Frá því að ný útlendingalög tóku gildi hafa 58 manneskjur fengið tilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra um að þjónusta sem þau hafa fengið frá yfirvöldum falli niður. Um er að ræða fólk sem hefur verið synjað um vernd hér á landi en samkvæmt lögunum fellur öll þjónusta niður 30 dögum eftir endanlega synjun „ef þeir sýna ekki samstarfsvilja við brottför“, eins og segir í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Heimildarinnar, en dómsmálaráðuneytið vísaði „alfarið á stoðdeild ríkislögreglustjóra varðandi tölurnar“, þegar Heimildin leitaði þangað eftir þessum upplýsingum.
Fimm manneskjur hafa því, samkvæmt svörum embættis ríkislögreglustjóra, bæst við þennan hóp frá því að fjölmiðlar greindu fyrst frá því í byrjun ágúst að búið væri að svipta tugi einstaklinga grunnþjónustu.
Þá var staðan sú í þessari viku, samkvæmt ríkislögreglustjóra, að tólf einstaklingar höfðu dvalið í þjónustu í þrjátíu daga „án þess að sýna samstarfsvilja og misstu því þjónustu“.
Athugasemdir