finnst réttlæti felast í skattkerfisbreytingunum sem þessir flokkar leggja til.
Þegar stefnur flokkanna eru skoðaðar með þessum gleraugum kemur í ljós nokkuð mikill munur á framsetningu áherslna. Sumir flokkar útfæra sýn sína á samfélagsbreytingar með nákvæmum hætti á meðan aðrir segja sem minnst.
Áberandi fæstar haldfastar aðgerðir eru boðaðar af hálfu Viðreisnar, flokksins sem sótt hefur mest á samkvæmt skoðanakönnunum undanfarnar vikur, en kosningaáherslur flokksins eru bæði stuttaralegar og almennt orðaðar.
Píratar eru algjörlega á hinum enda skalans, allavega hvað magn áherslna varðar, en kosningastefna flokksins er sett fram í 20 mismunandi stefnuskjölum á vefnum og er ekki mjög hnitmiðuð, vægt til orða tekið. Flestir hinna flokkanna feta einhvern milliveg í þessum efnum.
Í þessari samantekt er horft á stefnur flokkanna tíu út frá þeim skattkerfisbreytingum sem þeir boða og þeim aðgerðum sem flokkarnir boða í húsnæðismálum, auk annarra helstu mála sem flokkarnir setja á oddinn í framlögðum stefnuskrám eða hafa talað fyrir í kosningabaráttunni að öðru leyti. Vonandi verður þetta einhverjum til gagns.
Flokkur fólksins
Skattkerfisbreytingar
Flokkurinn vill hækka skattleysismörk upp í 450 þúsund krónur með því að lækka persónuafslátt og þar með hækka skattgreiðslur allra sem eru með yfir 450 þúsund króna tekjur. Þetta kalla þau fallandi persónuafslátt, sem yrði svo alveg afnuminn við „ákveðin efri mörk“ sem flokkurinn skilgreinir ekki frekar í stefnu sinni.
Flokkurinn hefur sett fram tillögur um mjög aukin útgjöld til velferðarmála, en fáar tekjuöflunarhugmyndir nema hærri bankaskatt sem á að standa undir nýjum skattafrádrætti sem á að koma í stað vaxtabóta fyrir húsnæðiseigendur. Einnig boðar flokkurinn hærri auðlindagjöld og segir landsmenn eiga að fá „FULLT VERГ fyrir afnot af auðlindum.
Flokkurinn hefur hins vegar talað fyrir einni mjög stórtækri tekjuöflunarleið, sem er að byrja að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði en ekki útgreiðslur til lífeyrisþega. Þessi hugmynd hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn, gagnrýnendur segja að þetta myndi til lengri tíma eyðileggja lífeyriskerfi landsmanna.
Húsnæðismál
Flokkurinn boðar nýtt húsnæðislánakerfi með áherslu á fasta óverðtryggða vexti til allt að 30 ára og nýtt eignaíbúðakerfi á félagslegum grunni. Flokkurinn segist vilja afnema verðtryggingu húsnæðislána. Stefnumál flokksins í húsnæðismálum eru sögð byggja á fyrirmyndum víða að; frá Danmörku, Noregi og Skotlandi.
Flokkurinn segir nauðsynlegt að brjóta meira land og boðar samvinnu við Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ um hraða uppbyggingu á tilteknum svæðum. Vilja takmarka skammtímaleigu húsnæðis til ferðamanna.
Önnur helstu áherslumál
Flokkurinn vill nýtt almannatryggingakerfi, lagasetningu sem tryggir öryrkjum og eldri borgurum 450 þúsund krónur skatta- og skerðingalaust á mánuði og afnám ýmissa skerðinga á greiðslum til öryrkja og lífeyrisþega.
Flokkur fólksins segist vilja draga úr óþarfa útgjöldum ríkisins og nefnir helst kaup eða leigu á dýru skrifstofuhúsnæði og skipan starfshópa í þeim efnum. Flokkurinn segist einnig vilja draga úr skriffinnskukröfum og einfalda verkferla hins opinbera.
Flokkurinn boðar þjóðarátak í uppbyggingu hjúkrunarheimila og gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu í skólum. Hann vill útrýma öllum biðlistum í öll meðferðarúrræði og um leið halda gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu í lágmarki.
Flokkurinn segist einnig vilja virkja meira og forgangsraða orkunni fyrir heimili og grunninnviði samfélagsins. Flokkurinn kveðst einnig vilja bæta kjör kennara og starfsaðstæður og segir að það þurfi að gera annað af tvennu; fjölga kennurum eða hverfa frá stefnu um skóla án aðgreiningar.
Flokkurinn vill gefa handfæraveiðar smábáta frjálsar, rýmka strandveiðitímabilið og sjá allan afla fara á markað.
Framsóknarflokkurinn
Skattkerfisbreytingar
Flokkurinn telur ekki rétt að ráðast í miklar skattkerfisbreytingar, en boðar að lækka virðisaukaskatt á matvæli þegar það líður á næsta kjörtímabil. Skattastefna flokksins er nokkuð almennt orðuð í kosningaáherslum hans, þar er talað um hagstætt skattaumhverfi fyrir fyrirtæki og einfalt og réttlátt skattkerfi.
Framsókn vill skattaívilnanir fyrir smærri fyrirtæki og frumkvöðlastarfsemi og einnig útvíkka 35 prósenta endurgreiðslukerfið, sem komið hefur verið á vegna framleiðslu kvikmynda, til fleiri geira.
Að auki kemur fram að Framsókn vilji að Ísland sé í fremstu röð í alþjóðlegri baráttu gegn skattaskjólum.
Húsnæðismál
Framsókn vill halda áfram að styrkja almenna íbúðakerfið og auka framboð af óhagnaðardrifnu leiguhúsnæði, þannig að það verði um 6 prósent af markaðnum í stað 2–3 prósenta. Vilja skoða allar leiðir til að auka framboð lóða og nefna í því samhengi endurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og reglubundin útboð á landi í eigu ríkisins til að tryggja sem breiðasta þátttöku verktaka.
Flokkurinn leggur áherslu á að það verði lögð hærri fasteignagjöld á íbúðir sem eru ekki nýttar til búsetu. Þetta hljómar kannski fyrir einhverjum eins og nýtt áherslumál Framsóknar, en þetta er þegar hluti af þeirri opinberu húsnæðisstefnu sem Sigurður Ingi, formaður flokksins, fékk samþykkta sem innviðaráðherra fyrir rúmu ári síðan.
Framsókn hvetur lífeyrissjóði til að stíga inn í uppbyggingu leiguhúsnæðis en heimildir þeirra til að kaupa í leigufélögum voru rýmkaðar á liðnu vori. Meginmarkmið Framsóknar í málaflokknum er að langtímajafnvægi náist á húsnæðismarkaði, með áherslu á fyrstu kaupendur og tekju- og eignaminni einstaklinga.
Önnur helstu áherslumál
Framsókn segist vilja styðja við fjölskyldufólk með því að lengja fæðingarorlof og hækka vaxta- og barnabætur. Enn fremur vill flokkurinn festa gjaldfrjálsar skólamáltíðir í sessi.
Framsókn vill bæta starfsumhverfi og kjör allra stétta sem vinna með börnum og innleiða þjónustutryggingu fyrir börn, sem felur í sér að ef börn þurfi að bíða ákveðið lengi eftir opinberum úrræðum greiði ríkið fyrir sambærilega þjónustu hjá einkaaðila.
Vilja að innflytjendur geti fengið íslenskunám á vinnutíma án kostnaðar og tryggja framtíð tungumálsins í stafrænum heimi með frekari stuðningi við máltækniinnviði. Flokkurinn vill auka orkuframleiðslu og að Ísland verði kolefnishlutlaust 2040.
Á alþjóðasviðinu telur Framsókn að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB. Flokkurinn vill viðhalda sjálfstæðri peningastefnu með íslensku krónunni. Framsókn vill auka fjárfestingu í samgönguinnviðum, meðal annars bora ný jarðgöng og útrýma einbreiðum brúm.
Lýðræðisflokkurinn
Skattkerfisbreytingar
Lýðræðisflokkurinn er ekki hrifinn af sköttum og vill lækka þá eftir fremsta megni og draga úr umsvifum hins opinbera um 20 prósent. Flokkurinn vill að hallalaus fjárlög verði meginreglan.
Flokkurinn lofar því að veita skattaafslætti vegna styrkja til góðgerðarmála en slíkur skattfrádráttur er reyndar þegar í boði og hefur verið undanfarin ár. Óljóst er hvort Lýðræðisflokkurinn ætlar að bæta í þennan skattaafslátt, en hámarks frádráttur er í dag 350 þúsund krónur á ári.
Flokkurinn vill fella niður kolefnisskatta þar sem Ísland hafi þegar „skilað sínu framlagi“.
Húsnæðismál
Flokkurinn segir ekki margt um húsnæðismál í stefnu sinni, en eitt helsta áherslumál flokksins er að lækka vexti, sem vissulega tengist húsnæðismarkaðnum.
Flokkurinn segir að breyttar leikreglur á lánamarkaði geti fær landsmönnum svipuð vaxtakjör og í nágrannalöndunum, án þess að það sé útskýrt nánar. Einnig segir flokkurinn að agi í ríkisfjármálum muni stuðla að eðlilegu vaxtastigi.
Ef agi í ríkisfjármálum dugar ekki til er Lýðræðsisflokkurinn svo með tromp á hendi, en flokkurinn segist vilja setja 4 prósenta vaxtaþak á stýrivexti sem gæti verið ein róttækasta hugmyndin í kosningaáherslum allra flokka fyrir þessar kosningar, enda hefur sjálfstæði Seðlabanka Íslands verið tryggt frá því í upphafi aldarinnar.
Lýðræðisflokkurinn vill að húsnæðisliðurinn verði ekki lengur tekinn inn í vísitölu neysluverðs.
Önnur helstu áherslumál
Flokkurinn vill að auki einkavæða flest ríkisfyrirtæki nema Landsvirkjun og Landsnet. Flokkurinn vill afnema ríkisstyrki til stjórnmálaflokka og alla framleiðslustyrki nema í landbúnaði, að Ísland segi sig frá samstarfi við ESB um loftslagsmál og opna fyrir aukinn einkarekstur í skólakerfinu með upptöku ávísanakerfis.
Lýðræðisflokkurinn vill virkja meira og tryggja heimilum og almennri atvinnustarfsemi forgang að raforku. Flokkurinn vill fella niður alla tolla sem ekki eru verndartollar en á sama tíma standa vörð um íslenskan landbúnað.
Flokkurinn hafnar Borgarlínu en vill gera Sundabraut að forgangsverkefni og tryggja að veggjöld skili sér beint í framkvæmdaverkefni í vegakerfinu.
Í heilbrigðismálum vill Lýðræðisflokkurinn að aðeins íslenskir ríkisborgarar njóti sjúkratrygginga, en um 80 þúsund erlendir ríkisborgarar búa á Íslandi. Flokkurinn segist einnig vilja að almannatryggingar og atvinnuleysisbætur verði einungis fyrir íslenska ríkisborgara.
Miðflokkurinn
Skattkerfisbreytingar
Miðflokkurinn segist almennt ætla að lækka skatta. Hvernig skattalækkanir á almenning og fyrirtæki yrðu útfærðar er þó óljóst í framlagðri kosningastefnu flokksins eins og hún birtist á vefnum. Í almennri stefnu flokksins er talað fyrir lækkun jaðarskatta og lækkun tryggingagjalds, sér í lagi hjá minni fyrirtækjum. Einnig talar flokkurinn fyrir lækkun eða afnámi erfðafjárskatts og endurskoðun álagningar fasteignaskatta.
Í kosningastefnu flokksins eru nokkrar skattkerfisbreytingar boðaðar sem miða að því að auka hvata til uppbyggingar á húsnæði. Flokkurinn vill þannig hækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við byggingu íbúðarhúsnæðis upp í 60 prósent, en hlutfall endurgreiðslu er 35 prósent í dag. Einnig vill flokkurinn auka hvata til útleigu íbúða með því að gefa 50 prósent afslátt af tekjuskatti leigutekna af fyrstu íbúð sem aðili leigir út.
Flokkurinn vill líka afnema stimpilgjöld við kaup á fyrstu íbúð og sérstaka lækkun á erfðafjárskatti sem hann kallar „kynslóðabrú“ til að einfalda foreldrum að hjálpa börnum að kaupa fyrstu íbúð.
Flokkurinn vill hækka frítekjumark erfðafjárskatts, þannig að það samsvari sem nemur meðalíbúð, en útskýrir það ekki nánar. Í dag eru fyrstu 6,2 milljónirnar úr hverju dánarbúi undanþegnar erfðafjárskatti, sem er 10 prósent.
Húsnæðismál
Í húsnæðismálum vill Miðflokkurinn, fyrir utan þær skattatengdu aðgerðir sem nefndar eru hér að ofan, fjölga lóðum, útvíkka vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins og skylda sveitarfélög til að skipuleggja ný svæði til uppbyggingar. Flokkurinn boðar einnig einföldun regluverks og skilvirkara skipulagskerfi.
Flokkurinn segist vilja auðvelda fólki að eignast eigið húsnæði. Í því skyni vill Miðflokkurinn meðal annars gera lífeyrissjóðum og fjármálastofnunum heimilt að veita hlutdeildarlán og liðka fyrir reglum Seðlabankans um greiðslumat.
Önnur helstu áherslumál
Miðflokkurinn vill gefa íslenskum ríkisborgurum restina af Íslandsbanka í formi hlutabréfa í bankanum. Aðgerðin á að tryggja jafnræði, allavega á meðal íslenskra ríkisborgara, því erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi fá ekki þessa gjöf, sem flokkurinn segir að skili hverjum einstaklingi eignarhlut í bankanum sem sé um 370 þúsund króna virði í dag.
Flokkurinn vill skrifa ný útlendingalög frá grunni og að enginn komi til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd. Flokkurinn vill þannig einungis bjóða kvótaflóttamönnum til landsins, en senda alla sem koma á eigin vegum beint aftur til þess ríkis sem þeir flugu frá.
Miðflokkurinn segir: inn með Sundabraut – burt með Borgarlínu, kveðst ætla að koma vinnu við jarðgöng aftur af stað og forma staðbundna samgöngusáttmála í hverjum landshluta. Flokkurinn vill halda flugvelli í Vatnsmýri til langrar framtíðar.
Miðflokkurinn segir rammaáætlun ekki vera að virka og boðar sérlög um alla virkjanakosti í nýtingarflokki. Flokkurinn vill auka raforkuframleiðslu um 100-200 megavött á ári. Flokkurinn vill hins vegar flýta sér hægt við virkjun vindorku hérlendis.
Píratar
Skattkerfisbreytingar
Píratar vilja létta skattbyrði þeirra tekjulægstu, barnafjölskyldna og skuldsettra, með því að hækka persónuafslátt og greiða fólki út ónýttan persónuafslátt. Stundum hefur það verið nefnt sem mögulegt fyrsta skref í átt að skilyrðislausri grunnframfærslu, borgaralaunum. Til lengri tíma segjast Píratar vilja skoða kosti slíks framfærslukerfis.
Flokkurinn vill hafa fjármagnstekjuskatt þrepaskiptan og loka fyrir að fólk greiði fjármagnstekjuskatt af tekjum sem ættu að falla undir hæsta þrep tekjuskatts. Píratar vilja að fyrirtæki í ferðaþjónustu greiði hærri skatta en þau gera í dag, taka upp auðlindagjöld og vinna gegn skattasniðgöngu stórfyrirtækja. Flokkurinn vill leggja skatta á mengandi starfsemi, til að fjármagna róttækar og skilvirkar loftslagsaðgerðir.
Húsnæðismál
Píratar vilja skylda lífeyrissjóði til að koma að fjármögnun íbúðauppbyggingar og sjá fyrir sér að þeir fjármagni um þriðjung uppbyggingarþarfarinnar að jafnaði, eða um 1.500 íbúðir á ári.
Flokkurinn vill setja skorður á breytilega vexti og útrýma verðtryggðum lánum. Píratar vilja skoða að hlutdeildarlán geti fengist greidd út snemma í uppbyggingarferli íbúða til að auðvelda fjármögnun byggingaverkefna.
Flokkurinn vill draga úr skammtímaleigu íbúða til ferðamanna með því að skilyrða heimagistingu við íbúðir þar sem einstaklingar hafa skráð lögheimili og herða eftirlit. Píratar vilja einnig innleiða lögheimilisskyldu, takmarka veðsetningarhlutfall aukaíbúða við 60 prósent og hækka fasteignagjöld á aukaíbúðir um 0,7 prósentustig.
Píratar vilja að öll sveitarfélög verði að bjóða upp á lágmarksfjölda af félagslegum íbúðum. Vilja að gæði á borð við birtu, vistlegt umhverfi og gróður verði áskilin í byggingarreglugerð. Flokkurinn vill endurvekja Rannsóknarmiðstöð byggingariðnaðarins.
Píratar tala einnig um að efla réttindi leigjenda og skapa hvata til langtímaleigu en fjalla lítið um hvernig eigi að ná þessum markmiðum.
Önnur helstu áherslumál
Píratar leggja fram kosningastefnu sína í 20 mismunandi stefnuskjölum á vefnum. Það er því af nógu að taka. Flokkurinn vill þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu og taka upp stöðugri gjaldmiðil eða binda krónuna við annan gjaldmiðil.
Píratar vilja banna hvalveiðar og hætta að gefa út ný leyfi fyrir fiskeldi í opnum sjókvíum. Þeir vilja leyfa frjálsar handfæraveiðar. Flokkurinn vill auka styrki til óháðra fjölmiðla og koma á fót sjóðum fyrir rannsóknarblaðamennsku.
Flokkurinn segir að það þurfi að tryggja ókeypis sálfræðiþjónustu fyrir þau sem þurfa. Píratar segjast ætla að afglæpavæða neysluskammta og leggja áherslu á skaðaminnkun.
Píratar vilja efla eftirlitsstofnanir á borð við Samkeppniseftirlitið og embætti umboðsmanns Alþingis. Flokkurinn vill einnig koma á fót nýrri stofnun til að rannsaka spillingu og nýja stofnun, Lögréttu, til að tryggja gæði lagasetningar.
Flokkurinn vill beita sér fyrir vernd hálendisins og setja af stað vinnu við stofnun þjóðgarðs þar í lýðræðislegu ferli.
Samfylkingin
Skattkerfisbreytingar
Samfylkingin vill hækka fjármagnstekjuskatt úr 22 prósentum upp í 25 prósent, en um leið hækka frítekjumark vaxtatekna, sem flokkurinn segir að leiði til þess að skattbyrði millitekjuhópa haldist óbreytt.
Flokkurinn vill leggja hærri auðlindagjöld á starfsemi fyrirtækja í sjávarútvegi, fiskeldi, orkuvinnslu og ferðaþjónustu. Flokkurinn vill að veiðigjöld verði þrepaskipt þannig að smærri útgerðum verði hlíft. Flokkurinn vill að sveitarfélög fái hlutdeild í auðlindagjöldum af orkuvinnslu. Samfylkingin vill einnig taka upp aðgangsgjald að vinsælustu ferðamannastöðum landsins, sem ferðamenn greiði. Flokkurinn telur rétt að innheimta auðlindagjald vegna notkunar ferksvatns í atvinnuskyni.
Samfylkingin hefur einnig talað fyrir því að koma í veg fyrir að launatekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur sem bera lægri skattprósentu. Flokkurinn boðar töluverða útgjaldaaukningu hins opinbera til heilbrigðismála og fleiri málaflokka til lengri tíma litið og segir endurskoðun tekjuskattskerfisins koma til álita, með það markmið að færast nær velferðarsamfélögum Norðurlanda.
Samfylkingin vill að sveitarfélög geti lagt á svokallaðan tómthússkatt, álag á fasteignagjöld á íbúðir sem enginn býr í og að húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða fái 60 prósent endurgreiðslu á virðisaukaskatti við byggingu íbúða.
Húsnæðismál
Samfylkingin segist vilja takmarka heimagistingu við lögheimili fólks eða sumarbústaði og herða eftirlit. Flokkurinn vill að gististarfsemi í atvinnuskyni verði einungis leyfð í samþykktu atvinnuhúsnæði og boðar að þegar útgefin rekstrarleyfi vegna gististarfsemi í fjölbýlishúsum verði afturkölluð, til að fjölga íbúðum á markaði.
Flokkurinn vill heimila uppbyggingu tímabundinna húsnæðisúrræða án deiliskipulagsbreytinga, til dæmis á óbyggðum þróunarreitum. Einnig vill Samfylkingin heimila uppbyggingu starfsmannabústaða á athafnasvæðum undir stífu eftirliti. Flokkurinn vill breyta byggingarreglugerð svo einfaldara verði að breyta skrifstofuhúsnæði í íbúðir.
Til lengri tíma vill Samfylkingin að ríkið komi að innviðakostnaði sveitarfélaga vegna nýrra hverfa, mögulega með hagstæðum lánum eða eftirgjöf á virðisaukaskatti við byggingu skólabygginga. Flokkurinn vill einfalda skipulagsferlið og tímabinda uppbyggingarheimildir.
Flokkurinn vill að hlutdeildarlán geti runnið til verktaka þegar íbúðir eru á framkvæmdastigi. Kaupendur taki svo við lánunum þegar kaupsamningur er gerður. Flokkurinn vill að samið verði um stórtæka uppbyggingu hlutdeildarlánaíbúða við trausta verktaka.
Önnur helstu áherslumál
Samfylkingin segist vilja hækka lágmark fæðingarorlofsgreiðslna, hækka fæðingarstyrki til námsmanna og fólks utan vinnumarkaðar og lögfesta rétt til launaðs meðgönguorlofs í allt að fjórar vikur fyrir áætlaðan fæðingardag. Flokkurinn vill lögfesta rétt barna til leikskólavistar og tryggja að fjármögnun sveitarfélaga taki tillit til þess að leikskólinn sé lögbundið verkefni.
Samfylkingin setur sér það markmið að allir fái heimilislækni og heimilisteymi á sinni heilsugæslu á næstu 10 árum, en boðar að fólk yfir 60 ára og langveikir verði í forgangi hvað það varðar á komandi kjörtímabili. Í átt að þessu markmiði vill flokkurinn að læknar sem ráða sig til lengri tíma á svæðum þar sem læknaskortur er viðvarandi fái niðurfellingu námslána. Flokkurinn vill fjölga læknanemum og að hluti plássa í læknisfræði við HÍ verði eyrnamerktur nemum með tengsl við svæði með viðvarandi læknaskort.
Flokkurinn vill fjölga þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar og staðsetja eina sjúkra- og björgunarþyrlu utan höfuðborgarsvæðisins.
Samfylkingin segist vilja auka ársframleiðslu á raforku um 5 teravattstundir á næsta áratug, sem myndi nema um 25 prósent aukningu á orkuframleiðslu í landinu. Flokkurinn segist vilja einfalda umhverfismatsferli virkjunarkosta í nýtingarflokki þar sem slíkir kostir hafi fengið meiri umfjöllun en aðrar framkvæmdir áður en til umhverfismats kemur.
Flokkurinn kveðst vilja hafa framkvæmdir við 1–2 jarðgöng í gangi á hverjum tíma og leggja fé í að bæta Strætó á höfuðborgarsvæðinu á meðan unnið verði að uppbyggingu Borgarlínu.
Sjálfstæðisflokkurinn
Skattkerfisbreytingar
Sjálfstæðisflokkurinn segist vilja ráðast í ýmsar skattalækkanir. Flokkurinn boðar afnám stimpilgjalds við kaup einstaklinga á íbúðarhúsnæði og sérstakan 150 þúsund króna skattafslátt með hverju barni undir þriggja ára aldri.
Flokkurinn vill að erfðafjárskattur verði lækkaður úr 10 prósentum niður í 5 prósent og frítekjumark hans verði hækkað upp í 20 milljónir króna, en frítekjumarkið er 6,2 milljónir króna í dag.
Flokkurinn vill að frítekjumark fjármagnstekna verði hækkað upp í 500 þúsund krónur og að efsta skattþrep tekjuskattkerfisins nái einungis til tekna sem eru umfram tvöfaldar meðaltekjur. Það myndi færa mörk þriðja skattþrepsins úr 1.252 þúsund krónum upp í um 1.560 þúsund krónur miðað við 770 þúsund króna meðaltekjur einstaklinga frá síðasta ári.
Sjálfstæðisflokkurinn vill leyfa foreldrum að færa allt að 2 milljónir af eigin séreignarsparnaði inn á íbúðalán eða séreignarsparnað barna sinna, skattfrjálst. Flokkurinn vill einnig hækka frítekjumark ellilífeyris vegna atvinnutekna upp í 350 þúsund á mánuði, en í dag er það 200 þúsund krónur á mánuði.
Á móti þessum skattalækkunum boðar flokkurinn minni ríkisútgjöld og samdrátt í umsvifum ríkisins. Sjálfstæðisflokkurinn vill meðal annars fækka ríkisstofnunum úr 160 í 100, selja ótilgreindar ríkiseignir og greiða niður skuldir.
Húsnæðismál
Sjálfstæðisflokkurinn vill brjóta nýtt land undir byggð og skylda sveitarfélög til að tryggja nægt framboð á lóðum í takt við fjölgun íbúa. Flokkurinn vill víkka út vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins, breyta skipulagslögum og „fella niður neitunarvald Reykjavíkurborgar“ og þá væntanlega Kópavogs líka, sem er eina sveitarfélagið sem hefur beitt neitunarvaldi gagnvart tillögu um breytt vaxtarmörk byggðar á höfuðborgarsvæðinu til þessa.
Flokkurinn vill lækka byggingarkostnað með því að einfalda byggingarreglugerð og hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað. Í húsnæðismálakafla kosningastefnu sinnar segist Sjálfstæðisflokkurinn einnig vilja gera suðvesturhornið að einu atvinnusvæði með umfangmikilli uppbyggingu samgönguinnviða.
Önnur helstu áherslumál
Sjálfstæðisflokkurinn segist vilja umbreyta menntakerfinu, taka upp nýja aðalnámskrá, bæta námsgögn, taka upp samræmd próf og setja markmið um bætt gengi í PISA-prófum. Flokkurinn vill símalausa skóla og að börn fái hreyfingu í skólanum alla daga.
Flokkurinn boðar aukinn einkarekstur í skólakerfinu og vill að fé fylgi nemanda óháð rekstrarformi. Hvað leikskólastigið varðar segist flokkurinn vilja útrýma biðlistum með því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir fjölbreytt rekstrarform og setja leikskólann í meiri forgang hjá sveitarstjórnarstiginu. Flokkurinn vill að börn sem flytja til landsins og taka ekki íslensku fari í sérstaka mótttökuskóla þar sem öll áhersla yrði á íslensku og menningu landsins, áður en þau fara inn í skólakerfið.
Sjálfstæðisflokkurinn vill fjölga iðnnemum og nemendum í raungreinum og heilbrigðisvísindum á háskólastigi. Flokkurinn vill að háskólum verði fækkað hérlendis með sameiningu þeirra í stærri einingar.
Flokkurinn vill beita skattaívilnunum til að lokka heilbrigðisstarfsfólk aftur til Íslands og beita fjárhagslegum hvötum fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að fá það til starfa á landsbyggðinni.
Flokkurinn vill stórauka orkuöflun, tryggja raforkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja og segist sömuleiðis vilja tryggja að allir geti selt raforku inn á kerfið.
Sjálfstæðisflokkurinn vill líka afnema skyldu til jafnlaunavottunar. Flokkurinn vill að Ísland standi utan ESB en að EES-samstarfið verði eflt.
Sósíalistaflokkurinn
Skattkerfisbreytingar
Sósíalistaflokkurinn vill miklar breytingar á skattkerfinu, sem í stuttu máli ganga út á að tekjulágir og millistéttarfólk greiði lægri skatta en að þeir sem hafa miklar tekjur eða eigi miklar eignir greiði meira til samneyslunnar.
Flokkurinn segist vilja leggja á nýjan auðlegðarskatt, þrepaskiptan eignaskatt sem á að leggja á hreinar eignir fólks yfir 200 milljónum króna. Slíkur skattur yrði frá 2 prósentum í lægsta þrepi, upp í 9 prósent á hjón sem eiga meira en 10 milljarða króna.
Flokkurinn vill að fjármagnstekjuskattur einstaklinga verði þrepaskiptur, og í reynd sameinaður tekjuskattskerfinu. Það felur þá líka í sér að útsvar yrði tekið af fjármagnstekjum.
Samsköttun allra tekna segir flokkurinn að myndi tryggja þeim tekjulægstu skattalækkun vegna persónuafsláttar núgildandi skattareglna um fjármagnstekjuskatt. Háar tekjur myndu hins vegar bera háan skatt eða 60 prósent á tekjur umfram 5 milljónir króna, 75 prósent skatt á tekjur umfram 20 milljónir króna og 90 prósent á tekjur umfram 50 milljónir króna á mánuði.
Flokkurinn vill hafa skattþrep erfðafjárskatts þau sömu og nýja sameinaða tekjuskattsins, en talar fyrir því að skattleysismörkin yrðu á pari við gott íbúðarverð, eða um 60 milljónir króna. Skattleysimörkin eru 6,2 milljónir króna í dag.
Sósíalistar vilja hætta að horfa á eignarhaldsfélög sem sjálfstæða skattaðila og skattleggja eigendur þeirra beint, eins og félögin væru ekki til. Arðgreiðslur til eignarhaldsfélaga yrðu þannig skattlagðar strax sem arður til eigenda félagsins og sama ætti við um vaxtatekjur og söluhagnað.
Flokkurinn vill draga mjög úr möguleikum fyrirtækja til að lækka skattgreiðslur með því að telja fram kostnað á móti tekjum og draga úr endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar.
Einnig vilja sósíalistar hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustufyrirtæki, innheimta gistináttagjald og láta það renna til sveitarfélaga og setja komugjöld á ferðamenn sem gætu verið mishá eftir árstíðum. Flokkurinn vill líka taka upp aðstöðugjald, þrepaskiptann veltutengdan fyrirtækjaskatt sem rynni til sveitarfélaga. Flokkurinn boðar samt á sama tíma skattalækkanir á lítil fyrirtæki.
Húsnæðismál
Sósíalistaflokkurinn vill umfangsmikla uppbyggingu á íbúðum á félagslegum grunni og talar um að byggja 4.000 íbúðir á ári næstu þrjú ár og svo áfram eftir þörfum.
Alls telur flokkurinn þörf fyrir um 50 þúsund nýjar íbúðir á næstu 10 árum og telur rétt að nýr húsnæðissjóður í eigu ríkisins standi fyrir uppbyggingunni. 70 prósent fjármögnunar sjóðsins ætti að koma frá lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum.
Flokkurinn vill takmarka útleigu íbúða í hagnaðarskyni. Einungis verði heimilt að leigja út eigið lögheimili í skammtímaleigu og eftirlit verði aukið. Flokkurinn vill sjá skattlagningu á íbúðareignir sem standa tómar.
Sósíalistaflokkurinn vill uppbyggingu á einingahúsum til að mæta skortinum sem nú er til staðar og beita sér svo fyrir langtímahúsnæðisstefnu á félagslegum grunni.
Önnur helstu áherslumál
Sósíalistaflokkurinn vill að grunnþjónusta samfélagsins verði gjaldfrjáls. Þarna er auk annars átt við alla heilbrigðisþjónustu, menntun og tómstundir barna, almenningssamgöngur og aðgang að söfnum og öðrum menningarstofnunum.
Flokkurinn vill einnig leggja niður kvótakerfið eins og við þekkjum það í dag og fá fiskiþing sem skipuð yrðu fulltrúum almennings í öllum landshlutum til að ákveða sjávarútvegsstefnu fyrir Ísland til framtíðar. Flokkurinn vill gefa handfæraveiðar frjálsar.
Vinstri græn
Skattkerfisbreytingar
Vinstri græn vilja taka upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt og stórauka skatteftirlit. Almennt segir flokkurinn að tekjuöflun hins opinbera eigi að vera sanngjörn og stuðla að samfélagssátt, þannig að hin efna- og eignameiri leggi meira af mörkum.
Flokkurinn segist einnig vilja leggja sanngjörn gjöld á nýtingu auðlinda sama hvers eðlis auðlindin er. Varðandi veiðigjöld segjast VG vilja hækka þau á stórútgerðina sérstaklega.
Húsnæðismál
Vinstri græn vilja að skattaafslættir af sölu aukaíbúða verði þrengdir og gildi fyrir venjulegt fólk en ekki fjárfesta. Flokkurinn vill frekari takmarkanir á skammtímaleigu til ferðamanna.
Flokkurinn vill koma á fót raunverulegu félagslegu eignaíbúðakerfi í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar. Vinstri græn segjast vilja endurskoða fyrirkomulag hlutdeildarlána svo þau nái þeim markmiðum að gefa tekjulágum, þar með töldum örorkulífeyrisþegum, kost á að eignast heimili.
Vinstri græn vilja sérstakan vaxtastuðning til að mæta áhrifum hávaxtastefnu á almenning. Flokkurinn vill einnig koma á leigubremsu strax og byggja fleiri leiguíbúðir í samstarfi við hið opinbera.
Önnur helstu áherslumál
Vinstri græn vilja standa vörð um opinbera heilbrigðiskerfið og hafna almennt einkavæðingu innviða og almannaþjónustu. Flokkurinn vill halda áfram að styrkja barnabótakerfið með áherslu á einstæða foreldra.
Vinstri græn vilja fjölga friðlýstum svæðum þannig að þau þekji 30 prósent landsins og hafsvæðisins fyrir árið 2030. Meðal annars vill flokkurinn friðlýsa miðhálendið, Breiðafjörð og hálendi Vestfjarða.
Flokkurinn vill lögfesta markmið um 55 prósent samdrátt í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 m.v. árið 2019 og auka fjárveitingar til loftslagsmála í áföngum þannig að þau nemi 4 prósent af landsframleiðslu.
Flokkurinn vill afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og hækka fæðingarstyrk. Vinstri græn vilja einnig tryggja að framfærsla eldra fólks og fólks á örorku sé aldrei lægri en lágmarkslaun.
Flokkurinn vill berjast gegn sölu áfengis í smásölu og hafnar einkavæðingu ÁTVR. Vinstri græn vilja einnig banna hvalveiðar.
Viðreisn
Skattkerfisbreytingar
Áherslurnar sem Viðreisn hefur kynnt sérstaklega fyrir þessar kosningar eru mjög almennt orðaðar og raunar almennari en hjá nokkrum öðrum flokki. Í efnahagsstefnunni segir ekkert um það hvernig flokkurinn sér fyrir sér að breyta skattkerfinu, en þar segir þó að skattahækkanir á vinnandi fólk og lítil og meðalstór fyrirtæki komi ekki til greina.
Flokkurinn vísar svo á ítarefni, ályktanir landsþings síns frá því í fyrra, en þar kemur það eitt fram um skattamál að flokkurinn vilji að skattlagning sé réttlát og hófsöm. Reyndar segist flokkurinn vilja auka vægi grænna gjalda og auðlindagjalda en nýta tekjur af þeirri skattlagningu til að lækka aðra óhagkvæmari skatta.
Í stefnu Viðreisnar er svo talað fyrir því að sanngjarnt gjald, markaðsvirði, sé greitt fyrir afnot af auðlindum. Flokkurinn hefur talað fyrir því að núverandi veiðigjöld í sjávarútvegi verði lögð af, og að í staðinn verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað og boðinn upp á hverju ári með nýtingarsamningi til 20 ára.
Húsnæðismál
Í þeim áherslum sem Viðreisn hefur kynnt fyrir kosningar segir að mikil áhersla sé lögð á húsnæðismál, en nær ekkert er fjallað um sértækar aðgerðir sem flokkurinn vilji ráðast í. Viðreisn vill þó losa ríkisjarðir fyrir húsnæðisuppbyggingu.
Meiri upplýsingar um stefnu flokksins í húsnæðismálum finnast í ályktun landsþings um innanríkismál. Þar er talað um að flokkurinn vilji einfalda regluverk til að lækka byggingarkostnað og horfa í þeim efnum til ráðlegginga OECD. Viðreisn vill svo hvetja til þess að eldra húsnæði sé umbreytt í íbúðir í stað þess að hús séu rifin og ný byggð.
Flokkurinn vill að meginþorri húsnæðisuppbyggingar eigi sér stað á markaðsforsendum. Viðreisn styður ekki hugmyndir um leiguþak, en vill breyta reglum um lánshæfis- og greiðslumat þannig að leigugreiðslur fólks samkvæmt þinglýstum húsaleigusamningi í 12 mánuði eða lengur geti orðið grundvöllur þess að fólki sé reiknuð sambærileg greiðslugeta í greiðslumati.
Önnur helstu áherslumál
Viðreisn hefur sett fulla aðild Íslands að Evrópusambandinu á oddinn allt frá stofnun flokksins og fyrsta skrefið væri að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Flokkurinn vill tryggja ókeypis sálfræðiþjónustu fyrir börn, efla forvarnir og tryggja meðferðarúrræði, öryggi og velferð barna og ungmenna.
Viðreisn hefur talað fyrir því að loftslagsáherslur séu í forgrunni í allri ákvarðanatöku og vill að Ísland setji sér metnaðarfyllri mælanleg markmið, uppfæri aðgerðaáætlanir í loftslagsmálum árlega og að hlutverk Loftslagsráðs verði eflt. Flokkurinn vill að öll frumvörp verði rýnd með tilliti til loftslagsáhrifa.
Flokkurinn vill auka orkuframleiðslu og styður uppbyggingu vindorkuvera, en vill að bæði ríkið og sveitarfélög fái tekjur af þeim auk þess að gera fyrirvara við staðsetningar og umhverfisáhrif.
Viðreisn vill sameina sveitarfélög á Íslandi svo úr verði færri og sterkari rekstrareiningar. Flokkurinn talar fyrir endurskoðun á styrkjakerfi í landbúnaði og segir lækkun tolla geta skapað tækifæri fyrir greinina.
Athugasemdir