Halla Tómasdóttir verður sjöundi forseti lýðveldisins
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 7 mánuðum.

Halla Tómasdóttir verður sjöundi forseti lýðveldisins

Kjarna­fylgi tveggja efstu fram­bjóð­enda til for­seta var hníf­jafnt dag­inn fyr­ir kosn­ing­ar. Fjöldi kjós­enda valdi að velja á milli þeirra á kjör­dag og lang­flest­ir þeirra völdu Höllu Tóm­as­dótt­ur, sem vann af­ger­andi sig­ur. Þrjár kon­ur fengu þrjú af hverj­um fjór­um at­kvæð­um, kjós­end­ur Jóns Gn­arr kusu „með hjart­anu“ og fjöldi fram­bjóð­enda fékk mun færri at­kvæði en með­mæli með fram­boði sínu.

Halla Tómasdóttir verður nýr forseti Íslands. Hún verður sjöundi einstaklingurinn til að gegna því embætti og tekur við af Guðna Th. Jóhannessyni í ágúst næstkomandi. Sigur hennar var afgerandi öruggur á endanum. Hún fékk flest atkvæði í öllum kjördæmum landsins, og var með yfir 30 prósent fylgi hringinn í kringum landið. Katrín Jakobsdóttir, hennar helsti keppinautur, játaði ósigur snemma í nótt og óskaði Höllu til hamingju með sigurinn. Katrín fékk 25,2 prósent atkvæða.
Þótt fylgi Höllu hafi þegar upp var staðið verið langt yfir að sem síðustu kannanir bentu til þá ætti það ekki að vera mjög óvænt. 

Fyrir því er raunar fordæmi, forsetakosningarnar árið 2016. Þá lenti Halla í öðru sæti og fékk 9,7 prósentustigum meira en það sem hún mældist með í síðustu kosningaspá Heimildarinnar. Hún fékk 34,3 prósent atkvæða sem er 8,1 prósentustigum meira en síðasta kosningaspáin, byggð á könnunum sem gerðar voru í vikunni á undan, sýndu. Munurinn er því minni nú en þá. Lokamat dr. Baldurs Héðinssonar stærðfræðings, sem smíðaði kosningaspárlíkanið, og birt var snemma í gær byggði á 500 þúsund sýndarkosningum þar sem reiknað var út hversu líklegt væri að hver og einn frambjóðandi myndi sigra. Þar var einnig tekið tillit til sveiflna í fylgi í síðustu vikunni fyrir kosningar. Niðurstaða þess lokamats var að Halla Tómasdóttir væri líklegust til að verða næsti forseti Íslands. 

Þrjár konur fengur 75 prósent atkvæða

Niðurstaða kosninganna eru um margt sögulegar. Í fyrsta lagi verður Halla Tómasdóttir önnur konan í sögu lýðveldisins til að flytja á Bessastaði og sú fyrsta í 28 ár. Í öðru lagi voru þrjár konur í efstu þremur sætunum í fyrsta sinn í Íslandssögunni. Samanlagt fylgi þeirra er um 75 prósent, sem þýðir að þrír af hverjum fjórum landsmönnum kaus konu sem forseta í gær. Í þriðja lagi varð maður sem talaði mikið um taugaraskanir sínar sem styrkleika í baráttunni í fjórða sæti og samkynhneigður frambjóðandi fékk fimmtu bestu kosninguna. 

SigurvegarinnHalla Tómasdóttir og Björn Skúlason, eiginmaður hennar, fagna með stuðningsmönnum í nótt.

Lengi vel stefndi auk þess í að Halla yrði sá forseti í Íslandssögunni sem hefði verið kosin með minnsta hlutfalli atkvæða, en það „met“ átti Vigdís Finnbogadóttir áður þegar hún fékk 33,8 prósent atkvæða árið 1980. Sem stendur virðist það þó ekki ætla að verða raunin þótt litlu muni.

Það hafa aldrei verið fleiri frambjóðendur í framboði til forseta en nú, eða tólf talsins. Til að vera gildur frambjóðandi þarf 1.500 meðmæli. Það vekur því athygli að þau fimm sem hlutu fæst atkvæði, og fengu að minnsta kosti 7.500 manns til að mæla með sér í framboð, ná samanlagt rétt yfir 1.500 atkvæðum. Samtals fengu þau 1.577 atkvæði. Sá sem fékk fæst atkvæði, Eiríkur Ingi Jóhannsson, er nú með einungis 96 atkvæði. 

Halla alltaf líklegust til að verða „frambjóðandi B

Forsetakosningar eru einu kosningarnar til háttsetts embættis á Íslandi þar sem einstaklingar eru kosnir beinni kosningu og öll atkvæði landsmanna telja jafnt. Ólíkt til dæmis þingkosningum, þar sem allir flokkar sem ná yfir fimm prósent fylgisþröskuld eru nær öruggir með að minnsta kosti þrjá þingmenn, þá falla öll önnur atkvæði en þau sem rata á þann sem verður forseti niður dauð. Þau skila engu í raun. Þess vegna er ekki óeðlilegt í kosningabaráttu sem virðist vera afar spennandi og þar sem mjótt er á mununum að margir taki þá breytu með inn í kjörklefann. Ætlar það að kjósa þann frambjóðanda sem þeim leist best á eða ætlar það að hafa áhrif á hvor þeirra frambjóðanda sem eru lang líklegastir til að vinna verði forseti Íslands?

FögnuðurÞað var gríðarlegur fögnuður á kosningavöku Höllu Tómasdóttur eftir að fyrstu tölur úr Reykjavík sýndu að hún væri nær örugglega að fara að vinna nokkuð afgerandi sigur.Golli

Nú er það skýrt að margir landsmenn voru þegar búnir að ákveða að Halla Tómasdóttir væri þeirra fyrsti kostur. Lokamat kosningaspárinnar sýndi hana með 24,8 prósent fylgi og meira en nokkur annar. Ýmsar kannanir sem gerðar voru í aðdraganda kosninga bentu líka til þess að hún væri sá frambjóðandi sem flestir gætu hugsað sér að færa sig á ef það lægi fyrir að fyrsta val þeirra ætti ekki raunhæfa möguleika á sigri.

Halla var sá frambjóðandi sem mældist með umtalsvert fylgi sem flestir sögðust treysta og flestir sögðust vera sáttir með ef hún ynni. Þegar kjósendur voru spurðir hvern þeir vildu alls ekki sjá á Bessastöðum þá lenti Halla neðst í fimm manna hópnum sem náði að mælast nokkuð reglulega með tveggja stafa fylgi. Allar þessar kannanir á viðhorfi fólks til frambjóðenda, ásamt sýnilegri uppsveiflu í könnunum síðustu tvær vikurnar, sýndu að Halla Tómasdóttir átti umtalsvert inni umfram það sem hún var að mælast með í lok kosningabaráttunnar. Að hún væri langlíklegust til að verða „frambjóðandi B“ hjá þeim hópi sem á endanum tók ákvörðun um að vilja heldur veðja á að atkvæði þeirra myndi vigta inn í niðurstöðuna um hvor tveggja efstu myndi vinna, og skila þeim forseta sem þau geta sætt sig við frekar en að nota atkvæði sitt á þann forseta sem hann vildi helst. 

Færðu sig af Baldri og Höllu Hrund

Tveir frambjóðendur urðu mest fyrir barðinu á þessari, að mörgu leyti fyrirsjáanlegu, hegðun kjósenda. Annar þeirra  er Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði. Hann mældist með um 15 prósent fylgi í síðustu kosningaspánni eftir að hafa dalað hægt og bítandi nær allan tímann frá miðjum apríl. Þegar búið er að telja öll atkvæðin var Baldur með 8,3 prósent. Frávikið í hans tilviki á sér líka sögulega fyrirmynd í Guðna Th. Jóhannessyni árið 2016, þar sem Guðni fékk sex prósentustigum minna en hann mældist með daginn fyrir kjördag. 

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri fékk sömuleiðis töluvert lægra fylgi en lokaspár höfðu gefið til kynna. Hún er nú með 15,5 prósent eða hátt í fimm prósentustigum minna en í lokaspá Heimildarinnar. Allt bendir þetta til þess að fjöldi fólks sem ætlaði sér að kjósa Baldur eða Höllu Hrund hafi á endanum ákveðið að „kjósa taktískt“ og setja atkvæði sitt á Höllu Tómasdóttur til að reyna að tryggja að það hefði áhrif á hver yrði sigurvegari.

Töpuðu á lokametrunumBaldur Þórhallsson og Halla Hrund Logadóttir misstu bæði umtalsvert fylgi frá sér á kjördag, ef miðað er við stöðu þeirra í síðustu könnunum sem gerðar voru. Hér sjást þau í Efstaleiti þegar fyrstu tölur komu í hús.

Raunar er merkilegt að sjá að einungis einn frambjóðandi utan þeirra tveggju efstu fékk fleiri atkvæði í enda kosningadags en síðasta kosningaspáin hafði reiknað með að viðkomandi fengi. Sá frambjóðandi er Jón Gnarr, leikari og borgarstjóri, sem endar í fjórða sæti í kosningunum með 10,2 prósent. Það bendir til þess að margir hafi á endanum ákveðið að kjósa hann „með hjartanu“ þótt við hafi blasað að Jón ætti engan möguleika á því að sigra. Þeir sem sögðust ætla að styðja hann nýttu sennilega eina tækifærið sem þeir fá til að kjósa Jón Gnarr sem forseta Íslands. 

Margir voru að dæma verk og stöðu stjórnarinnar

Framhjá því verður ekki horft að frá 5. apríl þá hafa forsetakosningarnar í huga margra snúist um einn frambjóðanda, Katrínu Jakobsdóttur. Þannig háttaði hjá þeim sem vildu sjá hana sem næsta forseta landsins og þeim stóra hópi sem vildi það alls ekki. Kosningarnar urðu pólitískt hlaðnar með þátttöku hennar á hátt sem þær hefðu ekki verið ef fyrirferðamesti stjórnmálamaður landsins síðustu ár hefði ekki verið á kjörseðlinum.

Ætlar ekki að gera þetta afturKatrín Jakobsdóttir sést hér yfirgefa útvarpshúsið með Bergþóru Benediktsdóttur, aðstoðarkonu sinni til margra ára, þegar nokkuð skýr mynd hafði teiknast upp af niðurstöðum kosninganna. Sú mynd að Halla Tómasdóttir myndi sigra nokkuð örugglega í kosningunum. Katrín sagði við RÚV í nótt að hún myndi ekki bjóða sig aftur fram til forseta, en hún hafði áður gefið út að hún væri hætt í stjórnmálum.

Katrín hafði verið forsætisráðherra þjóðarinnar frá því síðla árs 2017 þegar hún söðlaði um og sóttist eftir búsetu á Bessastöðum. Ríkisstjórn hennar, samsett af Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, er umdeild og hefur um nokkuð langt skeið mælst afar óvinsæl. Í síðustu birtu Gallup-könnun sögðust einungis 30 prósent landsmanna styðja hana, og stuðningurinn hefur aldrei verið minni. Allir stjórnarflokkarnir stefna í sína verstu kosningu frá því að þeir voru stofnaðir og flokkurinn sem Katrín leiddi árum saman stefnir í að þurfa að berjast fyrir áframhaldandi tilveru sinni í næstu kosningum. Sá sem tók við sem forsætisráðherra af Katrínu, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokks, mælist auk þess óvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar með nokkrum yfirburðum.

Það var því óumflýjanlegt að í huga margra yrðu forsetakosningarnar einhverskonar þjóðaratkvæðagreiðsla um verk og stöðu ríkisstjórnarinnar. Það þarf ekki annað en að horfa á fjölmargar opinberar yfirlýsingar fólks á samfélagsmiðlum þar sem þetta er sagt berum orðum.

Ljóst var á könnunum, og opinberum stuðningsyfirlýsingum, að kjósendur stjórnarflokkanna voru í miklum meirihluta í stuðningsliði Katrínar. Þegar uppi var staðið þá átti forsætisráðherrann fyrrverandi ekki inni neitt fylgi umfram það sem hún mældist með, sem var nokkuð stöðugt um fjórðungur, á meðan að fólk sem kaus taktískt á milli tveggja efstu frambjóðendanna valdi í unnvörpum Höllu Tómasdóttur umfram hana. 

Kjósa
44
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Sigmundur Guðmundsson skrifaði
    HHG-íhaldið og stórútgerðin töpuðu forsetakosningunum 2024

    :-) :-) :-) :-) :-) :-)
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Forsetakosningar 2024

Katrín niðurstaða flestra í Kosningaprófi Heimildarinnar
FréttirForsetakosningar 2024

Katrín nið­ur­staða flestra í Kosn­inga­prófi Heim­ild­ar­inn­ar

Katrín Jak­obs­dótt­ir lenti oft­ast í fyrsta sæti hjá þeim sem þreyttu Kosn­inga­próf Heim­ild­ar­inn­ar fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar 2024. Um fjórð­ung­ur þátt­tak­enda var oft­ast sam­mála fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herr­an­um. Yf­ir 8.000 tóku próf­ið en svör bár­ust ekki frá Vikt­ori Trausta­syni eða Ást­þóri Magnús­syni.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár