Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Fjármagnstekjur jukust milli ára og voru 227 milljarðar króna í fyrra

Þau tíu pró­sent lands­manna sem höfðu mest­ar tekj­ur í fyrra greiddu alls 83 pró­sent þess fjár­magn­s­tekju­skatts sem innt­ur var af hendi vegna síð­asta árs. Það þýð­ir að sá hóp­ur þén­aði þorra slíkra tekna á ár­inu 2022. Barna- og vaxta­bæt­ur fóru á sama tíma lækk­andi.

Ein­stak­lingar greiddu alls 42,8 millj­arða króna í fjár­magnstekju­skatt í fyrra af alls 227 millj­arða króna fjár­magnstekj­um. Það er 4,2 milljörðum krónum meira en þeir greiddu í slíkan skatt á árinu 2021 og 20,3 milljörðum krónum meira en þeir greiddu í hann árið 2020. 

Fjármagnstekjur hækkuðu um 32,5 milljarða króna milli ára og hafa aukist um 97,5 milljarða króna á tveimur árum. 

Þeim sem fengu fjármagnstekjur fjölgaði umtalsvert milli ára. Sá hópur taldi alls 41.507 manns á síðasta ári, sem er 45 prósent aukning frá árinu áður. Alls voru 12,4 prósent allra framteljenda með slíkar tekjur á árinu 2022. Það hlutfall var níu prósent á árinu 2021. Þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar tekjur greiddu þó 83 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti. Það hlutfall hækkaði um tvö prósentustig milli ára sem bendir til þess að hlutdeild hópsins í öllum fjármagnstekjum fari hækkandi, og að flestir þeirra sem bæst hafa við sem greiðendur séu með lágar fjármagnstekjur. Ef hlutfall tekjuhæstu tíundarinnar í þeim fjármagnstekjum sem var aflað er sama hlutfall og hún greiðir af fjármagnstekjuskatti má ætla að hún hafi haft 188,4 milljarða króna í slíkar tekjur. 

Þetta kemur fram í tölum um álagn­ingu opin­berra gjalda á ein­stak­linga sem fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið, sem Bjarni Benediktsson stýrir, birti í gær. 

Fjár­­­­­­­­­magnstekjur eru þær tekjur sem ein­stak­l­ingar hafa af eignum sín­­­­­um. Þær eru til að mynda vext­ir, arð­­­­­ur, sölu­hagn­aður eða leig­u­­­­­tekjur af lausafé og af útleigu á fast­­­­­eign­­­­­um. Þeir sem fá mestar fjár­­­­­­­magnstekjur á Íslandi eru því sá hópur ein­stak­l­inga sem á flest hluta­bréf og flestar fast­­­­eign­­­­ir. Sá hópur sem hefur sankað að sér flestum eign­­­­um. Stærsti einstaki liður fjármagnstekna árið 2022 var arður hlutabréfa, sem skilaði 93,1 milljarði króna, eða 38 prósent allra fjármagnstekna. Sá liður hækkaði um 23,6 milljarða króna milli ára. 

Mikil aukning á síðustu árum

Síðustu ár hafa verið blómleg fyrir þá sem hagnast á því að nota pen­ing­ana sína í fjár­­­fest­ingar, og greiða af því fjármagnstekjuskatt. Stjórn­völd gripu til marg­hátt­aðra efna­hags­að­gerða á árunum 2020 og 2021 sem leiddu til þess að hluta­bréfa- og fast­eigna­mark­aðir hækk­uðu mik­ið. Aðgerð­irnar fólu meðal ann­ars í sér marg­hátt­aðar styrkt­­ar­greiðslur til fyr­ir­tækja og veit­ingu á vaxta­­lausum lánum í formi frestaðra skatt­greiðslna. Þá afnam Seðla­­banki Íslands hinn svo­­kall­aða sveiflu­­jöfn­un­­ar­auka sem jók útlána­­getu banka lands­ins um mörg hund­ruð millj­­arða króna og stýrivextir voru lækk­­aðir niður í 0,75 pró­­sent. Þeir höfðu aldrei verið lægri. Áhrif af þessum aðgerðum teygðu sig inn á síðasta ár.

Þeir sem hafa slíkar tekjur  borga fjár­­­magnstekju­skatt. Sá skattur er 22 pró­­sent, sem er mun lægra hlut­­fall en greitt er af t.d. launa­­tekj­um, þar sem skatt­hlut­­fallið er frá 31,45 til 46,25 pró­­sent eftir því hversu háar tekj­­urnar eru. 

Nokkrar breyt­ingar voru gerðar í álagn­ingu fjár­­­magnstekju­skatts í upp­hafi árs 2021. Eftir þær þarf til að mynda ekki að greiða skatt af vöxt­um, arði og sölu­hagn­aði hluta­bréfa á skipu­­legum verð­bréfa­­mark­aði sem var undir 300 þús­und krónum og frí­­tekju­­mark hjóna var hækkað upp í 600 þús­und krón­­ur. Auk þess er ein­ungis helm­ingur af útleigu íbúð­­ar­hús­næðis til búsetu leigj­anda og sem fellur undir húsa­­leig­u­lög skatt­­skyldur ef ein íbúð er leigð út. 

Áratugum saman hefur það fyrirkomulag verið við lýði á Íslandi að tekjuháir einstaklingar geti talið launatekjur fram sem fjármagnstekjur í gegnum einkahlutafélög og þannig komið sér undan því að greiða sömu skatta og annað launafólk. Alþýðusamband Íslands hefur áætlað að hið opinbera verði af um átta milljörðum króna vegna þessa. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur voru úrbætur á þessu boðaðar og frumvarp þess efnis var bætt á þingmálaskrá í desember í fyrra. Það var hins vegar fellt út af henni skömmu síðar. 

Íslendingar eiga næstum ellefu þúsund milljarða

Í tölunum sem voru birtar í morgun er líka gerð grein fyrir eignastöðu landsmanna, en þeir áttu alls eignir upp á 10.880 milljarða króna um síðustu áramót. Verðmæti eigna jókst um 1.900 milljarða króna á árinu 2022, eða um 21 prósent, sem er miklu meiri aukning en varð á árinu 2021. Þá jukust eignir landsmanna um 813 milljarða króna á milli ára, eða 10,6 prósent.

Mestu munar um hækkun á matsverði fasteigna, sem hækkaði um 26 prósent milli ára og fasteignir voru rúmlega 76 prósent allra eigna landsmanna um síðustu áramót. Það hlutfall hækkaði milli ára, en fasteignir voru tæplega 74 prósent heildareigna í lok árs 2021. 

Barna- og vaxtabætur hafa farið lækkandi

Útgreiddar barnabætur hafa farið lækkandi á síðustu árum. Árið 2021 voru greiddar samtals 15,5 milljarðar króna í barnabætur og sérstakar barnabætur, ári síðar var sú upphæð 14,8 milljarðar króna og þær barnabætur sem greiddar verða út í ár, og ákvarðast af tekjum sem fólk hafði á síðasta ári, nema um 14,3 milljörðum króna. 

Sömu sögu er að segja um vaxtabætur, en þeim sem fá slíkar fækkar um 340 milli ára. Árið 2019 voru greiddar út rúmlega 2,7 milljarðar króna í vaxtabætur en sú upphæð samkvæmt álagningu 2023 verður um tveir milljarðar króna. Í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem birt var í gær segir að markmið stjórnvalda síðustu ár hafi verið að „beina húsnæðisstuðningi í annan farveg en í gegnum vaxtabótakerfið t.d. með skattfrjálsri úttekt séreignarsparnaðar þar sem gert er ráð fyrir 3,5 ma.kr. eftirgjöf ríkisins af tekjuskatti á árinu 2023.“ Alls hefur úttekt séreignarsparnaðar kostað ríkissjóð 16 milljarða króna frá árinu 2018.

Húsnæðisstuðningur við tekjuhæstu hópana

Heimildin greindi frá því í byrjun maí að þorri þess húsnæðisstuðnings sem miðlað er í gegnum skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar hefur lent hjá tekjuhærri hópum landsins. Alls fór um 77 prósent hans til efstu þriggja tekjutíunda en fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur reiknað sig niður á að umfang þess skattaafsláttar sem veittur hefur verið sé um 50 milljarðar króna, miðað við þann skatt sem annars hefði verið greiddur af útgreiðslunum við úttekt. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, sem fer með húsnæðismál í ríkisstjórninni, gekkst við því í viðtali við Heimildina að þeir hópar sem væru að njóta þessa húsnæðisstuðnings sem ríkið er að uppistöðu að veita, væru ekki þeir sem þyrftu helst á honum að halda. Upphaflega stóð til að úrræðið stæði til boða milli 2014 og 2017 en það hefur síðan verið framlengt fjórum sinnum, nú síðast með frumvarpi sem var samþykkt í síðustu viku. Úrræðið gildir nú út árið 2024.

Í viðtalinu við Heimildina sagði Sigurður Ingi að það væri erfitt að hætta með skattfrjálsu séreignarsparnaðarleiðina, en að þetta yrði þó í síðasta sinn sem úrræðið yrði framlengt. 

Kjósa
9
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár