Hugmyndin um lýðræði er um 2.500 ára gömul. Hún er kjarni kenninga í heimspeki frá fornöld til okkar daga, grunnur stjórnarskráa vestrænna ríkja og alþjóðlegra sáttmála um mannréttindi, frelsi og jöfnuð. Allir menn eru jú jafnir í hvívetna. Það er miðlæg forsenda lýðræðisins.
Á Íslandinu góða eru kjósendur ekki jafnir fyrir sjálfu valdinu til að hafa áhrif á eigin örlög. Minni hluti kjósenda á landsbyggðinni býr við aukið vægi atkvæða í kosningu til Alþingis. Valdið, sem þessu fylgir, er mikið og það er allt of oft notað og misnotað af mikilli hörku og óvægni.
Ísland uppfyllir ekki grundvallarforsendu lýðræðisins og er eðlilegt að spyrja hver sé staða landsins í samanburði vestrænna ríkja. Oft er talað um Ísland sem háþróað lýðræðisríki en líklega ruglast margir erlendir menn af hástemmdu tali innfæddra um hið forna Alþingi.
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu ÖSE og Feneyjanefnd Evrópuráðsins hafa oft bent íslenskum stjórnvöldum á að misvægi atkvæða samræmist ekki grunngildum þessara útvarða mannréttinda og lýðræðis í Evrópu. Ábendingarnar falla hins vegar af ráðandi öflum Íslands eins og vatn af gæs.
Í tilefni að leiðtogafundi Evrópuráðsins í Hörpu 16. og 17. maí sl. sendu Samtök um betri byggð BB Ms. Dunja Miatović mannréttindfulltrúa ráðsins í Strassborg bréf. Þar er lýst skelfilegum áhrifum af kerfislægri bjögun misvægis atkvæða á íslenskt samfélag og innviði. Samtökin báðu um aðstoð Katrínar forsætisráðherra og Þórdísar utanríkisráðherra við að koma bréfinu til skila.
Ríkisstjórn Íslands nýtur aukins atkvæðavægis. Hún bregður ítrekað fæti fyrir tilraunir kjósenda til að bæta íslensku stjórnarskrána og hnekkja misvæginu. Ráðandi öfl verja þá gömlu með kröfu um aukinn meirihluta á þingi en hafna á sama tíma niðurstöðu þjóðaratkvæðis um tillögu að nýrri stjórnarskrá, sem samþykkt var með ríflegum og auknum meirihluta atkvæða 2012. Það þurfi jú að ná víðtækri sátt!
Andi gamla bændasamfélagsins svífur enn yfir vötnum þó vistarbandi hafi lokið um 1900 og nútíma stjórnmál hafist með Heimastjórn 1904. Hannes Hafstein ráðherra lagði fram á Alþingi 1905 og aftur 1907 tillögu um að leiðrétta kosningalög og jafna jafna vægi atkvæða en hafði ekki erindi sem erfiði.
Í umræðum um tillögu Hannesar á Alþingi var varað við því að héldi misvægið áfram hlytist af því mikill skaði í íslensku samfélagi. Sú spá hefur sannarlega ræst. Frá þeim tíma, í meira en heila öld, hefur mjög margt farið úrskeiðis, sem að einhverju eða verulegu leiti má rekja til misvægisins.
Stjórnmál og stjórnsýsla einkennast enda einkum af því að í íslensku lagasafni eru á árinu 2023 um 800 virk lög sem öll hafa verið samþykkt á Alþingi við mikið misvægi atkvæða. Frá lýðveldistöku til 2000 var misvægið amk. 300% en frá aldamótum til þessa dags 100%. Það er að sjálfsögðu galið.
Sum lög eru hlutlaus með tilliti til atkvæðavægis en of mörg eru mörkuð af misvæginu og verulega þungbær. Reglulega, jafn vel árlega, berast Alþingi td. fjárlög og áætlanir með mikilli landsbyggðar slagsíðu. Og reglulega berast tillögur að norðan um að svipta Reykvíkinga skipulagsvaldinu. Nýtt innlegg er reglubundin samgönguáætlun Sigurðar Inga innviðaráðherra. Afar slæm fyrir fórnarlömb misvægis atkvæða.
Fræðimenn benda á að í þingkosningum uppskeri Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur að jafnaði nokkra þingmenn umfram kjörfylgi sitt fyrir tilstuðlan atkvæðamisvægis og eigi þar af leiðandi greiðri aðgang að stjórnarsetu, valdi og áhrifum. Þetta er auðvitað óréttlæti og fjarstæð lýðræðisbjögun.
Á 63 löggjafarþingum 1954 – 2009 átti höfuðborgarsvæðið HBS að meðaltali innan við 2 sæti af 9 í samgöngunefnd Alþingis og innan við þrjú sæti af 11 í fjárlaganefnd þingsins. Á 30 þingum af þessum 63 var enginn nefndarmaður af HBS í samgöngunefnd og á 9 þingum af 63 engin af HBS í fjárlaganefnd. Kjöraðstæður fyrir sjálftöku og óheft kjördæmapot.
Á þessu tímabili eins og svo oft, bæði fyrr og síðar, var illa farið með lausafjármuni íslenska ríkisins í stjórnlausu kjördæmapoti í þessum fastanefndum Alþingis. Úthlutun fjár til vegaframkvæmda var td. með þeim fjarstæðukennda hætti að lítið fékkst fyrir peningana enda var Þjóðvegakerfið lélegt og varla nothæft um sl. aldarmót.
Handhafar aukins vægis atkvæðahafa hafa frá lokum seinna stríðs misbeitt illa fengnu valdi sínu til að festa herflugvöll í Vatnsmýri með skelfilegum afleiðingum. Gerendurnir eru þó ómeðvitaðir um að ódæðið bitnar ekki síður á þeim sjálfum en á borgarbúum.
Stjórnlaus útþensla og fjórföld landþörf borgarbyggðar, tvöfaldur kostnaður og tímasóun, mikil röskun landsbyggðar, þrefaldur landflótti miðað við Norðurlönd, mikil bílaeign, aukinn mengum og útblástur CO2, lakari efnahagur, lýðheilsa og almenn lífsgæði. Allt borið saman við það, sem ella væri án herflugvallar.
Ráðandi öfl þriggja landsmálaflokka, sem nú eru við völd, móta þjóðfélagsumræðuna út frá meintum hagsmunum handhafa aukins vægis atkvæða. Flestir fjölmiðlar fylgja þessum meginstraumi en enginn jafn dyggilega og Ríkisútvarpið RUV, útvarp allra landsmanna.
Höfundur er arkitekt og situr í stjórn Samtaka um betri byggð.
Athugasemdir (2)