Ekki er svo langt síðan Þorsteinn Einarsson, pípulagningameistari og Grindvíkingur, var á leið inn í hús í Grindavík sem hann þurfti að vinna í, þegar gangstéttin sem hann gekk eftir hrundi undan honum og stór hola myndaðist.
„Holan var stór en ekki það djúp, það hefði aldrei farið illa,“ segir Þorsteinn. Frá 14. nóvember hefur hann mætt til vinnu í Grindavík nánast á hverjum einasta degi, í gulum vinnugalla, með öryggishjálm og sigbelti í bílnum ef hann þarf að fara ofan í sprungu að vinna. Hann hefur þurft að gera það og tekur dæmi af stórri sprungu sem hann var að vinna við. „Maður vissi að þetta væri stór sprunga, en hafði ekki hugmynd um að hún væri svona stór, eða það væri svona mikill hellir undir okkur öllum.“
„Núna er bara hola undir húsinu“
Í kjölfar þess að gangstéttin hrundi undan honum við húsið, ræddi hann við son eigandans sem tjáði honum að húsið hefði á sínum tíma verið byggt ofan á sprungu. „Það var bara fyllt upp í sprunguna svo grunnurinn yrði extra sterkur, en núna er bara hola undir húsinu,“ útskýrir hann.
Hann segist nú ekki hafa mikinn tíma til að velta sér upp úr hættunni sem fylgir því að vinna á svæðinu. „Við erum bara búnir að vera á fullu við að laga það sem aflaga fór í fyrstu skjálftunum. Það er ekki fyrr en bara núna sem ég finn að mönnum stendur kannski ekki alveg á sama,“ segir hann. Þrátt fyrir það hefur enginn sem er á launaskrá hjá honum í Lagnaþjónustu Þorsteins ehf. hætt við að mæta til vinnu vegna þess. Eða aðrir sem eru að vinnu á svæðinu, ef út í það er farið. „Ég hef verið meðvitaður um þau svæði sem eru hættuleg. Það hefur verið kapp hjá mér og mínum mönnum að reyna að gera sem mest gagn og koma hlutunum í lag,“ segir hann. Konan hans biður hann samt á hverjum degi að fara varlega þegar hann fer af stað. „Henni stendur ekki alveg á sama.“
Á nýju hættumatskorti Veðurstofu Íslands kemur fram að enn séu miklar hættur taldar leynast innan bæjarmarkanna. Engin vinna fór til dæmis fram á fimmtudag, 18. janúar, vegna gasmengunar. Þorsteinn hefur fundið vonda lykt í lofti og óbragð í munni, segir hann. Það var þegar þeir voru að vinna rétt við hraunjaðarinn, við að endurnýja stofnlagnir. „En við vorum með mæla og þeir píptu ekkert. Það kom aldrei fram nein brennisteinsmengun.“
Fólk er að missa trúna
Íbúafundur fyrir Grindvíkinga fór fram á þriðjudag. Þorsteinn komst ekki, því hann var fastur við vinnu allan daginn og fram á kvöld. Hann heyrir nú samt á sínu fólki að það er beygur í því, eins og hann orðar það. „Fólk er búið að missa trú á að þetta verði einhvern tímann bær aftur,“ segir hann og bætir við: „Þetta er orðið gríðarlegt sprungusvæði, eftir síðustu hamfarir. Og það báðum megin í bænum.“
„Þetta er ekkert yfirstaðið“
Sjálfur segist hann farinn að hallast að því að fara ekki aftur heim í bráð. „Því miður. Þetta er ekkert yfirstaðið.“ Fyrst þurfi jarðhræringarnar að ná jafnvægi og síðan þurfi að laga allt sem laga þarf og gæta þess að allt verði öruggt að nýju. Hann sér jafnvel fram á að vinna að því næstu árin. „Ég veit ekki hvað verður en býð fram mína krafta ef þess þarf.“
Aðspurður hversu hættulegt svæðið þyrfti að vera til að því yrði alveg lokað, svarar hann: „Þetta er á mörkunum eins og staðan er núna. Það eru enn þá að opnast sprungur. Svo er talað um að það sé að safnast í kvikuganginn og það gæti komið gos innan bæjarmarkanna. Ég er ekkert rosalega bjartsýnn orðinn í dag.“
Athugasemdir