Hvað mun Mette hrópa af svölunum?
Nýju konungshjónin Friðrik mun taka við af móður sinni þann 14. janúar næstkomandi. Mary Donaldson verður honum við hlið. Mynd: AFP
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Hvað mun Mette hrópa af svölunum?

Stærsta ára­móta­bom­b­an í Dan­mörku ár­ið 2023 var yf­ir­lýs­ing Mar­grét­ar Þór­hild­ar drottn­ing­ar, í ný­ársávarpi henn­ar, að 14. janú­ar næst­kom­andi yrði Frið­rik krón­prins þjóð­höfð­ingi Dan­merk­ur. Sú ákvörð­un henn­ar að af­sala sér krún­unni með þess­um hætti á sér ekki for­dæmi í danskri sögu.

Löng hefð er fyrir því í Danmörku að um áramót ávarpi danski þjóðhöfðinginn þegna sína. Nytårstalen, eins og Danir nefna ræðuna, rekur upphaf sitt til áranna í kringum 1880, stjórnartíðar Kristjáns IX. Hann hafði fyrir sið að flytja skálarræðu, um landsins gagn og nauðsynjar, í  konungsveislu á nýársdag ár hvert. Í stjórnartíð Friðriks VIII voru árlegar skálarræður prentaðar í dagblöðunum, og hann kom á þeim sið að enda ræðuna á orðunum „Gud bevare Danmark“ sem enn í dag eru lokaorð ávarps þjóðhöfðingjans.

Frá árinu 1941 var ávarpið sent út í útvarpinu og frá og með árinu 1958, í stjórnartíð Friðriks IX, föður Margrétar Þórhildar, hefur ávarpið verið sent út samtímis í útvarpi og sjónvarpi, í beinni útsendingu. Og þá var farið að senda ávarpið út á gamlársdag, klukkan sex síðdegis. Í stað þess að miða innihald ávarpsins eingöngu við Danmörku og dönsk málefni, eins og gert hafði verið, ræddi Friðrik IX um stöðu Danmerkur í víðara samhengi.

Þjóðin hlustar á drottninguna

Hjá stórum hluta dönsku þjóðarinnar er það fastur siður að hlýða á ávarp þjóðhöfðingjans, sem er ætíð um það bil 15 mínútna langt, áður en sest er til borðs. Margrét Þórhildur hefur haldið þeim sið að takmarka ekki ræðuna við dönsk málefni og að þessu sinni voru það átökin á Gasa og í Úkraínu sem voru henni efst í huga. Eins og talsvert var fjallað um í dönskum fréttamiðlum gekkst drottningin undir mikla aðgerð á baki snemma á árinu, og hélt sig í kjölfarið til hlés vikum saman. Margrét Þórhildur ræddi um þessi veikindi sín í nýársávarpinu og sagði að þau hefðu fengið sig til að íhuga hvort rétt væri að stíga til hliðar.

Stóra bomban

Svo kom yfirlýsingin sem setti Danmörku á annan endann, ef svo mætti segja. Margrét Þórhildur tilkynnti að 14. janúar næstkomandi myndi hún afsala sér embætti þjóðhöfðingja og frá þeim degi yrði Friðrik sonur hennar konungur Danmerkur. Sú dagsetning er ekki tilviljun því það var á þessum sama degi fyrir 52 árum sem faðir hennar, Friðrik IX, lést. Daginn eftir, á svölum Kristjánsborgarhallar, lýsti Jens Otto Krag, þáverandi forsætisráðherra, Margréti Þórhildi drottningu Danmerkur.

ÓvæntDrottningin, sem verður 84 ára síðar á þessu ári, kom þjóð sinni í opna skjöldu með yfirlýsingunni.

Þótt ákvörðun drottningar, sem verður 84 ára í apríl, mæti skilningi landa hennar kom yfirlýsingin á óvart. Ástæða þess var að hún hafði marglýst yfir að hún myndi sitja í hásætinu þangað til hún hrykki af standinum (indtil jeg falder af pinden). Fréttirnar af ákvörðun Margrétar Þórhildar hafa vakið mikla athygli langt út fyrir danska landsteina og í þessu samhengi hefur verið bent á að sænski kóngurinn og sá norski eru engin unglömb. Karl Gústaf verður 78 ára í apríl og Haraldur Noregskonungur verður 87 ára í næsta mánuði. Á þeim er ekkert fararsnið að því best er vitað.

Friðrik X

Friðrik krónprins, sem 14. janúar verður konungur Danmerkur og fær samkvæmt hefðarröð dönsku krúnunnar titilinn Friðrik X, er 55 ára. Hann hefur á undanförnum árum tekist á hendur sífellt fleiri verkefni sem tilheyra starfi þjóðhöfðingja, hlaupið í skarðið fyrir drottninguna ef svo mætti segja. Hann og eiginkonan Mary, sem fær titilinn drottning, eru vinsæl meðal dönsku þjóðarinnar. Mary, sem er þremur árum yngri en Friðrik, er af skoskum og áströlskum ættum.

„Friðrik krónprins, sem 14. janúar verður konungur Danmerkur og fær samkvæmt hefðarröð dönsku krúnunnar titilinn Friðrik X, er 55 ára.“

Þau Friðrik gengu í hjónaband árið 2004 og eiga 4 börn. Kristján er elstur barnanna og verður því ríkisarfi 14. janúar. Hann varð 18 ára 15. október á síðasta ári og af því tilefni var haldin veisla í Kristjánsborgarhöll. Hinn verðandi krónprins flutti þar ræðu og þótti takast vel upp. Hann er enn í framhaldsskóla en nú færast auknar skyldur á herðar hans. Foreldrarnir hafa lagt mikla áherslu á að börnin hljóti góða menntun.

Fjölskyldan vinsæl

Í könnun sem birt var 30. desember sl., daginn áður en Margrét Þórhildur tilkynnti ákvörðun sína, kom fram að konungsfjölskyldan nýtur mikilla vinsælda meðal dönsku þjóðarinnar. Drottningin og þau Friðrik og Mary njóta stuðnings 84–85 prósent þeirra sem spurðir voru. „Stjórnmálamennirnir myndu glaðir gefa hægri handlegginn fyrir slíkar vinsældir,“ sagði sérfræðingur um málefni konungsfjölskyldunnar. Í könnuninni var líka spurt um Kristján prins, tilvonandi ríkisarfa, 74 prósent lýstu ánægju með hann. 70 prósent vilja viðhalda konungdæminu en 17 prósent vilja afnema það, þetta eru svipaðar tölur og í síðustu könnun af þessu tagi, frá árinu 2016.

Í nóvember í fyrra birtu spænskir miðlar myndir af Friðriki og konu sem sögð var vinkona þeirra hjóna, Friðriks og Mary, í Madrid. Ýmsar sögur fóru á kreik um þetta mál en þær lognuðust fljótlega út af.

Hvernig kóngur verður Friðrik?

Miðað við umræður og vangaveltur í dönskum fjölmiðlum þurfa Danir ekki að hafa áhyggjur af fjölskyldunni á Amalienborg, þar er flest í föstum skorðum. En með nýjum húsbændum í höllinni koma einhverjir nýir siðir og áherslur. Friðrik er mikill áhugamaður um íþróttir og líkamsrækt, móðir hans reri ekki á þau mið. Hún er aftur á móti mikil áhugamanneskja um listir og menningu, hefur haldið sýningar á verkum sínum og gert búninga og leikmyndir fyrir leik- og ballettsýningar.

Friðrik hefur haft drjúgan undirbúningstíma fyrir þetta embætti sem hann tekst nú á hendur og flestir Danir telja, miðað við kannanir, að konungshjónin muni verða landi og þjóð til sóma og þannig feta í fótspor Margrétar Þórhildar.

Ýmsar spurningar vakna

Vegna þeirra breytinga sem nú verða á dönsku konungsfjölskyldunni hafa vaknað ýmsar spurningar. Meðal annars hvaða titil Margrét Þórhildur muni bera þegar hún verður ekki lengur þjóðhöfðingi. Ekki hefur verið enn sem komið er lögð nein lína í þessum efnum frá hirðinni en kunnáttumaður um konungleg málefni, sem danska útvarpið ræddi við, kvaðst telja að hún yrði áfram titluð drottning. Og benti á að móðir hennar hefði verið nefnd drottning til dauðadags, þótt eiginmaðurinn, Friðrik IX, væri löngu látinn. Sami sérfræðingur sagði sömuleiðis að Margrét Þórhildur yrði ávörpuð „Deres Majestæt“ og í umtali „Hendes Majestæt“. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kom fram að Friðrik muni bera titilinn „Hans Majestæt Kong Frederik 10.“. Semsagt ekki notuð rómverska hefðin. Danskir fjölmiðlar hafa síðustu daga notað X og 10. í umfjöllun sinni.

Þarf Margrét Þórhildur að flytja?

Þetta er ein þeirra spurninga sem við blasa. Drottningin býr á Amalienborg í einni af höllunum fjórum. Friðrik og Mary búa í annarri höll á Amalienborg, sú höll var bústaður Friðriks IX og Ingiríðar. Höllin var öll tekin í gegn eftir lát Ingiríðar og þau Friðrik og Mary ákváðu allar innréttingar, listaverk, ljós og allt þess

háttar. Þessi mál skýrast væntanlega á næstunni en áðurnefndur sérfræðingur sagði að Margrét Þórhildur yrði ekki húsnæðislaus, og sagði líklegast að hún byggi áfram á sama stað. Drottningin ræður yfir nokkrum höllum, fyrir utan Amalienborg, en lyklavöldin færast nú í hendur Friðriks konungs.

Hvað mun Mette hrópa af svölunum?

Þetta er ein þeirra spurninga sem vaknað hafa í framhaldi af ákvörðun Margrétar Þórhildar. Hefð er fyrir því að forsætisráðherrann komi ásamt hinum „nýja“ þjóðhöfðingja fram á svalir Kristjánsborgarhallar og tilkynni andlát hins látna og jafnframt nafn hins nýja. Hinn 15. janúar 1972 kom Jens Otto Krag ásamt Margréti Þórhildi út á svalirnar. Hann flutti stutt ávarp þar sem hann minntist Friðriks IX áður en hann, samkvæmt hefðinni, endurtók þrisvar sinnum „Kong Frederik den niende er død, længe leve Hendes Majestæt dronning Margrethe den anden“. Nífalt húrrahróp fylgdi í kjölfarið en þúsundir voru á torginu.

Mette Frederiksen forsætisráðherra getur ekki, af augljósum ástæðum, endurtekið þessi orð. Ýmsar tilgátur hafa komið fram um hvað ráðherrann muni segja þegar hún stendur á svölum Kristjánsborgarhallar 14. janúar næstkomandi. Flestir þeirra sem fjölmiðlar hafa leitað álits hjá telja að Mette Frederiksen muni flytja stutt ávarp og þakka Margréti Þórhildi þjónustu hennar við þjóðina í 52 ár. Síðan muni hún einfaldlega hrópa „Længe leve Hans Majestæt Kong Frederik den tiende“ Svo verði hrópað nífalt húrra. 

Kjósa
18
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár