Þessi grein birtist fyrir rúmlega 10 mánuðum.

Móðir drengsins sem varð fyrir fordómum á N1 mótinu: „Þetta var mjög sárt“

Móð­ir drengs sem þurfti að þola niðr­andi at­huga­semd­ir vegna húðlitar síns á N1 mót­inu í fót­bolta seg­ir að skort­ur sé á að­gerð­um frá stofn­un­um til að draga úr kerf­is­bundnu mis­rétti í garð hör­unds­dökkra. Tog­að var í hár drengs­ins og hann boð­inn vel­kom­inn til Ís­lands þrátt fyr­ir að vera fædd­ur og upp­al­inn hér.

Achola Otieno er móðir 10 ára drengs sem keppti í á N1 fótboltamótinu fyrstu helgina í júlí. Hún segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með athugasemdir ungra drengja í garð sonar síns sem er dökkur á hörund. Ingvar Örn Sighvatsson, faðir drengsins, greindi frá atvikunum í Morgunútvarpi Rásar 2 þriðjudaginn 18. júlí.

Grét eftir leikinn

Sonur Acholu og Ingvars byrjaði að æfa fótbolta sex ára og hefur hann brennandi áhuga á íþróttinni. Þátttaka á mótinu var stórt skref fyrir unga fótboltakappann og vini hans sem stóðu sig með prýði og unnu átta af níu leikjum. 

„Mótið var vel skipulagt og ég sá að strákarnir vildu gera sitt besta,“ segir Achola sem fann fyrir keppnisskapi ungu strákana. „Það eru miklar tilfinningar á svæðinu. Sumir eru að fagna, á meðan aðrir gráta.“  

Achola OtienoLeggur áherslu á að til þurfi að vera aðgerðaáætlanir þegar upp koma atvik vegna kynþáttaníðs.

Hún segir að strax á fyrsta degi mótsins hafi nokkrir ungir leikmenn, sem sátu utan vallar, hæðst að syni sínum á meðan á leik stóð þegar þeir buðu hann velkominn til Íslands og að tónninn hafi verið háðskur „og sögðu þessi er nýr, aftur og aftur.“ Sjálf er Achola upprunalega frá Kenía en Ingvar er fæddur og uppalinn á Íslandi. Foreldrarnir létu þjálfara og mótsstjórn vita af atvikinu en daginn eftir hafi áreitið haldið áfram.

Lið drengsins vann leik en á meðan vinir hans fögnuðu hljóp hann grátandi í fang móður sinnar. „Hann var búinn að spila vel en eftir leikinn kom hann beint í fangið mitt og grét mikið. Ég spurði hvað hafði gerst. Hann sagði að þetta hefði gerst aftur og spurði mig hvort ég hefði ekki látið vita af athugasemdum daginn áður.“ Það hafði Achola vissulega gert en þennan dag voru strákar farnir að hæðast að syni hennar inni á vellinum. „Það var strákur sem spurði hvort hann mætti snerta hár sonar míns, en hann er með fléttur í hárinu. Strákurinn sagði við hann: Ég held að þú viljir ekki að ég snerti hárið þitt af því að það er skítugt. Og togaði svo í hár hans. Eftir þetta fór sonur minn upp í rúm til að leggja sig en grét allan tímann.“

Ingvar, maður Acholu, sendi í kjölfarið tölvupóst á mótsstjórn og fengu hjónin þau viðbrögð að málið yrði tekið til skoðunar. „Við erum ennþá að bíða eftir að heyra frá þeim. Þau tóku okkur vel og báðu afsökunar á þessu en það er ekkert meira gert.“ Fréttir bárust af því að annar hörundsdökkur þátttakandi mótsins hefði orðið fyrir aðkasti vegna húðlitar síns, og herma sögur að sá leikmaður sem lét ljótu ummælin falla hafi verið sendur heim. Heimildin hefur ekki fengið það staðfest. Achola segir afar mikilvægt að til séu reglur um hvernig eigi að bregðast við þegar slík atvik koma upp.  

Ekki náðist í mótsstjórn N1 fótboltamótsins við gerð fréttarinnar. 

Ekki í fyrsta skipti

Þegar sonur þeirra hjóna var að byrja í grunnskóla fór Achola í hverfisskólana og forvitnaðist um hvort aðgerðaáætlun væri til staðar ef upp kæmu atvik tengd kynþáttaníði. Á öllum stöðum fékk hún það svar að kynþáttaníð væri ekki vandamál innan skólans. Í fyrra kom hins vegar upp leiðinlegt atvik þar sem illkvittnum ummælum var beint að syni hennar í skólanum. „Þá skrifaði maðurinn minn til skólastjóra og kennara. Hann sagði að strákurinn okkar yrði heima þangað til að haldinn yrði fundur um málið.“

Sjálf hefur Achola orðið fyrir áreiti af ýmsu tagi vegna húðlitar síns. Til dæmis því að fólk snerti hár hennar, spyrji óviðeigandi spurninga í sundi eða tali við hana ensku þrátt fyrir að hún svari á íslensku. Hún segir það hafa verið „miklu meira særandi“ að verða vitni af því sem sonur hennar hefur þurft að ganga í gegnum. 

Achola segist hafa lagt mikið upp úr því í uppeldinu að kaupa bækur og leikföng sem stuðla að jákvæðum viðhorfum í garð fjölbreytileika. Hún passi að ekki sé að finna rasísk ummæli eða annað sem sé særandi fyrir hörundsdökkt fólk í afþreyingarefni barna sinna. Achola segir hins vegar að það eigi ekki að vera hlutverk einstaklinga að takast á við kerfisbundinn rasisma, það sé hlutverk heldur stofnana. „Þetta er svo þreytandi. Í rauninni launalaus vinna þar sem ég er að senda kvartanir og benda á hvað er að.“ Einnig bendir hún á að það sé ekki gagnlegt að tala um að fólk sé annaðhvort gott eða vont þegar kemur að rasisma, því að það dragi athyglina frá því að vandinn sé kerfislægur og að því samfélagslegt verkefni að takast á við hann. Hún segir skort á aðgerðum frá stjórnvöldum og stofnunum í þessum málaflokki augljósan. „Það vantar meiri stuðning frá fólki sem hefur völd.“

Kjósa
19
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Þórdís Þórðardóttir skrifaði
    Takk fyrir þessa grein,. á sjálf 10 ára barnabarn sem fær endalaus rasísk skilaboð. Hvernig sem á er litið er þessar endalausu árásir vegna húð og hárlitar óásættanlegar og ég hef rekið mig á það margsinnis að fólk skilur ekki einu sinni ábendingar um að það sé að gefa rasísk og meiðandi skilaboð.
    1
  • Ásta Jensen skrifaði
    Afhverju eru hörundsdökkir svona viðkvæmir fyrir lit sínum. Er það ekki bara forvitni að vilja koma við afróhár? Það myndi gerast ef ég eða barnabörn mín myndu fara til Kenía. Þá yrðu þau snert upp og niður. Það sem maður er ekki vanur vekur forvitni. Ég var einu sinni kölluð bauni af því ég er með danskt ættarnafn. Ég fór ekki að gráta. Það ætti að kenna fólki sem flytur til Íslands að útlit þeirra og ættarsaga geti vakið athygli.
    -5
    • TM
      Tómas Maríuson skrifaði
      Þessi drengur flutti ekki til Íslands, hann fæddist hér.
      0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu