Heilu þjóðfélagshóparnir lenda ítrekað í því að vera hent á milli ríkisins og sveitarfélaganna, eins og tifandi tímasprengju, sem hvorugur aðilinn ætlar sér að díla á nokkurn hátt við.
Fyrir vikið daga þessir hópar uppi, fastir í Vonarstræti.
Í þessum hópum eru þau sem við, af fádæma yfirlæti, köllum „okkar minnstu bræður og systur“ þegar okkur hentar svo.
Ef þau hins vegar væru það, mætti með auðveldum hætti lýsa samfélaginu sem baneitraðri fjölskyldu, þar sem hver níddist á öðrum niður fyrir sig eða hundsaði, í besta falli.
Í þessum hópum sem ráfa um Vonarstræti eru til að mynda fólk sem glímir við alvarlegan og langvarandi geðvanda og þeir sem verst eru farnir af fíknisjúkdómum.
Það eru helst tvær leiðir sem þessir hópar hafa í skjól. Önnur þeirra er fangelsi en hin einfaldlega sú að deyja.
Við sem samfélag vitum fullvel hvernig þessum málum er háttað, en kjósum helst að líta í hina áttina og vona að hvorki við né einhver okkur nákominn, þurfi nokkru sinni að tilheyra þessum hópum.
Aftur, aftur og aftur
Í Heimildinni sem kemur út í dag er rakin ítarleg saga af því hvernig yfirvöld hafa hent þessum „systkinum“ okkar í geymslu sem haldið er úti á vægast sagt vafasömum forsendum.
Undir yfirskini þess að reka áfangaheimili þar sem skipulega er unnið að því að þjónusta og reisa við fólk með fíkni- og geðsjúkdóma. Án þess að minnsta tilraun hafi verið gerð til að ganga úr skugga um hvort þær fullyrðingar standist, hafa sveitarfélög veitt tugum milljóna króna af almannafé til þessarar starfsemi, sem var í engu samræmi við yfirlýstan tilgang sinn.
Eftirlitið með því að þessum fjármunum væri varið til þess sem þeim var ætlað – hvað þá að íbúarnir byggju ekki við lífshættulegar aðstæður – hefur ýmist verið lélegt eða akkúrat ekki neitt. Sem þarf ekkert að koma á óvart, þegar núna liggur fyrir að öllum sem gátu og áttu að grípa inn í hefur verið ástandið ljóst í langan tíma. Allar tegundir eftirlitsaðila og yfirvalda hafa ítrekað fengið ábendingar sem bentu til þess að áfangaheimilin svokölluðu væru bara ógeðfelldar, hættulegar og dýrar geymslur. Gróðrarstía fyrir áframhaldandi þjáningar og hrylling sem þessi hópur tekst á við.
Sagan sem rakin er í rannsókn Heimildarinnar í dag er ekki í fyrsta skipti sem fjallað er um þetta sama málefni. Sömu blaðamenn hafa oft áður fjallað ítarlega um þessa sömu starfsemi. Það breytti á endanum litlu, þrátt fyrir yfirlýsingar yfirvalda og fögur fyrirheit.
Oft segjum við að einhver þurfi að deyja áður en við bregðumst við augljósum slysa- eða dauðagildrum.
Í tilfelli „okkar minnstu bræðra og systra“ þarf fleiri en eitt. Það þarf fleiri en tvö, fleiri en þrjú. Og það er í raun alls óvíst hversu mörg þurfi að deyja svo eitthvað verði að gert. Jafnvel þó það gerist fyrir augunum á okkur, á meðan við erum upptekin við að halda fyrir bæði eyru.
Jafnvel þó að út úr þessum svokölluðu áfangaheimilum hafi reglulega verið borin lík heimilismanna, sem höfðu jafnvel legið sólarhringum saman inni á herbergjum áður en einhver varð þeirra var.
Í mörgum tilfellum þurfti jafnvel að skáskjóta þessum líkum út úr húsnæðinu, til þess að koma þeim fram hjá anddyri næsta húss við hliðina; aðalskrifstofu félagsþjónustu annars stærsta sveitarfélags landsins.
Kaupa sér frið
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og bæjaryfirvöld í Kópavogi höfðu í langan tíma verið meðvituð um að svokallað áfangaheimili Betra lífs í gömlu skrifstofuhúsnæði í Fannborg, þar sem leigð væru út herbergi, væri óboðlegt og beinlínis stórhættulegt.
Það tók reyndar bæjaryfirvöld í Kópavogi óvenjulangan tíma, í ljósi þess að í þessu sama húsnæði hafði bærinn verið með skrifstofur sínar, en flutt þaðan út þar sem það þótti ekki lengur boðlegt undir skrifborð embættismanna í Kópavogi.
Þegar svo loksins átti að grípa inn í hafði starfsemin flutt annað. Hvert? Jú, í annað skrifstofuhúsnæði í iðnaðarhverfi í Sundahöfn. Aftur varð ljóst að þar væri brunagildra sem ógnaði lífi þess fjölda fólks sem þar leigði húsnæði, og fullyrt var að væri áfangaheimili. Þar tók reyndar eldsvoði ómakið af yfirvöldum og greip inn í. Hrein mildi kom í veg fyrir að þar yrði stórfellt manntjón.
Í rúmt ár síðan að það brann ofan af starfseminni í Sundahöfn hefur fjöldi fólks búið í ónýtu húsnæði í Kópavoginum, sem stóð til að rífa. Aðstæður þar hafa um langt skeið verið yfirvöldum í Kópavogi og öðrum eftirlitsaðilum ljósar. Þar hafa undir yfirskini sama áfangaheimilisins verið leigð út herbergi á háu verði og ríkið greitt með húsaleigubætur, jafnvel þótt íbúar hússins væru skráðir með lögheimili í öðru sveitarfélagi og greiddu leiguna með reiðufé.
Aftur stóð til að gripið yrði inn í af yfirvöldum en núna var húsið rifið áður en gengið hafði verið úr skugga um að búið væri að haka í öll box einhvers eyðublaðs.
Slökkviliðinu er auðvitað vorkunn. Það er í raun með algjörum ólíkindum að það sé þess að sjá til þess að verið sé að veita umönnun og þjónustu, sem sannarlega á að vera veitt af fagfólki við boðlegar ástæður.
En það er þó lýsandi fyrir það hvernig við stöndum, eða stöndum hjá, þegar kemur að þessum hópi.
Það má vel halda því fram að yfirvöld hafi aldrei ætlað sér annað en að kaupa sér frið og afsökun til að halda áfram að horfa í hina áttina.
Úr augsýn
Við sem samfélag höfum í fjölda ára útvísað og útvistað þessu veika fólki með skipulögðum hætti. Komið því úr augsýn og í hendur einhvers annars. Hvers sem er og hvernig sem er.
Árangurinn af þessu er í besta falli umdeilanlegur. Afleiðingarnar hafa hins vegar oft verið alvarlegar og varanlegar fyrir þá sem síst skyldi. Skilyrðis- og eftirlitslaust hafa ótrúlegustu lukkuriddarar fengið í hendur vald, sem þeir misnotuðu eða voru engan veginn í stakk búnir til að fara með. Versta dæmið er af meðferðarstarfi Byrgisins.
Byrgismálið var ekki kynlífsskandall, eins og oft mætti halda af upprifjunum seinni ára. Það snerist um stórfelld brot manns gegn sjúklingum sem yfirvöld höfðu beint og óbeint falið honum að sjá um, án þess að hann hefði til þess nokkra sérþekkingu. En til hans var hægt að senda sjúklingahóp sem yfirvöld höfðu ekki og vildu ekki þjónusta.
Í skjóli og krafti þessa komst maðurinn upp með kynferðislega og andlega misneytingu skjólstæðinga sem leituðu á stofnun sem þeir og ættingjar þeirra og ástvinir, gáfu sér einfaldlega að væri til þess bær, þrátt fyrir allt.
Fleiri dæmi hafa komið upp, fyrr og seinna, þar sem sýnt hefur sig að þegar kemur að fólki með sögu af fíknisjúkdómum eru kröfurnar litlar og oftast engar, til samtaka, stofnana eða þeirra sem þeim stýra.
Þær eru fyrst og fremst tímabundin geymsla.
Geymslur sem gera okkur kleift að losna við kostnað, sem við greiðum engu að síður margfalt í óbreyttu ástandi. Það losar okkur líka við það að finna lausnir til þess að hjálpa þessum hópi öðruvísi en bara með því að bjóða þeim að hætta og „taka sig á“. Núverandi ástand veldur því að þessi afskipti hópur lifir við aðstæður sem gera þau daglega útsett fyrir áföllum, sem fæst ef nokkurt okkar þurfa nokkru sinni að upplifa. Það að takast á við fíkn með refsistefnu einni, gerir lítið annað en að auka á þessar hörmungar.
Sá hópur sem nýverið missti lyfjaskömmtun sína losnar ekki við líkamlega og andlega fíkn við það eitt að fá ekki lyfjunum skammtað úr apóteki. Hann þarf hins vegar að nálgast sömu lyf, margfalt dýrari, úti í bæ – jafnvel inni á yfirlýstum áfangaheimilum eins og nú er orðið ljóst.
Hvernig halda þeir sem um þessar ákvarðanir véla, að sú neysla sé fjármögnuð?
Við vitum það öll en neitum bara að fara þangað í huganum. Nema þegar um er að ræða „okkar fólk“.
Fordómaleysið
Þangað til þurfum við sem samfélag ekki að horfast í augu við þá augljósu fordóma sem við höfum gagnvart hópi fólks með tiltekinn fíknivanda, alvarlegar geðraskanir, svo ekki sé talað um verst setta hópinn, sem glímir við hvort tveggja.
Þeir fordómar eru eins og aðrir slíkir, eitthvað sem við fæst viljum horfast í augu við að liti skoðanir okkar og aðgerðir, eða aðgerðarleysi. Kannski er sú bjargfasta trú að telja sig fordómalausan með öllu, og þannig færan til að nálgast alla, málefni og úrlausnarefni jafnt, vandamálið, sem helst stendur því fyrir þrifum að við leyfum þessu að gerast.
Leyfum að komið sé fram við hóp af hreinni mannfyrirlitningu og lífshættulegu skeytingarleysi, sem gerir ekkert nema að auka á vanda þeirra og afleiðingar fyrir samfélagið.
Fyrir ekki svo löngu varð mikið upphlaup í austurborginni þegar ljóst var að reisa ætti tvö smáhýsi undir heimilislausa einstaklinga með fíknivanda, innst í botnlanga í Hlíðahverfinu, að öðru leyti umlukin hraðbrautum og umferðarmannvirkjum.
Allt ætlaði um koll að keyra. Fremst í flokki fór fólk sem taldi sig fordómalaust með öllu, en bar fyrir sig hag barna. Stjórn knattspyrnufélagsins Vals taldi „óheppilegt“ að koma hýsunum fyrir svo nálægt Hlíðarenda. Það myndi valda „ótta og óöryggi“ hjá börnum hverfisins.
„Það er ekki langt síðan það gerðist að ungur krakki fann fullt af sprautunálum á svæðinu,“ sagði formaður Foreldrafélags Hlíðaskóla.„Hér er gönguleið sem liggur að Valsheimilinu og hér er kassi ætlaður notuðum sprautunálum.“
Íbúi í hverfinu sem rætt var við af sama tilefni sagði: „Ég geng þarna fram hjá daglega og oft er mikið rusl þarna í kring. Á þriðjudagskvöld var lögreglan að pikka upp einstakling sem hafði látið lífið út af ofneyslu þarna og þykir mér slík aðkoma sorgleg en um leið ekki barnvæn.“
Þegar reisa átti sams konar smáhýsi á stóru og óbyggðu svæði sunnanvert í Laugardalnum mátti heyra sams konar mótmæli. Jafnvel þótt svæðið væri víðs fjarri íbúabyggð og á fáförnu svæði. Fólk hafði áhyggjur fyrir hönd barnanna og kvartanir undan skuggalegum og ógnandi mönnum bárust fljótlega. Að vísu svo fljótlega að þá hafði enginn flutt inn í húsin.
Viðhorfið sem þarna skein í gegn var tæpast illska. Fá ef nokkur þeirra sem höfðu uppi þessu aðvörunarorð höfðu gengist við því að ala með sér fordóma fyrir væntanlegum íbúum smáhýsanna. Þau óttuðust bara um börnin. Fólkið var hrætt. Og það er fátt mannlegra en að reyna að útiloka það sem við óttumst, jafnvel þótt það stríði gegn öllu röklegu.
Fátt ef nokkuð rökrænt er að baki þeim ótta að telja fólk, sem notar vímuefni í æð, hættulegt börnum. Jafnvel þegar það er heimilislaust. Og það að íláti undir notaðar nálar hafi verið komið á þann stað sem ætlaður var undir smáhýsin, mátti líka vera fólki vísbending um að þau sem áttu að koma yfir skjólshúsi voru þegar í hverfinu. Rétt eins og í flestum hverfum borgarinnar og stærstu og jafnvel smæstu bæjum Íslands.
Skortur á gagnrýnni hugsun er stundum sögð hin eiginlega skilgreining fordóma.
Það að láta eins og tiltekinn hópur veiks fólks hverfi við það eitt að koma yfir hann sómasamlegu skjólshúsi og sýna honum lágmarks samhygð, stenst auðvitað enga skoðun. Rétt eins og það að halda að hægt sé að koma ábyrgð á því yfir á hvern sem er, hvernig og hvert sem er. Líka út á mitt Vonarstræti.
En smá skot svona í framhjáhlaupi.
Þú ert að tala um fjölmennasta sveitarfélagið en ekki það stærsta er það ekki ?
Því Kópavogur er lang „stærsta“ sveitarfélagið á Íslandi. ;-)