Þessi grein birtist fyrir rúmlega 7 mánuðum.

Upp á (þing)pallinn - Greifi á Alþingi

Bassa­leik­ari hinn­ar goð­sagnak­endu sveit­ar Greif­anna, er einn af þing­vörð­um Al­þing­is. Jón Ingi Valdi­mars­son hef­ur gegnt starf­inu í sjö ár og þyk­ir gera það með sóma. Viddi, æsku­vin­ur hans og Greifi, seg­ir fáa betri drengi til en Jón. Fjöru­tíu ár eru síð­an hljóm­sveit­in var stofn­uð, kom sá og sigr­aði. Af­gang­inn skrifa menn um í sögu­bók­um. Hef­ur ekki áhrif á hæfi Bald­urs Þór­halls­son­ar, seg­ir stjórn­mála­fræð­ing­ur.

„Hvernig í ósköpunum fattaðirðu það?“ spyr þingvörðurinn á leið niður stiga Alþinghússins. Blaðamaður Heimildarinnar hafði hallað sér yfir stigahandriðið og hálfvegis hrópaði að manninum:

„Varst þú ekki í Greifunum?!“

Sem reyndist rétt. 

Í öllum þeim átökum og allri þeirri eftirsókn eftir ráðherrastólunum tólf í þingsalnum; þar sem þingmenn, oft blóðugir upp að öxlum og með hnífasettin í bökum samflokksmanna sinna, svífast einskis til að geta kallað sig „ráðherrra“ - er einungis einn og óumdeildur Greifi í þinghúsinu.

Ekki nokkur maður svo vitað sé hefur lagt til að hann láti af því embætti, lagt fram á hann vantraust eða gert, eða lagt í að gera, tilraun til að velta honum úr sessi.

Þessi Greifi við Austurvöll, er Jón Ingi Valdimarsson, þingvörður til sjö ára og bassaleikari hljómsveitarinnar Greifanna til ríflega fjörutíu ára.

Þingkona féll í stafi

Greifarnir nutu gríðarlega vinsælda um og eftir miðjan níunda áratug síðustu aldar - og gera raunar enn.

Til marks um það tjáði ein af yngri þingkonum þjóðarinnar blaðamanni það, nánast dreymin á svip, að hún hefði orðið „starstruck" (frægðarfangin) þegar hún uppgötvaði ný kjörin á þing, hvaða goðsögn gengi um í búningi þingvarðar á nýjum vinnustað hennar.

Söfnuðu liði og hefndu

Greifarnir sækja rætur sínar til Húsavíkur. Fjórir ungir menn, sem höfðu spilað saman frá því þeir voru pollar, stofnuðu formlega hljómsveit árið 1984. Sveitin hét í fyrstu Special treatment (Sérmeðferð upp á íslensku). Ári síðar héldu húsvísku drengirnir suður til Reykjavíkur og freistuðu gæfunnar í þá nýstofnaðri hljómsveitakeppni; Músíktilraunum Tónabæjar.

Einungis armslengd frá gulli enduðu Sérmeðferðarmenn á að fara norður með silfrið í Músíktilraunum árið 1985.

Sigurvegarar það árið voru hljómsveitin Gypsy, sem í voru meðal annars Hallur Ingólfsson, trommari XIII og Ham, auk Ingólfs Geirdal, töframanns og gítarhetju í Dimmu.

Eins og sönnum Þingeyingum sæmir lögðu Greifar ekki árar í bát sinn; vældu ekki bóndann Bjössa, heldur söfnuðu liðu og hefndu, að ári liðnu.

Fundu fyrst í Borginni ungan söngvara í Verslunarskólanum, Felix Bergsson. Fundu nýtt nafn á bandið. Greifarnir, komu, sáu og sigruðu í Músíktilraunum árið 1986.

Einn upprunalegu meðlima Greifanna var og er bassaleikarinn Jón Ingi. Eins og margir kollega hans á þykku strengjunum fjórum, hefur hann ekki raðað sér fremst á sviðssenuna í þau fjörutíu ár sem hann hefur komið fram með Greifunum.

Starfandi kyntáknGreifarnir á blómatíma sínum um miðjan níunda áratuginn. Jón Ingi er lengst til vinstri á myndinni. Herðapúðar og hársprey voru skyldueign ungs fólks á þessum tíma og ekki óalgengt að meik smitaðist í Millet-úlpur þess.

Á sama hátt hefur Jón Ingi haldið sig frá sviðsljósinu á vinnustað sínum við Austurvöll; það er helst að hann sjáist fylgjast með því að allt fari rétt fram úr hliðarsölum, þingsalarins. Hann sinnir störfum þingvarðar með stakri prýði, að því er kunnugir tjáðu blaðamanni.

Hógvær og góður drengur

Þrátt fyrir þrábeiðni blaðamanns, sem var nánast á hnjánum í viðleitni sinni, baðst Jón Ingi góðlátlega undan viðtali og sagðist kurteislega kjósa að halda sig sem fyrr, bakatil á senunni, hvort sem væri í Ýdölum eða á Alþingi.

Í sama takti hógværð ár hefur Jón, ekki verið að guma af sigrum sínum á tónlistarsviðinu meðal vinnufélaga sinna. Í stuttri kynningu starfsmanna á innri vef þingsins er haft eftir Jóni að í frístundum hitti hann stundum hóp félaga úr gamalli unglingahljómsveit. Sem verður að teljast með grynnri áratökum, í lýsingum á landsþekktri og vinsælli hljómsveit, sem óumdeilt nýtur meira fylgis en obbi þingmanna.

Hljómsveit sem seldi hljómplötur þúsundavís, sem á voru slagarar sem þorri þjóðarinnar þekkir. 

„Við erum búnir að þekkjast síðan við fæddumst, enda eru sex dagar á milli okkar, svo bjuggum við hlið við hlið heima á Húsavík,“ segir Viðar Haraldsson, alltaf kallaður Viddi, hljómborðsleikari og söngvari Greifanna. Viddi segir þá Jón Inga hafa verið og enn vera bestu vini.

„Hann er gegnheill og pottþéttur drengur, eins og bassaleikara er siður,“ segir Viddi. Greifarnir koma enn fram reglulega og segja þá enn vera unglingahljómsveit. 

„Við erum fyrst og fremst í því núna af því okkur þykir þetta skemmtilegt. Sem það sannarlega er enn þá,“ segir Viddi.

Svo gæti vel farið að sveitin komi fram um verslunarmannahelgina næstu, þó Viddi vilji síður nefna stað og stund á þessum tímapunkti.

Eina hátíð þá helgi ársins er hægt að útiloka, Atlavíkurhátíðina. Hún hefur runnið sitt skeið fyrir allmörgum áratugum. Á blómaskeiði þeirrar samkomu sömdu Greifarnir eins konar ópus til Atlavíkur í Hallormsstað; lagið Útihátíð. Þar er lýst ferðalagi um hátíðarsvæðið, ýmist upp á sviðspallinn, niður aftur, rölti um Hallormsstaðarskóg og sundferð í Lagarfljótinu, allt þó undir einlægum óskum Greifanna um að á þeirri ferð, skemmti allir sér vel.

Upp á pallinnLagið Útihátíð var og er vinsælt og textinn í viðlaginu flestum þeim tamur og auðveldur til söngs, sem komnir eru yfir komplexa táningsáranna.

Þingvörðurinn með bassann, Jón Ingi Valdimarsson, er ekki eini meðlimur sveitarinnar sem tengist eða gæti tengst æðstu stjórn landsins. Söngvarinn fyrrverandi, þessi sem sóttur var úr Verslunarskólanum, gæti þannig orðið eiginmaður næsta forseta lýðveldisins, fari svo að Baldur Þórhallsson, eiginmaður Felix Bergssonar, hljóti til þess nægt fylgi.

Einhverjar vangaveltur hafa verið um mögulegar stjórnskipunarlegar flækjur og hæfi Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, fari svo að hún verði kjörin forseti. Hins vegar telja sérfræðingar að staða þeirra Baldurs og Jóns Inga, sökum tengsla beggja við Felix, muni lítil eða engin áhrif hafa á samskipti þings og forseta.

„Nei, ég held að það muni alls engin áhrif hafa eða leiða til nokkurrar stjórnskipulegrar klemmu,“ sagði Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor í samtali við Heimildina um þetta atriði. Eiríkur hins vegar tók undir að vissulega þætti honum merkilegt að heyra að bassaleikari Greifanna væri starfsmaður Alþingis. Eiríkur man enda vel eftir því þegar sveitin var á hátindi frægðar sinnar - eins og allir sem þá höfðu aðgang að útvarpi, sjónvarpi eða stereó-græjum.

Kjósa
22
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Helgi skoðar heiminn

Við hvaða götu býr Ragnar? Reykás
Helgi skoðar heiminn

Við hvaða götu býr Ragn­ar? Reykás

Sauð­kræk­ing­ur­inn Ragn­ar Páll Árna­son, sem starfar hjá Öss­uri, býr í ná­grenni höf­uð­stöðva fyr­ir­tæk­is­ins, við göt­una Reykás. Seg­ist ekki hafa ætl­að að ílengj­ast þar, en kann nú hvergi bet­ur við sig. Siggi Sig­ur­jóns, guð­fað­ir Ragn­ars Reykáss, kann vel að meta sög­una af „nafna“ sín­um. Hann á sjálf­ur pín­lega en um leið drep­fyndna sögu tengda göt­unni í Ár­bæn­um.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár