Allsherjar- og menntamálanefnd hefur afgreitt frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla til annarrar umræðu. Hún mun fara fram síðar í dag. Frumvarpið hefur setið fast í nefndinni í fimm mánuði þrátt fyrir að í grunninn sé um framlengingu á lögum sem áður höfðu verið samþykkt að ræða. Samkvæmt breytingartillögum meirihlutans mun styrkjakerfið verða fest í sessi út næsta ár og landsbyggðarmiðlar fá 20 prósent álag ofan á styrki til sín. Orðalagsbreytingum um lýðræðislegt mikilvægi fjölmiðla hefur einnig verið kastað út.
Í áliti meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar segir enn fremur að „til frambúðar er mikilvægt að horfið verði frá beinum styrkveitingum ríkisins til fjölmiðla enda stangast það á við eitt af meginhlutverkum fjölmiðla sem er að veita stjórnvöldum aðhald.“
Í álitinu segir að meirihlutinn telji mikilvægt að styðja áfram við einkarekna fjölmiðla en að það verði gert með „óbeinum hætti“. Þar segir einnig að meirihlutinn telji „að full ástæða sé til að endurskoða rekstur Ríkisútvarpsins hvað auglýsingadeildina varðar og telur æskilegt að hún verði lögð niður og auglýsendur geti pantað auglýsingar í gegnum vef Ríkisútvarpsins, þar sem fyrir liggur verðskrá sem ekki er veittur afsláttur af.“
Undir álitið skrifa Bryndís Haraldsdóttir, formaður nefndarinnar, og Birgir Þórarinsson frá Sjálfstæðisflokki, Lilja Rannveig Sigurðardóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson frá Framsóknarflokki og Jódís Skúladóttir frá Vinstri grænum.
Stanslaus átök milli stjórnarflokka
Ákveðið vandamál var samt sem áður til staðar. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir fjármunum í styrkjakerfið á fjárlögum og í fjármálaáætlun til næstu fimm ára runnu lögin um kerfið út um síðastliðin áramót. Því þurfti að Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, að leggja fram frumvarp í desember sem í fólst að kerfið yrði framlengt til tveggja ára.
Það hafa verið mikið átök milli stjórnarflokkanna um þessi lög, þrátt fyrir að upphæðin sem verið er að veita í styrkina sé 0,02 prósent af áætluðum heildarútgjöldum ríkissjóðs á þessu ári. Þau átök hafa meira og minna staðið yfir síðan að nefnd til að móta tillögur um styrkingu rekstrarumhverfis einkarekinna fjölmiðla, undir forystu Björgvins Guðmundssonar, skilaði af sér skýrslu í byrjun árs 2018 þar sem fjölmargar tillögur voru lagðar fram. Ein þeirra var að setja upp styrkjakerfi fyrir fjölmiðla.
Það var Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem skipaði nefndina síðla árs 2016. Þrátt fyrir það hefur sá flokkur barist hart gegn því að ýmsar tillögur nefndarinnar nái fram að ganga, sérstaklega styrkjakerfið. Fyrstu tilraunir Lilju til að koma því á voru kæfðar af samstarfsflokknum.

Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á náðist sátt innan stjórnarinnar um að taka þá fjármuni sem búið var að heita í styrkina og breyta þeim í einskiptis neyðarstyrk vegna COVID-19. Lilju var falið að útfæra greiðslu þeirra í reglugerð. Það gerði hún í byrjun júlí. Útfærslan sem þar var stuðst við færði rúmlega fjórðung af styrktarpottinum frá minni fjölmiðlum til þeirra þriggja stærstu.
Stuðningskerfið var svo loks lögfest 1. ágúst 2021 á forsendum sem voru nær því sem upphaflega var lagt upp með en einungis með gildistíma út árið 2022.
N4-styrkurinn fer í pottinn
Í rekstrarstyrk til einkarekinna fjölmiðla sem uppfylla ákveðin skilyrði felst að hlutfall af ritstjórnarkostnaði þeirra er endurgreiddur.
Samkvæmt fjárlögum gildandi árs eru 377 milljónir króna ætlaðar í þessa rekstrarstyrki. Í síðustu útgreiðslu fóru alls 53 prósent upphæðarinnar til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs, en hvert þeirra fékk 66,7 milljónir króna.
Fjölmiðlafyrirtækið N4, sem rekur ekki fréttastofu en framleiðir ýmis konar efni, óskaði í desember eftir því að fá 100 milljón króna styrk úr ríkissjóði. Fjárlaganefnd samþykkti styrkveitinguna en nefndarmenn sögðu síðar að hún ætti að skiptast á fleiri sem framleiða sjónvarpsefni á landsbyggðinni. N4 er eina sjónvarpsstöðin á landsbyggðinni.
Eftir að málið rataði í fjölmiðla var ákveðið að breyta úthluta fjármununum með öðrum hætti. Í nefndaráliti fjárlaganefndar fyrir þriðju umræðu fjárlagafrumvarpsins sagði að í ljósi „umræðu í fjölmiðlum beinir meiri hlutinn því til ráðherra að endurskoða þær reglur sem gilda um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni þannig að aukið tillit verði tekið til þeirra sem framleiða efni fyrir sjónvarp.“
Því var ákveðið að fjárframlagið myndi renna inn í styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla og hækka þá upphæð sem þar verður til úthlutunar úr 377 milljónum króna á næsta ári, í 477 milljónir króna.
Andstaða eins stjórnarflokks
Lilja gerði ýmsar breytingar á lögunum í frumvarpinu sem hún lagði fram í desember. Til dæmis var orðalagi um markmið laganna breytt þannig að í frumvarpinu var mælt fyrir um að fjölmiðlar séu hornsteinn lýðræðis og vísað til þess að stuðningskerfið væri fyrirsjáanlegt. Gildistíminn átti að vera út árið 2025 og eftir það ætti framtíðarfyrirkomulag stuðnings við fjölmiðla, sem tvær nefndir eiga að móta í sumar, að liggja fyrir. Þetta var í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna þar sem segir að ríkisstjórnin ætli sér að efla starfsemi einkarekinna fjölmiðla og styrkja lýðræðishlutverk fjölmiðla.
Þrátt fyrir að fimm mánuðir séu síðan að lögin runnu út og örfáir mánuðir fram að því að skila þarf inn umsókn vegna styrkjakerfisins þá hefur afgreiðsla frumvarpsins setið föst í allsherjar- og menntamálanefnd af gamalkunnum ástæðum, andstöðu Sjálfstæðisflokksins.
Þannig hafa mál staðið þrátt fyrir að einn stærsti og áhrifamesti einkarekni fjölmiðill landsins, Fréttablaðið, hafi orðið gjaldþrota í lok mars. Með því hvarf annað af tveimur dagblöðum landsins og fjölræði á fjölmiðlamarkaði dróst verulega saman.
Nefndarmenn hans greindu frá því snemma í maímánuði að flokkurinn vildi breytingar á frumvarpinu. Allskyns fyrirvarar voru settir við það að samþykkja frumvarpið. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar voru þar á meðal breytingar á stöðu RÚV á auglýsingamarkaði og aukið svigrúm fyrir áfengis- og/eða veðmálaauglýsingar hjá íslenskum fjölmiðlum. Sú helsta var þó að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki að styrkjakerfið myndi verða við lýði lengur en út þetta ár. Gildistími laganna ætti að vera hálft ár.
Vilja hverfa frá beinum styrkjum
Nú liggur fyrir málamiðlun í formi breytingartillögu meirihlutans. Í henni felst að allsherjar- og menntamálanefnd hefur kastað þeim orðalagsbreytingum Lilju um að fjölmiðlar séu lýðræðislega mikilvægir. Þess í stað er tekið upp það orðalag sem var í lögunum sem runnu út um síðustu áramót. Í staðinn fær frumvarpið að gilda út árið 2024, eða til eins og hálfs árs.
Í meirihlutaálitinu, sem allir nefndarmenn stjórnarflokkanna skrifa undir án fyrirvara, segir meðal annars að hann telji mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að styðja við einkarekna fjölmiðla, en leitist við að gera það með óbeinum hætti, svo sem með því að fjölga tekjuöflunarmöguleikum þeirra eða með skattalegum ívilnunum. „Til frambúðar er mikilvægt að horfið verði frá beinum styrkveitingum ríkisins til fjölmiðla enda stangast það á við eitt af meginhlutverkum fjölmiðla sem er að veita stjórnvöldum aðhald.“

Þar er einnig fjallað um RÚV þrátt fyrir að frumvarpið snúi með engum hætti að því opinbera fyrirtæki. Í álitinu segir að meirihlutinn telji „að full ástæða sé til að endurskoða rekstur Ríkisútvarpsins hvað auglýsingadeildina varðar og telur æskilegt að hún verði lögð niður og auglýsendur geti pantað auglýsingar í gegnum vef Ríkisútvarpsins, þar sem fyrir liggur verðskrá sem ekki er veittur afsláttur af.“
Á móti beinum styrkjum
Einn stjórnarflokkur er með það á stefnuskrá sinni að styrkja einkarekna fjölmiðla ekki með beinum hætti, Sjálfstæðisflokkurinn.
Í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar flokksins sem samþykkt var skömmu fyrir síðustu kosningar kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn vilji frekar breyta skattaumhverfi þeirra og takmarka verulega umfang RÚV á markaði. „Umfang RÚV á auglýsingamarkaði og samkeppni við stór erlend tæknifyrirtæki, sem búa við mun hagstæðara skattaumhverfi, hafa haft verulega neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Takmarka á verulega umfang RÚV og bæta skattaumhverfi fjölmiðla.“
Allt aðrar stefnur
Í stjórnmálaályktun Vinstri grænna, sem er rétt rúmlega tveggja mánaða gömul, sagði meðal annars: „Ríkisútvarpið hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að tryggja upplýsta umræðu. Hins vegar er ástæða til að lýsa yfir áhyggjum af bágri rekstrarstöðu einkarekinna fjölmiðla og mikilvægt að sátt skapist um framtíðarstuðning hins opinbera við þá.“
Í stefnu sem samþykkt var á sama fundi sagði að verja skuli sjálfstæði fjölmiðla og ritstjórnarlegt frelsi. „Styðja skal fjölmiðla sem sinna óháðri fréttaöflun, greinandi blaðamennsku og halda úti lýðræðislegri samfélagsumræðu. [...] Ríkisútvarpið skal áfram vera öflugur fjölmiðill í almannaþágu, rekinn fyrir útvarpsgjald og sjálfsaflafé.“ Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stutt að frumvarpið um áframhaldandi beina styrki úr ríkissjóði til einkarekinna fjölmiðla verði samþykkt.
Framsóknarflokkurinn fjallar ekkert um fjölmiðla í sinni kosningastefnuskrá en í almennri stefnuskrá flokksins segir hins vegar að fjölmiðlar séu mikilvæg upplýsingaveita almennings í lýðræðislegu samfélagi. Stefna flokksins birtist fyrst og fremst í því að varaformaður flokksins, ráðherra fjölmiðlamála, hefur ítrekað talað fyrir því að styrkjakerfið verði fest í sessi, ásamt öðrum leiðum til að styrkja fjölræði á fjölmiðlamarkaði.
400 óskýrum milljónum bætt við
Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem lögð var fram í mars, kom fram að árlegur stuðningur við einkarekna fjölmiðla verði aukinn um 400 milljónir króna á næsta ári og verði þá um 777 milljónir króna. Viðbótarframlagið, sem ætlað er „tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði“ mun verða tryggt til fimm ára, eða út árið 2028. Þar kom einnig fram að til stæði að festa gildandi styrkjakerfi í sessi út sama tímabil. Sú afstaða hefur, nú tveimur mánuðum síðar, breyst.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar stendur til að miðla viðbótarfjárhæðinni til fjölmiðla í gegnum skattaívilnun og er aðgerðinni ætlað að hvetja fjölmiðla til að taka upp áskriftarfyrirkomulag. Útfærsla á leiðinni er þó ekki tilgreind í áætluninni en verið er, meðal annars, að horfa til þess að gefa skattaafslætti af því að vera áskrifandi að fjölmiðli á sama hátt og gert er með almannaheillafélög.
Heimildin er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir skilyrði fyrir rekstrarstyrk úr ríkissjóði.
Framsóknarflokkurinn, sjálfstæðisflokkurinn og VG ætla að rústa öllum innviðum íslensks samfélags, RÚV er bara byrjunin ? Viltu láta það gerast ?