„Ef ég yrði að velja milli þess að svíkja vin minn og svíkja þjóð mína vona ég að ég hefði hugrekki til að svíkja þjóð mína.“ Svo skrifaði breski rithöfundurinn EM Forster í tímaritsgrein árið 1938. Sama gildismat blasir við í Hinum guðdómlega gleðileik ítalska miðaldaskáldsins Dante sem dæmdi Brutus og Cassius til að dvelja í neðsta hring Vítis fyrir að svíkja vin sinn Júlíus Caesar til hagsbóta Róm.
Fátt er fallegra en góð vinátta. Í aðdraganda nýliðinna jóla blöstu þó víða við skuggahliðar náins vinskapar.
Í síðustu viku í Bretlandi var birtur listi yfir þá framúrskarandi þjóðfélagsþegna sem sæma á heiðursorðum í tilefni nýs árs. Listann skipuðu íþróttafólk, heilbrigðisstarfsmenn, listamenn og forkólfar á sviði góðgerðarmála á borð við hinn níu ára Tony Hudgell sem missti báða fætur sem kornabarn eftir að foreldrar hans beittu hann ofbeldi en berst nú ásamt kjörforeldrum sínum gegn hvers konar misþyrmingu á börnum. Ekki voru þó allir jafnverðugir heiðursins.
Skammarlegt sjónarspil
Fjórtán mánuðir eru liðnir frá því að Liz Truss, einn versti forsætisráðherra í sögu Bretlands, sagði af sér embætti eftir 49 daga á stóli. Hefð er fyrir því í Bretlandi að fráfarandi forsætisráðherra útbúi við lok embættissetu sinnar lista yfir einstaklinga sem ráðherrann vill að sæmdir verði heiðursorðum og aðalstignum. Ekkert bólaði á lista Truss fyrr en í síðustu viku þegar honum var laumað inn í tilkynningu um nýársorðulista breskra stjórnvalda.
„Þótt Bjarni hafi eflaust vonað að tillaga hans yrði athyglisbresti jólanna að bráð og hyrfi í hít ólesinna frétta varð, eins og í tilfelli Truss, uppi fótur og fit.“
Með uppátækinu vonuðust yfirvöld eflaust eftir því að listi Truss færi fram hjá flestum. En uppi varð fótur og fit. Stjórnarandstaðan kallaði listann „skammarlegt sjónarspil“. Truss var sökuð um að verðlauna „vildarvini“ sem aðstoðuðu hana við að kollvarpa bresku hagkerfi og valda skaða sem almenningur sypi enn seyðið af.
En Liz Truss er ekki eini stjórnmálamaðurinn sem reyndist sannur vinur vina sinna yfir jólahátíðirnar.
Fjórum dögum fyrir jól bárust fréttir af því að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra legði til að Svanhildur Hólm Valsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður hans til átta ára, yrði nýr sendiherra Íslands í Washington. Þótt Bjarni hafi eflaust vonað að tillaga hans yrði athyglisbresti jólanna að bráð og hyrfi í hít ólesinna frétta varð, eins og í tilfelli Truss, uppi fótur og fit. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur sagði að svo virtist sem verðleikar kandídatans fælust aðallega í „hlýðni og trúnaði við Bjarna Benediktsson“. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði tillöguna ganga gegn öllum hefðum. Blaðamaðurinn Gunnar Smári Egilsson sagði blasa við að Bjarni væri að hætta í pólitík og gerði nú upp við það fólk sem hefði stutt hann gegnum „skandalana“.
Frændhygli, klíkuráðningar og vinavæðing
„Vin sínum/skal maður vinur vera/og gjalda gjöf við gjöf“, segir í Hávamálum. Bjarni Benediktsson er sannarlega vinur vina sinna. En þótt EM Forster og Dante telji vinarþel hina æðstu dyggð kann málið að horfa öðruvísi við kjósendum.
„Ríkið, það er að segja við, borgum brúsann af að koma vinum Bjarna í enn betri og þægilegri djobb,“ skrifaði blaðamaðurinn Illugi Jökulsson í pistli á Heimildinni. Kostnaðurinn við það sem Illugi kallar „frændhygli, klíkuráðningar og vinavæðingu“ er þó kannski ekki bundinn við þetta eitt.
Orðu- og titlalisti Liz Truss var í anda stjórnartíðar hennar; traustur vinur vermdi hvern ráðherrastól og hollusta var endurgoldin með opinberum embættum.
Á aðeins 49 dögum tókst Truss og ríkisstjórn hennar að setja heilt land á hliðina. Hefði stjórnartíð Liz Truss farið öðruvísi hefði hún metið hæfi samstarfsfólks síns út frá öðrum forsendum en hollustu?
Í sjónvarpsþættinum Kryddsíldinni á Stöð 2 á gamlársdag var Bjarni Benediktsson spurður að því hvort hann væri að íhuga að hætta í stjórnmálum. Bjarni brást ókvæða við. Hann fullyrti að ekki væri á honum fararsnið þótt andstæðingar hans óskuðu þess eflaust að hann hætti.
Bjarni Benediktsson settist á þing árið 2003. Andstæðingar Bjarna kunna að spyrja: Hvenær? Hvenær hyggst Bjarni hætta? Ekki er þó ólíklegt að fleiri en andstæðingar hans spyrji: Hvenær? Hvenær, eftir tuttugu ár í stjórnmálum, hyggst Bjarni tileinka sér fagleg vinnubrögð?
Auðvita er bjarN1 benediktsson ekkert að hætta í póluTíkini.
Það er allt of mikið af væntanlegu þýfi sem hann á eftir að koma í hendur fjölskyldunar, vildarvina og flokksgæðinga.
Góð greining eins og alltaf, hlakka alltaf til laugardags til að lesa pislanna.