Það er óhugnanleg tilhugsun fyrir Guðrúnu Kristjönu Jónsdóttur að kvika hafi mögulega verið að ólmast undir Grindavík klukkustundum áður en bærinn var rýmdur seint að kvöldi þann 10. nóvember. Á meðan hún var í vinnunni á hárgreiðslustofunni sinni. Á meðan hún fór út í búð að versla í matinn. Sá hillurnar sveiflast til. En orðin svo samdauna ýktum hreyfingum jarðar undir fótum sínum að hún var hissa á símtölum frá uppkomnum börnunum sem vildu vita hvort það væri í lagi með hana og yngri systkinin þrjú. Hvort það væri allt í lagi í bænum sem hún ólst upp í og hún þekkti af góðu einu. Er nötraði nú sem aldrei fyrr.
Sjö barna móðirin og fimmfalda amman var eftir á að hyggja einkennilega róleg við þessar aðstæður. Þar til hún kom heim, hitti yngsta soninn og sá hvað hann var skelfdur. Sá framan í eiginmanninn – slökkviliðsmanninn Adam Sworowski – sem var í flýti á leiðinni á vakt og hún átti eftir að sjá lítið af næstu mánuði. „Mamma, getum við farið?“ allt að því hrópaði tíu ára barnið, skelfingu lostið, um kvöldmatarleytið. Þá ákvað hún að það væri ekki eftir neinu að bíða. Fór út í bíl með tvær ferðatöskur sem hún hafði, allt að því ómeðvitað, verið að pakka smám saman í dagana á undan. Svo ók hún með drengina sína þrjá, tvíbura á tólfta ári og „litla guttann“ að elliheimilinu Víðihlíð til að sækja áttræða móður sína. Í kjölfarið tóku þau stefnuna út úr bænum. Þau voru lögð á flótta. „Ég vissi að það var eitthvað meira í gangi en venjulega,“ segir hún. „En auðvitað grunaði mig aldrei að bærinn yrði rýmdur og að við færum ekki aftur heim.“
Guðrún Kristjana er alltaf kölluð Lillý. Glaðvær og kvik í hreyfingum. Hressa týpan, ekki spurning. Það er stutt í brosið hjá henni. En líka tárin sem annað slagið fylla augun. Þegar hún talar um heimabæinn. Um börnin. Um aðstæður móður sinnar. Um flóttann og það sem við tók. Allar þessar spurningar sem hafa vaknað og hvert áfallið á fætur öðru. Óvissuna og flækjurnar.
Fegurðin
En augun tindra af ákafa þegar hún talar um „allt þetta fallega“ sem hafi líka átt sér stað. Ókunnuga sem banka upp á með nýbakað döðlubrauð. Stéttarfélagið sem stóð með fjölskyldunni á ögurstundu. Úkraínskan starfsmann flutningafyrirtækis sem sýndi henni hlýju og samhygð. Hina miklu einingu Grindvíkinga sem hún þráir að standi af sér aðskilnaðinn. „Ef einhver mun lenda í erfiðleikum í framtíðinni þá mun mitt hús standa opið. Ég veit núna hvað er að verða heimilislaus.“
Hún býður í kaffi í Vesturbænum. Í íbúðinni sem fjölskyldan fékk til afnota um miðjan nóvember, fyrst að láni og svo til leigu, hjá Landssambandi slökkviliðsmanna. Hún á fátt af innanstokksmununum. Einn bekk og nokkra stóla. Ýmislegt smádót. Margt af því er í kössum sem staflað er við veggi. Meistarabréfið hennar. Verkfærin af hárgreiðslustofunni og nokkrir hárlitir. Hluti búslóðarinnar er í geymslu hjá vandalausum. Ýmislegt er enn í Grindavík. Í raðhúsinu sem hún veit núna að stóð að hluta ofan á sprungu.
Heppnin
„Við vorum og erum ótrúlega heppin,“ segir Lillý með áherslu en heppni er orð sem hún er gjörn á að nota um stöðu sína. „Við höfum ekki þurft að vera á flakki. Ekki þurft að flytja oft eins og sumir Grindvíkingar.“
Hún heldur áfram: „Þegar við flúðum þá vorum við í tvær nætur í lítilli íbúð hjá dóttur minni. Ég gat ekki farið með börnin í fjöldahjálparmiðstöð. Sonur minn, annar tvíburinn, er fatlaður. Hann er með einhverfu og þroskahömlun. Það hefði alls ekki hentað honum. Og svo var okkur boðin þessi íbúð. Þetta er góð íbúð en hún hentar ekki minni fjölskyldu til lengdar. Hér eru tvö svefnherbergi og við vorum þar til nýlega sex hérna. Tvíburarnir sofa inni í stofu. Fyrst voru þeir á dýnu á gólfinu en svo fengum við lánaðan svefnsófa.
Yngsti sonur minn deildi rúmi með ömmu sinni þar til hún ákvað að flytja. Fékk leiguíbúð í Sandgerði í síðustu viku. Leigan þar er hærri en í Grindavík. Hún er bara komin á leigumarkaðinn, býr langt frá fólkinu sínu og það finnst mér mjög slæmt. Við systkinin vildum gjarnan geta selt atvinnuhúsnæði sem við eigum í Grindavík til að kaupa íbúð fyrir hana. Svo hún geti búið nær. En það er ekkert farið að tala um að ríkið kaupi upp atvinnuhúsnæði. Við sitjum uppi með tvö iðnaðarbil. Í öðru var ég með hárgreiðslustofuna mína. Sem pabbi minn hvatti mig til að opna á sínum tíma. Hann hvílir núna í kirkjugarðinum í Grindavík og ég get ekki heimsótt leiðið hans. Treysti mér ekki til þess.“
Hún klökknar og afsakar hvað hún vaði úr einu í annað. Þerrar tárin úr augnkrókunum. „Ég ætlaði að elda hamborgara um daginn en stakk þeim í ísskápinn þegar ég ætlaði að setja þá í ofninn,“ segir hún og hlær að sjálfri sér. „Svona er maður bara. Alveg dofinn stundum en að reyna að halda haus.
Ég var alltaf að pæla hvort ég ætti að finna eitthvert annað leiguhúsnæði. En að taka ákvarðanir, það var bara svo … snúið. Drengurinn minn sem er með fötlun fann sig ekki í safnskólanum. Hann vildi ekki borða. Var farinn að léttast. Eitthvað í umhverfinu raskaði ró hans. Að vera með þá í safnskólanum þýddi eintómt skutl. Svo ég þurfti að færa þá í Vesturbæjarskóla. Þannig að þá fannst mér ég föst hér. Og þetta er vissulega þægilegt. Þeir labba fyrir hornið og eru komnir í skólann. En að sama skapi hafa þeir aðeins rofið tengslin við félaga sína úr Grindavík. En ég varð að gera þetta. Hann höndlaði þetta ekki.
Honum hefur gengið mjög vel í Vesturbæjarskóla. Þannig að við hugsuðum: Ok, við verðum bara hér á meðan við megum vera. Við megum vera hér til 1. maí. Við erum búin að festa okkur eign í Njarðvík. En mig vantar bara að ríkið fari að borga mér – núna! Svo við getum klárað kaupin. Svo við missum ekki íbúðina.“
Íþróttirnar
Það er svo ótal margt í þessa veru í gangi á hverjum degi. Grindvísk börn hittast á sameiginlegum íþróttaæfingum. Þangað þarf að keyra þau, borgina þvera og endilanga, með tilheyrandi kostnaði. Lillý hefur orðið að draga úr því. Þannig er það með fleiri og börnin því mörg farin í hverfisskóla og að æfa með öðrum íþróttaliðum.
Yngsti sonur Lillýar og Adams er efnilegur í bæði körfu- og fótbolta. En hann hefur aldrei verið eins mikið í tölvunni og síðustu vikur. Hún telur að hann hafi orðið fyrir áfalli þann 10. nóvember sem hann hafi ekki fyllilega jafnað sig á. „Þetta var svo steikt. Svo súrrealískt. Og eiginlega ómögulegt að lýsa þessu.“
Þess vegna sé svo mikilvægt að hitta aðra Grindvíkinga. Þeir búi yfir þessari sameiginlegu og erfiðu reynslu og séu þeir einu sem fyllilega skilji hver annan. Dagana og vikurnar eftir rýminguna fannst henni skrítið að lífið héldi bara áfram. Að fólk væri bara að sinna sínu, lifa sínu lífi. Nema Grindvíkingar. Þeir gengu um eins og draugar, í einhvers konar móki, en æddu að öðrum Grindvíkingum sem þeir mættu á förnum vegi og spurðu þá spjörunum úr. Hvar eruð þið núna? Hvernig hafa börnin það? „Við erum öll að syrgja bæinn okkar. Á meðan við erum að ganga í gegnum það þurfum við að hittast og vinna saman úr þessari sorg. Sumir ætla til baka og aðrir ekki. Við verðum öll að sýna ólíkum sjónarmiðum skilning.“
Lillý og Adam keyptu raðhúsið sitt í Grindavík árið 2007. Þau hafa gert mikið fyrir það en nú myndi Lillý ekki þora að stíga út á pall. 95 prósent af brunabótamati þess, líkt og ríkið ætlar að bjóða, mun ekki duga fyrir sambærilegri eign annars staðar. „Við erum að fara að enda með miklu hærra lán. Miklu meiri greiðslubyrði. Maður er eiginlega bara að byrja upp á nýtt.“
Álagið
Adam er í tveimur störfum. Vinnur myrkranna á milli. Það er púlað. Hamast og hamast. Og fjölskyldan sér hann lítið. Enda fjárfesting í vændum sem ekki stóð til að ráðast í en er óhjákvæmileg.
Ofan á allt saman er Lillý svo í lausu lofti með hárgreiðslustofuna. „Það er enginn að fara að koma í klippingu til Grindavíkur,“ segir hún og hlær að tilhugsuninni. Ekkert kalt vatn er á húsnæðinu og Almannavarnir settu upp hitablásara til að halda því heilu. Fallega gert og allt það, segir Lillý. En svo kom höggið: Tæplega 100 þúsund króna rafmagnsreikningur á nokkurra vikna tímabili. Sem HS Veitur segja að verði að borga. Að Almannavarnir eigi líklega að gera það. Lillý og bræðrum hennar, sem eiga húsnæðið með henni, brá mjög. Og nú vilja þau losna við húsnæðið.
„Það er svolítið glatað að mamma sé komin alla leið í Sandgerði. Og upp á aðra hæð. Það er engin lyfta þótt íbúðin sé fín.“
Móðir hennar hafi verið í góðri leigu hjá Grindavíkurbæ á elliheimilinu. Nú er hún hins vegar að leigja í gegnum Bríeti og leigan töluvert hærri. Í augnablikinu fær hún húsnæðisstuðning en hversu lengi hann mun vara er óvíst. „Hvað verður eftir það?“
„Ég ætla ekki að horfa á eftir barninu mínu ofan í sprungu. Svo gerði það endanlega útslagið þegar við sáum fótboltahöllina“
Lillý er ósátt við þá stöðu sem móðir hennar var sett í. Hvernig haldið var utan um þessa elstu borgara Grindavíkurbæjar. Þá sem byggðu upp bæinn. Eftir flóttann hafi fólkið sem bjó á hjúkrunarheimilinu og elliheimilinu tvístrast um allt. Margir búi enn hjá börnunum sínum. Sumir hafi náð að kaupa eða leigja húsnæði í Reykjanesbæ. Aðrir séu komnir inn á hjúkrunarheimili í Reykjavík. Fólkið sem þarf hvað mest á nærsamfélagi að halda er sundrað.
Áfallið
Annað sem hún á erfitt með er líðan barnanna. „Mér finnst strákarnir mínir ekki hafa jafnað sig eftir þetta allt saman. Tvíburarnir hafa ekkert farið til Grindavíkur. Þeir hafa ekki viljað það. En litli guttinn fór með pabba sínum. En hann ætlar ekki til baka. Samt elskar hann Grindavík,“ segir Lillý og tárin spretta fram. „Hann ætlar alltaf að vera í Grindavíkurliðinu sko! En ég veit það ekki. Maður getur ekki sagt neitt um þetta. Þegar ég er spurð: Ætlar þú að fara til baka? Flytja þangað aftur? Ég get ekki svarað þessu núna. Eins og staðan er í dag: Nei.
Ég hef hugsað með mér að sleppa húsinu mínu alveg. Ég hef ekki áhuga á því að eiga heima ofan á sprungu. Hver hefur áhuga á því? Ég hef ekki sofið eina nótt í húsinu mínu. Það er náttúrlega skemmt. Ég myndi ekki fara með börnin mín þangað, ekki sjens. Ég þori ekki að fara með þau. Ég vil ekki lenda í því að það þurfi allt í einu að rýma.
Ég held að vendipunkturinn hjá mörgum hafi verið þegar maðurinn féll í sprunguna. Það er mjög sárt að segja það. Ég ætla ekki að horfa á eftir barninu mínu ofan í sprungu. Svo gerði það endanlega útslagið þegar við sáum fótboltahöllina. Við erum með ung börn og höfum séð hvernig þetta hefur farið í þau. Við þurfum að fara.“
Upphafið
Vonandi tekst að byggja upp Grindvíkingabyggðir í Njarðvík þar sem Lillý og Adam hafa valið að flytja. Nokkrir nágrannar þeirra og vinir hafa einnig ákveðið að setjast þar að. Í bili að minnsta kosti. „Þetta verður kannski líkt … en þetta verður aldrei eins. Ég sé samt fyrir mér að þarna gæti orðið vísir að einhverju svipuðu samfélagi og var í Grindavík.“
Lillý óttast að missa af húsinu sem hún hefur fengið staðfest kauptilboð í. Og hún sé ekki ein um það. „Við erum öll þar. Það sem er að gerast í Njarðvík er að fólk er að gera tilboð. En tilboðið rennur út. Svo er spurning, ætlar þessi aðili að vera trúr þér eða að reyna að græða meira? Fólk er að lenda í því. Það mæta kannski sjö fjölskyldur úr Grindavík á opin hús og eru látnar slást um eignina. Þetta er ekki það sem við þurfum og ekki það sem við viljum.“
„Flytja þangað aftur? Ég get ekki svarað þessu núna. Eins og staðan er í dag: Nei.“
Biðin eftir uppkaupum ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík fari illa í marga. „Fólk getur ekki meir. Þetta er farið að hafa áhrif á börnin okkar. Strákurinn minn spurði í vikunni: Mamma, eru þau ekki að fara að kaupa húsið okkar svo við getum farið að flytja? Börnin okkar eiga ekki að þurfa að hugsa um að eiga heimili.“
Hún dregur djúpt andann. Brosir. Heldur áfram að lýsa uppvextinum í Grindavík. Uppvexti barnanna. Frelsinu sem var svo yndislegt.
Símtalið
„Jæja, hringir maðurinn minn,“ segir hún allt í einu. „Ég heyri í honum á eftir.“
Talar um hvernig vinir hennar og fjölskylda hafi dreifst um allt. Bróðir hennar ætli líklega að kaupa í Vogunum. Þau í Njarðvík. Móðir hennar sé í Sandgerði.
„Hann er að hringja aftur,“ segir hún og tekur upp símann. Og í þetta sinn svarar hún. „Halló? Hvaða email? Í alvöru?! Ok! Þá förum við í það. Geggjað“ Takk. Bæ.“
Hún tekur andköf. Fer að skrolla í gegnum tölvupóstinn í símanum á miklum hraða. „Þetta var bara að gerast! Það er búið að opna fyrir umsóknir!“ Stressið er mikið. Hún finnur ekki póstinn sem Adam talaði um. „Af hverju er ég ekki búin að fá þennan póst? Jú, hérna! Það er búið að opna fyrir umsóknir um kaup á húsnæði í Grindavík! Ég er nýbúin að vera að tala um þetta og svo bara gerist þetta!“
Einstaklingum sem eiga íbúðarhúsnæði í Grindavík býðst að selja það til fasteignafélagsins Þórkötlu sem er í eigu ríkisins. Hægt er að óska eftir að félagið kaupi húsnæðið til 31. desember 2024. Nánari upplýsingar að finna á upplýsingasíðu.
„Ok, ég get bráðum farið að flytja,“ segir hún og brestur skyndilega í grát. „Þá er alla vega eitt frá. Nú þarf maður bara að drífa sig að sækja um. Og vonandi tekur þetta stuttan tíma.“
Upprisan
Þegar ósköpin dundu yfir í nóvember var Lillý komin vel á veg í starfsendurhæfingu eftir að hafa krassað, eins og hún orðar það, nokkrum mánuðum fyrr. Enn og aftur segist hún vera heppin, því hún hafi endurhæfinguna til að styðja sig við í gegnum erfiðleikana núna. „Þannig að ég fæ smá tíma til að anda. Ná áttum og lenda. Og ég ætla að lenda rólega. Það er markmiðið hjá mér.
Eina sem ég vil núna er að það verði haldið betur utan um mömmu mína. Að við getum selt iðnaðarhúsnæðið og keypt íbúð handa henni. Þetta eldra fólk er að syrgja sitt samfélag. Það má ekki gleyma því. Nú er ég vonandi að fara aðeins nær henni,“ segir hún og brosir í gegnum tárin. „Ég ætla að drífa mig að sækja um!“
Athugasemdir