Í nóvember 2022 fór fram landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Í framboðsræðu sinni á honum sagði Bjarni Benediktsson, sem var endurkjörinn formaður á fundinum og hefur setið sem slíkur frá því snemma árs 2009, að á Íslandi hafi verið byggt upp „stéttlaust samfélag þar sem jöfnuður er meiri en í nokkru öðru ríki“.
Í þingræðu nokkrum dögum síðar sagði hann að það væri misskilningur jafnaðar- og vinstrimanna að það væri „skynsamlegt að reyna það af hálfu stjórnvalda að stoppa þá sem eru að skara fram úr, skera nógu mikið af þeim til þess að afhenda öðrum sem hafa of lítið þannig að útkoman á endanum verði jöfn“.
Þetta var fyrir rúmu ári. Í liðinni viku birtist nýr Þjóðarpúls Gallup, þar sem spurt var um fjárhag heimila. Niðurstöður hans voru þær að helmingur þjóðarinnar nær nú endum saman með naumindum, notar sparifé til að ná endum saman eða safnar skuldum. Hlutfall þeirra heimila sem eru í þeirri stöðu hefur ekki verið hærra síðan í febrúar 2015, eða fyrir næstum níu árum síðan. Frá því að staðan var best, í febrúar 2021, hefur fjöldi heimila sem rétt nær endum saman, gengur á sparifé eða safnar skuldum til að eiga í sig og á, aukist um 20 prósentustig.
Það kemur sennilega ekki á óvart að þeir kjósendur sem eiga helst afgang um mánaðamót sem þeir geta lagt fyrir eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Alls sögðust 71 prósent þeirra geta safnað sparifé. Til samanburðar þá búa tveir af hverjum þremur kjósendum Flokks fólksins við erfiðar eða krefjandi fjárhagsstöðu og yfir helmingur kjósenda Vinstri grænna, Samfylkingar og Viðreisnar. Þetta er væntanlega fólkið sem „skarar fram úr“ að mati Bjarna. Fólkið sem á ekki að skera af til að afhenda öðrum sem hafa of lítið.
Merkilegi pappírinn
Staða íslenskra heimila hefur hríðversnað frá því að Bjarni flutti ræðu sína. Hagtölur ljúga ekki. Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila hefur lækkað í fimm ársfjórðunga í röð. Það gera 15 mánuði. Slíkt hefur ekki gerst áður síðan að Hagstofan hóf að safna saman gögnum með þessum hætti um hvað heimilin fá fyrir peningana sína síðla árs 2010. Stóra breytan þar er gríðarleg aukning í vaxtakostnaði. Hann hefur aukist um 43 prósent á einu ári og alls borguðu íslensk heimili 85,4 milljarða króna í vexti á fyrstu níu mánuðum ársins 2023. Hafa ber í huga að um 30 prósent heimila sem búa í eigin húsnæði eiga sínar íbúðir skuldlaust. Það eru því hin 70 prósent heimilanna sem bera þennan vaxtakostnað að uppistöðu.
„Þeir sem eiga meiri pening, og telja sig merkilegri pappír en aðrir, eru ólíklegri til að sjá ójöfnuð“
Fyrir flesta myndu þessar tölur sýna að ójöfnuður sé að aukast, og að lífsbarátta sífellt fleiri sé að þyngjast. Flesta, ekki alla.
Í nýjasta hefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla birtist áhugaverð grein, eftir félagsfræðiprófessorana Sigrúnu Ólafsdóttur og Jón Gunnar Bernburg. Þar er fjallað um áhrif auðmagns og upplifunar af ójöfnuði á traust til stjórnmála. Niðurstöður þeirra, sem byggja á gögnum úr Íslensku félagsvísindakönnuninni, benda til þess að kaupgeta og huglæg virðingarstaða auki traust á stjórnmál, að hluta til vegna þess að þeir sem búa yfir miklu auðmagni telja síður að tekjujöfnuður hérlendis sé vandamál. Sem sagt: þeir sem eiga meiri pening, og telja sig merkilegri pappír en aðrir, eru ólíklegri til að sjá ójöfnuð.
Í greininni segir að niðurstöðurnar bendi „til þess að ein af ástæðum þess að þau sem hafa mikið efnahagslegt auðmagn treysti stjórnmálunum betur sé sú að þau telja ójöfnuðinn í samfélaginu ásættanlegan, enda hentar núverandi fyrirkomulag þeirra hagsmunum ágætlega. Þessir einstaklingar eru líklegri til að upplifa ójöfnuðinn í samfélaginu sem réttlátan og líta því ekki á stjórnmálakerfið sem kerfi sem viðheldur óréttlátri skiptingu gæðanna. Aftur á móti upplifa þau sem hafa minna efnahagslegt auðmagn tekjuójöfnuðinn á Íslandi frekar sem of mikinn og treysta stjórnmálunum síður af þeim sökum.“
Áherslan á heilindi
Í tímaritinu birtist líka grein eftir Viktor Orra Valgarðsson, nýdoktor í stjórnmálafræði, og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, prófessor í opinberri stjórnsýslu. Rannsókn þeirra snerist um pólitískt traust og væntingar til stjórnmálafólks á árunum 2020 til 2023.
Niðurstöður hennar benda til þess að þeir landsmenn sem leggja meiri áherslu á heilindi stjórnmálafólks treysti alþingismönnum minna en þau sem leggja meiri áherslu á hæfni. Sömuleiðis benda niðurstöðurnar til þess að almenningur hafi árin 2020 til 2022, þegar kórónuveirufaraldur geisaði og hefðbundin stjórnmál voru meira og minna tekin úr sambandi, lagt mesta áherslu á eiginleika sem tengjast hæfni stjórnmálafólks. Í ár hafi áherslan hins vegar færst yfir á heilindi og þá hafi pólitískt traust minnkað aftur á svipað stig og fyrir faraldur. Það gerist samhliða því að fjárhagur heimila hefur versnað hratt vegna verðbólgu og vaxtahækkana.
Í greininni kemur fram að kjósendur allra stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, auk Sósíalistaflokksins en að Miðflokknum undanskildum, leggi almennt marktækt meiri áherslu en kjósendur Sjálfstæðisflokksins á að stjórnmálafólk segi satt frá, taki hagsmuni þjóðarinnar fram yfir eigin hagsmuni og beiti sér fyrir almannahagsmunum.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna líka að kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna bera allir talsvert minna traust til alþingismanna heldur en kjósendur Sjálfstæðisflokksins; sérstaklega kjósendur Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Pírata. Það sama gildir raunar um kjósendur Vinstri grænna og Framsóknarflokksins, þó þau tengsl séu ekki jafn sterk.
Ráðherrarnir sem þjóðin vantreystir
Áfram um traust. Þessar rannsóknarniðurstöður eru birtar í kjölfar árlegrar könnunar Maskínu á trausti til ráðherranna sem sitja í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem skipuð er Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum og Framsóknarflokki og hefur stýrt landinu í rúmlega sex ár.
Margt í þeim niðurstöðum kom á óvart. Í fyrsta lagi þá varð sú breyting á nú að fleiri vantreysta Katrínu en treysta henni. Það er í fyrsta sinn sem það gerist síðan að Katrín tók við embættinu, en hennar pólitíska inneign og hennar pólitísku vinsældir, sem ná langt út fyrir kjósendahóp Vinstri grænna, hafa verið límið sem heldur ósamstíga ríkisstjórn hugmyndafræðilega ólíkra flokka saman.
Könnun Maskínu sýndi líka hversu gríðarlega óvinsæll stjórnmálamaður Bjarni Benediktsson er. Hann sagði af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra í október vegna þess að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Bjarni hafi verið vanhæfur til að taka ákvörðun um að selja föður sínum hlut af eign íslenska ríkisins í Íslandsbanka. Nokkrum dögum síðar færði Bjarni sig yfir í utanríkisráðuneytið.
Sú tilfærsla gerði ekkert fyrir traust landsmanna á Bjarna. Alls sögðust þrír af hverjum fjórum svarenda að þeir vantreystu Bjarna og einungis 17 prósent sögðust treysta honum. Það er þriðja versta útkoma sem ráðherra hefur nokkru sinni mælst með í könnunum Maskínu. Þeir sem voru líklegastir til að bera traust til Bjarna voru þeir sem höfðu mestar tekjur. Einungis Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra í hrunstjórninni, í desember 2008 og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra í miðjum Panamaskjalastorminum þar sem aflandsfélagaeign hans var í forgrunni, hafa fengið verri mælingu.
Raunar getur enginn ráðherra í ríkisstjórninni verið sáttur við niðurstöðu könnunar Maskínu. Þeir mældust allir með meira vantraust en traust.
Stuðningur á pari við fallnar stjórnir
Traustleysið endurspeglast líka í fylgiskönnunum. Stjórnarflokkarnir þrír hafa, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup, tapað 16,2 prósentustigum af fylgi á rúmum tveimur árum. Staðan er enn verri samkvæmt nýjustu könnun Maskínu, sem sýnir að rétt rúmlega þriðji hver kjósandi getur hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Vinstri græn eða Framsókn.
Í könnun Gallup eru Vinstri græn að mælast með minna fylgi en nokkru sinni áður, 5,1 prósent, og eru þar með sá flokkur sem á fulltrúa á þingi sem nýtur minnst stuðnings. Fylgið hefur verið mjög dapurt mjög lengi og sá raunveruleiki blasir við flokki forsætisráðherra að það er vel innan skekkjumarka að hann detti út af þingi í næstu kosningum.
„Áherslur hennar eru á að velta vanda á undan sér í stað þess að leysa hann“
Sjálfstæðisflokkurinn er reglulega að mælast með undir 20 prósent fylgi, sem yrði langversta útreið sem þessi mesti valdaflokkur Íslandssögunnar hefur nokkru sinni fengið í kosningum ef slík niðurstaða kæmi upp úr kjörkössunum. Framsóknarflokkurinn er svo sá flokkur sem hefur tapað mestu fylgi það sem af er kjörtímabili. Þetta er ekki tímabundin staða. Hún hefur meira og minna verið svona það sem af er árinu 2023.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 33,2 prósent hjá Gallup og það er minnsti stuðningur sem hún hefur nokkru sinni notið. Til að setja þá tölu í samhengi þá mælist stuðningurinn minni en í síðustu mælingum ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem sat 2009 til 2013, og Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem sat frá 2013 til 2016, áður en þær kolféllu í kosningum. Raunar er ríkisstjórnin svo óvinsæl að einungis tvær stjórnir sem setið hafa á Íslandi frá árinu 1995 hafa mælst með minni stuðning á lokametrum tilveru sinnar. Annars vegar hrunstjórnin, sem hrökklaðist frá völdum snemma árs 2009, og hins vegar skammlíf og gríðarlega óvinsæl ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, skipuð Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð, sem sat í nokkra mánuði á árinu 2017.
Stjórnin sem leysir ekkert
Þetta er staða ríkisstjórnar sem hefur fullkomlega mistekist að leysa stóru ágreiningsmál sín, og um leið stóru úrlausnarefni samfélagsins. Hún hefur stungið höfðinu í sandinn þegar kemur að hratt versnandi stöðu heimila, fullkomlega mistekist að leysa heimatilbúinn húsnæðisvanda, ekki getað leitt í jörð áratugadeilur um hæfileg auðlindagjöld fyrir nýtingu náttúruauðlinda, ekki lokað augljósum gloppum á skattkerfinu sem nýtast fyrst og síðast fjármagnseigendum, ekki getað tekist á við þær gríðarlegu samfélagsbreytingar sem fylgja stórfelldri aukningu innflytjenda í leit að vinnu eða vernd og ekki getað leyst sífellt versnandi samgönguvandamál. Hún getur ekki tryggt að það sé nægjanlegt framboð af raforku til heimila og lítilla fyrirtækja í landi sem er með mesta framleiðslu á grænni orku á hvern íbúa í heimi.
Ríkisstjórnin getur ekki einu sinni byggt nýja þjóðarleikvanga, með þeim afleiðingum að sum landslið okkar þurfa sennilega að leika heimaleiki sína erlendis og önnur að treysta á innflutta hitapulsu til að bræða snjó af úr sér gengnum fótboltavelli. Svipað og hitapulsurnar sem lagðar eru á hnignandi velferðarkerfi til að færa því smá yl, í stað þess að laga það.
Áherslur ríkisstjórnarinnar eru á að láta þá vera sem hún telur „skara fram úr“, telja sig vera með „huglæga virðingarstöðu“ og búa yfir umfram kaupmætti á kostnað hinna sem henni þykir minna koma til. Áherslur hennar eru á að velta vanda á undan sér í stað þess að leysa hann. Áherslur hennar eru á að viðhalda kerfum sem eru löngu úr sér gengin en gagnast sumum, og láta alla hina glíma við afleiðingar þess. Þess vegna styðja tveir af hverjum þremur landsmönnum ekki þessa ríkisstjórn. Þess vegna vantreysta mun fleiri ráðherrum hennar en treysta þeim.
Samfélag sitjandi ríkisstjórnar er einhvers konar samfélag. En það er ekki stéttlaust og það er ekki fyrir alla.
Þú ert almennt að sækja að ríkisstjórn Íslands. Þú ættir frekar að uppfræða og leiðbiena kjósendum um hvað þingmenn eru ekki að gera í ljósi kostningaloforða síðustu ára. Það er nú sem þú sem ritstjóri átt að undirbúa lesendur þína um næstu skref, til að hindra kosningasvik , loforð þessa sama liðs sem myndar meirihluta í stjórnarstarfsemi, til að hindra þetta lið í að halda áfram sviksemi við saklausa kjósendur. Þú ættir að beina augum þínum að lesendum og leiðbeina þeim um , hvað þeir, lesendurnir ,ættu að vera að hugsa og gera, til að losa okkur viða þessa svika- millu -hjörð sem nú situr á Alþingi Íslnds.