Í
fyrsta skipti í rúm þrjátíu ár er Gunnar Þorgeirsson, garðyrkjubóndi á Ártanga í Grímsnesi og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, ekki virkur þátttakandi í félagsstörfum eða pólitík. Hann hefur á þeim tíma verið upptekinn ýmist í stjórn Landsbjargar, í sveitarstjórn Grímsness og Grafningshrepps, eða í forsvari fyrir, sunnlensk sveitarfélög, garðyrkjubændur og nú síðast, heildarsamtök íslenskra bænda.
En nú er hann hættur.
„Já, nú segi ég þetta gott. Enda fékk ég skýr skilaboð um það frá bændum í þessari kosningu,“ segir hann og bætir við hlæjandi upp á ensku: „I rest my case.“
Gunnar laut í lægra haldi í kosningu á Búnaðarþingi í síðasta mánuði. Trausti Hjálmarsson bóndi í Biskupstungunum, og leiðtogi arms sauðfjárbænda í heildarsamtökunum, fékk afgerandi kosningu, tvo þriðju atkvæða.
Túlípanahafið og viðhaldið
„Ég hef oft grínast með það hversu góður ég er orðinn í því að skipta um föt, fara úr vinnugallanum í skárri föt vegna fundarsetu,“ segir Gunnar.
Á Ártanga rekur hann fyrirtæki sem meðal annars skaffar 600 þúsund túlípana í blómavasa Íslendinga ár hvert og er brautryðjandi í ræktun kryddjurta sem tonnum saman fara í verslanir og veitingastaði. Edda konan hans hefur reyndar borið hitann og þungann af þeim rekstri undanfarin ár.
„Ég held að meira og minna allur þingflokkur Framsóknarmanna hafi verið virkjaður í það. Og Kaupfélagið [Kaupfélag Skagfirðinga]“
„Ég hef reyndar alltaf sagt að hann sé samt viðhaldið mitt,“ segir Edda og glottir á meðan hún hagræðir pottum af kryddjurtum sem standa undir lömpum í einu gróðurhúsinu. „Þá er ég auðvitað að meina að þó hann hafi verið á fullu undanfarin ár og raunar lengur, hefur hann alltaf séð um allt viðhald hérna. Alltaf gefið sér tíma til þess.“
Flokkspólitík
Við setjumst niður með Gunnari í gróðurhúsinu. Um vistaskiptin segist hann taka niðurstöðu kosninganna. Aðdragandi og eftirmál kosninganna vekji hins vegar spurningar í hans huga, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
Það er engin launung að stirt hefur verið milli Framsóknarmanna og forystu Bændasamtakanna undanfarin ár. Það vakti athygli þegar Gunnar var kjörinn árið 2020 og Vigdís Häsler tók við stöðu framkvæmdastjóra samtakanna, að þá var það í fyrsta skipti sem í hvorugum stólnum sat yfirlýstur Framsóknarmaður.
Gunnar er Sjálfstæðismaður og Vigdís hafði verið aðstoðarmaður ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Stirðleikinn náði síðan ákveðnu hámarki í heimsókn þeirra síðarnefndu til þingflokks Framsóknar, þar sem formaður flokksins viðhafði rasísk ummæli um Vigdísi framkvæmdastjóra. Við sama tilefni firrtist varaformaður flokksins við þegar, Gunnar ætlaði að heilsa henni með faðmlagi.
Sjálfur segist Gunnar ekki hafa neinar skýringar á þessari úlfúð; telur hana hins vegna hafa birst skýrt í aðdraganda formannskjörsins á dögunum.
„Ég hef ekki gert þeim nokkurn skapaðan hlut. Ég hef talað við og átt í samstarfi við alla. Það sem gerist hins vegar er að fyrrverandi formaður flokksins og fyrrverandi landbúnaðarráðherra [Guðni Ágústsson] fær það á heilann að frændi hans þurfi að verða formaður. Þaðan skilst mér að undirrótin að þessu sé komin.“
Stutt er á milli Guðna Ágústssonar og Þórólfs Gíslasonar, kaupfélagsstjóra í Skagafirði, sem er óumdeilt einn valdamesti, ef ekki valdamesti, maðurinn í íslenskum landbúnaði. Þórólfi, sem stutt hefur Framsóknarflokkinn og gengt embættum innan flokksins var, að sögn Gunnars, mikið kappsmál að skipt yrði um formann Bændasamtakanna.
„Ég held að meira og minna allur þingflokkur Framsóknarmanna hafi verið virkjaður í það. Og Kaupfélagið [Kaupfélag Skagfirðinga].“
-Hvers vegna?
„Það endurspeglast í því hvernig svo ný stjórn Bændasamtakanna fer skyndilega í 180 gráður varðandi afstöðu til þessa frumvarps, sem nú er orðið að lögum,“ segir Gunnar og á þar við umdeilda breytingu á búvörulögum sem fór ógnarhratt í gegnum Alþingi nú rétt fyrir páskafrí.
Breytingar sem þáverandi forysta Bændasamtakanna hafði goldið varhug við, áður en gerðar voru umfangsmiklar breytingar á því sem voru enn fjær vilja fyrri stjórnar samtakanna.
„Eins og þetta er núna er ekkert í lögunum sem getur tryggt það að bændur njóti afrakstursins. Það er bara þannig,“ segir Gunnar. Lögin gera afurðarstöðvum – fyrirtækjum sem taka við búfénaði frá bændum, slátra og vinna úr afurðum bænda – kleift að hafa með sér umfangsmikið samstarf, samvinnu og samráð um verð og skipulagningu kjötmarkaðar. Heimild sem í raun er alvarlegt lögbrot á öllum öðrum mörkuðum, að viðlögðum háum fjársektum og jafnvel fangelsisrefsingu.
Bændasamtökin voru aldrei andvíg því að afurðarstöðvar sem bændur ættu sjálfir og stýrðu að meirihluta fengju leyfi til aukins samstarfs og samvinnu: „(M)eð færri og stærri einingum...sem skili sér til bænda í fleiri greiddum krónum. Eða með öðrum orðum, færri krónur þurfa að fara í milliliði og fleiri krónur fari til frumframleiðenda,“ eins og sagði í umsögn yfirlögfræðings Bændasamtakanna sem send var atvinnuveganefnd í desember síðastliðnum.
Forsaga breytinganna er líka staða sem bregðast þurfti við vegna bágrar stöðu bænda. Þannig var lagt upp með málið fyrir einum sex árum, meðal annars í svokölluðum lífskjarasamningum og síðan sérstökum starfshópi ráðherra, sem settur var á fót til að bregðast við afkomubresti bænda; sérstaklega þeirra sem stunda sauðfjárrækt. Það var líka upplegg matvælaráðherra sem lagði frumvarpið fyrst fram.
„Ég gat alveg stutt þá í því að fá auknar heimildir til samstarfs og samvinnu til þess að geta keppt við innflutning, en það mátti ekki ganga út á það að bændur fengju ekki neitt,“ segir Gunnar. Hins vegar sé útkoman sú að öll tromp séu nú í höndum „þeirra" það er að segja afurðastöðvanna. Bændur hafi enga tryggingu fyrir því að hagræðið sem sagt er nást fram með lagabreytingunni, skili sér til þeirra.
„Það slær mig bara þannig að afurðastöðvarnar stýrðu þessi. Það voru ekki bændur sem gerðu það, það er langur vegur frá,“ segir Gunnar um lokaniðurstöðuna eftir hanteringu meirihluta atvinnuveganefndar, á síðustu metrum fyrir páskafrí.
Eins og kom fram í Heimildinni var sú breyting frumvarpsins sem Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og formaður atvinnuveganefndar þingsins, lagði fram unnin með aðstoð lögmanns Samtaka fyrirtækja í landbúnaði; fulltrúa sömu fyrirtækja og sótt höfðu auknar heimildir afurðastöðva til samstarfs. Skrefa sem bændaforystan hafði lagst gegn.
Samkeppniseftirlitið fordæmdi breytingu þingnefndarinnar, og svo meirihluta þingsins, harðlega, líkt og Neytendasamtökin og stéttarfélög.
Efasemdir hafa jafnvel komið fram um hvort breytingin stangist jafnvel á við alþjóðasamninga sem Ísland hefur undirgengist.
U-beygja bændaforystu
Afstaða Bændasamtakanna til málsins gjörbreyttist í kjölfar formannsskiptanna í byrjun mars. Þegar svo breytt frumvarp formanns atvinnuveganefndar, kom skyndilega fram nokkru síðar sendi nýr formaður Bændasamtakanna, Trausti Hjálmarsson, inn umsögn þar sem lýst var eindregnum stuðningi nýrrar stjórnar við breytingarnar.
Gunnar Þorgeirsson segir það óskiljanlega ákvörðun af hálfu eftirmanns síns og nýrrar stjórnar.
„Það er ekkert sem getur komið í veg fyrir að menn geti hringt sig saman og ákveðið að þeir ætli bara að borga 300 kall á kílóið til bænda. Og ef bændur sætta sig ekki við það, er það ekki til neins,“ segir hann.
Ekkert sé þannig gert til að tryggja í það minnsta lágmarksverð til bænda fyrir kjötafurðir sínar í lögunum, þvert á upphaflegt markmið.
„Þegar mjólkurframleiðslan fékk á sínum tíma samskonar undanþágu frá samkeppnislögunum var í þeim varnagli, sem fólst í því að verðlagsnefnd var sett á fót til þess að gefa út lágmarksverð fyrir mjólk frá bændum. Til þess að tryggja bændum eitthvað verð að lágmarki,“ segir Gunnar.
Það hafi sýnt sig vera nauðsynlega aðgerð, eins og komið hafi berlega í ljós.
„Alveg frá því að verðlagsnefndin var sett á laggirnar, hefur það hins vegar aldrei gerst að afurðarstöðvar í mjólkuriðnaði hafi greitt annað en lágmarksverð, ekki krónu meira.“
Gunnar segir að nú eigi veita fyrirtækjum undir stjórn sömu manna heimild til að eiga samráð og sjálfdæmi um hvaða verð þeir greiði bændum fyrir búfé til slátrunar og vinnslu.
Kaupfélag Skagfirðinga (KS) er eigandi fimmtungshlutar í MS en engu að síður með áhrif umfram það í stjórn Mjólkursamsölunnar. Auðhumla, samvinnufélag í eigu bænda um allt land, utan Skagafjarðar, á síðan 80% í MS.
Breytingin fyrir KS og SS
KS er líka stærsti hagsmunaðilinn í hópi kjötafurðastöðvanna sem nú hafa fengið heimild til á kjötmarkaði. Svo einnig með annað stórfyrirtæki á kjöt markaði, Sláturfélag Suðurlands (SS).
Hvorki SS né KS eru í meirihlutaeigu bænda. KS í meirihlutaeigu íbúa í á starfssvæði KS í Skagafirði, sem eru að meirihluta til ekki bændur.
Bændasamtökin lögðu mikla áherslu á að í frumvarpinu væri skilyrði um að fyrirtæki í meirihluteigu og undir stjórn bænda fengju heimild til samvinnu og undanþágu frá samkeppnislögum. Skilyrði sem Samtök fyrirtækja landbúnaði (SAFL) vildu ekki að yrði sett í lögin. SAFL, hvers stjórn er leidd af fulltrúa KS, aðatoðarkaupfélagsstjóranum Sigurjóni Rúnari Rafnssyni, hafði betur þegar kom að því að ná eyrum þingsins, eins og áður var rakið.
Fyrrverandi formaður Bændasamtakanna segir það enga tilviljun. Þessir þrír risar: MS, SS og KS, hafi fyrir verið í yfirburðastöðu gagnvart bændum. Valdajafnvægið sé nú enn meira.
„Þessi þrjú öfl ráða afkomu íslenskra bænda. Bara algjörlega. Þessi þrjú dóminerandi fyrirtæki eru algjörlega ráðandi um hag íslenskra bænda og hvað þeir hafa í laun.“
-Hvernig finnst þér að þeir fari með það vald sem þeir hafa í skjóli þess?
„Mér finnst þeir ekki fara nógu vel með það.“
Óverjandi innflutningur
Þessi fyrirtæki og fleiri, sem ýmist eru að stórum hluta í eigu bænda eða kjötframleiðenda, hafa undanfarin ár sætt harðri gagnrýni fyrir að vera á sama tíma umfangsmiklir innflytjendur landbúnaðarafurða.
Sömu fyrirtæki og sögð eru eign bænda, vinna afurðir bænda, niðurgreiddar og/eða varðar verndartollum af ríkinu, hafa samtímis verið umsvifamest fyrirtækja í innflutningi búvara.
„Það er mjög erfitt að verja þetta,“ segir Gunnar sem telur þessa framgöngu afurðarstöðvanna ekki eiga að viðgangast.
„Þeir eiga bara að láta einhverja aðra um það. Á móti segja forsvarsmenn afurðastöðvanna að þá missi þeir svo mikla markaðshlutdeild. Á móti segi ég, þið eruð afurðarstöðvar í eigu bænda og er þá ekki varan illa markaðssett, unnin eða illa framsett?“
Innflutningur á kjöti og osti hingað til lands er takmarkaður til varnar íslenski framleiðslu. Það takmarkaða magn sem þó má flytja inn er boðið út. Í þeim útboðum hafa fyrirtæki bænda verið frek til fjörsins.
Gunnar segir það sé einn anga þessara nýju laga sem vekji spurningar; að nú geti þessi sömu fyrirtæki jafnvel komið sér saman um verðtilboð og þannig keyrt niður verð á tollkvótum í þessum útboðum.
Sporin hræði í þeim efnum. Það hafi sést best í útboði vegna innflutnings nokkurra tuga tonna af nautakjöti í ársbyrjun. Í stað nokkur hundruð króna sem fyrri útboð höfðu skilað fyrir hvert innflutt kíló, varð tilboðsverðið skyndilega ein króna.
„Ég sagði við matvælaráðuneytið þá að það væri einfaldlega þannig að einhver hefði hringt í einhvern,“ segir Gunnar, en hagfræðingur Bændasamtakanna benti á að niðurstaða útboðsins hafi verið þvert á hina auknu eftirspurn sem þá var eftir nautakjöti.
„Þetta getur ekki verið svona í raunhagkerfi, að tollkvótinn fáist á eina krónu, þegar eftirspurnin er miklu meiri en framboðið. Þessi tollkvóti hafði áður verið upp undir 400-500 kall kílóið," áréttar Gunnar.
Eitt þeirra fyrirtækja sem tók þátt krónu-útboðinu og fékk næst mestu úthlutað, er skúffufyrirtækið Háhólmi, sem tók yfir innflutning dótturfyrirtækis KS, eftir að skagfirskir bændur mótmæltu kjötinnflutningi KS, í samkeppni við og til skaða fyrir málstað eigin félagsmanna.
Landsbankinn og Birta tæpast bændur
Sláturfélag Suðurlands, er líka umsvifamikill innflytjandi búvara í samkeppni við bændur í eigendahópi félagsins.
Á sama tíma fer SS mikinn í auglýsingum þar sem lögð er áhersla á íslenska framleiðslu í sunnlenskum sveitum og Sláturfélag
Suðurlands markaðssett sem „fyrirtæki í eigu 900 bænda“ í auglýsingaherferðum.
„Það segir ekki alla söguna,“ segir Gunnar.
Raunin er enda sú að Lífeyrissjóðurinn Birta og Landsbankinn eiga stærstu einstöku hlutina, og saman meirihluta, í Sláturfélaginu.
Samvinnufélag bændanna 900 á undir 10% af hlutafé Slàturfélags Suðurlands.
-Er það ekki villandi markaðssetning?
„Jú,“ svarar Gunnar.
Þýska SS-pylsan
Nýverið vakti það athygli þegar í ljós kom að þekktasta vörumerki Sláturfélags Suðurlands, sjálf SS-pylsan, reyndist í besta falli þýsk-íslensk. Í smáu letri á merkingum pylsupakka fyrirtækisins kom þannig fram að svínakjötið í pylsunum væri ekki alíslenskt, heldur blandað með þýsku svínakjöti.
Sem aftur er í hróplegri mótsögn við markaðs- og auglýsingaefni Sláturfélagsins.
Gunnar gagnrýnir forstjóra Sláturfélagsins harðlega fyrir þetta og spyrt hvort það sé þannig að SS-pylsan sé þá orðin þýsk, pólsk eða hvaðan þá úr heiminum, sem SS sæki innflutt svínakjöt eftir að hafa misst frá úr viðskiptum alla svínaræktendur á Suðurlandi, utan eins.
Allt vegna hins lága afurðaverðs sem SS bauð að sögn Gunnars.
„Hann er leynt og ljóst búinn að drepa alla svínarækt á Suðurlandi,“ segir Gunnar um forstjórann, Steinþór Skúlason, sem stýrt hefur Sláturfélagi Suðurlands í á fjórða áratug.
„Hann getur ekki einu sinni sett það litla íslenska svínakjöt sem hann enn fær í pylsurnar til þess alla vega að halda orðspori SS-pylsunnar. Og flytja þá frekar inn svínakjötssneiðar ef það vantar upp á.“
„Að fela eitthvað“
Þarna sé ef til vill enn ein skýringin á tregðu SS og annarra afurðastöðva til þess að taka upp afurðamerkingu íslenskra bænda, segir Gunnar.
„Í tuttugu ár í röð hefur landsþing bænda samþykkt ályktun um að setja upp afurðarmerki íslenskra bænda. Og nú er loksons búið að búa til þetta merki: „Íslenskt staðfest."
Gunnar segir ástæðuna ítrekaða tregðu afurðarstöðvanna til þess að ræða eða taka upp merkinguna. Þær hafi borið fyrir sig kostnaði og umstangi. Gunnar segir að þau rök haldi ekki. Kostnaður eða umfang sé ekki umfram heimsóknir heilbrigðiseftirlits í fyrirtækin.
„Menn hafa verið með einhverja varnagla á því að það megi ekki fylgjast með því sem þeir eru að gera. Og af hverju skyldi það vera? Það hlýtur að vera af því að þeir eru að fela eitthvað?“
Eins einkennilega og það hljómar hafa bændur ítrekað kvartað undan afurðastöðvunum, fyrirtækjunum sem bændur eru ýmist sagðir eiga eða stýra. Til að mynda kom fram í skoðanakönnun sem Samkeppniseftirlitið efndi til meðal bænda að mikill meirihluti þeirra tortryggi þessar sömu afurðarstöðvar.
Um og yfir 90% hrossa- og sauðfjárbænda og 75% nautgripabænda telja samningsstöðu sína „veika eða enga gagnvart afurðastöðvum.“
Að skjóta kind
„Svo þegar kvartað er yfir verðinu til bænda er bara sagt að það séu engin efni til að borga bændum meira fyrir afurðirnar. Það bara standi ekki undir sér. Og hvar stendur það? Það stendur hvergi,“ segir Gunnar og vekur athygli á því að að í fyrrnefndri könnun hafi 80% bænda talið að mikilvægt sé að auka gagnsæi í því hvernig ágóðanum er skipt, milli bænda og afurðastöðvanna.
Bændur hafa um árabil gagnrýnt að fyrirtækin leyni þá þessum upplýsingum. Gunnar segir með ólíkindum að staðan sé enn óbreytt.
„Svo eru þeir að selja úr sláturhúsunum yfir í vinnslustöðvarnar sínar á undirverði. Það er alveg vitað en það sést ekki í bókhaldinu. Svo grauta menn þessu öllu saman."
Þetta verði einfaldlega að breytast og það sé óskiljanlegt þetta var ekki skilyrði í nýju löggjöfinni.
„Það er lykilatriði að við fáum að vita það í eitt skipti fyrir öll hvað það kosti að skjóta eina kind,“ segir Gunnar til áhersluauka um leið og við förum að gera okkur líklega til að ljúka spjallinu.
Fleiri breytingar í bændahöllinni
Bóndinn á Ártanga ætlar núna að snúa sér að öðru, þau Edda eiginkona hans undirbúa nú að koma ræktuninni í hendur næstu kynslóðar, dóttur sinnar.
Gunnar kveðst skilja sáttur við tíma sinn og verk á formannsstóli Bændasamtakanna. Hann uni niðurstöðu kosninganna, ítrekar hann, þrátt fyrir að vera gagnrýnin á það sem gerðist að tjaldabaki og ekki síður í kjölfar kosningsnns.
Sú atburðarrás stendur enn og sér raunar ekki fyrir endann á. Nú síðast hætti Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna störfum, án þess að skýringar eða svör fengust við því hvort frumkvæði starfslokanna hafi verið hjá nýrri stjórn eða Vigdísi sjálfri.
Líklegast er þó talið að frumkvæðið sé nýs formanns og stjórnar Bændasamtakanna.
Þá hlýtur staða Hilmars Vilbergs Gylfasonar yfirlögfræðings samtakanna einnig að vera tæp. Hilmar skrifaði jú undir fyrri umsögn samtakanna, sem undir stjórn Gunnars, sem var þvert á skoðun nýrrar stjórnar Bændasamtakanna.
Aðsend grein Hilmars yfirlögfræðingsskrifs á vef Vísis, eftir samþykkt nýju laganna á dögunum, vakti líka nokkra athygli. Þar sagði hann:
„Enn er óljóst hvaða varnaglar verða settir eða til hvaða mótvægisaðgerða verður gripið vegna nýtilkominnar undanþágu frá samkeppnislögum fyrir kjötiðnaðinn, en telja verður að það liggi í augum uppi að einhver bjargráð verða að vera til að tryggja afkomu bænda og hag neytenda í breyttu umhverfi.“
Í framboð eða helgan stein?
Það er erfitt að lesa í stríðnislegt glottið sem Gunnar Þorgeirsson setur upp þegar við göngum í gegnum gróðurhúsin á Ártanga áleiðis út. Hvort það sé til marks um alvöru eða grín, þegar hann setur upp svipinn um leið og hann svarar spurningunni um hvað taki nú við:
„Ætli ég fari bara ekki í þingframboð.“
Þangað til bíða hans þó verk í gróðurhúsunum. Uppsöfnuð eftir árin í forystu bænda.
Athugasemdir (1)