Alþingi fór í páskafrí síðastliðinn föstudag. Næsti þingfundur er ekki áætlaður fyrr en 8. apríl. Páskafríið kom til tveimur mánuðum eftir að fyrsti þingfundur ársins var haldinn 22. janúar, 37 dögum eftir að þingi var slitið til að fara í nokkuð voldugt jólafrí.
Samkvæmt gildandi starfsáætlun mun þingið starfa í 46 daga en svo fara í tíu daga leyfi vegna forsetakosninganna, sem fara fram 1. júní næstkomandi. Eftir þær kosningar er gert ráð fyrir að það snúi til baka í tólf daga áður en Alþingi verði slitið föstudaginn 14. júní. Nýtt þing verður svo ekki sett aftur fyrr en nálægt miðjum september.
Það er ekki skortur á verkefnum sem orsakar allt þetta frí. Þingheimur og ríkisstjórn standa frammi fyrir risastórum áskorunum á borð við viðvarandi jarðhræringar á Reykjanesi, það að afkoma hins opinbera stefnir hraðbyri í að verða neikvæð sjötta árið í röð, að dregið hefur úr kaupmætti ráðstöfunartekna heimila landsins í fimm af síðustu sex ársfjórðungum, aðallega vegna þess að vaxtagjöld þeirra hafa hækkað um 80 prósent frá árinu 2021, að stýrivextir séu enn pikkfastir í 9,25 prósentum, að verðbólga mælist þrátt fyrir það 6,8 prósent og virðist ætla að vera áfram þrálát. Svo á eftir að móta einhvers konar vitræna stefnu í orkumálum og taka samhliða afstöðu til þess hvað eigi að virkja, hverjir eigi að virkja það og hvað eigi að verja fyrir ágangi þeirra. Svo fátt eitt sé nefnt.
Við blasir hins vegar að sitjandi ríkisstjórn er meira og minna hætt að reyna að fela að hún er ekki sammála um leiðir að lausnum. Fyrir vikið er flest allt sem kemur fram hjá henni sungið í fölskum tón, og án mikils trúverðugleika.
Erindið útrunnið
Að einhverju leyti er þetta ástand ekki nýtt af nálinni. Frá því að hún tók við síðla árs 2017 hefur ásýnd ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur verið sú að þar fari þrír flokkar sem eru ekki sammála um margt annað en að vilja stjórna. Slíkt samstarf gekk upp á kórónuveirutímum þegar ríkisstjórnin breyttist í nokkurs konar neyðarstjórn og viðfangsefni hennar varð, að mestu, heilbrigðislegt og efnahagslegt viðbragð við faraldrinum. Á þeim grunni sigldi stjórnin í gegnum síðustu kosningar, sem fram fóru haustið 2021 og bætti meira að segja við sig fylgi.
Sá grunnur er hruninn fyrir löngu. Stjórnarflokkarnir eru að mestu hættir að fela ágreining sinn og þegar þeir reyna það opinberlega trúa þeim fáir. Sameiginlegt fylgi flokkanna þriggja er komið niður í um þriðjung og allir horfa fram á afhroð í kosningum. Vonir um að hægt væri að bíða þann storm af sér, ytri aðstæður myndu batna, og það myndi skila sér í betra pólitísku veðri, fara þverrandi með hverri verðbólgumælingu, vaxtaákvörðunardegi og fylgiskönnun.
Nú geta sumir ráðherrar varla verið í sama herbergi og saumspretturnar í samstarfinu eru öllum með sæmilega sjón og pólitískt læsi augljósar. Erindi stjórnarinnar er löngu útrunnið, hafi það nokkurn tímann verið eitthvað. Hún virkar eins og lið tólf einstaklinga sem spila bara sinn eigin leik, gefa aldrei á samherja og nenna ekki lengur að sinna varnarvinnunni þurfi liðsfélagar á hjálp að halda. Það sást ágætlega nýverið þegar varaformaður Sjálfstæðisflokksins birti Facebook-færslu um kaup ríkisbanka á tryggingafélagi einungis til þess að forsendur færslunnar voru skotnar niður af leiðtogum úr báðum hinum stjórnarflokkunum daginn eftir. Enn sem komið er hefur hún ekki fengið neinn stuðning við harða afstöðu sína í málinu frá Vinstri grænum né Framsókn.
Komnir í kosningagír
Sumir ráðherranna hafa raunar náð sér í nýjan bolta og skjóta bara á það mark sem er næst hverju sinni. Á síðustu vikum náðu Vinstri græn til að mynda því í gegn að láta ríkissjóð greiða marga milljarða króna í fríar skólamáltíðir á hverju ári inni í 80 milljarða króna sósíalískri millifærslukerfis-uppfærslu á fjórum árum. Framsóknarflokkurinn ætlar að stórhækka listamannalaun, gera Akureyri að borg og láta byggja 15 milljarða króna þjóðarhöll. Á meðan talar Sjálfstæðisflokkurinn nú í síbylju um að selja ríkisfyrirtæki sem lykilbreytu í aðhaldi í opinberum rekstri og leggur áherslu á aukna eyðslu í varnarmál. Eitt málgagna hans gaf meira að segja út næstum 100 blaðsíðna tímarit í síðustu viku um þau opinberu fyrirtæki sem hægt væri að selja einkaaðilum þar sem bæði formaður og varaformaður flokksins voru til viðtals, og lýstu velþóknun sinni á slíkum áformum.
„Ljóst má vera að Katrín, sem nýtur mikils og þverpólitísks persónufylgis og er miklu vinsælli en flokkurinn sem hún leiðir, á mjög góðar líkur á því að sigra í forsetakosningum.“
Allt að öllu lyktar þetta af því að stjórnarflokkarnir þrír hafa gefist upp á að þykjast vera samstiga og eru komnir í kosningagír. Samtalið sem þeir eru að eiga er nú fyrst og síðast við væntanlega kjósendur. Þannig væri hægt að haltra inn í næstu kosningar, sem eiga að fara fram haustið 2025 ef límið í ríkisstjórninni, forsætisráðherrann, héldi út þann tíma. Vendingar á næstu dögum gætu þó leitt til þess að það lím hverfi á braut.
Verður forsætisráðherra forseti?
Lengi hefur verið pískrað um að Katrín Jakobsdóttir sé að leita sér að útgönguleið úr stjórnmálum og að hún horfi til virðulegra starfa í alþjóðastofnunum sem næsta starfsvettvangs. Af því hefur ekki orðið en pískrið hefur leitt af sér vangaveltur um aðra möguleika sem hún hefur í stöðunni.
Eitt verst geymda leyndarmál íslensks samfélags síðustu vikur er að Katrín er að velta fyrir sér framboði til forseta. Sú skoðun er almenn, á meðal flokksmanna hennar, samstarfsfólks í ríkisstjórn og í stjórnarandstöðu.
Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í byrjun þessa mánaðar var Katrín spurð hvort hún ætlaði að gefa kost á sér í forsetaframboð. Hún svaraði því með loðnum hætti. Sagðist ekki hafa „leitt hugann að slíku framboði“, hún væri í starfi forsætisráðherra og yrði „hér áfram um sinn“.
Öllum þessum svörum var pakkað haganlega inn á þann hátt að þau geti þýtt hvað sem er. Þessi samkvæmisleikur mun þó ekki geta staðið yfir lengur en fram í fyrstu viku eftir páska. Þá þarf forsætisráðherrann að segja af eða á.
Ljóst má vera að Katrín, sem nýtur mikils og þverpólitísks persónufylgis og er miklu vinsælli en flokkurinn sem hún leiðir, á mjög góðar líkur á því að sigra í forsetakosningum.
Óhjákvæmileg keðjuverkun
Ákveði Katrín að bjóða sig fram til forseta þá hefur það keðjuverkandi áhrif. Augljóst má vera að Vinstri græn, minnsti flokkurinn í ríkisstjórn sem mælst hefur með fylgi í kringum fimm prósent mánuðum saman, mun ekki leiða ríkisstjórn ef Katrín færi út úr henni. Hún situr þar í krafti þess hver hún er, persónufylgis síns og persónulegs sambands við leiðtoga hinna stjórnarflokkanna.
Eini stjórnmálamaðurinn innan raða Vinstri grænna með pólitíska þungavigt utan Katrínar er Svandís Svavarsdóttir. Engin ung vonarstjarna er að koma upp í flokknum, margir sem áður voru taldir líklegir til afreka hafa yfirgefið hann vegna stjórnarsamstarfsins og aðrir þingmenn flokkast vart sem atkvæðaseglar, svo það sé orðað pent.
Svandís er hins vegar í veikindaleyfi og stóð frammi fyrir vantrauststillögu sem hluti Sjálfstæðisþingmanna gældu opinberlega við að styðja áður en það leyfi hófst. Óljóst er hvenær Svandís snýr aftur til starfa og auk þess yrði aldrei sátt um hana sem forsætisráðherra á meðal hinna stjórnarflokkanna.
Þess utan hefur hluti stjórnarandstöðunnar þegar látið boð ganga út um að vantrauststillagan, sem á rætur sínar í hvalveiðibanni, verði lögð fram á ný strax og Svandís snýr aftur til starfa. Það verður flóknara fyrir Sjálfstæðismenn að styðja þá tillögu ef við blasir að Svandís sé að fara að leiða Vinstri græn.
Verður Sigurður Ingi aftur sumar-forsætisráðherra?
Bjarni Benediktsson, formaður stærsta stjórnarflokksins, er óvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar og þurfti að segja af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra í október vegna niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um að hann hafi skort hæfi til að selja föður sínum hlut í ríkisbanka. Auk þess er fylgi Sjálfstæðisflokksins reglulega að mælast minna en nokkru sinni áður í sögu hans. Næsti landsfundur Sjálfstæðisflokksins á að óbreyttu að fara fram í haust og þar verða að teljast meiri líkur en minni á formannsskiptum. Þótt varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hafi lýst því yfir að hún vilji verða næsti formaður þá er hún ekki óumdeildur arftaki og nánast frágengið að hún mun fá mótframboð. Barátta um yfirráð yfir sjálfstæðisfélögum sem skipa landsfundarfulltrúa undanfarið staðfesta þá stöðu. Í ljósi þessarar óvissu verður að teljast afar ósennilegt að Sjálfstæðismaður verði settur yfir ríkisstjórnina.
Þá stendur Framsóknarflokkurinn eftir. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur áður tekið að sér að vera sumarforsætisráðherra. Það gerði hann, nokkuð óvænt, árið 2016 eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þurfti að segja af sér vegna Panamaskjalanna og Bjarni Benediktsson gat ekki tekið við, enda sjálfur á meðal þeirra sem opinberaðir voru sem aflandsfélagaeigendur í skjölunum. Verði það lendingin þyrfti þó, án nokkurs vafa, að tilkynna samhliða um hvenær næstu kosningar ættu að fara fram. Það yrði þá annaðhvort í haust eða næsta vor.
Löng og brött brekka án Katrínar
Það er ekki einungis ríkisstjórnin sem kennd er við Katrínu sem myndi mögulega ekki lifa af forsetaframboð hennar. Flokkurinn sem hún tók þátt í að stofna árið 1999, hefur setið á þingi fyrir síðan árið 2007, gegndi varaformennsku í frá 2003 til 2013 og hefur leitt sem formaður alla tíð síðan, mun berjast fyrir lífi sínu í næstu kosningum. Fylgi hans hefur aldrei mælst minna en síðustu mánuði og í könnun Gallup í febrúar sögðust einungis 4,7 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa flokkinn. Tæp tvö ár eru síðan að Vinstri græn mældust með tveggja stafa tölu í fylgi. Síðast þegar flokkurinn fór í gegnum kosningar, þá til sveitarstjórna árið 2022, fékk hann fjögur prósent atkvæða í höfuðvígi sínu, Reykjavík, og rétt skreið inn í borgarstjórn með einn kjörinn fulltrúa. Án Katrínar verður brekkan í átt að áframhaldandi tilveru mun lengri og brattari fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð.
Þetta er staðan þrátt fyrir að Katrín sé, samkvæmt síðustu mælingum, sá ráðherra ríkisstjórnarinnar sem nýtur mest trausts og sennilega einn af vinsælustu stjórnmálamönnum sem þjóðin á. Án hennar eru meiri líkur en minni að Vinstri græn missi fylgi, frekar en að það aukist úr því litla sem þegar er.
Persónulega stendur forsætisráðherrann því frammi fyrir ákvörðun sem gæti reynst henni sem einstaklingi góð. Katrín hefur náð að búa sér til nokkuð sterka stöðu á alþjóðavettvangi í gegnum forsætisráðherratíð sína sem táknmynd ákveðinnar tegundar frjálslyndis og kynjajafnréttis og fangað athygli erlendra fjölmiðla oftar en einu sinni og oftar en tvisvar með jákvæðum formerkjum. Fáir myndu sjá mikla sanngirni í því að gagnrýna hana fyrir að stíga út úr ólgusjó stjórnmála eftir rúmlega tvo áratugi í forgrunni þeirra.
Afleiðingarnar fyrir ríkisstjórnina og Vinstri græna verða hins vegar meiri og alvarlegri. Það gæti, mögulega, vigtað inn í ákvörðunartöku forsætisráðherrans á allra næstu dögum.
Eitt í viðbót, ég hélt að siðfræðingar væru yfirleitt það faglegir að þeir tengdu ekki skrif sín ákveðnum persónum, nema kannski Plató og öðrum gengnum heimspekingum. Vonandi þarf ekki að gefa út siðareglur fyrir siðfræðinga.