Hlutfall ungs fólks í foreldrahúsum hefur ekki verið lægra hér á landi síðan Hagstofan hóf að fylgjast með því. Ríflega helmingur, 55,5 prósent fólks á aldrinum 18 til 24 ára bjó í foreldrahúsum árið 2021. Hæst hefur hlutfallið farið í 62,2 prósent, árið 2016, en mælingar hófust árið 2004. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Hagstofan birti í dag um stöðuna árið 2021.
Ólík mynd birtist á þróun í hópi þeirra sem eru á aldrinum 25 til 29 ára, því þar hefur hlutfall fólks í foreldrahúsum aðeins einu sinni áður verið hærra. Samkvæmt Hagstofunni eru 22,5 prósent fólks á þessu aldursbili búsett í foreldrahúsum. Árið áður, 2020, var hlutfallið hæst eða 25,2 prósent.
Karlar eru líklegri en konur til að búa með foreldrum sínum, samkvæmt þessum tölum, og bjuggu 63,6 prósent karla í foreldrahúsum samanborið við 46,3 prósent kvenna í aldurshópnum 18 til 24 ára. Munurinn er ekki jafn afgerandi í eldri hópnum, þar sem 21,1 prósent kvenna bjuggu með foreldrum en 23,6 prósent karla.
Sé búseta fólks á landinu skoðuð kemur í ljós að ungt fólk, á aldrinum 18 til 29 ára, er líklegra til að búa í foreldrahúsum á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Drastískur munur er á stöðu ungra kvenna, sérstaklega. Utan höfuðborgarsvæðisins búa 24,9 prósent kvenna í foreldrahúsum samanborið við 45,4 prósent kvenna innan svæðisins.
Athugasemdir