Í byrjun þessa árs urðu þau nýmæli í Frakkland að fjölmargar íslenskar skáldsögur komu út svo að segja samtímis í franskri þýðingu, sumir töldu sex en við þær má bæta öðrum sem birtust á bókamarkaðinum seint á síðasta ári og fylgja með í straumnum. Þetta fyrirbæri sem teljast má óvenjulegt, ef það er borið saman við þýðingar úr ýmsum öðrum tungumálum, vakti athygli blaðamanna og má þar ekki síst telja bókmenntarýni vikurisins „Marianne” sem skrifar undir stöfunum S.B.-C og birti langa grein 25. janúar.
Hún byrjar strax á háu tónunum: „Það er ekki einungis landslagið sem er mikilfenglegt á Íslandi, það er líka tungumálið og sagnalistin. Þetta fer ekki á milli mála, sífellt fleiri skáldsögur skrifaðar á eldfjallaeynni þekja borð bóksala okkar. Stefánsson, Hjörleifsdóttir, Helgason, Ægisdóttir, Björnsdóttir... Þegar upp eru talin föðurnöfn þessara rithöfunda er enginn vafi lengur: norðanvindurinn mun blása hvasst þennan vetur í frönskum bókabúðum.”
Þetta er að vissu leyti franskt fyrirbæri, segir svo greinarhöfundur: „Frakkar eru nú fremstir allra í víðri veröld að þýða skáldsögur sem komnar eru frá Íslandi,” og hann hefur eftir Miðstöð íslenskra bókmennta (stafsett með „ö” og „ð”) að meira en fimmtíu bækur hafi verið þýddar úr íslensku á frönsku á árunum frá 2016 til 2019. Síðust árin hafi milli 15 og 20 verk komið út ár hvert, og hann bætir við að „íslenskar bókmenntir séu orðar að franskri ástríðu.”
En eftir þetta fer hann að velta því fyrir sér hvernig standi á þessu fyrirbæri. „Fyrir tuttugu árum skipaði Ísland ekki stærra rúm í bókalistum franskra útgefenda en Litáen, eða varla meira, segir hann. Fyrst upp úr 2000 komu naumast út meira en fjórar eða fimm íslenskar skáldsögur á ári. Hvað olli þá þessum nýja áhuga útgefenda og lesenda í Frakklandi fyrir höfundum frá þessari eldfjallaey sem er einangruð mitt í Norður-Atlantshafi og næstum því óbyggð – íbúarnir eru færri en 400 000, búsettir meðfram ströndinni, aðallega á Reykjavíkursvæðinu?”
Hann rekur ýmsar ástæður og er hin fyrsta þeirra ástríða Frakka fyrir norrænum sakamálasögum almennt, en það er þó ekki eina skýringin á hinni „leiftrandi” („fulgurant”) sigurgöngu Arnalds Indriðasonar eftir að „Mýrin” var þýdd, 2005. Og hann vitnar í Eric Boury, hinn mikilvirka þýðanda: „Eftir það fóru útgefendur að hringja í mig og spyrja mig hvort ég hefði ekki eitthvað til að bjóða þeim”.
Og svo bættist annað við, á sviði venjulegra skáldsagna, og það var hvernig Auður Ava Ólafsdóttir sló skyndilega í gegn með skáldsögunni „Afleggjarinn” (kölluð „Rosa candida” í franskri þýðingu) sem reyndist vera „long-seller” með 200 000 eintök seld síðan 2007. Eftir það hafa margar af skáldsögum hennar verið þýddar. Síðast en ekki síst kom Jón Kalman Stefánsson fram á vettvanginn með hverja skáldsöguna eftir aðra.
En höf. telur að Íslendingar, sem eru bókaþjóð hin mesta, hafi haft ýmis vopn til að hasla sér völl í samkeppninni. Sagt sé að hver einasti Íslendingur skrifi eða hafi skrifað, segir hann, og bendir á séríslenskt fyrirbæri, „Jólabókaflóð”. Um þetta ræddi hann við Jón Kalman og Sigríði Hagalín í lok desember, „á þeim stutta tíma sem sólin skín þá í nyrstu höfuðborg veraldar”. Jón Kalman sagði að öldum saman hefðu Íslendingar ekki haft annað en bækur til að þrauka yfir veturinn, og Sigríður Hagalín tók í sama streng. „Meðan aðrir Evrópubúar reistu dómkirkjur og leikhús og sömdu heimspekirit höfðu Íslendingar ekkert nema bókmenntirnar.” Tungumálið varð því hið besta tæki til að segja sögur. „Jafnvel á sviðum sem eiga ekkert skylt við bókmenntir, svo sem eldfjallafræði,” sagði Sigríður Hagalín. „Þegar jarðfræðingar grípa pennann til að segja frá nýjustu niðurstöður vísindanna er stíll í ritum þeirra og einnig viss tegund skáldskapar.”
Höf. segir síðan hvernig það atvikaðist að farið var að þýða verk Jóns Kalmans á frönsku. Svo vildi til að útgefandanum Jean Mattern var boðið á Bókmenntahátíðina í Reykjavík 2008 og heyrði hann þá Jón Kalman lesa úr eigin verkum. Hann skildi ekki orð í íslensku en fann tilfinninguna sem greip um sig í salnum. Eftir það varð hann sér úti um þýska þýðingu á verki eftir höfundinn, við lestur þess fann hann sömu tilfinninguna og hann hafði fundið við að heyra upplesturinn, og var sannfærður um að þarna væri hann kominn með mikinn rithöfund. Hann leiddi svo saman Jón Kalman og Eric Boury, og var það, segir hann, upphafið á frjóu samstarfi.
Skáldsagan „Himinn og helvíti” kom svo út í franskri þýðingu 2011 og seldist í milli 7000 og 8000 eintökum. Lesendahópur Jóns Kalmans hefur síðan stækkað jafnt og þétt, næst síðasta bók hans, „Fjarvera þín er myrkur” seldist í milli 60 000 og 70 000 eintökum.
Að lokum nefnir höf. ýmsa aðra sem þýða úr íslensku, Catherine Eyjólfsdóttur, sem þýddi m.a. „Svar við bréfi Helgu” eftir Bergsvein Birgisson (einnig metsölubók), Jean-Christophe Salaün, sem þýddi „Kona við þúsund gráður” eftir Hallgrím Helgason, o.fl.
Með þessari grein fylgja loks myndir af þremur höfundum með myndum af kápum verka þeirra og örstuttum klausum um þá. Þar eru komin Jón Kalman, Sigríður Hagalín og Þóra Hjörleifsdóttir, og bækurnar nýútkomnu eru „Guli kafbáturinn”, „Eldarnir, ástin og aðrar náttúruhamfarir” og „Kvika”.
Til að slá smiðshöggið á þetta íslenska bókaflóð komu Jón Kalman og Sigríður Hagalín til Frakklands, þar sem þau eru reyndar hagvön, árituðu í bókabúðum víða um land og enduðu ferðina með kynningu í „Húsi ljóðlistarinnar” („La maison de la poésie”) í hjarta Parísar, laugardaginn 13. janúar. Þau voru bæði saman á sviði, ung kona var spyrill og Eric Boury þýddi. Húsið var troðfullt og kynningin fjörleg, því ljóst var að spyrillinn hafði lesið bækur höfundanna vandlega. Daginn eftir birtist svo opnuviðtal við Jón og Sigríði í sunnudagsblaðinu „La Tribune du dimanche”, og er fyrirsögnin tilvísun í orð Jóns Kalmans: „Stundum verða miklar bókmenntir að vera ógnandi”. Henni fylgdi stór ljósmynd.
Þar er víða komið við, m. er Jón Kalman spurður að því hvort hann viti á hvaða leið hann sé meðan hann er að skrifa.
„Meðan maður er að skrifa gerast óvæntir hlutir”, svarar Jón Kalman. „Atburðir gerast óvænt, persónurnar þróast og breyta upphaflegri áætlun. Þetta er hið æfaforna stef um skepnuna sem frelsar sig frá skaparanum. Elsta dæmið um það er þegar guð skapaði heiminn, og strax á öðrum degi missti hann stjórnina Ef guð var ekki fær um að stjórna heiminum, þá erum við heldur ekki fær um að stjórna þeim heimum sem við sköpum.”
Og Sigríður svarar svipaðri spurningu: „Mér finnst að þegar maður skrifar skapi hann eins konar stóra tjörn inni í sjálfum sér, maður kafar niður í dýpið án þess að vita hvað upp úr því kunni að koma.”
Þegar talið berst einu sinni að næturmyrkri sem gerir mönnum kleift að sjá stjörnur og norðurljós, segir Jón Kalman: „Norðurljósin eru ljóð sem nóttin skrifar handa okkur.”
Dómar um „Gula kafbátinn” og „Eldana...” birtust víða í frönskum dagblöðum og voru allir í hæsta máta lofsamlegir. „Þessi ótrúlegi íslenski sögumaður sem maður sleppir ekki augunum af eftir að hafa uppgötvað hin stormasömu og heillandi verk hans. Hann er fær um að koma lesandanum í uppnám og hrífa hann með sér í jafn mögnuðum skáldsögum og „Fiskarnir hafa enga fætur”, „Fjarvera þín er myrkur” og „Ásta”,” sagði í bókakálfi dagblaðsins „Le Figaro”. Í dómi sínum um „Eldana, ástina...” sagði kaþólska dagblaðið „La Croix”: „Þessi íslenski blaðamaður og rithöfundur gerðist spákona í síðustu skáldsögu sinni, þegar hún lýsti reiði eldfjalls áður en það vaknaði. En það er ekki eini hæfileiki hennar”. Síðar í þessum sama dómi segir: „Af öruggri list blandar Sigríður Hagalín skáldlegum stíl og spennandi orðræðu vísinda. Hún lýsir samfélagi sem lifir á og með eldfjöllum. Eftir því sem frásögninni miðar áfram eykst spennan þangað til skáldsögunni lýkur í fegurð sem getur klofið steina.”
En annar íslenskur höfundur hefur einnig vakið rækilega athygli, og það er Hallgrímur Helgason. Eftir hann er nú „Sextíu kíló af sólskini” komin út í franskri þýðingu Erics Boury, og hefur hún fengið ítarlega og mjög lofsamlega dóma í þremur helstu Parísarblöðunum, „Le Monde”, „Libération” og „Le Figaro”. Fyrirsagnir ritdómanna eru: „Um síld og menn”, „Rosaleg síld og mikilfenglegir Íslendingar” og „Síld og prjónles”. Í þeim rekja gagnrýnendur ýmsar hliðar sögunnar, stundum nokkuð ýtarlega, lýsa hinum sérkennilegu persónum verksins en leggja jafnframt áherslu á að sagan fjalli einnig um þjóðlíf þessa sérkennilega lands á örlagatímum, þegar það var að opnast fyrir umheiminum. „Sagan er mikilfengleg freskómynd, sæmandi hinum miklu Íslendingasögum og full af níðangurslegri fyndni”, segir í „Le Monde”. „Le Figaro” er enginn eftirbátur: „Með sínu myndræna máli dregur Helgason upp litríka en nákvæma mynd af fólkinu. Í þessari grimmu og fyndnu bók blandar hann saman meitluðum setningum og ógleymanlegum lýsingum.”
Enn önnur skáldsaga sem hefur vakið athygli er „Kvika” eftir Þóru Hjörleifsdóttur, sem Jean-Christophe Salaün hefur þýtt. Um hana segir gagnrýnandi „Le Figaro”: „Lilja hatar sjálfa sig, þess vegna „á hún þetta skilið”. Þetta gerir að verkum að það er nauðsynlegt að lesa þessa bók. Höfundur sýnir mjög vel mótsögnina milli hugsana ástfanginnar konu og hversdagsleika ofbeldis og kláms í sambandi sem hér ætti heldur að kalla undirgefni (...). Kvika finnur orð fyrir óþolandi misnotkun. Harmsögulega glæsilegt.”
Þetta íslenska bókaflóð í Signu heldur áfram á árvissan hátt með útkomu skáldsögu eftir Arnald Indriðasonar í byrjun febrúar, og nú er það „Kyrrþey” sem er á ferðinni. Hún hefur þegar fengið ítarlega dóma í „Le Monde” og „Marianne”, þar sem hún er einkum sett í samhengi við fyrri skáldsögur höfundar. En segja má að frönskum hætti að eins og góð vín hafi Arnaldur enga þörf fyrir auglýsingar.
Ef þetta allt er ekki hin raunverulega útrás, hvað er þá útrás?
P.s. Og ef þessi pistill skyldi koma fyrir augu yðar, stuðlið þá að því að hann verði rekinn beint upp í fésið á þeim sem kyrja árlega eða oftar að það eigi að leggja niður rithöfundalaun.
Athugasemdir