Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Skólastofan ekki framlenging á unglingaherberginu

Í dönsk­um mennta­skól­um hef­ur síma­notk­un nem­enda far­ið sí­vax­andi og er, að margra mati, löngu far­in úr bönd­un­um. Nú hef­ur danska Mennta­mála­stofn­un­in brugð­ist við og birt ráð­legg­ing­ar til að draga úr notk­un­inni. Danski mennta­mála­ráð­herr­ann er ánægð­ur með ráð­legg­ing­arn­ar.

Skólastofan ekki framlenging á unglingaherberginu

„Með nýja símann frá okkur ertu með heiminn í vasanum“ mátti lesa í nýlegri auglýsingu frá verslun sem selur síma. Ekki þarf að taka fram að í þessari auglýsingu var verið að tala um farsíma. Þótt í auglýsingunni sé kannski fulldjúpt í árinni tekið lýsir hún eigi að síður vel þeirri byltingu sem orðið hefur á örfáum árum með tækni sem enn sér ekki fyrir endann á.

Æ oftar heyrist sagt „maður þarf ekkert annað en símann þar er bara allt“ og það er vissulega mikið til í því. Síminn er myndavél, tölva, leiðsögutæki og í honum er hægt að hafa greiðslukort, ökuskírteini, bókasafnskort og margt margt fleira. Og svo er líka hægt að hringja í hann og úr. Símarnir eru af ýmsum gerðum og á misjöfnu verði. Fyrstu farsímarnir, eða gemsarnir eins og þeir eru oft kallaðir, voru ekki búnir þeim möguleikum og tækni sem þekkist í dag, takmörkuðust við símtöl. Voru spjallsímar en ekki snjallsímar. En þeir voru eigi að síður bylting og nú er svo komið að æ færri eru með fastlínusíma, heimasíma. Það segir ákveðna sögu að í stórri íslenskri raftækjaverslun eru til sölu 6 gerðir heimasíma en 166 gerðir farsíma.

Þægilegir og alltaf til staðar

Vinsældir farsímans eru auðskildar. Með tilkomu hans, fyrir og um síðustu aldamót, gjörbreyttust samskiptamöguleikar fólks. Eigandi símans gat nú hringt, nánast hvaðan sem var, og sömuleiðis var hægt að ná símasambandi við eigandann þótt hann væri víðs fjarri heimilissímanum.

Nytsemin var þó í fyrstu háð því að eigandi farsímans væri með hann á sér og væri innan „þjónustusvæðis“ eins og það var og er kallað, en í takt við vinsældirnar teygði „þjónustusvæðið“ sig æ víðar þótt ekki nái það enn til allra landshluta í öllum löndum heims. Langflestir tóku þessari tæknibyltingu, eins og farsíminn hefur réttilega verið kallaður, vel þótt sumir nefndu hann friðarspilli. 

Varð fljótt í hvers manns vasa

Eins og áður var nefnt var það um og fljótlega eftir síðustu aldamót sem farsíminn varð almenningseign. Nú þurftu skyndilega allir að eignast þetta handhæga samskiptatæki, á heimilum þar sem fram til þessa hafði verið einn heimasími var nú hver heimilismaður með sinn síma. Fyrstu árin eftir að farsímarnir, sem sumir kölluðu vasasíma, urðu almenningseign þótti mörgum símakostnaðurinn hækka mikið. Ástæður þess voru aukin notkun og gjöld í farsímakerfinu sem voru hærri en hefðbundnu fastlínugjöldin.

Flestir foreldrar tóku farsímunum fagnandi og ekki leið á löngu uns meirihluti unglinga var kominn með farsíma upp á vasann. Þótt foreldrarnir hafi kannski litið á símann sem ákveðið öryggistæki litu unglingarnir ekki síður á símann sem samskiptatæki sín á milli. Og það voru reyndar ekki bara unglingar sem kunnu vel að meta farsímana, aldur notendanna færðist neðar. Í danskri könnun árið 2017 voru 7 af hverjum 10 undir 10 ára aldri  með farsíma og hlutfallið hefur hækkað síðan.

Unglingarnir segjast nota símann of mikið

Árið 2013 töldu 30 prósent danskra framhaldsskólastúlkna sig nota farsímann of mikið. Hjá piltum var hlutfallið 16 prósent. Fjórum árum síðar var hlutfallið hjá stúlkum sem töldu sig nota símann of mikið orðið 67 prósent og hjá piltum 40 prósent. Síðan hafa þessar tölur hækkað til muna og sífellt fleiri ungmenni á framhaldsskólaaldri segjast beinlínis háð símanum. Þau segja símann valda streitu og þótt þau reyni að minnka notkunina gangi það illa.

Í viðtali við danska útvarpið, DR, fyrir nokkrum árum sagðist hópur framhaldsskólanema að það væri bæði æskilegt og nauðsynlegt að skólarnir settu reglur um farsíma- og tölvunotkun. Þótt iðulega væri rætt um nauðsyn einhverskonar reglna, eða leiðbeininga gerðist þó fátt í þá veru. Einstaka skólar settu sér reglur en frá ráðuneyti menntamála eða Menntamálastofnuninni komu engar leiðbeiningar. Umræðan um símana í skólastofunni varð sífellt fyrirferðarmeiri en það var ekki fyrr en í liðinni viku (11.12. 2023) að Menntamálastofnunin birti ráðleggingar sem skólar geta stuðst við varðandi síma- og tölvunotkun nemenda. Stofnunin hefur ekki heimild til fyrirskipana í þessum efnum, getur einungis gefið ráð. Hver skóli ræður sinni útfærslu.

Helstu atriði

Ráðleggingar Menntamálastofnunarinnar eru í nokkrum liðum. Fyrst er nefnt að hver skóli leggur línurnar sem fylgja skal. Þessar eru helstar:

Skólastjórnin setur reglur um skjánotkun.

Stjórnin setur reglurnar í samráði við kennara og nemendur.

Ákveðnar reglur gildi um farsíma, t.d hvort nemendur megi nota þá í frímínútum og matartímum.

Lokað verði fyrir tölvuaðgang að ónauðsynlegum heimasíðum (eldveggur).

Í upphafi hvers tíma skuli vera slökkt á tölvum og tölvunotkun í hópavinnu takmörkuð.

Skjánotkun skuli takmörkuð og í kennslunni séu fyrirfram ákveðin tölvulaus tímabil. Blað, blýantur og lestur komi í staðinn.

Gert sé ráð fyrir að í heimavinnu nemenda sé skjánotkun takmörkuð.

Í frímínútum og lengri hléum verði skjálaus afþreying í boði. Það gildi líka um félagslíf nemenda sem skólinn skipuleggur utan hefðbundins skólatíma.

Nemendur, kennarar og ráðherra ánægðir með að settar verði reglur

Ráðleggingar Menntamálastofnunar voru, eins og áður sagði, kynntar fyrir nokkrum dögum. Stofnunin hefur ekki heimild til að fyrirskipa eitt né neitt í þessum efnum, einungis ráðleggja.

Í könnun tveggja danskra fjölmiðla meðal nemenda og kennara í nokkrum framhaldsskólum kom fram ánægja með ráðleggingarnar. Mattias Tesfaye barna- og menntamálaráðherra lýsti mikilli ánægju með að skólarnir fengju þarna eitthvað til að styðjast við en sagði jafnframt að það væri í valdi skólanna að ákveða vinnulagið, eins og hann komst að orði. Og bætti við „Skóli á að vera lifandi vinnustaður þar sem samtal og samvinna er í öndvegi, skólastofan á ekki að vera framlenging á unglingaherberginu heima“. 

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár