Í grein sem Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur birti á vef Heimildarinnar fyrir skemmstu fór hann yfir ástæður þess að hinn nýi meginstraumur stjórnmála víða í Evrópu um þessar mundir séu popúlistaflokkar, flestir hægrisinnaðir, sem annaðhvort sitji í ríkisstjórnum eða stjórni umræðum. Þessir flokkar hafi átt auðvelt með að aðlaga sig að aukinni andstöðu á meðal almennings við frjáls alþjóðaviðskipti og flutning fólks á milli landa, sem í daglegu tali kallast hnattvæðing. „Popúlismanum fylgir oft óskilgreind fortíðarþrá, hugmynd um samfélag þar sem Vesturlönd voru ráðandi í efnahagsmálum, örugg störf voru til staðar í framleiðslufyrirtækjum, konur almennt heimavinnandi og innflytjendur fáir.“
Það var alltaf óumflýjanlegt að tískustraumar í stjórnmálum nágranna okkar myndu rata hingað til lands. Um nokkurra ára skeið hafa enda ýmsir verið að máta sig við þessa tegund popúlisma en ekki náð fullum tökum á honum.
Þar fór fremstur í flokki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Miðflokkurinn, og skammt undan komu Inga Sæland og Flokkur fólksins. Sá fyrrnefndi með hægri útgáfu af þessum popúlisma, sú síðarnefnda með sósíalískari útgáfu af henni. En tóninn er sá sami: Íslendingar fyrst, allt hitt svo.
Einfaldleiki selur
Síðustu misseri hefur Sigmundi Davíð tekist betur og betur til í þessari vegferð sinni og fylgi flokks hans fyrir vikið rokið upp. Aðferðarfræðin byggir á því að spila á tilfinningar, frekar en að byggja röksemdarfærslur á staðreyndum, og hræða fólk með ógninni af breytingum. Stilla upp óljósum pólitískum rétttrúnaði sem andstæðingi frelsis og láta sem sá rétttrúnaður sé að hafa af fólki hugsunar- og tjáningarfrelsið. Tala um gæsku og samhygð sem barnaskap og hræra í pottum transfóbíu til að fá kjósendur til að halda að því standi einhvers konar tilvistarleg ógn af pinkulitlum hópi fólks sem skilgreinir sig öðruvísi en hefðbundinn karlmaður eða hefðbundin kona. Stóra pólitíska salan felur svo í sér að tala upp ætluðu hættuna sem fylgi því að fólk á flótta sæki hingað til lands, tengja hana án sönnunargagna við skipulagða glæpastarfsemi, skálmöld og velferðartúrisma og bjóða í kjölfarið upp á einfaldar lausnir á flóknum vandamálum.
Í nýjustu könnun Maskínu mældist Miðflokkur Sigmundar Davíðs þriðji stærsti flokkur landsins með 11,8 prósent fylgi, sem er meira en tvöfalt það sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Í sömu könnun mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 16,6 prósent, og hefur aldrei mælst lægra. Bein fylgni er milli fylgisaukningar þess fyrrnefnda og fylgistaps þess síðarnefnda.
Við nákvæmlega þær aðstæður færði formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, flokk sinn úr því að vera fyrst og síðast valdsækinn og íhaldssamur hægri flokkur með áherslu á kerfisvarnir, sérhagsmunagæslu, efnahagsmál og róttæka einstaklingshyggju á bólakaf í hefðbundin hægri popúlisma.
Frá fordæmingu í umföðmun
Það gerði Bjarni formlega með færslu á Facebook sem hann birti 19. janúar síðastliðinn. Þar lagði hann út frá tjaldbúðum nokkurra Palestínumanna á Austurvelli sem vilja fá fjölskyldur sínar til landsins, og kallaði þær hörmung.
Eftir þessa innleiðingu skrifaði Bjarni: „Það sem næst þarf að gerast í þessum málaflokki er að herða reglur um hælisleitendamál og samræma því sem gerist hjá nágrannaþjóðum. Auka þarf eftirlit á landamærum. Núverandi fyrirkomulag er algerlega komið úr böndunum, bæði varðandi kostnað og fjölda umsókna. Innviðir okkar komnir að þolmörkum og á því þingi sem tekur aftur til starfa á mánudaginn fram á sumar skiptir öllu að á þessum málum verði tekið af festu og öryggi. Alþingi hefur ítrekað brugðist og hafnað tillögum dómsmálaráðherra sem m.a. hafa átt að taka á þessari stöðu, þótt nokkur jákvæð skref hafi verið tekin. Samhliða þessu þarf að styrkja lögregluna m.a. með auknum heimildum í baráttunni gegn brotastarfsemi, þ.m.t. alþjóðlegri brotastarfsemi.“
Það er sennilega ekki djúpstæður rasismi eða stæk mannfyrirlitning sem réði mestu um að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að taka þessa U-beygju, heldur ísköld pólitísk tækifærismennska“
Þetta er ansi breytt afstaða frá því sem forvígismenn Sjálfstæðisflokksins sögðust til að mynda standa fyrir árið 2015, þegar þingmaður flokksins, Ásmundur Friðriksson, fór á undan flokki sínum í útlendingaandúð og menningarlegum rasisma, með orðræðu um að „við“ Íslendingarnir, sérstaklega viðkvæmir jaðarhópar, værum í raun andstæðingar „hinna“ útlendinganna sem væru að hafa af þeim gæði og öryggi með tilveru sinni. Þá gagnrýndi Bjarni, Ólöf Nordal heitin, þáverandi varaformaður hans, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þá ritari flokksins og nú ráðherra í ríkisstjórn, öll framgöngu Ásmundar. Áslaug Arna sagði raunar að það væri átakanlegt að vera í sama flokki og hann.
Ísköld pólitísk tækifærismennska
Það er sennilega ekki djúpstæður rasismi eða stæk mannfyrirlitning sem réði mestu um að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að taka þessa U-beygju, heldur ísköld pólitísk tækifærismennska.
Formaður flokksins er langóvinsælasti stjórnmálamaður landsins, flokkurinn mælist með minna fylgi en hann hefur nokkru sinni mælst með áður, flokkar á miðjunni sem mælast líklegir til afreka í næstu kosningum og hafa reynslu að því að starfa saman í höfuðborginni eru fyrir löngu búnir að ákveða að þeir ætli ekki að starfa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn og flokkurinn sem réð mestu að veita honum áframhaldandi aðgengi að völdum eftir síðustu tvær kosningar er upptekinn við að takast á við þann raunverulega möguleika að eiga á hættu að þurrkast út í næstu kosningum.
Þess utan mun Sjálfstæðisflokkurinn varla geta farið inn í næstu kosningar með gífuryrðum um að hann sé flokkur efnahagslegs stöðugleika og lofað lágvaxtaumhverfi og auknum kaupmætti, líkt og hann gerði síðast. Há viðvarandi verðbólga, hæstu stýrivextir á evrópska efnahagssvæðinu fyrir utan Ungverjaland (sem er rétt fyrir ofan og er að lækka sína vexti), fall á kaupmætti ráðstöfunartekna fimm ársfjórðunga í röð og hallarekstur á ríkissjóði sex ár í röð bendir til gjaldþrots þeirrar stefnu. Og skörp beygja í átt að hægri popúlisma hefur virkað víða annars staðar fyrir hófsama hægri flokka í leit að nýjum persónuleika.
Með öðrum orðum þá hafa Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn engu að tapa. Fylgið utan kjarnans, sem heldur með flokknum eins og fótboltaliði og myndi kjósa hann undir öllum mögulegum kringumstæðum, eða á lífsafkomu sína undir því að ítök flokksins í samfélaginu færi þeim tækifæri og aðgengi að peningum annarra, er meira og minna farið. Það hlýtur að teljast töluleg staðreynd, þegar þrír af hverjum fjórum landsmönnum segjast vantreysta Bjarna Benediktssyni, að arfleifð hans og erindi í stjórnmálum sé í molum.
Eru að gagnrýna eigin verk
Vandinn sem Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni Benediktsson standa frammi fyrir er hins vegar sá að flokkurinn hefur verið meira og minna í ríkisstjórn á Íslandi frá lýðveldisstofnun. Nánar tiltekið í rúmlega þrjú af hverjum fjórum árum. Flokkurinn hefur verið sleitulaust við völd næstum ellefu ár og stýrt landinu í næstum 29 af síðustu 33 árum. Á þeim tíma hefur hann farið með stór velferðarráðuneyti, meira og minna stýrt fjármálaráðuneytinu, sem ákveður hvernig rúmlega eitt þúsund milljarða króna árlegum tekjum ríkissjóðs er ráðstafað, og dómsmálaráðuneytinu, sem útlendinga- og lögreglumál hafa heyrt undir.
Þeir sem hafa náð árangri í hægri popúlisma hafa oftast gert það með því að standa fyrir utan og benda inn á vandamálið. Flokkar sem hafa verið stofnaðir, eða aðlagaðir, til að gagnrýna ríkjandi valdakerfi, þá lagaramma sem eru settir og hvernig fjárútlátum er forgangsraðað.
Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar ríkjandi valdakerfi. Ef hann telur kerfin ekki vera að virka þá er hann að gagnrýna sig sjálfan. Það er Sjálfstæðisflokkurinn, í samstarfi við hina valdaflokkanna, sem svelti velferðarkerfin svo hann gæti lækkað skatta á breiðu bökin og gróf undan húsnæðisstuðningskerfi lágtekjuhópa svo hann gæti fært efri tekjuhópum slíkan stuðning í staðinn. Það er Sjálfstæðisflokkurinn, og samstarfsflokkar hans, sem hafa vanfjármagnað lögregluna þannig að hún getur vart sinnt grunnhlutverki sínum og rannsóknir á einföldum málum taka mörg ár, alveg eins og hann hefur meðvitað fjársvelt allar eftirlitsstofnanir sem eiga að hafa eftirlit með atvinnulífinu og standa vörð um hagsmuni neytenda.
Bjuggu til stöðuna
Það voru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem tóku ákvörðun um að veita flóttafólki frá Úkraínu og Venesúela viðbótarvernd hérlendis þannig að um tíma fengu allir sem komu frá þessum löndum að fara fram fyrir röðina. Þegar talað er um stórfellda aukningu í komu flóttamanna til Íslands þá er fyrst og síðast verið að tala um þessa tvo hópa. Samkvæmt tölum Ríkislögreglustjóra fjölgaði flóttafólki sem sótti um vernd á Íslandi um 3.623 á árinu 2022 frá fyrra ári. Af þeim hópi komu 2.734 frá áðurnefndum tveimur löndum, eða 75 prósent. Öðrum umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem komu frá ríkjum eins og Palestínu, Írak, Sýrlandi, Nígeríu, Sómalíu, og Afganistan, fjölgaði um 889.
„Ef það eru vandamál tengd flóttafólki á Íslandi þá eru það vandamál sem Sjálfstæðisflokkurinn skapaði sjálfur.“
Í fyrra fækkaði svo flóttamönnum sem hingað komu til að sækja um vernd um 7,5 prósent. Þeim sem fengu vernd fækkaði líka gríðarlega vegna ákvörðunar um að hætta meira og minna að taka við fólki frá Venesúela, sem er þó með meiri atvinnuþátttöku en Íslendingar, með þeim afleiðingum að á áttunda hundrað var synjað um vernd á árinu 2023. Ef fólk er þeirrar skoðunar að það sé vandamál að bjóða vinnufúsu fólki frá Venesúela og Úkraínufólki skjól á Íslandi þá er á það að beina reiði sinni að ráðherrum ríkisstjórnarinnar, og Sjálfstæðisflokknum. Öðru flóttafólki, sem allur fókus er settur á í nýja hægri popúlismanum, er ekki að fjölga sem neinu nemur.
Þá skulum við líka muna að þegar íslenskir ráðamenn eru að tala um þann gríðarlega kostnað sem fylgi aukinni komu flóttamanna þá er sá kostnaður fyrst og síðast vegna þess að það tekur allt of langan tíma að afgreiða umsóknir um vernd, vegna þess að það vinna allt of fáir við það í illa fjármögnuðum stofnunum sem gert er að starfa eftir of óskýru regluverki. Á því bera ríkjandi stjórnvöld alla ábyrgð. Við skulum líka muna að sömu stjórnvöld hafa verið að nýta sér glufu sem gerir þeim kleift að telja kostnað við flóttafólk á Íslandi fram sem opinbera þróunaraðstoð. Með því „sparar“ Ísland sér pening sem alþjóðasamfélagið gerir kröfu um að ríkar þjóðir leggi til þeirra sem hafa það verr.
Ef það eru vandamál tengd flóttafólki á Íslandi þá eru það vandamál sem Sjálfstæðisflokkurinn skapaði sjálfur.
Vöxtur sem við ráðum ekki við
Innviðir á Íslandi eru ekki komnir að þolmörkum vegna þess að fólk frá stríðshrjáðum löndum sækist eftir skjóli á Íslandi. Efnahagsástandið á Íslandi er sannarlega heldur ekki afleiðing af því. Þeir sem halda slíku fram eru að afvegaleiða umræðuna frá eigin mistökum.
Innviðir eru sprungnir vegna þess að frá árinu 2012, nokkrum mánuðum áður en Sjálfstæðisflokkurinn tók aftur við völdum í landinu eftir stutt frí, þá hefur ferðamönnum fjölgað úr 647 þúsund í rúmlega 2,2 milljónir.
Til að standa undir þessum vexti hefur þurft að flytja inn gríðarlegt magn af vinnuafli. Fyrir vikið hefur íbúum landsins fjölgað úr 322 í 397 þúsund. Af þeim 75 þúsund manns sem hafa bæst við þjóðina, og knúið áfram hagvöxt hennar á síðustu ellefu árum, voru tæplega 52 þúsund erlendir. Sjö af hverjum tíu sem bæst hafa við íbúa landsins hafa komið annars staðar frá og útlendingar eru nú um 18 prósent íbúa landsins, tæplega 73 þúsund manns.
Áhrif þessa á innviði eins og samgöngur, lögreglu, heilbrigðisþjónustu, menntakerfi, aðra velferðarþjónustu og auðvitað húsnæðismarkað eru gríðarleg. Stjórnvöld líta reyndar ekki á þennan vöxt sem vandamál. Þau hafa frekar einbeitt sér að því að örva ferðaþjónustuna með skattaafsláttum og ívilnunum. Lengi hefur blasað við að íslenskt samfélag ræður ekki við þennan vöxt og að flestir verði frekar fyrir neikvæðum áhrifum af honum en hitt.
Velkomin í popúlismann
Það er ekki Alþingi að kenna að fjöldi flóttamanna hefur aukist á Íslandi og það er ekki Alþingi að kenna að illa gengur að takast á við þær áskoranir sem honum fylgja, líkt og Bjarni Benediktsson heldur fram. Ekki frekar en að það sé Alþingi að kenna að fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherrann gætti ekki að hæfi sínu þegar hann seldi föður sínum hlut í ríkisbanka, eða að það sé Alþingi að kenna að stórfelld hagstjórnarmistök hafi verið gerð á Íslandi síðastliðinn rúman áratug með miklum afleiðingum fyrir mörg venjuleg heimili. Það er heldur ekki Alþingi að kenna að innviðir hafi samhliða fengið að drabbast niður vegna þess að ríkjandi stjórnvöld hafa ekki viljað fjárfesta í þeim.
Á Íslandi sitja, nánast án undantekninga, meirihlutastjórnir og þær gera það sem þær vilja í krafti þess meirihluta. Því valdi sem slíkar ríkisstjórnir taka sér fylgir líka ábyrgð og þess vegna er kostulegt að horfa á Bjarna Benediktsson snúast í hringi í kringum sjálfan sig í viðleitni sinni til að finna annan sökudólg en sig sjálfan og samstarfsfólk sitt fyrir þeirri stöðu sem þau hafa sjálf skapað í íslensku samfélagi.
Við blasir að ríkisstjórnarsamstarfið er búið að öllu leyti nema að nafninu til. Fólkið sem í því situr getur ekki leyst úr þeim vandamálunum og áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir. Eina ástæðan fyrir því að þetta súra samband tórir er að kalt hagsmunamat segir ráðherrunum að hinn kosturinn, að fara í kosningar, sé verri.
Popúlistabeygja Sjálfstæðisflokksins er tilraun til að rjúfa þennan vítahring. Ef kannanir í nánustu framtíð sýna að hún eigi upp á pallborðið hjá kjósendum þá má búast við því að vilji flokksins til að fara í kosningar muni stóraukast.
Því er tímabært að bjóða þjóðina velkomna í hægri popúlismann keyrðan áfram af útlendingaandúð.
Vonandi skemmtið þið ykkur vel.
Að auki fullyrðið þið að aðeins lítill hluti þjóðarinnar deili áhyggjum af stöðunni, því er akkúrat öfugt farið.
kv.
Viðar Eggertsson