Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Fer hringinn í kringum Ísland á hjólabretti

Duncan Roberts er að safna pen­ing fyr­ir sam­tök sem eru á móti hval­veið­um með því að fara hring­inn í kring­um Ís­land á hjóla­bretti. Ástr­al­inn stefn­ir á að klára ferða­lag­ið fyr­ir lok júní og geta áhuga­sam­ir fylgst með hring­ferð­inni á sam­fé­lags­miðl­um þar sem hann deil­ir ferða­sögu sinni.

Hinn 38 ára gamli Duncan Roberts ferðast nú hringinn í kringum Ísland á hjólabretti með 15 kílóa bakpoka. Tilgangur ferðarinnar, sem er 1.400 kílómetrar, er að safna pening fyrir samtökin Sea Shepard, meðal annars til að fjármagna baráttu þeirra gegn ólöglegum veiðum við strendur Vestur-Afríku. Duncan er afar umhugað um verndun sjávar og dýravelferð enda býr hann í sjávarþorpinu Fingal Head við strönd Ástralíu og stundar þar brimbretti af miklum krafti. 

Þegar Heimildin náði tali af Ástralanum var hann að leggja af stað frá Djúpavogi meðfram austurströnd Íslands, áleiðis suður í átt að Reykjavík. „Í dag mun ég ferðast á bilinu 40–50 kílómetra. Ég er heilan dag að því á hjólabrettinu á meðan flestir eru hálftíma að keyra þessa vegalengd. Þetta mjakast áfram hjá mér,“ segir Duncan og hlær.

Eftir tíu ár í skrifstofuvinnu við markaðssetningu fann Duncan fyrir vanlíðan. „Ég fann fyrir leiða og skorti innblástur. Með hverjum deginum sem leið varð erfiðara að hundsa þrána til að komast í burtu og upplifa allt það sem lífið hefur upp á að bjóða. Eins ógnvekjandi og það virkaði ákvað ég að hætta í vinnunni, halda út í hið óþekkta og að arka ófjölfarnari veg.“

Duncan RobertsRúllar áfram.

Tíu klukkustundir á hjólabretti

Duncan ætlar að takast á við nýja áskorun árlega þar sem líkamleg hreyfing er í lykilhlutverki. „Ég vil láta gott af mér leiða. Á hverju ári ætla ég að takast á við nýja áskorun til að styrkja góðgerðarsamtök. Þetta er fyrsta af mörgum áskorunum. Ég áttaði mig á því að lífið er stutt og við þurfum að gera það eftirminnilegt.

Markmið þessarar áskorunar er að safna 40.000 dollurum, eða fimm milljónum íslenskra króna, fyrir ofangreind samtök. Duncan birtir daglegar uppfærslur af ferðalaginu á Instagram-síðu sinni: skatingforchange og á Facebook.

Aðspurður hvers vegna hann vildi að áskorunin færi fram á Íslandi segir Duncan að náttúrufegurðin hafi heillað. „Ég valdi Ísland vegna þess að þegar þú ert á hjólabretti í tíu klukkustundir daglega viltu vera í fallegu landslagi og geta gleymt því hvað þetta er líkamlega erfitt. Það hafa fjórir aðrir farið hringinn á hjólabretti, þannig að ég vissi að það væri hægt.“ Þegar Duncan klárar áskorunina verður hann fyrsti Ástralinn sem afrekar þennan merka áfanga. 

„Ég lagði af stað 23. maí og þurfti að fara á hjólabrettinu í gegnum gula veðurviðvörun. Planið er að koma aftur til Reykjavíkur fyrir 30. júní.“ Duncan fór norðurleiðina og á því eftir að renna allt Suðurlandið áður en hann kemur í mark.  

Berst gegn hvalveiðum

Á samfélagsmiðlum hefur Duncan gagnrýnt hvalveiðar Íslendinga og segir mikilvægt að fólk tali um þær, jafnvel þó að það geti reynst mörgum erfitt enda takast þar ólík sjónarmið á. „Þegar ég labba inn á bari í Sea Shepard bolnum mínum segir eldra fólk stundum: Þú ættir ekki að klæðast þessu, samtökin eru ekki vinsæl hér.“ 

„Völdin liggja hjá stjórnmálafólki og þau eru að ákveða að sleppa því að banna hvalveiðar, þrátt fyrir að hafa öll sönnunargögn sem þarf til að banna veiðarnar. Það er skömm vegna þess að einn maður og starfsmenn hans hagnast á veiðunum á meðan að restin af Íslendingum geldur fyrir flekkað orðspor.“  Duncan segist hafa séð myndbönd af hvalveiðum þar sem dýrin þjást í lengri tíma áður en næst að drepa þau. Hann harmar það að hvalveiðar haldi áfram í sumar og að matvælaráðherra stoppi veiðarnar ekki þrátt fyrir að hafa lagalega heimild til þess. 

Forsvarsmenn samtaka Kafteins Páls Watsonar sigla nú til Íslands með það að markmiði að koma í veg fyrir að hvalveiðafólki takist að koma skutlum í hvalina. 

Duncan RobertsStillir sér upp hjá vita með hjólabrettið sitt.

Duncan vekur athygli

Hvalveiðar Íslendinga gera áskorun Duncan enn þýðingarmeiri og hann leggur mikið á sig til að gefast ekki upp. Ökkli hjólabrettagarpsins er orðinn aumur og því þarf hann að byrja alla daga á að vefja ökklann og teygja vel. „Um daginn fór ég 75 kílómetra sem hljómar kannski ekki eins og mikið en þegar þú ert á hjólabretti er það löng vegalengd, enda tók það mig tíu samfleyttar klukkustundir.“

Forvitnir vegfarendur stoppa á þjóðveginum til að taka myndir af Duncan. „Fólk er svo áhugasamt að það getur orðið sjálfu sér hættulegt. Sumir stoppa á miðjum þjóðveginum. Þá hugsa ég: Haltu áfram! Þú mátt ekki stöðva bifreiðina þarna,“ segir Duncan en margir Íslendingar hafa sýnt áskoruninni mikinn áhuga og trúa því vart að íþróttakappanum sé að takast þetta.

Vænta má þess að Duncan birti þriggja þátta seríu á Youtube um ævintýri sitt á Íslandi seinna í sumar þegar hann kemur heim til Ástralíu. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár