Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Sautján árásarmenn sjást á myndbandsupptöku innan úr Bankastræti Club

Upp­tök­ur úr ör­ygg­is­mynda­vél­um inn­an úr Banka­stræti Club sýna árás sautján grímu­klæddra manna á þrjá sem voru þar stadd­ir. Lög­regla hef­ur hand­tek­ið tæp­lega þrjá­tíu manns vegna máls­ins.

Upptaka Myndbandi úr öryggismyndavél sem staðsett er fyrir utan kareoke-herbergi í kjallara Bankastrætis Club. Sautján grímuklæddir menn sjást æða inn í herbergið.

Hópurinn sem réðist til atlögu gegn þremur mönnum á skemmtistaðnum Bankastræti Club á fimmtudagskvöld gekk ákveðið til verks þegar hann leitaði þá uppi inni á staðnum. Myndbönd úr eftirlitsmyndavélum inni á staðnum sýna þetta. Árásin átti sér stað í karaoke herbergi á skemmtistaðnum sem er í kjallara hússins við Bankastræti. Stundin hefur upptökur úr öryggismyndavélum sem staðsettar eru bæði fyrir utan og inni í herberginu. Þessi myndbönd hafa gengið manna á millum undanfarið. 

Ekki er hægt að greina hverjir mennirnir eru á þessum upptökum þar sem allir sautján sem sjást fara niður í kjallara hússins við Bankastræti voru með grímur. Þá sést ekki hversu margir þeirra eru vopnaðir en árásin sjálf náðist á upptöku. Þar sést hvernig tveir þolendur árásarinnar eru króaðir af úti í horni áður en höggin eru látin dynja á þeim. Þriðji maðurinn sem var stunginn virðist hafa mætt árásarhópnum í dyragættinni á herberginu.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafa þeir sem ráðist var á séð upptökuna. 

Mun fleiri en mennirnir sautján sem sjást á upptökunum af sjálfri árásinni fóru inn á Bankastræti Club í tengslum við árásina, samkvæmt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem rannsakar málið. Í dag höfðu 28 verið handteknir vegna árásarinnar og en í gær voru þeir 27 og þá var fjögurra enn leitað, samkvæmt fréttum RÚV.

Myndbandið sýnir árásina inni í herberginu. Við vörum við myndbandinu. 

Myndböndin hafa gengið á milli manna í einkaskilaboðum í dag. Til viðbótar hafa líka gengið skilaboð þess efnis að hefna eigi árásarinnar um komandi helgi. Talað hefur verið um tugi manna í því samhengi. Lögregla hefur aukið viðbúnað vegna málsins í miðborginni en Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði þó við RÚV í dag að ekki væri ástæða til að vara fólk til að koma í miðborgina um helgina. 

Þriðja myndbandið hefur einnig verið í dreifingu á netinu í tengslum við málið. Það sýnir bensínsprengju kastað í glugga húss á ótilgreindum stað. Undanfarna daga hefur málsaðilum verið hótað og meðal annars ráðist að heimilum þeirra með þessum hætti. Deiling myndbandsins hér að neðan hefur farið fram í tengslum við þá umræðu en Stundin hefur ekki staðfest hvenær myndskeiðið var tekið. 

Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu