Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, ákvað árið 2019 að hækka lífeyrisréttindi útvalinna undirmanna sinna um meira en helming. Um var að ræða tvo yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna. Kostnaður við þennan gjörning var að minnsta kosti 500 milljónir króna. Kostnaðurinn gæti þó enn aukist verulega þar sem enn er ekki búið að meta að fullu áhrif þess að standa við samkomulagið.
Allir níu eru aðilar að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) sem á ekki fyrir skuldbindingum sínum, en á þeim er þó ríkisábyrgð. Það þýðir að kostnaðurinn við ákvörðun Haraldar lendir á ríkissjóði.
Það var ekkert sem knúði á að hann gæfi mönnunum níu þessa fjárhæð. Ákvörðunina tók Haraldur algjörlega upp á sitt einsdæmi haustið 2019 og eini tilgangur hennar var að stórhækka lífeyrisgreiðslur nímenninganna, sem allir voru á leið á eftirlaun. Hæstiréttur Íslands kallar þessa ólögmætu ákvörðun Haraldar, í nýlegum dómi, „örlætisgjörning“ sem „engar viðhlítandi skýringar hafa verið gefnar á“. Það gerði hann í máli mannanna níu gegn íslenska ríkinu og embætti ríkislögreglustjóra þar sem þeir sóttu að um bindandi samkomulag væri að ræða.
Niðurstaða Hæstaréttar var sú að þeir hafi ekki vitað að Haraldur hafði enga heimild til að gefa þeim umrædda fjármuni. Þeir hafi því verið grandalausir og í góðri trú. Ríkið, og þar með skattgreiðendur, situr uppi með reikninginn.
Sagður skorta skapgerð og getu
Til að setja þetta mál í samhengi verður að fara nokkuð langt aftur og rekja forsögu þess. Haraldur Johannessen var afar umdeildur allt frá því að hann var skipaður ríkislögreglustjóri snemma árs 1998. Hann er sonur Matthíasar Johannessen, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins til rúmlega 40 ára og áhrifamanns í Sjálfstæðisflokknum um áratugaskeið. Skipun Haraldar var af mörgum, með réttu eða röngu, tengd við áhrifastöðu föður hans, sem lést fyrr á þessu ári.
Árið 2019, þegar Haraldur hafði setið í um 21 ár, var staða hans orðin fallvölt. Sífellt fleiri innan lögreglunnar voru tilbúnir, í skjóli nafnleysis vegna ótta við afkomuafleiðingar, að segja það upphátt við blaðamenn að Harald skorti bæði skapgerð og getu til að sinna starfi ríkislögreglustjóra. Þannig hafi það alltaf verið en versnað til muna árin á undan.
Í fréttaskýringu sem birt var í öðrum af fyrirrennurum Heimildarinnar þá um sumarið voru mörg þeirra vandræðamála sem Haraldur hafði ratað í rakin. Má þar nefna það þegar hann átti að hafa hótað heildsala lífláti á vínbar árið 2001, að hann hafi ítrekað skaðað rannsóknir efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra eftir bankahrunið, að kvartað hefði verið yfir framgöngu hans gagnvart sérsveitarmönnum, að ársreikningar embættisins lægju óundirritaðir og að ýmsir rekstrarlegir þættir væru í ólagi.
Við bættist að Haraldur sendi bréf í nafni embættis ríkislögreglustjóra til rithöfundar og sjónvarpsmanns vegna bókar um gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands sem kom út árið 2016 og sjónvarpsþáttar um sama efni sem sýndur var ári síðar. Í bókinni hafði verið sagt frá minnisblaði frá þáverandi ríkissaksóknara til ráðuneytis dómsmála árið 2011 þar sem hann sagðist meta sem svo að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra „hafi um árabil skort faglega yfirstjórn og metnað“.
Í bréfunum, sem send voru í mars 2018, var sagt að mennirnir tveir, rithöfundurinn og sjónvarpsmaðurinn, bæru „ábyrgð á ólögmætri meingerð“ í garð Haraldar. Þeir kvörtuðu yfir aðförunum til umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að bréfin hefðu verið ámælisverð og „til þess fallin að rýra traust og trú á embætti ríkislögreglustjóra“. Dómsmálaráðuneytið gerði auk þess alvarlegar athugasemdir við framgöngu Haraldar í málinu.
Þeir sem fengu, studdu
Haraldur ákvað að hefja viðræður við mennina níu um stórauknar greiðslur úr lífeyrissjóði að starfi loknu í maí 2019. Þá höfðu bæst við ofangreind álitamál stigmagnandi deilur milli Haraldar og ýmissa annarra innan lögreglunnar vegna fata- og bílamála annars vegar og meintra vafasamra samskiptahátta hans hins vegar. Sumt af því rataði í opinbera umræðu snemmsumars 2019.
Um miðjan júní sendi stærstur hluti nímenninganna stuðningsyfirlýsingu til þáverandi dómsmálaráðherra, Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, þar sem lýst var yfir fullum stuðningi við Harald sem ríkislögreglustjóra. „Við, deildarstjórar við embætti ríkislögreglustjóra, lýsum yfir fullum stuðningi við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra. Á þeim rúmlega 20 árum sem Haraldur Johannessen hefur gegnt starfi ríkislögreglustjóra hefur hann jafnan gengið fram sem ábyrgum og vönduðum embættismanni sæmir. Hann hefur verið farsæll í störfum sínum og stýrt embættinu af fagmennsku og festu,“ sagði í yfirlýsingunni sem var þó ekki gerð opinber fyrr í september sama ár.
Viðræður Haraldar við mennina níu enduðu með því að hann gerði samningana umdeildu, sem kosta íslenska skattgreiðendur yfir hálfan milljarð króna, þann 26. ágúst 2019.
Rak sig með viðtali og fékk tveggja ára starfslokasamning
Nokkrum dögum síðar sauð opinberlega upp úr í samskiptum Haraldar við þorra lögreglunnar. Lögreglustjórafélagið, fjölmörg lögregluembætti og Landssamband lögreglumanna höfðu óskað eftir því að Ríkisendurskoðun myndi gera úttekt á embætti ríkislögreglustjóra á meðan að Haraldur stýrði því. Á meðal þess sem kvartað var yfir voru „ógnar- og óttastjórnun“ og meðvirkni í efsta lagi stjórnenda embættisins. Í ályktun Landssambands lögreglumanna sagði meðal annars að „um langt skeið hefur ríkt mikil óánægja meðal lögreglumanna með störf yfirstjórnar embættis ríkislögreglustjóra“.
Dómsmálaráðherra féllst á að sú úttekt yrði gerð. Hún snéri að fjárreiðum, stjórnsýslu og stjórnarháttum embættisins en markmiðið var að kanna hvernig ríkislögreglustjóri sinnir þeim verkefnum sem honum eru falin samkvæmt lögum eða sérstökum samningum. Haraldur sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem hann sagði að yfirlýsingar annarra innan lögreglunnar væru til þess fallnar að ala á ótta og bitnuðu á öryggi almennings.
Þann 14. september 2019 birtist svo frægt viðtal við Harald í Morgunblaðinu þar sem hann eiginlega rak sjálfan sig. Ómögulegt var að sjá hvernig hann ætlaði að starfa sem yfirmaður í lögreglunni eftir birtingu þess. Þar sagði Haraldur að aðför væri í gangi gegn sér. Verið væri að reyna að hrekja hann úr embætti með því að dreifa rangfærslum og rógburði um hann og að þeir sem það gerðu væru ónafngreindir lögreglumenn sem teldu sig eiga harma að hefna. Í þeirri vegferð væri „svívirðilegum aðferðum [beitt] í valdatafli, hagsmunagæslu og pólitík“. Ástæða aðfararinnar væri meðal annars sú að hann hefði bent á að spilling ætti ekki að líðast innan lögreglunnar.
Í kjölfar viðtalsins lýstu átta af níu lögreglustjórum landsins og formannafundur Landssambands lögreglumanna yfir vantrausti á Harald. Viðtalið í Morgunblaðinu var nefnd sem lykilástæða.
Nokkrum vikum síðar, í byrjun desember, var opinberað að gerður hafði verið starfslokasamningur við Harald Johannessen. Hann kostaði íslenska ríkið 57 milljónir króna á þávirði, um 75 milljónir á núvirði, og í honum fólst að Haraldur fékk greiðslur í tvö ár eftir að hann lauk störfum sem ríkislögreglustjóri. Vinnuskylda á því tímabili takmarkaðist við þriggja mánaða ráðgjafarstarf fyrir dómsmálaráðherra.
„Færa má fyrir því gild rök að ríkislögreglustjóri hafi með framangreindri ákvörðun misnotað aðstöðu sína sér eða öðrum til ávinnings og hallað réttindum hins opinbera“
Eftir að samið var um starfslok Haraldar snemma í desember 2019 losnaði um málbeinið hjá ýmsum sem höfðu starfað í nálægð við hann árum saman. Einn þeirra var Helgi Magnús Gunnarsson, sem verið hefur vararíkissaksóknari frá árinu 2011 og var þar áður yfir efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra frá árinu 2007. Hann sagði í viðtali við annan þeirra miðla sem nú mynda Heimildina að Haraldur hefði lagt sig fram við að gera starfsfólk embættisins óánægt í starfi með framkomu sinni árum saman. Hann hefði getað sagt fyrir um það sem væri að gerast tíu árum áður.
„Misnotað aðstöðu sína sér eða öðrum til ávinnings“
Snemma í október 2019 byrjaði svo nýr stormur þegar samkomulagið sem Haraldur gerði við nímenninganna varð fyrst opinbert. Það gerðist eftir að Úlfar Lúðvíksson, þá formaður Lögreglustjórafélags Íslands (LÍ) og lögreglustjóri á Vesturlandi en nú lögreglustjóri á Suðurlandi, gerði fyrir hönd stjórnar LÍ alvarlegar athugasemdir við samkomulagið í bréfi sem hann sendi á glænýjan dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem hafði tekið við embættinu 6. september 2019. Hún hafði því setið í embætti í mánuð þegar bréfið barst. Áslaug Arna brást við erindinu með því að óska eftir skýringum frá Haraldi sem sagðist hafa verið í fullum rétti við gerð samkomulagsins við undirmenn sína. Það hefði meðal annars verið gert í samráði við Fjársýslu ríkisins.
„Með öðrum orðum þá telur Hæstiréttur að þessar yfirlýsingar ráðherranna tveggja séu til stuðnings því að mennirnir níu hefðu mátt ætla að samkomulag þeirra við Harald Johannessen væri gott og gilt.“
Þann 1. nóvember lýsti Áslaug Arna því yfir í fjölmiðlum að ríkislögreglustjóri hefði haft fulla heimild til að gera samkomulagið. Lögreglustjórafélagið brást ókvæða við og sendi erindi til dómsmálaráðuneytisins fimm dögum síðar þar sem sagði orðrétt: „Færa má fyrir því gild rök að ríkislögreglustjóri hafi með framangreindri ákvörðun misnotað aðstöðu sína sér eða öðrum til ávinnings og hallað réttindum hins opinbera. Alþjóðastofnanir á borð við OECD og félagasamtök eins og Transparency International leitast við að auka umræðu um spillingu og um leið reyna að dýpka og víkka skilning manna á birtingarmyndum hennar.“
Það var ekki fyrr en í apríl 2020 sem dómsmálaráðuneytið aðhafðist eitthvað í málinu og bað þá nýjan ríkislögreglustjóra um að taka samkomulagið til skoðunar. Sú skoðun leiddi til þess að embætti ríkislögreglustjóra tilkynnti nímenningununum að það teldi sig ekki bundið af samkomulaginu þann 21. ágúst 2020. Mennirnir fóru í mál við ríkið og ríkislögreglustjóra og unnu. Endanleg málalok voru í Hæstarétti í mars síðastliðnum. Kostnaður skattgreiðenda er rúmur hálfur milljarður króna.
Tveir ráðherrar kolrangstæðir
Hæstiréttur gagnrýnir í niðurstöðu sinni framgöngu Áslaugar Örnu. Hann segir að hún hafi sett fram „fyrirvaralausar staðhæfingar“ jafnvel þó ætla megi „að starfsmenn ráðuneytis og ráðherra hefðu á þeirri viku sem leið frá svörum ríkislögreglustjóra mátt gera sér grein fyrir augljósum efnislegum heimildaskorti þáverandi ríkislögreglustjóra“. Hæstiréttur gagnrýnir líka hversu langan tíma það hafi tekið ráðuneytið að aðhafast í málinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar er líka sagt að yfirlýsingar þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og núverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni, í umræðum á þingi í febrúar 2020, hafi styrkt þá trú nímenninganna um að samkomulag þeirra væri gott og gilt. Þar sagði Bjarni: „„Í þessu tilviki er það mat okkar í fjármálaráðuneytinu að menn hafi verið innan heimilda til að gera þær breytingar á starfskjörum sem um er fjallað í svarinu. [...] Hér hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að í þessu tiltekna embætti hafi menn haft heimildir til að ganga frá þessari útfærslu samninga. Það verður bara að meta hverju sinni.“ Umfjöllun Heimildarinnar í dag sýnir að ekkert styðji þá fullyrðingu Bjarna að ráðuneyti hans hafi á einhverjum tímapunkti lagt blessun sína yfir samning Haraldar, þvert á móti.
Samandregið þá telur Hæstiréttur að þessar yfirlýsingar ráðherranna tveggja séu til stuðnings því að mennirnir níu hefðu mátt ætla að samkomulag þeirra við Harald Johannessen væri gott og gilt. Heimildin hefur fjallað ítarlega um málið, nú síðast í tölublaði dagsins. Af þeim gögnum sem Heimildin hefur fengið afhent virðist blasa við að þessir tveir ráðherrar, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og þáverandi dómsmálaráðherra, hafi verið kolrangstæðir í málinu, og leikið hlutverk í því að ríkissjóður hefur orðið fyrir umræddu tjóni.
Hvað er góð meðferð opinberra fjármuna?
Sá flokkur sem ráðherrarnir tveir, Bjarni og Áslaug Arna, sitja í forystu fyrir er í orði afar umhugað um meðferð opinberra fjármuna. Þegar hentar eru engin útgjöld of smá til að gera þau að pólitísku bitbeini og benda á að þarna fari peningar almennings sem mætti nota til að lækka skatta eða í annars konar þarfari fyrirgreiðslu.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra notaði útgáfu af þessum frasa þegar hún svaraði óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi um mál nímennininganna nýverið. Þar sagði hún að mikilvægt væri að vel sé farið með almannafé. Tilefnið var fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, um hvort Guðrún teldi ekki rétt að vísa örlætisgjörningi Haraldar Johannessen til rannsóknar, í ljósi alvarleika málsins og vegna þess að með honum væri búið að skuldbinda ríkissjóð án heimildar.
Guðrún var að öðru leyti fámál í svari sínu og virtist eiga í vandræðum með að eiga við spurningarnar. Hún fékkst ekki til að segja af eða á hvort hún ætlaði að beina því til héraðssaksóknara að rannsaka málið. Og virtist raunar ekki vita hvaða embætti væri hið rétta til að takast á við slíka rannsókn.
Í máli Haraldar er staðan einfaldlega þannig að yfirmaður opinberrar stofnunar tók það upp hjá sjálfum sér að skuldbinda ríkissjóð til að greiða nokkrum nánum samstarfs- og stuðningsmönnum hans risavaxna upphæð í viðbótarlífeyrisgreiðslur rétt áður en þeir fóru á eftirlaun. Hann sagði ósatt um að hafa átt samráð við fjársýsluna um þennan ráðahag, hafði enga heimild til að gera þetta og Hæstiréttur hefur nú staðfest að um svokallaðan „örlætisgjörning“ var að ræða. Hann gaf mönnunum þetta almannafé.
Þetta er augljóslega ekki góð meðferð opinberra fjármuna. Það er heldur ekki boðleg stjórnsýsla hjá ráðherra dómsmála að stinga hausnum í sandinn eða kasta ábyrgð á því eins og heitri kartöflu til annarra fulltrúa almennings vegna þess að málið er flokkspólitískt óþægilegt á allan máta fyrir hana. Ráðherra ber að hafa almannahagsmuni ávallt að leiðarljósi í störfum sínum.
Það eru almannahagsmunir af því að láta rannsaka hvort að minnsta kosti hálfs milljarðs króna gjöf Haraldar Johannessen á peningum almennings standist lög. Þeir ráðherrar sem átta sig ekki á því ættu að finna sér annan starfsvettvang.
30. gr.
Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.
Hversu oft hafa starfandi stjórnmálamenn verið handhafar forseta valds hér undanfarin ár?(sönn íslensk sakamál)
9. gr.
Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja.
Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald.
Getur verið að Þorgerður Katrín hafi verið handhafi forsetavalds hvað skyldu þeir hafa greitt fyrir leigu á lögreglubúningum í þessa ofbeldis og bankaráns aðgerð hér í íslenska réttaríkinu?
Skinku stjórnin
Annað ráðuneyti Geirs H. Haarde 24. maí 2007 - 1. febrúar 2009.
Geir Hilmar Haarde forsætisráðherra
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra
Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra
Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra
Kristján L. Möller samgönguráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra