Heimildinni hafa borist ábendingar um það að börn og ungmenni geti nú tiltölulega auðveldlega stofnað debetkortareikninga án þess að foreldrar eða forráðamenn viti nokkuð um það. Með slíkum reikningum geta ungmenni tekið við og miðlað greiðslum án þess að foreldri eða forráðamaður viti nokkuð um slík viðskipti.
Í þessu samhengi hefur Aur-appið, sem er vinsælt meðal ungmenna, vakið sérstaka athygli, en fjártæknifyrirtækið kynnti fyrir skömmu til sögunnar nýja bankaþjónustu sem er aðgengileg í smáforritinu. Þar geta notendur 13 ára og eldri stofna debetkortareikning, svokallaðan Aur-Núll reikning.
Greiðslumiðlunarþjónusta Aurs hefur verið einstaklega vinsæl í gegnum tíðina, sérstakleg meðal ungs fólks. Þegar nýja bankaþjónusta Aurs var kynnt á vef Kviku var sagt frá því að virkir notendur væru orðnir 125 þúsund talsins.
Skoðanaaðgangur væntanlegur
Í svari við fyrirspurn Heimildarinnar segir Sverrir Hreiðarsson, forstöðumaður fjártækni hjá Kviku banka, að líkt öðrum fjármálastofnunum hafi Kvika ákveðið „í samræmi við gildandi lögræðislög, að miða stofnun sparnaðar- og veltureikninga fyrir sjálfsaflafé hjá Aur og Auði við 13 ára aldur, að því gefnu að viðskiptavinurinn sé með rafræn skilríki, sem lögráðamenn hafa þegar samþykkt.“
Þá telur Sverrir mikilvægt að því sé haldið til haga að ófjárráða einstaklingar geta ekki stundað viðskipti sem feli í sér skuldbindingar eða kostnað. Þá geta lögráðamenn fengið skoðunaraðgang að reikningum í Auði „og slíkur aðgangur er einnig væntanlegur hjá Aur,“ segir Sverrir. Þar að auki geta lögráðamenn óskað eftir reiknisyfirliti hjá þjónustuveri Aurs sem berst með rafrænum hætti innan sólarhrings á virkum dögum.
Af svörum Sverris má ráða að við núverandi aðstæður geta börn stofnað debetkortareikning án þess að foreldrar fái nokkurs konar meldingum um það. Þá liggur fyrir að ef foreldri veit ekki af tilvist bankareikningsins geti ungmenni undir 18 ára aldri tekið við og miðlað greiðslum í fullkomnu eftirlitsleysið.
Þetta virðast forsvarsmenn Aurs gera sér grein fyrir því í svari Sverris kemur fram að jafnvel þótt „ekki sé gerð krafa um það að lögum þá höfum við til skoðunar að stuðla að aukinni yfirsýn lögráðamanna með því að tilkynna þeim þegar ófjárráða einstaklingar á þeirra vegum stofna debetreikninga hjá Aur.“
Saga Aurs
Aur var stofnað árið 2015 og var í meirihlutaeigu fjarskiptafyrirtækisins Nova. Fyrirtækið bauð í fyrstu upp á einfalda og fljótlega leið til þess að millifæra peninga með því einu að nota símanúmer. Fyrirtækið varð fljótt vinsælt á meðal íslenskra neytenda. Árið 2021 voru virkir notendur þess voru um 90 þúsund talsins.
Sama ár keypti Kvika banki allt hlutafé Aurs fyrir 458 milljónir króna og í kjölfarið hóf fyrirtækið að vinna að því að þróa og útvíkka þjónustuna. Með kaupunum fylgdi framkvæmdastjóri Aurs, Sverrir Hreiðarsson, sem starfar nú sem forstöðumaður fjártækni hjá Kviku banka. Nú eru notendur Aurs orðnir um 125 þúsund talsins.
Í nóvember 2023 hóf Aur að bjóða upp debetkortareikninga. Í tilkynningu bankans er sagt frá metnaðarfullum framtíðaráformum Aurs um að breyta fjármálamarkaðnum og auka samkeppni. Þar var sagt að debetkortareikningurinn, Aur Núll, sé með þeim hagstæðustu sem völ er á.
Debetreikningur Aurs eru með 4 prósent vöxtum sem greiddir eru mánaðarlega. Þá greiða korthafar ekkert stofngjald, árgjald, né færslugjöld og fá 2,6 prósent endurgreiðslu af erlendum greiðslum. Að auki fá korthafar Aurs debetkortsins 10 prósent endurgreiðslu ef verslað er við fyrirtæki sem eru í samstarfi við Aur.
Það er tiltölulega fljótlegt og auðvelt að stofna debetkortareikning í Aur appinu og það þarf einungis auðkenna sig með rafrænum skilríkjum. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Aurs þurfa einstaklingar að hafa náð 13 ára aldri til þess geta stofnað Aur Núll reikning.
Fjártækni, samfélagsmiðlar og ungmenni
Greitt aðgengi ungmenna að rafrænum greiðslulausnum getur leitt af sér ýmis vandamál. Í bland við mikla samfélagsmiðlanotkun geta börn hæglega geti komið sér varasamar aðstæður.
Undanfarin ár hafa þó nokkur mál ratað í fjölmiðla þar sem greint er frá atvikum þar sem börn sem hafa átt í vafasömum viðskiptum við einstaklinga sem þau kynntust í gegnum samfélagsmiðla. Í slíkum málum hafa fjártækniforrit á borð við Aur og Kass komið við sögu.
Í þætti Kveiks, sem sýndur var í Ríkisútvarpinu október 2021, var vakin athygli á þessum viðskiptum. Farið var yfir nokkur mál þar sem stúlkur á grunnskólaaldri seldu myndir af sér til ókunnugra einstaklinga sem þær kynntust í gegnum samfélagsmiðla. Í þessum málum fengu stúlkurnar greitt var fyrir myndefnið í gegnum Aur-appið.
Í umfjölluninni kom fram að foreldrar stúlknanna hafi komist að þessum viðskiptum eftir að hafa fengið meldingu um millifærslur inná bankareikning þeirra, sem foreldrarnir hafa aðgang að.
Í samtali við Heimildina segist Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn í kynferðisbrotadeild lögreglu, kannast vel við þessi mál. „Já þetta app hefur alveg ratað inn á borð hjá okkur,“ segir Ævar.
Þegar blaðamaður hóf að ræða um nýju debetkortaþjónustu Aurs, og áhættuna sem hún gæti skapað viðurkenndi Ævar að hann kannaðist ekki við uppfærsluna. En sagði að ef svo væri að börn gætu stofnað reikning án vitneskju foreldri væri það sérstakt áhyggjuefni.
Athugasemdir