Í bresku gamanþáttunum „Little Britain“, sem sýndir voru á árunum 2003 til 2006, var eftirminnilegt endurtekið atriði sem hverfðist utan um þingmanninn Sir Norman Fry. Hann var ítrekað að koma sér í vandræði með skrautlegu framhjáhaldi og hélt vegna þessa hvern blaðamannafundinn á fætur öðrum – umkringdur konu sinni og börnum – þar sem hann útskýrði, með súrrealískum hætti, hvernig hann hefði endað í fáránlegum aðstæðum með öðrum mönnum. Atriðin voru fyndin vegna þess að skýringar Sir Norman voru fjarstæðukenndar og í engum tengslum við raunveruleikann. Það var öllum sem á horfðu augljóst.
Blaðamannafundur formanna ríkisstjórnarflokkanna þriggja á laugardag minnti á Sir Norman Fry. Eftir nokkurra daga stjórnarkreppu sem hafði lengi legið í loftinu, og raungerðist þegar einn formanna stjórnarflokkanna neyddist til að segja af sér ráðherraembætti vegna þess að hann gætti ekki að hæfi sínu þegar hann seldi föður sínum hlut í ríkisbanka, var ákveðið að berja í brestina. Stjórnarþingmönnum var safnað saman í rútu sem var svo fyllt af rútum af persónuleikalausum bjór. Tilgangurinn var að fara í bústað á Þingvöllum, drekka nokkrar dósir og móta nýjan hliðarveruleika sem gæti haldið þessu hentugleikahjónabandi utan um völd, ekki heilindi eða stefnu, áfram. Aðferð sem minnir meira á hópefli hjá leiklistarklúbbi í menntaskóla en eitthvað sem fullorðið fólk í stjórnmálum sem hefur farið með vald árum saman gerir.
Í rútunni á leiðinni heim sungu stjórnarþingmennirnir svo „Traustur vinur“ hástöfum, til að selja hvert öðru að skærur síðustu mánaða hefðu verið lagðar til hliðar.
Hroki, hégómi og mislestur
Áðurnefndur blaðamannafundur var boðaður til að fara yfir niðurstöðu ferðarinnar. Hann er sennilega minnst raunveruleikatengdi gjörningur sem settur hefur verið á svið í íslenskri pólitík síðan að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson keyrði á Bessastaði í Panamaskjalastorminum í apríl 2016 til að heimta að þáverandi forseti Íslands veitti honum heimild til að rjúfa þing og boða til kosninga ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru ekki reiðubúnir að styðja ríkisstjórn undir hans forsæti.
Hroki, hégómi og fullkominn mislestur á salnum var það sem hægt var að taka úr því sem formennirnir þrír báru á torg. Efnislega kom þrennt fram. Í fyrsta lagi að formennirnir þrír hefðu komist að þeirri niðurstöðu, eftir einhverskonar nýjar stjórnarmyndunarviðræður, að sitja út kjörtímabilið. Í öðru lagi var opinberað að ríkisstjórnin gæti ekki lifað nema að Bjarni Benediktsson yrði áfram í henni með því að setja fram þá fjarstæðu að í stólaleik fælist einhverskonar ábyrgðartaka.
„Hroki, hégómi og fullkominn mislestur á salnum var það sem hægt var að taka úr því sem formennirnir þrír báru á torg.“
Í þriðja lagi staðfestu Bjarni, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson það sem lengi hefur blasað við flestum, að þessi naglasúpu-ríkisstjórn þeirra virkar ekki nema þegar hún stendur frammi fyrir einu verkefni. Hún virkaði ekki fyrir kórónuveirufaraldurinn og hún hefur ekki virkað síðan að honum lauk. Þess vegna ætla þau að reyna að fara aftur í kórónuveirutíma-haminn, en nú gagnvart verðbólgu.
Starað á verðbólguna
Í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra, sem birt var á laugardag, sagði að „til að ná sátt og jafnvægi í íslensku samfélagi verður áhersla ríkisstjórnar Íslands næstu mánuði fyrst og fremst á efnahagsmálin og það brýna verkefni að ná niður verðbólgu og vöxtum. Við höfum áður mætt erfiðum aðstæðum. Þeim erfiðleikum höfum við mætt af yfirvegun og öryggi.“ Deilumálum flokka sem eru hugmyndafræðilega ekki sammála um neitt, á að ýta til hliðar. Fara á aftur í stöðnun fyrir stöðugleika.
Samandregið felst í þessu að formenn stjórnmálaflokkanna – sem mældust saman með 34 prósent fylgi og 22 þingmenn í síðustu Gallup-könnun, eða 20 prósentustigum og 16 þingmönnum færri en þeir fengu í síðustu kosningum – náðu saman um að stara á verðbólgutölurnar í tæp tvö ár í viðbót, vona að þær lækki, að almenningur gleymi öllu sem þau gerðu ekki til að stemma stigu við þessu ástandi á síðustu árum og að það skili þeim auknu fylgi svo þeir geti jafnvel endurtekið leikin.
Efnislega kom ekkert út úr fundinum nema enn eitt orðasalatið. Ríkisstjórnin hefur enda sýnt það í verki að hún ræður ekki við stóra verkefnið sem blasir við henni. Á meðan að Seðlabankinn er að reyna að bremsa af hagkerfið með því að draga úr eftirspurn og vexti þá hafa stjórnvöld gengið hratt í hina áttina. Þau sköpuðu enda þessar aðstæður með aðgerðum sínum á meðan að á faraldrinum stóð. Þá var svo gaman að örva hagkerfið, en nú geta þau ekki tekið þátt í að hemja það.
Verðbólgan sem við erum að glíma við er eftirspurnarverðbólga. Til að lækka hana nægir ekki bara að draga úr útgjöldum til nokkurra stofnana sem fara í taugarnar á helstu ráðamönnum. Aðhaldið þarf líka að fela í sér að skattar hafi áhrif á innlenda eftirspurn. Með öðrum orðum þarf að beita skattlagningarvaldinu til að hemja hagkerfið. Ísland ræður einfaldlega ekki við svona vöxt.
Að skilja ekki vandamálið
Það hefur ekki verið gert. Ferðaþjónustan, sú mannaflsfreka lágframleiðni-atvinnugrein, flýtur áfram á skattaafsláttum. Þar hefur verið bætt í frekar en hitt, til dæmis með því að styrkja bílaleigur sem græða þegar milljarða króna á ári um einn milljarð króna til að rafvæðast. Eina sem hefur verið gert er að boða eins prósentustiga hækkun á fyrirtækjaskatti, en á næsta ári. Að endurvekja gistináttagjald, en á næsta ári. Að hækka aðeins gjaldtöku vegna sjókvíaeldis, en á næsta ári. Og hækka veiðigjöld á útgerðir – sem áttu sitt besta ár í fyrra og sitja á raunverulegu eigin fé sem slagar upp í árleg útgjöld ríkissjóðs – en ekki fyrr en á árinu 2025.
Þess í stað var ráðist í krónutöluhækkanir og það dregið í lengstu lög að bæta í millifærslukerfin til að hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á hjálp að halda til að ná endum saman. Herjað á tekjulága til að hlífa breiðu bökunum.
Það virðist hreinlega vera sem að helstu ráðherrar í ríkisstjórn skilji ekki verkefnið sem þeir eru að takast á við. Þau skilja ekki hugtakið verðbólguvæntingar. Besta dæmið er um slíkt eru tilkynningar sem birtar voru á vef stjórnarráðsins um að það væri víst gríðarlega mikill kaupmáttaraukning í landinu, bara ef því yrði sleppt að reikna með vaxtagjöld sem hafa hækkað um 62 prósent á einu ári, á sama tíma og Seðlabankinn er að hækka vexti til að draga úr kaupmætti.
En seljum bara banka
Fráfarandi og verðandi fjármála- og efnahagsráðherra voru reyndar að öllu leyti sammála um eitt á fundinum og í eftirköstum hans: að það væri forgangsatriði að selja Íslandsbanka. Helst við fyrsta mögulega tækifæri. Forsætisráðherra var þeim svo að öllu leyti ósammála. Hún sagði í viðtali við Heimildina eftir blaðamannafundinn að það væri „ekki hægt að halda áfram að óbreyttu.“ Það liggi alveg „fyrir að það er talsvert langur vegur í það að við getum farið eitthvað að ræða framhald á þessari sölu.“
Viðskiptaráðherra urðaði svo yfir síðasta söluferli í Silfrinu á mánudag og setti fram skilyrði fyrir áframhaldandi sölu sem augljóslega verða ekki uppfyllt á þessu kjörtímabili. Hún benti á að mikilvægt væri að horfa til Norðurlandanna sem hafi selt sína hluti í fjármálafyrirtækjum á tíu til fimmtán árum, og í eiga í sumum tilvikum enn stóra hluti. Ekkert liggi á og mikilvægt sé að skapa traust. Það er langur vegur í að það traust sé til staðar. Í könnun sem gerð var fyrir tæpu ári – áður en Fjármálaeftirlitið og umboðsmaður Alþingis birtu sínar niðurstöður – sögðust 63 prósent aðspurðra ekki treysta ríkisstjórninni til að selja frekari hlut í bönkum. Síðan þá hefur trú landsmanna á henni sannarlega ekki aukist.
Þrívegis staðfest
Það liggur enda staðfest fyrir að sitjandi ríkisstjórn ræður ekki við að selja ríkisbanka með trúverðugum, né löglegum, hætti. Þrátt fyrir að til séu lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem tóku gildi fyrir meira en áratug, til að leiðbeina þeim um hvernig þurfi að framkvæma slíka sölu. Þriðja grein þeirra laga fjallar um meginreglur við söluferli. Í henni segir að þegar „ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“
Þegar áfellisdómur Ríkisendurskoðunar um sölumeðferðina, skýr niðurstaða Fjármálaeftirlits um lögbrot söluráðgjafa og álit umboðsmanns Alþingis um að fjármála- og efnahagsráðherra hafi ekki gætt að hæfi sínu þegar hann samþykkti sölu á hlut í ríkiseign til félags í eigu föður síns þá verður ekki annað ráðið en allar ofangreindar meginreglur hafi verið brotnar.
Löngu búið að vara við niðurstöðunni
Við þessu var varað strax í kjölfar þess að listi yfir kaupendurnar 207, sem valdir voru til að fá að kaupa ríkiseign með afslætti, var birtur 6. apríl í fyrra. Tveimur dögum eftir þá birtingu ræddi Kjarninn, annar fyrirrennara Heimildarinnar, við Sigríði Benediktsdóttur, hagfræðing við Yale háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, þar sem hún sagðist telja að ofangreind lög hefðu verið brotin í söluferlinu. Sigríður var einn þriggja sem mynduðu rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið sem skilaði umfangsmikilli skýrslu í apríl 2010. Hún sat einnig um nokkurra ára skeið í bankaráði Landsbankans.
Sigríður sagði í viðtalinu að þegar lokaður hópur aðila væri valinn til að kaupa magn bréfa sem væri svo lítið að það hefði ekki hreyft við markaðsvirði Íslandsbanka ef þeir hefur keypt á eftirmarkaði, þá brjóti það í bága við 3. grein og mögulega einnig 2. grein umræddra laga. „Á grundvelli þess þarf einhver að axla ábyrgð fyrir að hafa heimilað þetta og auk þess þarf að rifta þessum viðskiptum við einstaklinga og ehf., enda eru þau ekki í samræmi við lög og kaupendum og miðlurum hefði mátt vera það ljóst sem og því stjórnvaldi sem heimilaði þetta.“
Sumir þurftu að axla ábyrgð
Ýmsir hafa þurft að axla ábyrgð vegna þessa. Stjórn Bankasýslu ríkisins var allri skipt út nýverið og til stendur að leggja stofnunina niður í byrjun næsta árs. Forstjóri hennar situr reyndar enn, af einhverri ástæðu, og hrokar yfir sig reglulega með því að segja að það séu allir fífl nema hann. Ólögleg sala á Íslandsbanka hafi í raun verið best heppnaða útboð Íslandssögunnar.
„Bjarni Benediktsson axlaði sína ábyrgð um liðna helgi með því að skipta um ráðherrastól við varaformann sinn.“
Æðstu stjórnendur og stjórnarmenn í Íslandsbanka misstu starf sitt þrátt fyrir að Birna Einarsdóttir, þá bankastjóri Íslandsbanka, og Finnur Árnason, þá stjórnarformaður, hafi ekki hringt í söluráðgjafa innan bankans og sagt þeim að fúska við söluna. Að þeir ættu að klæða tómstundarfjárfesta með áhuga á skyndihagnaði úr símaskránni sinni upp sem fagfjárfesta svo þeir gætu fengið sér bita af ríkissölu á afslætti. En þau báru ábyrgð á ferlinu, og þurftu að axla hana.
Bjarni Benediktsson axlaði sína ábyrgð um liðna helgi með því að skipta um ráðherrastól við varaformann sinn. Sem er sambærilegt við það að Birna Einarsdóttir hefði bara skipt um starf við fjármálastjórann sinn og haldið síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist. Ákvörðun Bjarna er ekki tekin til að auka traust á stjórnsýslu og stjórnmál. Hún er tekin með hagsmuni Sjálfstæðisflokksins, ríkisstjórnarinnar sem hann situr í og arfleifðar Bjarna í stjórnmálum að leiðarljósi, nú þegar hann stígur sín síðustu dansspor á þeim vettvangi.
100 prósent árangur
Ríkisstjórninni hefur fullkomlega mistekist að takast á við þær krefjandi efnahagsaðstæður sem eru uppi í dag, og sýnt með því að hún ræður bara við meðvind á því sviði, ekki mótvind. Eina framlag hennar til stöðunnar virðist vera að tala upp eigið ágæti í málaflokknum, gera illt verra á sumum stöðum og benda í sitt hvora áttina þegar kemur að sölu á banka. Svo drekkur hún bjór og syngur „traustur vinur“.
Það ætti öllum að vera ljóst að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar eru búin að missa alla raunveruleikatengingu. Þrátt fyrir samhæfðar yfirlýsingar á samfélagsmiðlum þess efnis þá eru þau ekki að vinna með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Þau eru að vinna út frá eigin hégóma og valdafýsn. Hafi einhver efast um sjálfhverfuna sem einkennir þau og bergmálshellinn sem þau eru búin að múra í kringum sig þá bætir áhorf á blaðamannafund helgarinnar úr því.
Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, sagði í stuttri og fullkomlega innihaldslausri ræðu sinni á fundinum að ríkisstjórnin hefði þegar lokið við 60 prósent þeirra verkefna sem hún ætlaði sér að ljúka við á kjörtímabilinu. Það var vanmat hjá honum. Nær væri að segja að hún hefði lokið við 100 prósent, enda eini tilgangur ríkisstjórnarinnar sá að vera til.
Og þá fyrst og fremst fyrir þá sem í henni sitja, ekki almenning í landinu.
Ævintýrið um nýju fötin keisarans gengur stöðugt í endurnýjun lífdaga í íslenskum stjórnmálum.