„Svo styttist í Barbenheimer,“ segir Thelma Rún Sveinsdóttir kvikmyndaáhugakona brosandi þegar við ræðum bíósumarið framundan. Við vinkonurnar förum gjarnan saman í bíó og höfum við mikið dálæti af því að gagnrýna og greina söguþræði enda nýútskrifaðir félagsfræðingar. Í fyrstu áttaði ég mig ekki á því hvað hún átti við en svo kom útskýringin. Barbenheimer er orðatiltæki notað af kvikmyndaáhugafólki og samfélagsmiðlanotendum sem ætla sér að sjá Barbie og Oppenheimer samdægurs eða með stuttu millibili.
Ólíkar myndir
Kvikmyndirnar tvær eru eins ólíkar og þær gerast. Oppenheimer er sannsöguleg mynd sem fjallar um aðkomu bandarísks efnafræðings að fyrstu kjarnorkusprengjunni á tímum seinni heimstyrjaldar. Cillian Murphy, best þekktur fyrir leik sinn í þáttaröðinni Peaky Blinders, fer með aðalhlutverk ásamt stórleikurunum Emily Blunt, Matt Damon og Robert Downey Jr. Aðal stiklan fyrir myndina birtist á Youtube fyrir tveimur mánuðum og búið er að horfa 36 milljón sinnum á hana. Leikstjóri Oppenheimer er óskarsverðlaunahafinn Christopher Nolan sem er þekktur fyrir afar spennuþrungnar og vel gerðar myndir.
Barbie er hins vegar björt, fyndin og gleðileg. Henni er leikstýrt af öðrum óskarsverðlaunahafa, Gretu Gerwig. Kvikmyndir hennar njóta mikilla vinsælda meðal ungs fólks, sérstaklega kvenna. Margot Robbie leikur Barbie en hún er sjálf óskarsverðlaunahafi. Allt frá því að Robbie lék í Wolf of Wallstreet fyrir áratug síðan hefur hún verið ein af eftirsóttustu leikkonum heims. Ryan Gosling fer með hlutverk dúkkunar Ken en hann hefur einnig fengið óskarsverðlaun og gert garðinn frægan með myndum eins og The Notebook, La La Land og Blade Runner. Poppstjarnan Dua Lipa syngur aðallag myndarinnar sem situr í 29. sæti Billboard Hot 100 listans um þessar mundir. Búið er að horfa 38 milljón sinnum á stiklu Barbie á aðeins einum mánuði.
Og hvað er málið?
Barbenheimer gengur út á að hver og einn skipuleggi bíódag, helst yfir frumsýningarhelgina, þar sem keyptir eru miðar á báðar myndirnar. Milli sýninga eru matarhlé og jafnvel drykkjarhlé. Tom Cruise sagði nýverið á rauða dreglinum: „Mér finnst gaman að sjá myndir opnunarhelgina. Ég byrja líklega á Oppenheimer á föstudagskvöldinu og tek svo Barbie á eftir.“
Hafsteinn Sæmundsson sér um hlaðvarpið Bíóblaður þar sem hann ræðir kvikmyndir við helstu sérfræðinga og áhugafólk. „Mér finnst þetta skemmtilegt og svolítið öðruvísi,“ segir hann um Barbenheimer. „Það er gaman að sjá hvernig þetta hefur tekist á flug og fólk hefur verið að búa til allskyns efni á samfélagsmiðlum í kringum myndirnar. Svo vatt þetta aðeins upp á sig eftir að Tom Cruise sagði sjálfur að hann ætlaði að horfa á þær sama dag.“
Nýjasta mynd Tom Cruise, Mission: Impossible - Dead Reckoning Part One, er í bíó um þessar mundir. Sömuleiðis er fimmta Indiana Jones myndin sem Harrison Ford fer með aðalhlutverkið í. Það eru því fjórar stórar myndir á svipuðum tíma í bíó. Í kjölfar umræðunnar um hvaða mynd næði mestum árangri tísti Tom Cruise mynd af sér ásamt leikstjóra Mission: Impossible með miða á allar myndirnar og sýndi þannig stuðning í stað þess að reyna að einoka markaðinn.
Markaðsdeild Barbie deildarinnar var ekki lengi að átta sig á vinsældum tístsins og birti í kjölfarið mynd af Gretu Garwig og Margot Robbie með miða á Oppenheimer, Mission: Impossible og Indiana Jones.
Nú bíður aðdáendahópur Barbie og Oppenheimer eftir að Christopher Nolan og Cillian Murphy svari kallinu með mynd af sér fyrir framan Barbie skilti.
Ekki stressandi
Kvikmyndirnar koma í bíó miðvikudaginn 19. júlí næstkomandi. Veðurspáin fyrir þann dag er ekki með Sambíóunum og Smárabíó í liði en þau kvikmyndahús sýna bæði Oppenheimer og Barbie. Vefsíðan yr.no spáir 13 gráðum ásamt sól. Gott veður stoppar hins vegar ekki alla, fréttir að utan herma að yfir 20.000 Bandaríkjamenn hafi tryggt sér miða á myndirnar tvær yfir frumsýningarhelgina.
Framkvæmdastjóri Sambíóana, Þorvaldur Árnason, segir forsölu á Barbie ganga vel og að búið sé að bæta við aukasýningum. Samfilm sér um dreifingu Barbie en Myndform sér um Oppenheimer. Aðspurður út í áhrif veðursins segist Þorvaldur „alveg viss um að Barbie er góð hvort sem það er sól eða ekki.“
Sjálfur er Þorvaldur búinn að horfa á Barbie og hafði gaman af. „Hún er virkilega vel gerð og leikararnir standa sig vel í henni. Þetta er klárlega sumarskemmtun.“ Þorvaldur á eftir að sjá Oppenheimer en þegar Heimildin náði tali af honum var minna en sólarhringur í að hann flygi til Stokkhólms að heimsækja dóttur sína og tengdason. „Ætli maður fari ekki bara í bíó í Svíþjóð,“ segir hann og brosir.
Geir Gunnarsson framkvæmdastjóri Myndform segir Oppenheimer eina af stærri myndum ársins. „Þetta er svona sumarstórmynd sem nær í mjög breiðan hóp. Allar myndirnar frá Christopher Nolan eru stórkostleg upplifun í bíó.“ Honum finnst ekki stressandi að Barbie sé frumsýnd á sama tíma. „Ég held að það sé pláss fyrir báðar myndir,“ segir Geir en forsala á Oppenheimer hefur gengið vel.
„Þetta er klárlega sumarskemmtun.“
Barbenheimer í lúxussal
Hafsteinn hjá Bíóblaðri segist ætla að sjá Oppenheimer fyrst í lúxussal Sambíóana. „Það er einfaldlega vegna þess að hún er nær mínum smekk. En ég ætla líka að sjá Barbie.“ Hafsteinn ætlar ekki að fara á myndirnar sama dag vegna anna en hefði annars „100 prósent farið sama dag.“
Thelma Rún fer mikið í bíó og hefur mest gaman af drama- og gamanmyndum. „Nei, ég held ég geri það nú ekki,“ svarar Thelma Rún þegar hún er spurð hvort að hún ætli á Barbie og Oppenheimer sama dag. „Það er nú kannski aðeins of mikið. Ég held ég fari fyrst á Barbie af því að ég er spenntari fyrir henni.“ Hún hefur tekið eftir því á samfélagsmiðlum að markaðssetningin í kringum Barbie er meiri en af Oppenheimer. „Kannski er það minn algrímur en ég sé fleiri myndir og myndbönd tengd Barbie sem peppa mann. Svo er líka að koma út allskonar varningur í Bandaríkjunum tengdur þessu.“
„Oppenheimer og Barbie eru báðar með skemmtilega leikstjóra og söguþráðurinn lítur út fyrir að vera áhugaverður.“ Aðspurð hvað spenna yfir svona andstæðum myndum segir okkur um samfélagið í dag segir félagsfræðingurinn: „Mér finnst það sýna að kvikmyndaflóran er fjölbreytt. Núna eru rosalega ólíkar myndir að koma út á sama tíma og mikið umtal í kringum þær. Þær eru líka með kvenleikstjóra og karlleikstjóra sem sýnir að kvikmyndir geta verið ólíkar en mjög skemmtilegar og áhugaverðar á sinn hátt.“
Athugasemdir