Í forsíðuviðtali fyrsta bókablaðs Heimildarinnar í ár er rætt við Maríu Rán Guðjónsdóttur, útgefanda og þýðanda hjá bókaforlaginu Angústúru, um mikilvægi þýðinga. Fyrir henni liggur mikilvægi þýðinga, meðal annars, í því að snúa speglinum frá sínum eigin veruleika og þannig fá að spegla „eitthvað annað og opna heiminn“.
Í sjálfu orðinu þýðing búa tvær merkingar samkvæmt orðabók. Fyrsta merkingin er mikilvægi eða gildi og síðari er einfaldlega „það að þýða bókmennta- eða nytjatexta af einu tungumáli á annað“. Þannig getur eitthvað bæði haft þýðingu og verið þýtt úr einu í annað. Þegar kemur að þýðingu bókmenntaverka eiga báðar merkingar við, mikilvægið og flutningur úr einu í annað, ferðalag hugmynda, orða, fyrirbæra og nýjunga. Það eru ekki aðeins textar eða orð sem ferðast á milli tungumála með þýðingum heldur líka hugmyndir, samhengi og þekking. Stundum er ferðalagið stutt, úr einu tungumáli, yfir landamæri, og til nágranna. Stundum er ferðalagið lengra, yfir höf, frá einni heimsálfu til annarrar.
Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands, segir þýðingar „þekkingarmiðlun allra tíma“ og að frægur maður, Louis G. Kelly, hefði einu sinni sagt að „Vesturlönd gætu þakkað þýðendum siðmenningu sína“. Einu sinni sagði minna frægur maður við mig að listamann mætti skilgreina sem fólk sem stæði á jaðri heimsins og sæi þannig bæði inn í hann en líka lögun hans. Það væri ekki of nálægt honum til að verða samdauna honum en ekki of langt frá honum til þess að skilja hann ekki. Þannig sé ég þýðendur, standandi við heimsmærin.
En landamæri eru bæði bókstafleg og afstæð, ólík og síbreytileg. Eins og Francesca Cricelli orðaði það í bókinni Skáldreki sem kom út á þessu ári: „Hvenær er einhver sannarlega Ítali, eða rithöfundur, eða skáld? Lögmæti eru landamæri með sveigjanlegum jöðrum sem ég streitist á móti, því það er ólíft inni í þessu rými. Að lifa mitt á milli tveggja heima veitir okkur rétt til að mæla á ótaminni tungu, rétt á líkama sem er annað og meira en einhvers konar blendingur, rétt á öðru ganglagi og annarri orðaröð, setningagerð sem býr djúpt í sjáöldrunum, það eina sem er sannarlega lögmætt er það sem kalla má frávik.“
Frjósöm gjöf hafsins
Stundum eru þýðingar tímaferðalag, frá einum tíma til annars. Stundum þýða orð eitt á einum tíma og annað á öðrum. Í formála að bókinni Skáldreki – ritgerðarsafn höfunda af erlendum uppruna, skrifar Eliza Reid, rithöfundur og forsetafrú, að þegar hún er spurð af erlendum blaðamönnum hvaða íslenska orð hún haldi mest upp á, þá sé svarið oft: „Hvalreki.“ Þá í merkingunni „óvæntur happafengur“ eins og orðið var fyrst notað. Í dag hefur orðið öðlast aðra merkingu. „Þó í dag sé bókstaflegur hvalreki alls ekki hvalreki í yfirfærðri merkingu heldur miklu frekar umhverfisvá.“
Titill ritgerðar safnsins, Skáldreki, er leikur að orðinu hvalreki. Eða ný vídd á orðinu hvalreki öllu frekar og vísar í þá aðfluttu höfunda sem hafa komið yfir hafið til Íslands og sest hérna að, með orðum sínum, samhengi, hugmyndum og gefið íslensku bókmenntasamfélagi nýja þýðingu, mikilvægi. Ritstjórar ritgerðar safnsins, sem báðar tilheyra hópi aðkomuskálda, kalla höfunda í bókinni: „Skáldreka, frjósöm gjöf hafsins.“
„Við venjumst hvert öðru í smáum skömmtum, notum til þess tunguna, komumst í snertingu við eitthvað sem er ólíkt því sem við eigum að venjast.“
Einn þeirra höfunda, Francesca Cricelli, lýsti í ritgerð sinni, „Frú mín góð, hvar er tungan þín?“, þýðingum sem „stundum bóluefni og stundum ágræðslu“. Þýðingar gætu verið bólusetning í formi mynda eða skörunar á milli tveggja bókmenntahefða. „Við venjumst hvert öðru í smáum skömmtum, notum til þess tunguna, komumst í snertingu við eitthvað sem er ólíkt því sem við eigum að venjast.“
Týnast í eigin tungu
Gauti segir að þær bækur sem ekki eru þýddar „týnast í eigin tungu“ og þannig séu engar heimsbókmenntir án þýðinga. Þýðingar eru þannig gagnvirkar, bæði bókstaflega og afstætt, bæði beinþýðingar og skáldrekar, nýjar raddir og ný sjónarhorn.
Í ritgerð sinni Umsókn hafnað fjallar Joachim B. Schmidt, einn skáldreka, um Launasjóð listamanna sem hann lýsir sem víggirtum fyrir aðfluttum sjónarhornum. Hann minnist á að sjóðurinn gegni „eingöngu því hlutverki að styrkja listsköpun í landinu – óháð formi eða tungumáli“. Hvergi sé tekið fram að sjóðnum sé ætlað að styrkja íslenska tungu eða „beinlínis vernda hana“. Hann spyr því hvers vegna svo fáir skáldrekar fái úthlutað launum úr sjóðnum, en samkvæmt honum fór aðeins eitt prósent af sjóðnum til aðfluttra rithöfunda. Hann spyr svo hvort að íslensk skáldsaga þurfi að vera skrifuð á íslensku.
„Það er örugglega engin tilviljun að bygging Lands- og Háskólabókasafnsins sé reist eins og virki frá miðöldum. Ferningslaga byggingin er umlukin síki, gengið er inn um hana yfir brú, gluggarnir eru mjóir eins og skotraufar. Bókmenntir, tungumál og þekking eru varðveitt í þessari eftirmynd af virki,“ skrifar Joachim.
Hver þýðir hvað?
Þýðing þýðinga, eða mikilvægi þeirra, felst í ferðalaginu. En líka í því hver þýðir, hver ferðast með hvað, hvað sá tekur með sér og hvað sá skilur eftir, eða hver þýði hvað.
Francesca Cricelli orðar þetta vel: „Þegar ég skrifa þetta á portúgölsku verður mér hugsað til vandans sem ég er að skapa fyrir þýðanda minn. Þessi texti mun aðeins birtast eftir að hans rödd hefur breytt mínum orðum í sín eigin.“ Þannig geta hugmyndir og merking týnst í þýðingu eða eins og sagt er á enskri tungu: lost in translation. Í ár kemur til dæmis út bók um breytingaskeið kvenna eftir tvær konur en hún er þýdd af manni, sem er, án þess að leggja neinn dóm á þýðinguna sjálfa, eitt og sér áhugavert.
Bókmenntakanónan hefur alltaf verið, og er að miklu leyti enn, karllæg og vestræn. Það sem er karllægt og vestrænt er miðjað og annað sett á jaðarinn. Hér er mikilvægt að undirstrika orðið sett, því það er ekki í eðli bókmennta sem eru hvorki karllægar eða vestrænar að lifa á jaðrinum, þær voru settar þangað. Sumar hugmyndir, sum orð, fá aldrei að ferðast, fá aldrei vægi eða vængi.
Gauti segir að í eina tíð hafi þýðingar þótt vera kvennaverk vegna þess að þýðingar þóttu annars flokks. Konur þýddu hugmyndir vestrænna karla um heiminn, þýðingar sem aðrir karlmenn gáfu þýðingu, á lægri taxta en þeir sem skrifuðu bækurnar.
Ætli þýðing þýðinga, að það sé stundum ekki einu sinni minnst á þær í umfjöllun um þýdd bókmenntaverk, eigi rætur sínar að rekja í þýðingu kvenna, eða hvernig þær hafa verið þýddar af karlmönnum sem óæðri?
Verk vestrænna karlmanna eru ekki mikilvægari, mikilvægið hefur verið staðsett á þá. Er það þess vegna sem einhverjum þykir í lagi að vélar þýði bækur? Því sköpunarkrafturinn, frumkrafturinn, er kvenlegur og því óþarfur? Gervigreind á erfitt með margræðni, segir Gauti Kristmannsson. En þeir sem eru staðsettir á miðjunni eiga líka erfitt með margræðni; það eru þeir sem eru staðsettir á jaðrinum sem eiga auðveldast með hana. Því þau eru vön að þurfa að hliðra sjálfum sér í bókmenntum skrifuðum af vestrænum karlmönnum um vestræna karla.
Athugasemdir