Þessi grein birtist fyrir rúmlega 4 mánuðum.

Ferðamenn flykkjast að eldgosinu

Þótt ekki sé hægt að kom­ast alla leið að eld­gos­inu reyn­ir fólk að fara eins ná­lægt og hægt er.

Ferðamenn flykkjast að eldgosinu

Norðaustan við Stóra-Skógfell gýs eldur úr jörðu, en hraunflæðið eru nokkrir tugir rúmmetra á sekúndu. Hraunbreiðan er nú orðin 15,1 kílómetri að flatarmáli, samkvæmt Veðurstofu Íslands. Þar segir að allar mælingar bendi til þess að um sé að ræða stærsta eldgosið frá því að jarðhræringar hófust haustið 2023.

Mælingarnar sem um ræðir eru á hraunbreiðu og líkanreikningar sem áætla magn kviku sem fór úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina þegar eldgosið hófst að kvöldi 22. ágúst, eftir skjálftahrinu.

Heildarlengd gossprungunnar var um sjö kílómetrar, þegar mest var, þótt hún hafi aldrei verið virk öll í einu. Talið er að 17 til 27 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu í Svartsengi á þeim tíma sem liðinn er frá því að gosið hófst. 

Ferðamenn flykkjast að

Neyðarstigi var aflétt strax daginn eftir að gosið hófst og fært niður á hættustig. Viku síðar er enn virkni norðarlega á gossprungunni, mun norðar en í fyrri gosum í þessari eldgosahrinu. Hraun flæðir að mestu til norðvesturs og mun hægar en í upphafi goss. Sem laðar ferðamenn að.

Töluverð umferð var að eldgosinu á miðvikudagskvöld. Þótt ekki væri hægt að komast alla leið að gígnum leitaði fólk leiða til að komast inn í myrkrið og dást að stórum og fallegum strókum. Í næsta nágrenni böðuðu gestir í Bláa lóninu sig í eldgosabjarmanum. 

Til að undirstrika fegurð náttúrunnar dönsuðu græn norðurljós á himni. 

Varað við sprengjum 

Í ljósi þess að erlendir ferðamenn streyma inn á svæðið hefur Lögreglan á Suðurnesjum sent frá sér tilmæli til ferðaþjónustuaðila að vara við því að svæðið sunnan Voga og Reykjanesbrautar sé mengað af virkum og óvirkum sprengjum, fallbyssukúlum, sprengjuvörum og æfingasprengjum, sem geta valdið manntjóni ef þær springa. Hiti og hreyfingar geta haft áhrif þar á.

Nákvæmar upplýsingar um útbreiðslu eða stærð þessa svæðis liggja ekki fyrir, svo fólk er hvatt til að fylgja leiðbeiningum frá Lögreglunni á Suðurnesjum þegar það fer um svæðið og fylgja merktum göngu- og aktursslóðum. Bent hefur verið á að fólk í 300 metra radíus frá stórri sprengju geti fallið við sprengingu. 

Eins er varað við mengun og gróðureldum. Loftgæði nærri gosstöðvum eru slæm og biðlað hefur verið til ferðamanna að skunda ekki með börnin sín inn á hættuleg svæði. Skipulögð bílastæði eru ekki til staðar og varað er við því að leggja bíl við Reykjanesbraut.  

Óvissustig ríkir víðar

Óvissustig ríkir víðar á landinu, vegna Skaftárhlaups, landriss í Öskju og skemmda á neysluvatnslögn til Vestmannaeyja. Óvissustigi var hins vegar aflétt á mánudag á Norðurlandi eystra vegna mikilla rigninga og skriðuhættu á Tröllaskaga um helgina. 

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár