Þessi grein birtist fyrir rúmlega 10 mánuðum.

Hlutabréf og auknar vaxtatekjur skiluðu Landsbankanum tug milljarða hagnaði

Rík­is­bank­inn næst­um tvö­fald­aði hagn­að sinn á milli ára. Vaxtamun­ur jókst og vaxta­tekj­ur voru 78 pró­sent rekstr­ar­tekna. Nýj­ar höf­uð­stöðv­ar bank­ans kost­uðu 16,5 millj­arða króna.

Landsbankinn hagnaðist um 33,2 milljarða króna á síðasta ári og ætlar að greiða um helming þess hagnaðar, alls 16,5 milljarða króna, út í arð til hluthafa bankans, sem að uppistöðu íslenska ríkið. Hagnaðurinn er mun skaplegri en á árinu 2022 þegar bankinn hagnaðist um 17 milljarða króna. Arðsemi eiginfjár fór úr því að vera 6,3 prósent árið 2022 í 11,6 prósent á síðasta ári. 

Þetta kemur fram í ársreikningi Landsbankans sem var birtur í dag.

Viðsnúningurinn á árinu 2023 felst aðallega í því að gangvirði hlutabréfaeignar hans hækkaði mikið, en Landsbankinn á miklu meira af hlutabréfum en hinir tveir stóru bankarnir.

Í fyrra hagnaðist bankinn um 6,7 milljarða króna vegna þessarar hlutabréfaeignar eftir að hafa tapað átta milljörðum krónum á henni árið 2022. Stærsta hlutabréfastaðan er í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel. Bankinn á 14,1 prósent í Eyri sem á 24,7 prósent í Marel.

BankastjóriLilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.

Á árinu 2022 bókfærði Landsbankinn 10,5 milljarða króna rekstrartap vegna lækkunar á bréfum í Marel en á síðasta ári bókfærði hann 1,1 milljarða króna hagnað vegna hækkunar á sömu bréfum.  

Mestur var viðsnúningurinn á fjórða ársfjórðungi, samhliða því að miklar og opinberar erjur áttu sér stað um eignarhaldið á Marel. Þær erjur leiddu til þess að bandaríska fyrirtækið JBT gerði mögulegt yfirtökutilboð í Marel á gengi sem er mun hærra en skráð markaðsgengi Marel var. Fyrir vikið hækkaði skráð gengi Marel um 18,5 prósent á síðustu þremur mánuðum ársins og hagnaður Landsbankans á þeim ársfjórðungi var 10,8 milljarðar króna. 

Vaxtamunur eykst og tekjurnar með

Grunnrekstur Landsbankans var áfram í miklum vexti á síðasta ári. Tekju­módel íslenskra banka byggir helst á tvenns konar tekj­um: vaxta­tekjum sem byggja á mun­inum á þeim vöxtum sem bank­arnir borga fyrir að fá pen­inga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána ein­stak­lingum og fyr­ir­tækjum fjár­muni, og þókn­ana­tekjum fyrir til dæmis eigna­stýr­ingu og fyr­ir­tækja­ráð­gjöf.

Vaxtamunur var 3,0 prósent hjá Lands­bank­anum í fyrra sem er hækkun um 0,3 prósentustig á milli ára. Þessi vaxtamunur skilaði bankanum 57,6 milljörðum króna í hreinar vaxtatekjur, eða 11,1 milljarði krónum meira en árið áður. Hreinar vaxtatekjur voru auk þess 78 prósent af öllum rekstrartekjum Landsbankans á síðasta ári. 

Landsbankinn er með mesta mark­aðs­hlut­deild allra íslenskra banka á ein­stak­lings­mark­aði, sem er að uppi­stöðu til­komin vegna íbúðalána. Útlán bankans til einstaklinga í fyrra jukust um 29 milljarða króna, en þar af var aukning vegna íbúðalána 26 milljarðar króna. 

Undir lok árs 2023 var bankinn að fjármagna byggingu um 3.600 íbúða og áætlar að markaðshlutdeild hans á byggingarmarkaði fyrir íbúðir sé um 50 prósent. Það eru talsvert færri íbúðir en Landsbankinn var að fjármagna byggingu á í lok árs 2022, þegar þær voru 4.300 talsins. 

Kostnaðarhlutfallið hríðbatnar

Hinn stóri reglulegi tekjupósturinn þóknana- og þjónustugjöld sem bankinn innheimti af heimilum og fyrirtækjum landsins, jókst lítillega á milli ára. Þær tekjur voru 11,2 milljarðar króna, um 600 milljónum krónum hærri en árið áður. 

Kostn­að­ar­hlut­fall Lands­bank­ans, sem mælir hvað kostn­aður er stór hluti af tekj­u­m, hríðlækkar hins vegar á milli ára. Það var 46,8 prósent í lok árs 2022 sem var yfir 40 prósent markmiði bankans. Í fyrra var það hins vegar 33,7 prósent og því vel innan markmiðs. 

Eignir Lands­bank­ans voru 1.961 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót og efna­hags­reikn­ing­ur­inn stækk­aði um 9,7 pró­sent á árinu 2023. Eigið fé bank­ans var 303,7 millj­arðar króna í lok síð­asta árs og eig­in­fjár­hlut­fallið 23,6 pró­sent.

Byggði hús fyrir 16,5 milljarða

Á þriðja ársfjórðungi 2023 lauk Landsbankinn við flutning á starfsemi bankans úr eldra húsnæði yfir í nýbyggingu bankans við Reykjastræti 6 í Reykjavík. 

Í ársreikningnum kemur fram að kostnaður bankans við byggingu alls hússins sé áætlaður 16,5 milljarðar króna en á móti sé áætlað söluverðmæti eigna um 7,8 milljarðar og árlegur rekstrarsparnaður um 600 milljónir króna. Íslenska ríkið keypti hluta nýrra höfuðstöðva Landsbankans á um sex milljarða króna í september 2022, en tvö ráðuneyti verða hýst þar. Hvorugt þeirra er þó enn flutt inn. 

Húsið sem bankinn byggði er er í heild 21.500 fermetrar, þar af 16.500 fermetra skrifstofu- og verslunarhúsnæði, og bankinn nýtir um 60 prósent þess fyrir eigin starfsemi.

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár