Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Samfylkingin mælist með 14 nýja þingmenn en ríkisstjórnin hefur tapað sama fjölda

Fimmta mán­uð­inn í röð mæl­ist Sam­fylk­ing­in stærsti flokk­ur lands­ins. Fylgi flokks­ins hef­ur ekki mælst meira í 14 ár. Stuðn­ing­ur við rík­is­stjórn­ina hef­ur aldrei mælst minni. Vinstri græn halda áfram að tapa fylgi og mæl­ast nú í fyrsta sinn und­ir sex pró­sent­um.

Samfylkingin mælist með 14 nýja þingmenn en ríkisstjórnin hefur tapað sama fjölda

Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 28,4 prósent samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Það er mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan í lok apríl 2009, eða í fjórtán ár. Flokkurinn hefur bætt við sig 18,5 prósentustigum frá síðustu kosningum. Ef þetta yrði niðurstaða kosninga myndi Samfylkingin fá 20 þingmenn og verða langstærsti flokkur landsins. Það er 14 þingmönnum meira en flokkurinn hefur í dag. Frá því að Kristrún Frostadóttir tilkynnti um formannsframboð í fyrrasumar hefur fylgi Samfylkingarinnar aukist um 14,7 prósentustig. 

Þrír aðrir flokkar hafa bætt við sig fylgi það sem af er kjörtímabils, en síðast var kosið í september 2021. Píratar mælast nú með 10,1 prósent fylgi, sem er 1,5 prósentustigi meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Það myndi þó ekki duga til að bæta við sig þingmönnum. Þeir yrðu áfram sex líkt og nú er.

Miðflokkurinn fær sína bestu mælingu það sem af er kjörtímabili með 6,9 prósent fylgi. Það er 1,5 prósentustigi meira en flokkurinn fékk síðast þegar talið var upp úr kjörkössunum. Þingflokkur Miðflokksins myndi tvöfaldast ef þetta fylgi skilaði sér í kosningum og telja fjóra þingmenn. Þeir fengu þrjá kjörna í september 2021 en Birgir Þórarinsson yfirgaf flokkinn og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokk tveimur vikum eftir kosningarnar og bar fyrir að traust milli hans og forystu flokksins hefði brostið. 

Sósíalistaflokkur Íslands, sem náði ekki inn manni haustið 2021, mælist með 4,9 prósent fylgi og fengi tvo kjördæmakjörna þingmenn en næði ekki yfir fimm prósent þröskuldinn sem þarf til að fá jöfnunarmann. Það er 0,8 prósentustigum meira en í síðustu kosningum. 

Áframhaldandi hrun hjá stjórnarflokkunum

Sá flokkur sem hefur tapað mestu fylgi það sem af er kjörtímabili er sigurvegari síðustu kosninga, Framsóknarflokkurinn. Hann mælist með 10,2 prósent fylgi sem er 7,2 prósentustigum minna en flokkurinn fékk fyrir 20 mánuðum síðan. Þingmönnum hans myndi fækka úr 13 í sex ef kosið yrði í dag. 

Vinstri græn mælast með minnsta fylgi sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með, 5,7 prósent. Það er auk þess í fyrsta sinn sem fylgi Vinstri grænna, sem leiða sitjandi ríkisstjórn, fer undir sex prósentustiga markið. Alls hefur flokkurinn tapað 6,9 prósentustigum á kjörtímabilinu, eða 55 prósent af fylgi sínu. Fylgi hans hefur ekki náð tveggja stafa tölu í mælingum Gallup í 13 mánuði. Núverandi fylgi myndi skila Vinstri grænum þremur þingmönnum, eða jafnmörgum og ráðherrar flokksins eru í dag. Það er fimm færri en sitja nú í þingflokki Vinstri grænna. Flokkurinn mælist nú sá sjöundi stærsti á þingi, en var þriðji stærstur eftir síðustu kosningar. 

Sjálfstæðisflokkurinn tapar rúmu prósentustigi milli mánaða og mælist nú með 20,8 prósent fylgi. Það er 3,6 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í september 2021. Þingmönnum hans myndi fækka úr 17 í 15 við þessa niðurstöðu en, líkt og áður sagði, fékk flokkurinn einn viðbótarþingmann eftir kosningarnar þegar Birgir Þórarinsson skipti um lið. Sjálfstæðisflokkurinn er áfram sem áður sá stjórnarflokkur sem tapar minnstu á stjórnarsamstarfinu. Ef núverandi mæling myndi skila sér upp úr kjörkössunum væri samt sem áður um að ræða verstu niðurstöðu flokksins frá upphafi.

Samanlagt mælast ríkisstjórnarflokkarnir með 36,7 prósent fylgi, sem er 17,6 prósentustigum minna en þau 54,3 prósent sem þeir fengu í síðustu kosningum. Þeir myndu fá 24 þingmenn ef kosið yrði í dag en eru nú með 38. Þingmönnum þeirra myndi því fækka um tæp 37 prósent. Sameiginlegt fylgi þeirra hefur aldrei mælst minna síðan að þeir tóku fyrst við síðla árs 2017. 

Sama er að segja um stuðning við ríkisstjórnina. Hann mælist nú 37 prósent, en hann fór í fyrsta sinn undir 40 prósent í síðasta mánuði síðan að ríkisstjórnin tók við fyrir síðla árs 2017. Í fyrstu mælingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem birt var í desember það ár, sögðust 74,1 prósent styðja ríkisstjórnina. Frá þeim tíma hefur stuðningur við ríkisstjórnina helmingast.

Hægt að mynda mið-vinstristjórn

Tveir stjórnarandstöðuflokkar hafa tapað fylgi á kjörtímabilinu. Viðreisn mælist nú með 7,6 prósent en fékk 8,3 prósent í síðustu kosningum. Þingflokkurinn myndi minnka um einn ef kosið yrði í dag og telja fjóra. Flokkur fólksins hefur tapað 3,4 prósentustigum og mælist með 5,5 prósent fylgi. Þingmannafjöldi flokksins myndi helmingast, fara úr sex í þrjá. 

Alls níu flokkar myndu ná inn á þing miðað við niðurstöðu könnunar Gallup og einungis ein tveggja flokka stjórn yrði fræðilega möguleg, ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Kristrún Frostadóttir sagði hins vegar í nýlegu viðtali við Morgunblaðið að stefna Sjálfstæðisflokksins væri þannig að afar erfitt yrði að fara með þeim í ríkisstjórn. Hugur hennar standi til að setja á laggirnar mið-vinstri stjórn eftir næstu kosningar. Slík stjórn er möguleg samkvæmt könnuninni. Samfylkingin gæti myndað þriggja flokka stjórn með eins manns meirihluta ef hún næði saman við Framsóknarflokkinn og Pírata um samstarf. Þessir flokkar gætu bætt Viðreisn við og ýtt meirihlutanum upp í 36. Miðjuflokkarnir þrír gætu líka horft til Vinstri og bætt Vinstri grænum við í staðinn til að ná 35 manna meirihluta eða Sósíalistaflokknum, en þá myndi meirihlutinn telja 34. 

Könnunin var gerð dagana 2.–31. maí og voru þátttakendur valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup. Heildarúrtak var 10.316 en þátttökuhlutfall 48,2 prósent. Vikmörk á fylgi flokka eru 0,1–1,4 prósent.

Kjósa
26
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.

Mest lesið undanfarið ár