Fréttir af sífelldum niðurskurði fjárveitinga til danska hersins eru ekki nýjar af nálinni. Eftir að kalda stríðinu lauk um 1990 töldu Danir, eins og margar aðrar þjóðir, að framundan væri breyttur og friðvænlegri heimur og fjármunum betur varið til annarra verkefna en hermála.
Danski herinn mátti sæta miklum árvissum niðurskurði sem hélt áfram árum saman. Forsvarsmenn hersins töluðu árum saman fyrir daufum eyrum stjórnmálamanna. Afleiðingar niðurskurðarins komu fljótlega í ljós, byggingar hersins grotnuðu niður og urðu með árunum ónothæfar, tækjakostur var ekki endurnýjaður, mannafli var skorinn niður.
Innrásin í Úkraínu 2014 og tveggja prósenta markmiðið
Leiðtogar Nato ríkjanna hittust í Newport í Wales í byrjun september árið 2014. Nokkrum mánuðum fyrr höfðu Rússar ráðist inn í Úkraínu og lagt undir sig Krímskagann. Á fundinum í Newport lýstu leiðtogar Nato ríkjanna áhyggjum sínum vegna hernaðar Rússa og að þeir myndu ekki láta sér nægja Krímskagann. Anders Fogh Rasmussen var um þetta leyti að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Nato, hann hafði margoft sagt að framlög ríkjanna til hermála væru alltof lítil og ítrekaði það í ræðu sinni á leiðtogafundinum. Leiðtogarnir urðu sammála um að stefna að auknum fjárveitingum til hermála og miða árlega við tvö prósent af vergri þjóðarframleiðslu hvers lands. Þetta var ekki skuldbinding og tveggja prósenta viðmiðið hafði oft áður verið nefnt. Það var Helle Thorning-Schmidt sem skrifaði undir þessa „viljayfirlýsingu“ í Newport fyrir hönd Dana. Niðurskurðarhnífurinn var enn á lofti í Danmörku árið 2015, framlögin til hersins námu þá 1,2 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu, semsagt langt frá tveggja prósenta viðmiðinu.
Í júní 2015 urðu stjórnarskipti í Danmörku, Lars Løkke Rasmussen varð forsætisráðherra í minnihlutastjórn Venstre. Danir hafa haft þann hátt á varðandi fjárveitingar til varnar- og öryggismála að gera samkomulag í þinginu, oftast til fjögurra ára í senn. Árið 2018 var komið að því að gera nýtt samkomulag og eftir mikinn þrýsting frá Bandaríkjunum samþykkti danska þingið að auka framlögin þannig að á árinu 2023 yrði upphæðin sem rynni til varnar- og öryggismála 1,5 prósent af vergri þjóðarframleiðslu. Skref í átt að markmiðinu frá 2014. Nú, í ársbyrjun er unnið að nýju samkomulagi um fjárveitingar til danska hersins og það er yfirlýst stefna stjórnvalda að bæta verulega í, eins og það hefur verið orðað. Innrás Rússa í Úkraínu í febrúar fyrir tæpum tveimur árum hefur þar líklega sitt að segja.
Að ákveða kaup á herskipi er ekki eins og að fara út í búð og kaupa þvottavél. Skipskaupandinn þarf að ákveða ýmislegt, stærð, hvaða kröfur á skipið að uppfylla varðandi t.d siglingar í ís og fleira og fleira. Svo þarf að teikna skipið, semja um smíðina og allt sem henni viðkemur, oftast eftir útboði, afhendingartíma o.s.frv. Oftast líða allmörg ár frá því að ákveðið er að láta smíða herskip þangað til verkinu lýkur.
Knud Rasmussen skipin
Á árunum kringum síðustu aldamót samdi danski flotinn um smíði tveggja herskipa. Skipin voru bæði gerð eftir sömu teikningum, skrokkarnir smíðaðir í Gdansk í Póllandi þar sem vélum og skrúfubúnaði var komið fyrir. Skipin voru síðan dregin til Skagen á Jótlandi þar sem þau voru fullkláruð. Fyrra skipið var tekið í notkun árið 2008 og fékk nafn hins þekkta dansk grænlenska heimskautafara og vísindamanns Knud Rasmussen. Ári síðar, 2009, var seinna skipið tekið í notkun, það fékk nafnið Ejnar Mikkelsen, hann var þekktur danskur heimskautafari.
Síðar var smíðað eitt skip til viðbótar, sömu gerðar, það fékk nafn Lauge Koch og var tekið í notkun árið 2016. Lauge Koch var þekktur grænlandsfari og vísindamaður. Innan danska flotans kallast þessi þrjú skip Knud Rasmussen skipin. Þau eru einkum ætluð til notkunar á norðurslóðum, á þeim er þyrlupallur en ekki þyrluskýli. Skipin eru 72 metra löng og 15 metra breið, á framþilfari er fallbyssa.
Herinn skortir fólk
Eins og áður var nefnt mátti danski herinn búa við mikinn niðurskurð árum saman. Ein afleiðing þess var mikil fækkun hermanna. Þótt nú sé vilji, og fjármagn til að fjölga hermönnum gengur það hægt, hermennskan freistar ekki nægilega margra og það kemur niður á möguleikum hersins til að sinna þeim verkefnum sem honum eru ætluð.
Í desember á síðasta ári greindi danska útvarpið DR, og síðar fleiri danskir miðlar, frá því að iðulega láti herskip danska flotans úr höfn án þess að vera fullmönnuð. Einkum hafi, að sögn, verið skortur á tæknimenntuðum hermönnum, þar á meðal fallbyssuskyttum. Starf þeirra er að sjá um að byssurnar, og það sem þeim tilheyrir, séu ætíð í fullkomnu lagi ef grípa þarf til þeirra. Fallbyssur nútímans eru með, eða eiga að vera með, fullkominn og flókinn miðunarbúnað og umsjón og stjórn hans í höndum fallbyssuskyttanna. „Búnaðurinn er augu og heili fallbyssunnar“ sagði hernaðarsérfræðingur í samtali við danska útvarpið. „Án þessa búnaðar verða skytturnar að miða í rétta átt, eftir auganu, og vona það besta.“
Síðastliðinn miðvikudag, 10. janúar birti danska útvarpið frétt sem vakti mikla athygli. Þar var greint frá því að herskipin Knud Rasmussen og Ejnar Mikkelsen hefðu aldrei á þeim 15 árum sem þau hafa verið í notkun, getað notað fallbyssurnar. Ástæðan væri sú að hinn flókni miðunarbúnaður, sem er forsenda þess að nota byssurnar, hafi aldrei verið settur í skipin. Dönsku miðlarnir sögðu, í hæðnistón, að það væri þó altént hægt að dúndra úr þeim púðurskotum, þar þyrfti ekkert að miða.
Alltaf „á leiðinni“
Árið 2013, þegar tekin var ákvörðun um að smíða Lauge Koch, þriðja skipið af Knud Rasmussen gerðinni, var ákveðið að miðunarbúnaðurinn skyldi settur í skipið áður en það yrði tekið í notkun. Fjárlaganefnd þingsins fékk jafnframt að vita að hluti fjárveitingarinnar yrði notaður til kaupa á miðunarbúnaði í tvö eldri skipin.
Árið 2015, fékk fjárlaganefndin svo að vita að varnarmálaráðuneytið hefði ákveðið að kaupa miðunarbúnaðinn í Knud Rasmussen og Ejnar Mikkelsen frá sænska fyrirtækinu Saab, verðið væri 42 milljónir danskra króna (845 milljónir íslenskar). Ári síðar birti varnarmálaráðuneytið skýrslu um verkefni á norðurslóðum. Í skýrslunni mátti lesa að unnið væri að því að setja miðunarbúnaðinn í skipin tvö (under indfasning). Þetta var árið 2016. Það var þó ekki fyrr en í fyrrasumar að búnaðurinn var settur í Ejnar Mikkelsen en hefur ekki enn verið settur í elsta skipið, Knud Rasmussen. Til stendur að það verði gert á þessu ári.
Varnarmálaráðherrann kom af fjöllum
Þegar fréttamenn danska útvarpsins ræddu við Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra 10. janúar sagðist hann ekki hafa vitað betur en að miðunarbúnaðurinn væri löngu kominn í skipin tvö. Hann sagði það í hæsta máta óeðlilegt að ráðherrar, í þessu tilviki varnarmálaráðherrann, fréttu fyrst af málum sem þessu frá fjölmiðlum.
Hann sagðist jafnframt hafa þegar í stað krafist greinargerðar frá hernum vegna málsins. Hann sagðist ekki hafa neinar skýringar á því að ákvarðanir sem ákveðnar hefðu verið árið 2015 hefði ekki verið framkvæmdar. „Greinargerðin sem ég hef óskað eftir á að berast mér fyrir lok mánaðarins“ sagði ráðherrann.
Athugasemdir (1)