Ný byssuleyfi verða ekki gefin út tímabundið í Serbíu og eftirlit með skotvopnaeigendum verður hert eftir að 17 létu lífið í tveimur skotárásum í höfuðborginni Belgrad og nágrannaborginni Mladenovac í vikunni.
Öryggisvörður fórnaði lífi sínu fyrir börnin
Átta nemendur og öryggisvörður létu lífið í skotárás í Vladislav Ribnikar-grunnskólanum í Belgrad á miðvikudag. Sex nemendur og kennari særðust í árásinni. Byssumaðurinn er 14 ára nemandi sem mætti með byssu föður síns í skólann.
Öryggisvörðurinn sem lést í árásinni kom að öllum líkindum í veg fyrir fleiri dauðsföll með því að kasta sér fyrir byssumanninn þegar hann hleypti af skotum. „Þegar dóttir mín sá öryggisvörðinn verða fyrir skoti hljóp hún aftur inn í kennslustofuna. Hún var dauðhrædd,“ segir Astrid Merlini, móðir stúlku við skólann.
Skaut á fólk úr bíl á ferð
Önnur skotárás varð á fimmtudag þegar maður skaut á fólk með sjálfvirkri byssu úr bíl á ferð og stakk svo af. Árásin átti sér stað í grennd við bæinn Mladenovac, um sextíu kílómetra sunnan við Belgrad. Átta létust í árásinni og lögregla handtók byssumanninn í gærmorgun.
Skotvopnalöggjöf er mjög ströng í Serbíu og skotárásir líkt og þessar eru afar fátíðar. Hins vegar er fjöldi ólöglegra skotvopna í umferð sem rekja má til stríðsátaka á 10. áratug síðustu aldar.
Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Serbíu og hefur Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, heitið því að afvopna Serbíu. Útgáfu nýrra byssuleyfa hefur verið stöðvuð tímabundið og lögregla mun á næstunni mæta reglulega á heimili skráðra byssueigenda og kanna hvort vopn séu geymd í læstum skápum.
Athugasemdir