Gervigreindin (GG) er spurð að því hvaða greinarmun hún geri á UPPLÝSINGUM og MERKINGU. Hún svarar efnislega svona:
Ég get búið til samhangandi og oft gagnlegan texta byggðan á þeim gögnum sem ég er gerð úr. Ég bý hins vegar ekki yfir skilningi á merkingu eins og menn, átta mig hvorki á blæbrigðum og tilfinningum né persónulegri túlkun fólks á upplýsingum.
Þar sem svör mín eru byggð á „hráum“ upplýsingum sem hafa verið settar inn í mig skortir mig ef til vill samúð, siðferðilega afstöðu eða skilning á menningarlegu samhengi en slíkir þættir geta leitt til slagsíðu eða rangtúlkunar í svörum mínum.
Merking varðar hins vegar túlkun og skilning á grunni slíkra gagna en slík merkingarsköpun litast oft af víðtæku neti menningarlegra, félagslegra og persónulegra þátta.
Þetta segir GG um muninn á upplýsingum og merkingu. Hún segist ekki búa yfir jafn miklum skilningi á merkingu og mannfólkið og er það að vissu leyti rétt. Það er að segja: Fjöldi kvenna jafnt sem karla fæst vissulega við merkingarsköpun í því víða samhengi sem GG lýsir. Hins vegar snýst samtal okkar mannanna um mikilvæg mál talsvert um hráar upplýsingar sem eru iðulega settar fram sem „staðreyndir“ og birtast með atbeina allra tiltækra táknkerfa, meðal annars sem hlutföll, prósentur, línurit, stöpla- eða kökurit.
Þó duga hráar upplýsingar skammt í samtali okkar um mikilvægustu viðfangsefni samfélaga en þau varða frelsi og jafnrétti, menntun og lýðræði. Og þegar sumir auglýsa eftir merkingu og samhengi í umræðunni um þessa grunnþætti, reyna aðrir að rugla þá fyrrnefndu í ríminu með skefjalausri miðlun samhengis- og merkingarlausra upplýsinga. Hún dugir oft til þess að brýn málefni fara á flot og verða eins og korktappar í ölduróti. Þá þykir upplýsingasinnuðum forkólfum ef til vill upplagt að setja á laggirnar nefndir sem eiga að afla nýrra (merkingarlausra?) upplýsinga.
En hvort er gæfulegra að við treystum á miðlun í mannheimum (MM) eða miðlun GG þegar við reynum að átta okkur á lífinu og tilverunni? Aðalatriðið er að við treystum hvorugum miðlinum í blindni og göngum út frá því að hvorki MM né GG geti birt okkur tilveruna eins og hún sé eða hafi verið. Miðlar geta aldrei sagt alla söguna um það sem þeir reyna að koma til skila (presentation) heldur eru þeir í öllum tilvikum háðir endursögn á efni (representation). Þeir miðla verulíki, ákveðinni námundun gagnvart því sem við köllum veruleika en geta aldrei birt okkur hann hreinan og tæran.
„Aðalatriðið er að við treystum hvorugum miðlinum í blindni.“
Hvað þetta varðar ber að hafa í huga að miðlar geta aðeins fjallað um agnarsmátt brot af því sem gerist í veröldinni eða fólk veltir fyrir sér. Að auki ráða miðlendur efnisvali og efnistökum. Því þarf að huga að því, jafnt í GG og MM, hvers konar gildi og lífsviðhorf komi eða komi ekki fram og að hve leyti miðlunin snúist um upplýsingamiðlun í þröngum skilningi – upplýsingar sem hvorki er búið að vinna
úr né setja í samhengi – eða hvort þær varði víðtæka merkingarsköpun.
Niðurstaðan mín hér – byggð á upplifun og reynslu en ekki á rannsókn sem stendur undir nafni – er að GG ofmeti færni okkar mannfólksins til víðtækrar merkingarsköpunar en vanmeti þau áhrif sem langvarandi miðlun „hrárra“ upplýsinga hefur haft á líf okkar. Reyndar efast ég um að persónur og leikendur í mannheimum pæli mikið í gildi eða gagnsemi upplýsinga. Okkur hefur nefnilega verið kennt að upplýsingar hafi merkingu en spyrja má hvort þær einkennist í raun af svipaðri mötun og GG er háð, mötun á hráum gögnum þar sem siðferði og samhengi koma ekki við sögu.
Höfundur hefur fengist við sköpun og miðlun efnis af ýmsu tagi.
Hættan við GG er við venjulegt fólk höfum enga innsýn í það hvað þeir eru að hugsa sem framleiða algóritmana. Við erum sem skynlausar skepnur sem þjóna ekki GG heldur þeim sem búa hana til.